Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 17. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 17  —  17. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á ýmsum lögum vegna viðurkenningar íslenska táknmálsins sem fyrsta máls heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra.

Flm.: Katrín Júlíusdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Árni Páll Árnason, Árni Johnsen,
Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Höskuldur Þórhallsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Valdís Óskarsdóttir.


I. KAFLI
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Breyting á lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005.
1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Forstjóri og forstöðumenn skulu sjá til þess að nægilegur fjöldi fangavarða og annars starfsliðs hafi kunnáttu í íslenska táknmálinu.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 14. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Fangi sem á við andlega eða líkamlega fötlun að stríða eða þarfnast af öðrum ástæðum sérstaks aðbúnaðar skal afplána í því fangelsi sem uppfyllir skilyrði um slíkan aðbúnað. Hið sama gildir um heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda fanga.

3. gr.

    Við 34. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Heyrnarlaus, heyrnarskertur eða daufblindur fangi á rétt á að fá táknmálstúlk sér til aðstoðar þegar hann fær heimsóknir.

4. gr.

    Við 36. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Fangelsi skal útvega heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum föngum sérstakan útbúnað til að annast samskipti samkvæmt þessari grein.

5. gr.

    Á eftir 40. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir fangar.

    Heyrnarlaus, heyrnarskertur eða daufblindur fangi á rétt á að fá aðstoð túlks þegar honum er gerð grein fyrir réttindum sínum og skyldum í afplánun og í samskiptum sínum við fangaverði og aðra starfsmenn fangelsisins. Hann á jafnframt rétt á að hafa samband við lögmann sinn með aðstoð túlks. Þá skal heyrnarlaus, heyrnarskertur eða daufblindur fangi njóta sömu réttinda og þjónustu og almennt gildir um þá sem tala íslensku, m.a. með tilliti til menntunar, fræðslu- og afþreyingarefnis, vinnu o.fl.

Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Þingmálið er íslenska eða íslenska táknmálið. Dómari skal kalla til táknmálstúlk þegar þess er þörf og greiðist kostnaður af störfum hans úr ríkissjóði.
     b.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Ef maður, sem á að gefa skýrslu fyrir dómi, er ekki fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli skal dómari kalla til táknmálstúlk til aðstoðar.
     c.      2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Um heit slíks manns og staðfestingu fer eftir ákvæðum 2. mgr.

Breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
              Þingmálið er íslenska eða íslenska táknmálið.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
             Ef maður, sem á að gefa skýrslu fyrir dómi, er ekki fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli skal dómari kalla til táknmálstúlk til aðstoðar og greiðist kostnaður af störfum hans úr ríkissjóði.

Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989.
8. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ef gerðarþoli, gerðarbeiðandi, fyrirsvarsmaður aðila eða málsvari notar íslenska táknmálið skal sýslumaður kalla til táknmálstúlk til aðstoðar.

Breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.
9. gr.

    Á eftir 1. mgr. 44. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Þjóðkirkjan skal veita sóknarmönnum sem nota íslenska táknmálið sömu þjónustu og þeim sem tala íslensku.

Breyting á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.
10. gr.

    Á eftir 1. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Stjórnvald skal kalla til táknmálstúlk til aðstoðar ef sá sem til þess leitar notar íslenska táknmálið og skal táknmálstúlkur jafnframt vera til staðar eftir því sem þörf krefur uns mál er til lykta leitt.

11. gr.

    Við 32. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ef einhver nefndarmanna notar íslenska táknmálið skal stjórnvald útvega nefndinni táknmálstúlk til aðstoðar.

II. KAFLI
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
Breyting á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.
12. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Sjúklingur sem notar íslenska táknmálið á rétt á þjónustu heilbrigðisstarfsmanns sem kann táknmál eða aðstoð táknmálstúlks.

III. KAFLI
Menntamálaráðuneyti.
Breyting á útvarpslögum, nr. 53/2000.
13. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Útvarpsstöðvar skulu virða jafna stöðu íslenskunnar og íslenska táknmálsins og gæta þess að mismuna ekki borgurum eftir því hvort málið þeir nota.

14. gr.

    Á eftir 1. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Efni sem sent er út með íslensku tali skal ávallt fylgja íslenskur texti eða túlkun á íslenskt táknmál.

Breyting á lögum um leikskóla, nr. 78/1994.
15. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Barn sem notar íslenska táknmálið skal njóta handleiðslu leikskólakennara sem hefur fullnægjandi kunnáttu í íslenska táknmálinu og menningarfræði heyrnarlausra.

Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 66/1995.
16. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Grunnskólinn skal veita nemendum sem nota íslensku og íslenska táknmálið sömu þjónustu og ber að tryggja að kennarar og annað starfslið hafi fullnægjandi kunnáttu í íslenska táknmálinu.

17. gr.

    A-liður 2. mgr. 30. gr. laganna orðast svo: íslenska, íslenska fyrir heyrnarlausa og íslenska táknmálið.

Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996.
18. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Framhaldsskólinn skal veita nemendum sem nota íslensku og íslenska táknmálið sömu þjónustu og ber að tryggja að kennarar og annað starfslið hafi fullnægjandi kunnáttu í íslenska táknmálinu.

19. gr.

    Á eftir 4. mgr. 21. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Í aðalnámskrá skal kveðið á um kennslu í íslensku fyrir heyrnarlausa og íslenska táknmálinu.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 130., 131. og 133. löggjafarþingi en varð ekki útrætt.
    Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi til laga um íslenska táknmálið og réttindi heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum til að styrkja réttarstöðu þeirra sem nota íslenska táknmálið, einkum hvað varðar rétt til að nota það í samskiptum sínum við ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra. Ljóst er að ef frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra verður að lögum þarf að breyta fjölmörgum lögum í kjölfarið og þyrfti hvert ráðuneyti fyrir sig að taka lög á sínu málefnasviði til gagngerrar endurskoðunar. Í þessu frumvarpi er tæpt á helstu atriðum sem þurfa lagfæringar við.