Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 148. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 158  —  148. mál.




Frumvarp til fjáraukalaga



fyrir árið 2007.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson,
Grétar Mar Jónsson, Jón Magnússon.


1. gr.

    Við 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2007 bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
7.15        Að semja við hlutafélagið Spöl hf. um að ríkið yfirtaki veggöngin undir Hvalfjörð ásamt tilheyrandi mannvirkjum og skuldum félagsins vegna ganganna og fella þá strax niður veggjaldið um göngin.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Flutningsmenn leggja til að ríkið yfirtaki nú þegar Hvalfjarðargöngin og skuldir sem þeim tilheyra. Samkvæmt gildandi samningi milli ríkisins og Spalar hf. mun ríkið eignast göngin ásamt tilheyrandi mannvirkjum án endurgjalds við lok samningstíma árið 2018. Eftirstöðvar skuldanna eru um 3,9 milljarðar kr. sem verða greiddar upp á næstu 11 árum. Gert er ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisins, semji við Spöl hf. um yfirtöku eigna og skulda félagsins strax á þessu ári og samhliða verði veggjaldið fellt niður. Ríkissjóður annist síðan greiðslu af áhvílandi skuldum.
    Talið var á sínum tíma þegar þessi tilhögun var ákveðin árið 1990 að þróunin yrði á þann veg að víðar yrðu kostnaðarsöm umferðarmannvirki fjármögnuð með sambærilegum hætti. Reyndin hefur orðið sú að Hvalfjarðargöng eru eini kaflinn á þjóðvegum landsins þar sem innheimt er sérstakt veggjald til viðbótar sköttum og gjöldum sem umferðin ber. Þykja ekki forsendur til þess að viðhalda gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum í því ljósi.
    Gjaldtakan hefur áhrif á búsetuþróun og búsetuskilyrði, einkum á Vesturlandi eins og kemur glögglega fram í álitsgerð sem Vífill Karlsson hagfræðingur vann fyrir 1. flutningsmann í desember 2004. Miðað við tilteknar forsendur telur Vífill að heildarávinningur Vestlendinga af niðurfellingu gjaldsins verða á bilinu 4,5–5,0 milljarðar kr. að núvirði eða að jafnaði 275–306 millj. kr. árlega.
    Síðan álitsgerðin var samin hefur Spölur endursamið um skuldir sínar og hugsanlega hefur það einhver áhrif á fyrrgreint mat, en það hefur ekki verið athugað sérstaklega. Þó vilja flutningsmenn setja fram það mat sitt að í heild leiði af skuldbreytingunni óveruleg áhrif og því megi styðjast við álitsgerð Vífils Karlssonar og fá með henni gott mat á þeim ávinningi sem leiðir af niðurfellingu gjaldsins.
    Í álitsgerðinni kemur fram að ávinningurinn fyrir Vestlendinga birtist einkum í hærra virði fasteigna, hærri launum, lækkandi vöruverði, aukinni þjónustu og auknu atvinnuúrvali og atvinnuöryggi. Áhrifanna mundi einnig gæta í fjarlægari landshlutum, svo sem á Vestfjörðum, Norðurlandi og jafnvel Austfjörðum. Þá er líka um að ræða ávinning í hina áttina, það er að segja íbúar höfuðborgarsvæðisins munu einnig njóta góðs af afnámi gjaldtökunnar og telur Vífill Karlsson að sá ávinningur geti verið meiri í krónum talið ef eitthvað er.
    Athyglisvert er að árlegur ávinningur Vestlendinga af því að fella niður veggjaldið er langt í það jafnmikill og ávinningur af Hvalfjarðargöngunum sjálfum. Í októbermánuði 2004 kom út vönduð skýrsla um áhrif Hvalfjarðarganga á búsetuskilyrði og búsetuþróun á Vesturlandi, sem Vífill Karlsson vann fyrir samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Niðurstaða hans er að árlegur ávinningur þeirra sé um 500 millj. kr. Niðurfelling veggjaldsins mun auka þennan ávinning um 60%.
    Þetta má orða á annan veg, sem sé þann að ákvörðun um að hafa veggjald hafi valdið því að aðeins 60% af mögulegum ávinningi Vestlendinga af Hvalfjarðargöngunum hafi skilað sér til íbúanna og þeir því farið á mis við framfarir, sem því nemur, sem hefðu annars orðið eftir að göngin voru tekin í notkun. Sama er líklegt að eigi við um íbúa höfuðborgarsvæðisins, ávinningur þeirra af göngunum er verulegur og veggjaldið hefur dregið úr honum.
    Flutningsmenn leggja áherslu á gildi Hvalfjarðarganganna og nauðsyn þess að ráðist var í gerð þeirra, þrátt fyrir veggjald. En gjaldið hefur hindrað fullan ávinning af göngunum til þessa og flutningsmönnum þykir tímabært að bæta úr með frumvarpi þessu.



