Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 297. máls.

Þskj. 368  —  297. mál.



Skýrsla

samgönguráðherra um framkvæmd samgönguáætlunar 2006
(siglingamálaáætlun).

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




    Með lögum nr. 71, 8. maí 2002, er mælt fyrir um samræmda áætlanagerð við framkvæmd og rekstur í samgöngumálum.
    Annars vegar er gert ráð fyrir áætlun til 12 ára sem taki til fjáröflunar og útgjalda til flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. hafnamála og sjóvarna, og rekstrar stofnana, ásamt með því að skilgreina grunnkerfið og marka stefnu fyrir allar greinar samgangna. Áætlunina skal endurskoða á fjögurra ára fresti. Árið 2006 var slík áætlun í gildi fyrir árin 2003–2014.
    Hins vegar kveða lögin á um að 12 ára áætlunin sé nánar sundurliðuð í fjögurra ára tímabil með áætlun fyrir hvert ár þar sem fram komi ábyrgð og fjárheimildir stofnana samgöngumála sundurliðaðar eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi, eftir því sem við á, með sama hætti og fjárlögin. Þessa áætlun skal endurskoða á tveggja ára fresti. Árið 2006 var í gildi fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008. Í lögunum er gert ráð fyrir að árlega sé lögð fram á Alþingi skýrsla um framkvæmd þessarar áætlunar næstliðið ár. Því er greinargerð þessi tekin saman.

Stefnumörkun stjórnvalda.
    Í samgönguáætlun áranna 2003–2014 eru, auk framkvæmdaáætlunar, sett fram og sérstaklega sundurliðuð eftirfarandi meginmarkmið:
          Um greiðari samgöngur (flytjanleika samgöngukerfisins).
          Um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna.
          Um umhverfislega sjálfbærar samgöngur.
          Um öryggi í samgöngum.
    Í gildandi fjögurra ára áætlun sem nær til áranna 2005–2008 er mælt fyrir um að unnið skuli að tilteknum rannsóknar-, úttektar- og stefnumótunarverkefnum er falla undir framangreind meginmarkmið, ásamt greinargerð um framkvæmdir þessara ára.

Markmið og framtíðarsýn Siglingastofnunar.
    Á árinu 2005 var lokið við mótun framtíðarsýnar til næstu fimm ára og var hún og stuðningsskjöl hennar staðfest af yfirstjórn þann 18. apríl að lokinni kynningu í samgönguráðuneyti sem hornsteinar starfseminnar á komandi árum.
    Stefnan er þessi:
Leiðarljós.
    Í örugga höfn.

Hlutverk.
    Siglingastofnun Íslands er framsækin þjónustustofnun sem skapar hagkvæmar aðstæður til siglinga og fiskveiða og vinnur að öryggi á sjó og strandsvæðum.

Gildi.
    Samvinna, þjónusta, frumkvæði og heilindi.

Framtíðarsýn.
    Siglingastofnun Íslands mun:
          Vinna að öryggi og aukinni velferð sjófarenda.
          Vinna að hagkvæmni í siglingum, sjávarútvegi og samgöngum.
          Reka öflugustu upplýsinga- og leiðsöguþjónustu á N-Atlantshafi.
          Starfa sem viðurkennd þekkingar- og rannsóknarmiðstöð á sviði siglinga- og hafnamála.
          Veita framúrskarandi þjónustu og ráðgjöf á sérsviðum stofnunarinnar.
          Vera virkur þátttakandi í mótun heildarstefnu stjórnvalda um samgöngur, skip, hafnir, strandlengju og umhverfismál sjávar.
          Vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi.

