Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 49. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 49  —  49. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á réttindum og stöðu líffæragjafa.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Álfheiður Ingadóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Magnús Stefánsson, Bjarni Harðarson.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra að gera úttekt á stöðu og réttindum líffæragjafa og leita leiða til að koma til móts við launatap og útgjöld sem þeir verða fyrir við líffæragjöf.

Greinargerð.


    Líffæraígræðslur eru með mestu framfarasporum læknavísindanna á síðustu öld. Þær hafa reynst árangursríkar og eru stundaðar um allan heim enda hefur algengi sjúkdóma sem leiða til bilunar líffæra eins og hjarta, lifrar, lungna og nýrna farið ört vaxandi í vestrænum samfélögum. Biðtími eftir líffærum er hins vegar langur og árlega deyja í heiminum þúsundir sjúklinga á biðlista. Á sama tíma og eftirspurnin eftir líffærum til ígræðslu heldur áfram að aukast hefur fjöldi líffæragjafa víðast haldist svipaður. Því er afar brýnt að fjölga lifandi líffæragjöfum í þeim tilvikum þar sem því verður við komið.
    Líffæri til ígræðslu fást yfirleitt frá látnum einstaklingum en lifandi líffæragjafar eru einnig margir, einkum þegar kemur að því að gefa nýru. Hérlendis er hlutfall lifandi nýrnagjafa með því hæsta sem þekkist, eða um 70%. Réttindi líffæragjafa á Íslandi eru hins vegar mjög óljós. Undirbúningur aðgerðar er líffæragjöfum að kostnaðarlausu og einnig aðgerðin sjálf en líffæragjafar virðast að miklu eða öllu leyti háðir velvilja vinnuveitenda sinna þegar þeir þurfa vegna slíkra aðgerða að vera frá vinnu lengri eða skemmri tíma. Sjúkrasjóðir stéttarfélaga hafa sumir reynt að styðja líffæragjafa fjárhagslega samkvæmt nánari reglum þar um. Sjálfstæðir atvinnurekendur tapa að öllu leyti sínum tekjum þann tíma sem þeim er ekki unnt að vinna í framhaldi af líffæragjöf. Í einhverjum tilvikum eiga líffæragjafar rétt á sjúkradagpeningum sem eru þó oftast nær einungis brot af launum viðkomandi. Lifandi líffæragjafar verða því sumir hverjir fyrir fjárhagslegu tjóni vegna slíkra aðgerða.
    Víða erlendis hefur réttur lifandi nýrnagjafa verið skilgreindur sérstaklega innan sjúkratryggingakerfa og njóta þeir í einhverjum tilvikum fullrar launatryggingar af hálfu hins opinbera þann tíma sem þeir eru frá vinnu.
    Líffæragjafir eru samfélagslega mun ódýrari en langtímameðferðir við ýmsum alvarlegum sjúkdómum auk þess sem lífsgæði líffæraþeganna sjálfra stóraukast við líffæragjöf. Framlag líffæragjafa er þýðingarmikið fyrir samfélagið allt. Mikilvægt er því að skýra réttarstöðu þeirra og skoða leiðir til að koma til móts við launatap og kostnað sem sannanlega fellur til við slíkar aðgerðir.