Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 154. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 165  —  154. mál.




Fyrirspurn



til sjávarútvegsráðherra um tilraunaveiðar Örfiriseyjar RE 4 í Ísafjarðardjúpi.

Frá Guðjóni A. Kristjánssyni.



     1.      Hverjir óskuðu eftir því að Örfirisey RE 4 fengi að stunda botnvörpuveiðar í Ísafjarðardjúpi og á hvaða forsendum?
     2.      Hverjir samþykktu að 1.000 tonna togari fengi að stunda botnvörpuveiðar í Ísafjarðardjúpi og á hvaða forsendum og hve lengi?
     3.      Hvers vegna var ekki haft samband við hagsmunaaðila, t.d. smábátafélagið Eldingu, og leitað umsagnar um þessa tilraun á veiðisvæði smábáta í Ísafjarðardjúpi?
     4.      Eru þessar tilraunir eitthvað í líkingu við rannsóknirnar sem Gunnbjörn ÍS gerði fyrir utan 12 mílur sl. vor og ef svo er, hvers vegna þurfti að endurtaka sömu rannsóknir inni í Ísafjarðardjúpi?
     5.      Hvað heitir botnvarpan og af hvaða stærð er hún?
     6.      Hvað er rokkhopper-lengjan löng og þung undir trollinu?
     7.      Hvað eru langir grandarar? Eru sumir þeirra tvöfaldir, eða eru þeir einfaldir? Er keðja í gröndurunum?
     8.      Hvaða hlerar voru notaðir og hvað eru þeir þungir?
     9.      Hvaða möskvastærð var í poka og í trollinu?
     10.      Hvaða skilyrði var í leyfinu varðandi veiðarfæri?
     11.      Hver var aflinn og hvernig var aflasamsetningin í hverju togi og alls? Hvernig var aflasamsetning í aðskildum trollpokum vörpunnar? Var aflinn tekinn utan kvótakerfisins? Hver lagði til aflamarkið ef aflinn var innan kvótakerfisins?
     12.      Voru notaðar neðansjávarmyndavélar? Sé svo, hvað voru notaðar margar vélar og eru neðansjávarmyndir af veiðunum til sýnis?
     13.      Hvar var togað?


Skriflegt svar óskast.