Meginmarkmið.
          Að veita viðskiptavinum fyrsta flokks þjónustu.
          Hafa á að skipa ánægðu og vel menntuðu starfsliði.
          Að byggja reksturinn á góðri nýtingu fjárheimilda, öflugri áætlanagerð og eftirfylgni.
          Að innra starf stofnunarinnar sé skilvirkt.
          Stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri hafna, leiðsögukerfa og annarrar öryggisþjónustu fyrir skip.
          Stuðla að því að lög og reglur um siglingamál tryggi sem best öryggi sjófarenda og séu jafnan í samræmi við samfélagsþarfir.
          Að sinna eftirlitshlutverki sínu með prýði.
          Að vinna að rannsóknum og gagnaöflun á sérsviðum stofnunarinnar.
          Tryggja að alþjóðlegar reglur taki mið af íslenskum hagsmunum.
    Til stuðnings framtíðarsýninni og til nánari leiðbeiningar í dagsins önn voru auk þess samþykkt eftirgreind stefnuskjöl:
          Starfsmannastefna.
          Jafnréttisáætlun.
          Siðareglur.
          Rekstrar- og fjármálastefna.
          Innkaupastefna.
          Upplýsingastefna.
          Gæðastefna.
          Öryggisstefna.
    
Fjármál.
    Í eftirfarandi töflu er að finna samanburð á tölum úr samgönguáætlun 2005–2008, tölum úr fjárlögum og fjáraukalögum fyrir árið 2006 og tölum úr reikningum Siglingastofnunar Íslands fyrir árið 2006. Fjárhæðir eru í millj. kr.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Rekstur og þjónusta.
Inngangur.
    Siglingamálahluti samgönguáætlunar nær til allra verkefna er löggjafinn og samgönguráðuneytið hafa falið Siglingastofnun að annast og kemur í stað þriggja þingsályktana. Hér er átt við ályktanir um framkvæmdir í höfnum, sjóvarnir og öryggi sjófarenda sem stofnuninni var falin framkvæmd á. Þá er þar fjallað sérgreint um aðra starfsemi og rekstrarþætti sem áður komu lítt útskýrðir fram í almennum ákvæðum fjárlaga. Gildandi samgönguáætlun nær til áranna 2005–2008, sjá nr. 91/2005 í A-deild Stjórnartíðinda.

Yfirstjórn.
Skipulag.
    Um stjórn, starfshætti og hlutverk Siglingastofnunar Íslands er fjallað í lögum nr. 6/1996. Hlutverk stofnunarinnar er fyrst og fremst að vinna að hagsbótum sjófarenda og að skapa hagkvæmar og öruggar aðstæður til siglinga og fiskveiða við landið. Um skipan og verkefni hafna- og siglingaráðs er fjallað í 4. og 5. gr. laganna annars vegar og 6. og 7. gr. hins vegar.

Hafnaráð.
    Hafnaráð er ráðgefandi aðili fyrir samgönguráðherra og siglingamálastjóra í hafna- og sjóvarnamálum.
    Hafnaráð fjallar um breytingar á lögum og reglum sem varða hafnamál, framkvæmdaáætlanir fyrir einstök ár og til lengri tíma, svo og fjármál hafna, þar á meðal gjaldskrárbreytingar.
    Í hafnaráði sátu árið 2006:
     Nafn     Tilnefning
    Sigríður Finsen, formaður     samgönguráðherra
    Brynjar Pálsson     samgönguráðherra
    Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir     samgönguráðherra
    Már Sveinbjörnsson     Hafnasamband sveitarfélaga
    Ólafur M. Kristinsson     Hafnasamband sveitarfélaga
    Friðrik J. Arngrímsson     Samtök atvinnulífsins

Siglingaráð.
    Siglingaráð er ráðgefandi aðili fyrir samgönguráðherra og siglingamálastjóra í siglinga- og vitamálum. Siglingaráð fjallar um breytingar á lögum og reglugerðum sem varða siglinga- og vitamál. Árið 2006 sátu eftirtaldir fulltrúar í siglingaráði:
     Nafn      Tilnefning
    Daði Jóhannesson, formaður     samgönguráðherra
    Guðmundur Hallvarðsson     samgönguráðherra
    Ásbjörn Óttarsson     samgönguráðherra
    Guðjón Ármann Einarsson     Farmanna- og fiskimannasamband Íslands
             Ingólfur Sverrisson     Málmur, samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði
    Guðfinnur G. Johnsen     Landssamband íslenskra útvegsmanna
    Örn Pálsson     Landssamband smábátaeigenda
    Ólafur J. Briem     Samband íslenskra kaupskipaútgerða
    Sævar Gunnarsson     Sjómannasamband Íslands
    Hilmar Snorrason     Slysavarnafélagið Landsbjörg
    Helgi Laxdal Magnússon     Vélstjórafélag Íslands

