Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 275. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 309  —  275. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun norrænna lýðháskóla.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson,


Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Jón Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um fjárhagslegan stuðning við vinnuhóp á vegum Vestnorræna ráðsins sem í samvinnu við forsætisnefnd og skrifstofu Vestnorræna ráðsins útfæri tillögu að stofnun norrænna lýðháskóla á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 8/2007 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. ágúst 2007 í Nuuk á Grænlandi. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um fjárhagslegan stuðning við vinnuhóp á vegum Vestnorræna ráðsins sem í samvinnu við forsætisnefnd og skrifstofu Vestnorræna ráðsins útfæri tillögu að stofnun norrænna lýðháskóla á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.

Rökstuðningur.
    Vestnorræna ráðið fagnar tíu ára afmæli sínu í ár. Það gefur tilefni til þess að ráðast í verkefni sem vitnar um markmið ráðsins: að efla samvinnu milli Vestur-Norðurlandanna og styrkja stöðu þeirra innan norræns samstarfs.
    Vestnorræna ráðið hefur ályktað um fjölda mála sem varða menntun og aukin samskipti milli ungmenna á Vestur-Norðurlöndum og á Norðurlöndunum í heild og aukið samstarf milli mennta- og rannsóknastofnana á Vestur-Norðurlöndum og annars staðar á Norðurlöndunum.
    Á ársfundi Vestnorræna ráðsins árið 2006 var til dæmis samþykkt ályktun þar sem skorað var á stjórnvöld í öllum þremur löndunum að auka kennslu í sögu, menningu og tungumálum Vestur-Norðurlanda.
    Það að skapa ramma um miðlun þekkingar, kennslu og beinna samskipta milli vestnorrænu landanna og annarra Norðurlanda er án efa árangursríkasta leiðin til þess að efla Vestur-Norðurlöndin.
    Hópur áhugamanna í Færeyjum, ásamt tengiliðum á Íslandi og Grænlandi sem styðja hugmyndina, hefur unnið tillögur sem lúta að stofnun lýðháskóla á Vestur-Norðurlöndum.
    Tillögurnar kveða m.a. á um eftirfarandi:
     *      Stofnun norrænna lýðháskóla sem einkum miða að þörfum Færeyja, Grænlands og Íslands. Hugmyndin er að stofna 6 og/eða 12 mánaða námsbrautir í heimavistarskólum á Vestur-Norðurlöndum. Markhópurinn er lögráða einstaklingar frá Vestur-Norðurlöndum og öðrum Norðurlöndum og grannsvæðum.
     *      Markmiðið er að efla tengsl og samvinnu milli vestnorrænu landanna og annarra Norðurlanda, sem og að auka áhuga nágrannalanda á tungumálum, sögu, menningu, umhverfi og náttúruauðlindum í vestnorrænu löndunum. Höfuðmarkmið með stofnun lýðháskóla á Vestur-Norðurlöndum yrði að efla tengsl, þekkingu og vitneskju sem er liður í því að veita norðlægum svæðum aukið vægi í alþjóðlegu og svæðisbundnu samstarfi.
     *      Kennsluáfangar tækju mið af þessum áherslum, þ.e. tungumáli, menningu, sögu, lýðfræði, samfélags- og hagfræði, umhverfi, auðlindum og auðlindanýtingu, Vestur-Norðurlöndum og Evrópu.
     *      Lýðháskólarnir ættu einnig að hafa yfir að ráða aðstöðu fyrir rannsóknarnema og einstaklinga sem vinna að sérstökum rannsóknarverkefnum sem lúta að Vestur-Norðurlöndum og staðsetningarlandi viðkomandi skóla.
     *      Gert er ráð fyrir því að lýðháskólarnir séu reknir á Vestur-Norðurlöndum með framlagi frá hverju landi fyrir sig auk annars norræns stuðnings en undir sameiginlegri stjórn og á grundvelli sameiginlegrar námskrár, kennslumats og slíkra þátta.
    Tillögur hópsins eru aðgengilegar á dönsku á vef Vestnorræna ráðsins.
    Til að hugmyndin geti orðið að veruleika er nauðsynlegt að Vestnorræna ráðið taki hana upp á sína arma og fylgi henni eftir. Eftirfarandi er því lagt til:
          *      Að forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins útnefni fimm manna vinnuhóp frá Vestur-Norðurlöndum og öðrum Norðurlöndum sem vinni að því að útfæra tillögu um stofnun, skipulag og fjármögnun norrænna lýðháskóla á Vestur-Norðurlöndum.
          *      Að vinnuhópurinn geri forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins grein fyrir niðurstöðum sínum og skili skýrslu til ársfundar Vestnorræna ráðsins árið 2008.
          *      Að skrifstofa Vestnorræna ráðsins haldi utan um skipulag og fjárhagslegan stuðning við verkefni vinnuhópsins.
          *      Að sótt verði um fjárhagslegan stuðning til verksins til norrænu ráðherranefndarinnar.“