Fylgiskjal I.


Álitsgerð um veggjald Hvalfjarðarganganna.


(Desember 2004.)



    Undirritaður hefur nýlega unnið umfangsmikla rannsókn á áhrifum Hvalfjarðarganga á búsetuþróun og búsetuskilyrði á Vesturlandi. Í kjölfar rannsóknarinnar barst fyrirspurn frá Kristni H. Gunnarssyni, þingmanni í Norðvesturkjördæmi um það hversu mikið Vestlendingar mundu hagnast á niðurfellingu veggjalds um Hvalfjarðargöng sem tæki gildi á miðju ári 2005.
    Athugun leiðir í ljós að miðað við tilteknar forsendur mun heildarávinningur Vestlendinga af niðurfellingu veggjalds verða á bilinu 4,5–5,0 ma.kr. að núvirði. Það gerir að jafnaði 275–306 m.kr. að jafnaði árlega.
    Ávinningurinn felst m.a. í:
     1.      Hærra virði fasteigna. Í rannsóknum undirritaðs kom í ljós að fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu hefur áhrif á raunvirði fasteigna. Með vegstyttingum eykst raunvirði fasteigna í dreifbýli og veggjald að samgöngumannvirkjum dregur úr þessum áhrifum og er reyndin í tilfelli Hvalfjarðarganganna.
     2.      Hærri launum. Jafnvel þó rannsókn undirritaðs hafi bent til þess að meðallaun hafi ekki hækkað við opnun ganganna þá er það vegna þess að Akranessvæðið, sem varð mest fyrir núverandi vinnumarkaðslegum áhrifum Hvalfjarðarganganna hefur haft meðaltekjur sem er á svipuðum nótum og á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar mun fjarlæging veggjaldsins stækka vinnumarkað höfuðborgarsvæðisins upp í Borgarnes og jafnvel lengra vestur Mýrar og norður Borgarfjörð. Þar hafa meðaltekjur verið mun lægri heldur en á höfuðborgarsvæðinu eða sem nemur aðeins 75–80% af meðallaunum höfuðborgarsvæðisins.
     3.      Auknu atvinnuúrvali og atvinnuöryggi. Við stækkun vinnumarkaðarins munu fleiri Vestlendingar upplifa aukið atvinnuúrval og öryggi á vinnumarkaði.
     4.      Lækkandi vöruverði. Með fjarlægingu gjaldsins lækkar flutningskostnaður og það mun renna stoðum undir rekstur lágvöruverðsverslana á fleiri stöðum utan höfuðborgarsvæðisins.
     5.      Aukinni þjónustu. Vegna vaxandi frístundabyggðar og hugsanlega aukinnar andborgarmyndunar, auk lægri flutnings- og ferðakostnaðar, má búast má við aukinni þjónustu sem birtist m.a. í:
                  a.      Meira matvöruúrvali.
                  b.      Rekstur sérvöruverslana verður arðbærari sem leiðir til fjölgunar þeirra og/eða stækkun þar með auknu vöruúrvali.
                  c.      Arðbært getur orðið að reka sérhæfða þjónusta á fleiri stöðum.
                  d.      Aukið aðgengi Vestlendinga að opinberri þjónustu sem finnst á höfuðborgarsvæðinu.
                  e.      Aukin umhverfis- og lífsgæði í formi auðveldara aðgengis að menningar- og skemmtanalífi.
    Jafnvel þótt þessari spurningu hafi verið svarað fyrir afmarkaðan landshluta, Vesturland, þá er rökrétt að álykta að áhrif ganganna, sem þegar er nokkur á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og jafnvel að Austfjörðum, muni einnig aukast við þetta. Þetta staðfesta gögn sem liggja fyrir í rannsókn undirritaðs um áhrif Hvalfjarðarganganna á Vesturlandi. Þess utan þá er ávinningur höfuðborgarbúa allnokkur og ef eitthvað, sá mesti í krónum og aurum talið fyrir einstakan landshluta. Ávinningur höfuðborgarbúa felst einkum í aðgangi að vinnu- og vörumarkaði auk frístundabyggðar, svo það helsta sé nefnt.
    Tekið skal fram að heildartalan er frekar varlega áætluð.