Innra skipulag og starfshættir.
    Í greinargerð um framkvæmd siglingamálahluta samgönguáætlunar fyrir árið 2004 var í allnokkru máli gerð grein fyrir umfangsmikilli stefnumótunarvinnu sem hófst árið 2003. Stefnan var síðan staðfest á fundi yfirstjórnar 18. apríl 2005 að lokinni ítarlegri kynningu í samgönguráðuneyti og á starfsmannafundum. Þar eru staðfest þau gildi sem stofnunin og starfsmenn vilja standa fyrir og jafnframt mótuð framtíðarsýn og meginmarkmið. Jafnframt hafa stofnuninni og einstökum sviðum hennar verið sett skýr deilimarkmið sem lýst var ítarlega í greinargerð um framkvæmd siglingamálahluta samgönguáætlunar fyrir árið 2005.
    Með þeim hætti var lagður vandaður grunnur að endurbótum á innra skipulagi og starfsháttum stofnunarinnar á næstu árum.
    Starfsmannafjöldi stofnunarinnar í árslok 2006 er 68 auk þess sem allnokkur fjöldi lítur til með vitum í hlutastarfi og eru störfin alls 77 í ársverkum talið.

Árangursstjórnunarsamningur.
    Árangursstjórnunarsamningur Siglingastofnunar Íslands og samgönguráðuneytisins frá árinu 2000 var endurskoðaður í ljósi fyrrgreindrar stefnumótunarvinnu og undirrituðu siglingamálastjóri og samgönguráðherra nýjan samning þann 9. desember 2005 sem gildir til ársloka 2009 og kemur í stað fyrri samnings um sama efni.
    Í gildandi árangursstjórnunarsamningi setur samgönguráðuneytið stofnuninni meginmarkmið: Aukið öryggi og hagkvæmni í siglingum og eftirfarandi sérstaklega tekið fram:
1. Að öryggi sjómanna verði eins og best gerist hjá öðrum þjóðum.
          Að slys til sjós séu með því minnsta sem gerist.
          Að alltaf sé nýtt nýjasta tækni til að koma upplýsingum til sjófarenda um veður, sjólag og annað sem snertir öryggi skipa í siglingum.
          Að uppitími einstakra hluta upplýsingakerfis um veður og sjólag, vita og leiðsögukerfi sé a.m.k. 95%.
          Að í 95% tilvika séu engin frávik frá nýliðafræðslu og björgunaræfingum um borð í skipum.
          Að framkvæmt verði hafnarríkiseftirlit um borð í a.m.k. 25% af þeim skipum sem koma til íslenskra hafna á ári.
          Að framkvæmdar verði skyndiskoðanir á a.m.k. 5% af haffærum skipum á ári.
2. Að mengun og losun gróðurhúsalofttegunda fylgi því sem gerist með öðrum þjóðum.
          Að í 95% tilvika séu engin frávik frá skilum á úrgangsolíu og sorpi frá skipum.
3. Að öryggi í höfnum verði eins og best gerist með öðrum þjóðum.
          Að slys í höfnum séu með því minnsta sem gerist.
4. Að veita góða þjónustu.
          Að 75% viðskiptavina séu ánægðir með þjónustu Siglingastofnunar.
          Að 80% viðskiptavina telji þjónustu Siglingastofnunar áreiðanlega.
    Árið 2006 var gerð könnun á viðhorfi og þekkingu almennings til Siglingastofnunar. Úrtak var 1.300 manns og fjöldi svara var 61,5%. Rúmlega 80% svarenda höfðu heyrt stofnunarinnar getið og var ímynd stofnunarinnar í þessari könnun marktækt betri en í könnun frá 2003. Einnig var gerð þjónustukönnun meðal viðskiptavina stofnunarinnar. Úrtak var tekið úr viðskiptamannaskrá auk úrtaks sjómanna. Í niðurstöðum sem kynntar voru í janúar 2007 kom fram að 69% viðskiptavina og sjómanna voru ánægð með þjónustu stofnunarinnar, 84% töldu þjónustuna áreiðanlega, 73% töldu þekkingu starfsfólks mikla og 80% þótti viðmót starfsmanna gott.
    Á fundi hinn 27. júlí 2006 var farið yfir framkvæmd samningsins, markmið og leiðir, sem og tengingu við endurskoðun samgönguáætlunar. Niðurstaðan var sú að samþykkt var stefnumótun, markmiðasetning og stuðningsstefna, allt með vísan til ákvæða samningsins um framlagningu fjögurra ára langtímaáætlunar. Sérgreind áætlun vegna ársins 2007 og skýrsla um framgang á árinu 2006 kæmi síðan fram á þeim tímapunktum sem tilgreindir eru í samningnum.

