Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.

Þskj. 2  —  2. mál.












Þjóðhagsáætlun

fyrir árið 2008.

(Lögð fram af forsætisráðherra 2. október 2007.)




























Forsætisráðuneytið.

Inngangur.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á ábyrga efnahagsstjórn enda er hún forsenda kraftmikils efnahagslífs og aukinnar velferðar. Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja stöðugleika með lágri verðbólgu, lágu vaxtastigi, jafnvægi í utanríkisviðskiptum til langs tíma litið, jöfnum og öflugum hagvexti og áframhaldandi traustri stöðu ríkissjóðs. Stefnt er að því að stórframkvæmdir, skattkerfisbreytingar og aðrar hagstjórnaraðgerðir verði tímasettar í ljósi þessara markmiða.
    Skipulagsbreytingar hagkerfisins undanfarin ár og aukin þátttaka í alþjóðlegu efnahagsstarfi hafa leitt af sér öflugt hagvaxtarskeið sem hefur einkennst af nýsköpun í atvinnustarfsemi og nýjungum á mörkuðum. Atvinnustarfsemin er orðin mun fjölbreyttari og öflugri en hún áður var. Sjávarútvegur er áfram undirstöðugrein í útflutningi en aukin starfsemi í stóriðju, ferðaþjónustu og hátæknigreinum hefur styrkt stoðir útflutnings. Geta efnahagslífsins til að standa undir bættum lífskjörum í alþjóðlegu efnahagsumhverfi hefur því aukist. Íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl erlendis svo að eftir hefur verið tekið og eignamyndun Íslendinga erlendis fer vaxandi. Ríkisstjórnin stefnir að því að íslenskum fyrirtækjum verði tryggt samkeppnishæft rekstrarumhverfi til að stuðla að áframhaldandi vexti þeirra og laða að starfsemi að utan.

Helstu niðurstöður þjóðhagsspár.
    Þótt aðhald í hagstjórn hafi aukist jafnt og þétt undanfarin ár hefur gangur efnahagsstarfseminnar verið meiri en búist var við þannig að verðbólga og viðskiptahalli hafa aukist tímabundið. Við lok núverandi stóriðjuframkvæmda er gert ráð fyrir viðsnúningi í eftirspurn og utanríkisviðskiptum. Spáð er hóflegum hagvexti á komandi árum ásamt meira jafnvægi í erlendum viðskiptum og lægri verðbólgu.
    Samkvæmt endurskoðuðum tölum frá Hagstofu Íslands var 4,2% hagvöxtur á árinu 2006. Í forsendum fjárlagafrumvarps er gert ráð fyrir að það hægi á efnahagsstarfsemi árið 2007 og að hagvöxtur ársins muni nema 0,7%. Verulega dregur úr umsvifum vegna stóriðjuframkvæmda en reiknað er með áframhaldandi vexti í einkaneyslu og öðrum fjárfestingum en stóriðju. Útflutningur áls stóreykst á meðan samdráttur verður í innflutningi og því dregur verulega úr viðskiptahalla sem er áætlaður 15,2% árið 2007. Reiknað er með að þessi viðsnúningur í utanríkisverslun haldi áfram þrátt fyrir samdrátt í útflutningi sjávarafurða og að viðskiptahallinn verði 8,8% á næsta ári. Þetta leiðir til þess að hagvöxtur eykst á ný og verður 1,2% á árinu 2008 þrátt fyrir samdrátt í þjóðarútgjöldum upp á 4,8%. Gert er ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um tæpt 1% og að kaupmáttaraukning tímakaups og ráðstöfunartekna verði heldur minni á árinu 2008 en árið á undan.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hagvöxtur.

    Á árinu 2009 er gert ráð fyrir að smávægilegur slaki myndist í hagkerfinu þrátt fyrir að þjóðarútgjöld taki að aukast lítillega eftir samdrátt tvö árin þar á undan og að hagvöxtur verði 2,1%. Þá er gert ráð fyrir að viðskiptahalli dragist áfram saman og verði 7,6% af landsframleiðslu.
    Verðbólga mæld með vísitölu neysluverðs var um 6,8% árið 2006. Verðbólguna má að mestu rekja til hækkunar íbúðaverðs og töluverðrar framleiðsluspennu. Verðbólga fór lækkandi á fyrri hluta árs 2007 en verðbólguhorfur til skamms tíma hafa versnað nokkuð í kjölfar gengislækkunar á seinni hluta ársins. Spáð er 4,5% verðbólgu á yfirstandandi ári og miðast þá við breytingu milli áranna 2006 og 2007. Á næsta ári er reiknað með 3,3% verðbólgu og um 2,8% verðbólgu árið 2009.

Verðbólga.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

















    Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna jókst umtalsvert á síðastliðnu ári eða um 8,5% að raungildi á mann. Á sama tíma jukust einkaneysluútgjöld heimilanna um 4,4% að raungildi. Mikill og samfelldur vöxtur einkaneyslunnar undanfarin ár skýrist af mikilli hækkun eignaverðs, háu atvinnustigi, miklum launahækkunum, sterku gengi krónunnar og síðast en ekki síst væntingum um áframhaldandi kaupmáttaraukningu á næstu árum. Á þessu og næsta ári er gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna haldi áfram að aukast. Miðað er við að kauphækkanir við gerð kjarasamninga árið 2008 verði hóflegar.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

















    Skráð atvinnuleysi minnkaði enn á síðasta ári og nam 1,6% af vinnuafli og fækkaði atvinnulausum um tæplega 700 manns frá árinu áður. Mikill innflutningur erlends vinnuafls hefur sett mark sitt á innlendan vinnumarkað en þrátt fyrir þetta aukna aðstreymi erlends vinnuafls á íslenskan vinnumarkað ríkir enn mikil spenna á vinnumarkaði. Reiknað er með að atvinnuleysi minnki enn á yfirstandandi ári og verði að meðaltali um 1,1% af vinnuafli á árinu. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist nokkuð á árunum 2008 og 2009.

Afkoma ríkissjóðs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    

    Aukin umsvif í efnahagslífinu og aðhaldssöm hagstjórn hefur skilað ríkissjóði myndarlegum afgangi undanfarin ár og hefur hann verið notaður til að lækka skuldir og minnka vaxtabyrði ríkissjóðs. Á þessu ári er áætlað að tekjuafkoman nemi 66 milljörðum kr., eða 5,4% af landsframleiðslu, samanborið við 9 milljarða kr. afgang samkvæmt fjárlögum. Árið 2008 er reiknað með að ríkissjóður skili áfram umtalsverðum afgangi, eða um 31 milljarði kr., 2,4% af landsframleiðslu. Vaxandi hagvexti er spáð árin 2009–2011 og að ríkissjóður verði rekinn með afgangi á næstu árum þrátt fyrir aukin útgjöld til opinberra framkvæmda. Þetta er mikil breyting frá fyrri spám sem fólu í sér töluverðan halla á ríkissjóði næstu ár. Helsta viðmið varðandi tekjuöflun ríkissjóðs er að tekjuafkoma ríkissjóðs sé í jafnvægi yfir hagsveifluna og stuðli að efnahagslegum stöðugleika á hverjum tíma. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram að stefnt verður að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks, og leitað leiða til að lækka frekar skatta á fyrirtæki. Skattkerfisbreytingar og aðrar hagstjórnaraðgerðir verða hins vegar tímasettar í ljósi framangreindra meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar í hagstjórn.

Hrein skuldastaða ríkissjóðs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.