Vífill Karlsson, hagfræðingur.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Fylgiskjal III.


Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi:

Áhrif Hvalfjarðarganga á búsetuskilyrði og búsetuþróun á Vesturlandi.
Úr skýrslunni Samgöngubætur og búseta eftir Vífil Karlsson hagfræðing.

(Október 2004.)



    Rannsóknin fjallar um áhrif Hvalfjarðarganga á búsetuskilyrði, búsetuþróun og stöðu atvinnulífsins á Vesturlandi en sem kunnugt er þá styttu þau þjóðveginn á milli höfuðborgarsvæðisins og Akraness um 60 km en 42 km á aðra staði. Sérstaða rannsóknarinnar er að hún er þverfagleg félags- og hagfræðirannsókn auk þess sem hún fjallar um áhrif samgöngubóta á nærumhverfi sitt og er í henni að finna allnokkurt nýnæmi. Þar sem ekki er svo langt um liðið síðan göngin voru opnuð er lögð áhersla á skammtímaáhrif ganganna og einblínt er á breytingar frá 1994 til 2004. Vesturlandi er skipt upp í fjögur svæði, Akranessvæði, Borgarfjarðarsvæði, Snæfellsnes og Dali. Til samanburðar voru einnig kannaðar breytingar á svæðum sem ekki hafa notið hliðstæðra samgöngubóta. Viðmiðunarsvæðin eru Árborg og Ölfushreppur fyrir Akranessvæði, Rangárþing eystra og ytra fyrir Borgarfjarðarsvæði, Grindavík, Sandgerði og Gerðahreppur fyrir Snæfellsnes og Mýrdalshreppur fyrir Dali.
    Meginniðurstöður skýrslunnar byggjast á könnun sem RHA vann fyrir SSV þróun og ráðgjöf haustið 2003. Spurningalistar voru sendir til 1.484 einstaklinga með búsetu/lögheimili á Vesturlandi. Könnuninni var fylgt eftir með símtölum og bárust svör frá 830 eða 55,9% þátttakenda, sem skiptist þannig að 382 bjuggu á Akranesi, 201 í Borgarfirði, 194 á Snæfellsnesi og 53 í Dölum. Skýrslan byggist einnig á umferðarkönnun Vegagerðarinnar og tölfræðilegum gögnum sem tiltæk eru um Vesturland og samanburðarsvæðin sem nýtt voru bæði í kostnaðar- og nytjagreiningu auk annarra undirgreininga. Bent skal á að niðurstaða kostnaðar- og nytjagreiningarinnar er háð þeim forsendum sem hún byggist á.
    Kannaðar voru breytingar m.a. á mannfjölda, flutningum, aldursskiptingu, atvinnutekjum, atvinnuleysi og eignamarkaði. Skoðaðir voru þættir eins og lækkun ferðakostnaðar, fækkun slysa, áhrif á vinnumarkaði, vöru- og þjónustumarkaði, eignamarkaði, þjónustu hins opinbera, umhverfis og afkoma atvinnuveganna.
    Áhrif Hvalfjarðarganganna má draga saman með því að segja að þau hafi komið Vesturlandi í sömu stöðu og Suðurland var fyrir opnun ganganna. Jafnvel þótt áhrif ganganna á Vesturland hafi verið mikil þá eru sterkar vísbendingar fyrir því að áhrif þeirra á höfuðborgarsvæðið geti verið meiri. Ef litið er til einstakra þátta þá eru helstu niðurstöður eftirfarandi:
    Heildarávinningur ganganna er í kringum 503 m.kr. fyrir Vestlendinga alla að jafnaði árlega, þar sem 394 m.kr. falla íbúum á Akranessvæðinu í skaut, um 50 m.kr. til íbúa Borgarfjarðarsvæðis og Snæfellsness hvors um sig og 7 m.kr. til Dalamanna.