Undirbúningur laga og reglugerða á sviði siglingamála.
    Innan Siglingastofnunar var á árinu 2006 unnið að gerð og breytingum ýmissa reglugerða á sviði siglingamála, t.d. reglugerð um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa. Hér á eftir er listi yfir reglugerðir og gjaldskrár sem settar voru um siglingamál á árinu 2006.
Reglugerðir:
Reglugerð um breytingu á reglugerð, nr. 680/2004, um vinnu- og hvíldartíma skipverja á farþegaskipum og flutningaskipum, nr. 1019/2006.
Reglugerð um breytingu á reglugerð, nr. 551/2005, um sérkröfur um stöðugleika ekjufarþegaskipa, nr. 879/2006.
Reglugerð um breytingu á reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd nr. 122/2004, nr. 781/2006.
Reglur um breytingu á reglum um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum nr. 592/1994 með síðari breytingum, nr. 779/2006.
Reglur um breytingu á reglum um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum nr. 592/1994 með síðari breytingum, nr. 778/2006.
Reglugerð um innleiðingu ESB reglugerðar um tilfærslu skipa milli skipaskráa innan ESB, nr. 698/2006.
Reglugerð um breytingu á reglugerð um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 416/2003, nr. 693/2006.
Reglugerð um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa, nr. 672/2006.
Reglugerð um eftirlit og skráningu á afli aðalvéla íslenskra skipa, nr. 520/2006.
Reglugerð um breytingu á reglugerð um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna nr. 118/1996, sbr. breyting með reglugerð nr. 207/1998 og nr. 416/2004, nr. 518/2006.
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 310/2003 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um hönnun olíuflutningaskipa, nr. 388/2006.
Hafnarreglugerðir:
Reglugerð um breytingu á hafnarreglugerð nr. 287/2005 fyrir Hafnasamlag Norðurlands bs., nr. 1183/2006.
Reglugerð um breytingu á hafnarreglugerð nr. 290/2005 fyrir Þorlákshöfn, nr. 1182/2006.
Hafnarreglugerð fyrir Vogahöfn í Vatnsleysustrandarhreppi, nr. 308/2006.
Hafnarreglugerð fyrir Hvammstangahöfn, nr. 283/2006.
Hafnarreglugerð fyrir Seyðisfjarðarhöfn, nr. 275/2006.
Hafnarreglugerð fyrir Skagastrandarhöfn, nr. 34/2006.
Gjaldskrár:
Gjaldskrá fyrir Stykkishólmshöfn, nr. 772/2006.
Gjaldskrá fyrir Hafnarsjóð Súðavíkurhrepps, nr. 737/2006.
Auglýsing um breytingu á gjaldskrá Hafnarsjóðs Skagafjarðar, nr. 510/2006.
Auglýsing um hækkun á gjaldskrá Hafnarsjóðs Fjarðabyggðar, nr. 369/2006.
Gjaldskrá Kópavogshafnar, nr. 190/2006.
Gjaldskrá fyrir Sauðárkrókshöfn, Hofsóshöfn og Haganesvíkurhöfn, nr. 143/2006.
Gjaldskrá Siglingastofnunar Íslands, nr. 124/2006.
Gjaldskrá Breiðdalsvíkurhafnar, nr. 54/2006.

