Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 39. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 39  —  39. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um mótvægisaðgerðir vegna tekjutaps hafnarsjóða í kjölfar niðurskurðar þorskkvóta.

Flm.: Bjarni Harðarson, Valgerður Sverrisdóttir, Magnús Stefánsson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að verja hluta þess fjár sem ætlað er til mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar þorskkvóta til fullrar greiðslu á tapi á löndunargjöldum hafnarsjóða sökum lækkandi tekna í kjölfar samdráttar í útgerð og vinnslu.

Greinargerð.


    Í tillögum þingflokks framsóknarmanna sem kynntar voru 28. september sl. var lagt til að ríkissjóður mætti með beinum fjárframlögum því tekjutapi hafnarsjóða og sveitarsjóða sem stafar af aflasamdrætti og verði til þeirra mála allt að 1 milljarði kr. Þannig verði allt að 200 millj. kr. varið til framlaga til hafnarsjóða til að mæta þar samdrætti í tekjum hafnanna og 800 millj. kr. varið í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þess að bæta sveitarfélögum útsvarstap vegna minnkandi þorskveiða.
    Enn ríkir mikil óvissa um hvar niðurskurður aflaheimilda kemur harðast niður. Mögulegt er að stærri útgerðarfyrirtæki fari þá leið að loka ákveðnum starfsstöðvum sínum en auki heldur umsvif á öðrum. Þá getur komið til þess að einstakar útgerðir hætti rekstri. Vandi einstakra byggðarlaga getur því verið mjög mismunandi og brýnt að aðstoð stjórnvalda taki mið af því. Skilvirkasta leiðin til þess er að stjórnvöld greiði beint tekjutap sem stafar af aflasamdrætti.