Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 648. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1291  —  648. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 146/2005 frá 2. desember 2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES- samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri, tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 96/92/EB, og 2003/55/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 98/30/EB, ásamt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB frá 11. nóvember 2003 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi.
    Í nefndinni var sérstaklega rætt um möguleika Íslands til að fá undanþágur frá tilteknum reglum framangreindra gerða vegna smæðar markaðarins og einangrunar. Ljóst er að megn óánægja er meðal neytenda á Íslandi eftir þær breytingar sem gerðar voru á íslenskri löggjöf árið 2003 í kjölfar upptöku nýrra gerða í EES-samninginn á þessu sviði. Miðað við fyrri reynslu hefur Alþingi gefist allt of skammur tími til að fara yfir málið. Þá skortir verulega á samráð við þingið um mótun nýrra EES-gerða. Minni hlutinn vekur athygli á þeirri staðreynd að þegar framkvæmdarvaldið er búið að ákveða að taka nýja EES-gerð upp í EES- samninginn fyrir sitt leyti á Alþingi í reynd mjög örðugt um vik.
    Ísland er mjög auðugt að orkulindum og þær á að nýta almenningi til hagsbóta. Minni hlutinn vekur athygli á að eftir upptöku EES-reglnanna um raforkumarkaðinn hafa orðið verulegar hækkanir á raforkuverði til neytenda. Minni hlutinn hefur ítrekað haldið því fram að Íslendingar ættu að fá undanþágu frá reglunum enda er Ísland einangrað svæði og möguleikar á raforkuviðskiptum yfir landamæri nánast útilokuð. Efni þessara reglna hefur því í raun enga skírskotun til hins íslenska raforkumarkaðar. Innleiðing reglnanna hefur ekki verið íslenskum orkunotendum til hagsbóta.
    Nefndin óskaði eftir greinargerð iðnaðarráðuneytis um innleiðingu raforkutilskipana í íslenskan rétt og um aðdraganda að upptöku gerðanna í EES-samninginn, innleiðingu þeirra í íslenskan rétt og möguleika Íslands á undanþágum. Fróðlegar upplýsingar koma þar fram um að möguleikar sem væntanlega voru til staðar á að fá undanþágu frá reglunum um sameiginlegan innri markað á EES-svæðinu hvað varðar viðskipti með raforku hafi ekki verið kannaðir og reyndir til þrautar.
    Minni hlutinn telur að gerð hafi verið mikil mistök í þessum efnum og getur ekki stutt þetta mál, nú frekar en fyrr.

Alþingi, 16. mars 2007.



Steingrímur J. Sigfússon.