Alþjóðasamstarf.
    Siglingastofnun tekur þátt í víðtæku alþjóðasamstarfi, m.a. á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit (Paris MOU), Siglingaöryggisstofnunar Evrópu (EMSA), Evrópska efnahagssvæðisins (EES), Evrópusambandsins (ESB), sérfræðinganefndar ESB og EES um öryggismál á sjó (COSS), Norðurlandasamstarfs, alþjóðasamtaka í hafnamálum (PIANC), alþjóðasamtaka vitastofnana (IALA) og víðar. Á heimasíðu Siglingastofnunar má nálgast upplýsingar um þetta alþjóðasamstarf og greinargerðir frá fundum sem starfsmenn stofnunarinnar hafa sótt.
    Um annað alþjóðasamstarf vísast til kaflanna um hafnarríkiseftirlit og siglingavernd.

Upplýsingamiðlun.
    Siglingastofnun Íslands leggur áherslu á markvissa miðlun upplýsinga og greiðan aðgang að gagnasöfnum stofnunarinnar. Því hefur stofnunin sett sér upplýsingastefnu og verklagsreglur þar sem lagðar eru meginlínur um söfnun og miðlun hvers kyns efnis er varðar rekstur hennar.
    Vefur stofnunarinnar, www.sigling.is, og fréttabréf hennar, Til sjávar, mynda kjarnann í upplýsingastarfseminni. Fréttabréfið kom út fjórum sinnum árið 2006. Því er dreift án endurgjalds til allra skráðra skipa og báta, útgerða, hafna, sveitarfélaga, alþingismanna, og margra fyrirtækja, stofnana og einstaklinga. Í blaðinu eru greinar og fréttir um hið helsta sem gerst hefur á vettvangi stofnunarinnar.
    Heimasíða Siglingastofnunar er mikill frétta- og upplýsingabanki auk þess að vera samskiptavettvangur stofnunarinnar og viðskiptavina hennar. Þar má meðal annars finna laga- og reglugerðaskrá, skrár um útgefið efni, gjaldskrár, rafræn eyðublöð og upplýsingar um veður og sjólag.
    Upplýsingakerfið um veður og sjólag byggist á afar víðfeðmu gagnasafni sem þróast hefur og eflst undanfarin ár. Söfnun sértækra upplýsinga með ölduduflum og tengingu þeirra við veðurfræðileg gögn frá Veðurstofu Íslands ásamt áralöngum athugunum á sambandi vinda og sjávarfalla hafa gert stofnuninni kleift að byggja upp þetta safn sem síðan nýtist til að veita fiskimönnum og öðrum sæfarendum við Íslandsstrendur rauntímaupplýsingar um veðurfar og sjólag. Sú vitneskja sem veðurkerfið veitir kemur einnig að góðum notum við hönnun hafnarmannvirkja, ákvörðun siglingaleiða og skyldra atriða.
    Siglingastofnun heldur rafræna skrá yfir sérhvert fljótandi far sem er yfir 6 metrar á lengd eða stærra, mælt stafna á milli. Skráin hefur að geyma margvíslegar upplýsingar um flota landsmanna og nýtist í margs konar tilgangi, svo sem við eftirlit með öryggi skipa, sem eigendaskrá, við úthlutun fiskveiðiheimilda o.fl. Skrána er að finna á vefsíðu stofnunarinnar.
    Af öðrum gagnasöfnum má nefna afar ítarlegt og margþætt safn teikninga, mælingakorta og annarra grunngagna sem til hafa orðið vegna starfsemi stofnunarinnar við hönnun, ráðgjöf og eftirlit með hafnarmannvirkjum. Sama á við um skip og báta. Hér er um merkileg söfn að ræða, af fleiri en einni ástæðu, sem sótt er í af hafnarstjórnum, skipseigendum, sagnfræðingum o.fl.
    Loks skal getið bókasafns stofnunarinnar, en þar er skipulega safnað saman ritum sem gagnast stofnuninni. Safnið er skráð og tengt Gegni, landskerfi bókasafna, og er þannig aðgengilegt öllum þeim er leita vilja tiltekinna fræðirita, auk þess sem starfsmenn geta með nútímalegum hætti kannað hvað er að finna í öðrum sérsöfnum og fengið þaðan lánaðar bækur. Einnig stendur starfsmönnum til boða að notfæra sér þjónustu hvar.is á vefnum þar sem gert er aðgengilegt mikið safn heimilda- og gagnasafna frá stærstu tímarita- og gagnasafnsútgefendum í heiminum. Ísland eitt landa gefur íbúum sínum kost á þessari þjónustu án endurgjalds fyrir notendur.