    Mikil áhrif voru á ferðakostnað Vestlendinga. Hann lækkar um 10–50% allt eftir eðli umferðar og búsetu vegfarenda. Aukin fjölbreytni og öryggi á vinnumarkaði. Jafnvel þótt áhrif ganganna á meðallaun og atvinnuleysi séu ekki marktæk þá eru fjölbreytni starfa og öryggi á vinnumarkaði vissulega jákvæð vinnumarkaðsleg áhrif ganganna.
    Lækkun vöruverðs og aukið vöruúrval. Matvöruverð hefur t.a.m. lækkað um 3%. Þess utan hefur úrval matvöru og sérhæfðrar þjónustu aukist. Þróun á sérvöruúrvali hefur hins vegar verið neikvæð á Akranessvæðinu en jákvæð og frekar jákvæð annars staðar á Vesturlandi.
    Á fasteignamarkaði fjölgar eignum og verð hækkar. Verð á íbúðarhúsnæði hefur hækkað eða á eftir að hækka um 13%–18,6% og iðnaðarhúsnæði um 10,5%–15%. Sumarhúsum fjölgar um 1%–4% árlega vegna Hvalfjarðarganganna. Eftirspurn bújarða hefur aukist.
    Bætt aðgengi að opinberri þjónustu. Aðgengi Vestlendinga að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og háskólamenntun hefur batnað mjög mikið. Aðgengi að framhaldsskólum og aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunar hefur batnað mikið.
    Aðgengi Vestlendinga að menningar- og skemmtanalífi hefur tekið mjög jákvæðum breytingum.
    Neikvæð umhverfisáhrif í formi hvers kyns mengunar virðast ekki vera almenn en ferðum hefur fjölgað mjög mikið sérstaklega til og frá höfuðborgarsvæðinu eða um 30%.
    Í rannsókninni kom skýrt fram að væntingar Vestlendinga til framtíðar Vesturlands hafa stóraukist. Það er einn mikilvægasti árangur Hvalfjarðarganganna þar sem jákvæðar væntingar eru frumforsenda fjárfestinga og framkvæmda í hverju hagkerfi.
    Samskipti Vestlendinga við íbúa á höfuðborgarsvæði hafa stóraukist sem sjá má á tölum yfir umferðaraukningu en hún varð a.m.k. 30% vegna Hvalfjarðarganganna.
    Opnun Hvalfjarðarganganna hefur leitt og á eftir að leiða til fjölgunar fyrirtækja á Vesturlandi. Á Suðvesturlandi fer mest fyrir fjölgun iðnaðarfyrirtækja en á Norðvesturlandi fyrirtækjum í verslun og þjónustu. Efling þekkingariðnaðar er áberandi á Borgarfjarðarsvæðinu á árunum eftir opnun ganganna og er að öllum líkindum vegna samspils á eflingu háskólastarfs og tilkomu Hvalfjarðarganga að þakka.
    Fullyrða má að Hvalfjarðargöng eigi sinn þátt í því að íbúum hefur fjölgað á Vesturlandi að einhverju ráði í fyrsta skipti í 20 ár jafnvel þótt aðrir þættir hafi byggst upp á sama tíma, eins og stóriðja á Grundartanga og háskólar í Borgarfirði svo dæmi séu tekin. Þetta sést á því að íbúaþróun eflist líka á Snæfellsnesi og í Dölum. Ennþá er fjölgun mest í elstu aldurshópunum. Kynjahalli fer minnkandi.
    Vannýtt tækifæri felast einkum í lækkun veggjalds, endurskoðun almenningssamgangna og kynningar á kostum Vesturlands til dvalar í skemmri eða lengri tíma, búsetu og atvinnustarfsemi. Yfirleitt gildir að áhrifanna gætir mest meðal Vestlendinga sem búa næst göngunum en síðan dregur úr þeim eftir því sem fjær dregur. Þetta og margt fleira kemur í ljós þegar fyrrgreind áhrif eru tekin saman (tafla 1).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.