Vitar og leiðsögukerfi.
    Siglingastofnun annast rekstur landsvitakerfisins og hefur með höndum tæknilega aðstoð við uppbyggingu hafnarvita og innsiglingarmerkja. Einnig rekur stofnunin leiðsögu-, upplýsinga- og eftirlitskerfi fyrir siglingar (DGPS-kerfið), upplýsingakerfi um veður og sjólag og sjálfvirkt auðkennikerfi skipa, AIS.
    Sjálfvirku auðkennikerfi skipa er komið á samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/59 sem lögin um vaktstöð siglinga byggjast á. AIS-kerfið er hluti af rafrænu tilkynningakerfi um siglingar skipa sem aðildarríki Efnahagsbandalagsins auk Noregs og Íslands eru aðilar að. Kerfi þetta nefnist SafeSeaNet. Samkvæmt sömu tilskipun skal velja eða útnefna ákveðnar hafnir hér á landi sem neyðarhafnir. Neyðarhafnir eru skilgreindar sem hafnir eða skjól þangað sem hægt er að vísa skipum sem eiga í erfiðleikum eða eru í hættu af ýmsum orsökum. Vinna við neyðarhafnir fer fram hjá Siglingastofnun í samvinnu við Landhelgisgæslu og fleiri aðila.
    Á árinu voru settar upp fjórar AIS-stöðvar til viðbótar þeim sem þegar voru komnar. Með því var þeim áfanga náð að siglingaleiðir umhverfis landið voru innan sviðs AIS-kerfisins. Eftir er að þétta kerfið inn til landsins þannig að hafnir sem eru við firði, sérstaklega austan- og vestanlands, séu innan kerfisins. Langdrægi stöðvanna er allt að 70 sjómílum (130 km).
    Til rekstrar vita- og leiðsögukerfa, þ.m.t. rekstur AIS-kerfisins, fær Siglingastofnun til ráðstöfunar vitagjald sem er sérstakur skattur sem samkvæmt vitalögum er lagður á íslensk og erlend skip sem taka íslenska höfn. Upphæð gjaldsins tekur mið af brúttótonnatölu skipsins. Af þessu fé er einnig kostaður rekstur upplýsingakerfisins um veður og sjólag.
    Viðhald og eftirlit Siglingastofnunar með vitum landsins skiptist í stórum dráttum í eftirlit með rafbúnaði og viðhald á vitabyggingum.
    Á árinu 2006 var viðhald og eftirlit með vitum og leiðsögubúnaði með hefðbundnum hætti. Starfsmenn Siglingastofnunar sinntu almennu viðhaldi á 17 vitabyggingum og fóru í um 90 vita til eftirlits, viðhalds og endurnýjunar ljós- og rafbúnaðar. Einnig var unnið við viðhald á 14 ljósduflum í eigu Siglingastofnunar og hafna.
    Rekstur upplýsingakerfis Siglingastofnunar um veður og sjólag gekk vel á árinu. Kerfið gefur sjófarendum kost á upplýsingum um veður og sjólag umhverfis landið á klukkustundarfresti. Upplýsingarnar er hægt að nálgast á vef stofnunarinnar og í símsvara en einnig má nálgast upplýsingar frá ölduduflum á textavarpi.

Skipaeftirlit.
    Siglingastofnun ber stjórnvaldslega ábyrgð á framkvæmd skipaeftirlits en tæknilegt eftirlit er í höndum faggiltra skoðunarstofa skipa. Í árslok 2006 voru þrjár skoðunarstofur skipa starfandi.
    Siglingastofnun sinnir eftirliti með óflokkuðum skipum sem skoðunarstofum er óheimilt að skoða, framkvæmir upphafsskoðun á nýsmíði, breytingum og innflutningi á skipum, sinnir markaðseftirliti með skemmtibátum og skipsbúnaði, sér um útgáfu skipsskírteina og útgáfu og uppfærslu á skoðunarhandbókum sem skoðunarstofur nota við vinnu sína. Jafnframt sér Siglingastofnun um yfirferð og samþykkt á teikningum og öðrum gögnum vegna nýsmíði og breytinga skipa, þ.m.t. yfirferð stöðugleikagagna og skipamælinga.
    Siglingastofnun hefur eftirlit með starfsemi faggiltra skoðunarstofa, viðurkenndra flokkunarfélaga og annarra starfsleyfishafa, framkvæmir skyndiskoðanir í skipum sem skoðunarstofur og flokkunarfélög hafa skoðað og útbýr og viðheldur nauðsynlegum skoðunarhandbókum vegna þess.

Skoðunaraðilar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjöldi skipa og báta.
    Siglingastofnun Íslands heldur skrá yfir skip og báta samkvæmt lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985. Árlega gefur stofnunin út rafræna skrá yfir þilfarsskip og opna báta miðað við 1. janúar. Samtals voru 2.309 skip á skipaskrá 1. janúar 2007 og brúttótonnatala þeirra var 226.194 brúttótonn. Skipum á íslenskri skipaskrá fækkaði fjórða árið í röð og að þessu sinni um samtals tvö skip. Heildarbrúttótonnatala skipastólsins lækkaði um 760 brúttótonn frá árinu áður.
    Á aðalskipaskrá 1. janúar 2007 voru 1.128 þilfarsskip og brúttótonnatala þeirra var 219.180. Opnir bátar voru samtals 1.181 og brúttótonnatala þeirra var 7.014.
    Á þurrleiguskrá er eitt skip, Keilir, samtals 4.342 brúttótonn.
    Tölurnar í töflunni hér á eftir eru miðaðar við 1. janúar ár hvert.

Tafla um fjölda skráðra skipa og heildarstærð skipastólsins 2001–2007.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Áhafnamál og skírteini.
    Af öðrum verkefnum á sviði skipamála má nefna útgáfu alþjóðlegra atvinnuskírteina skipstjórnarmanna (STCW), þjónustu við mönnunarnefnd fiskiskipa og undanþágunefnd sjómanna og undirbúning og kynningu á laga- og reglugerðasetningu. Um alþjóðasamstarf á sviði siglingamála vísast í kaflann um alþjóðasamstarf.
    Á árinu 2006 var gefið út 161 alþjóðlegt atvinnuskírteini (STCW), eitt skírteini fyrir atvinnukafara, fjögur hafnsögumannsskírteini og þrjú skírteini fyrir leiðsögumenn. Siglingastofnun gaf einnig út 60 starfsleyfi til farþegaflutninga, sex starfsleyfi fyrir bátaleigur og þrjú leyfi til að stunda flúðasiglingar.

Hafnarríkiseftirlit.
    Í samræmi við ákvæði Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit og ákvæði í ýmsum öðrum alþjóðasamþykktum, sem Ísland á aðild að, var að venju haft eftirlit með erlendum flutninga- og farþegaskipum sem hingað komu.
    Markmiðið með eftirlitinu er að draga úr siglingum svokallaðra undirmálsskipa og hefur þeim fækkað til muna eftir að farið var að banna skipum að koma til hafnar í aðildarríkjum Parísarsamkomulagsins hafi þau ítrekað verið stöðvuð við fyrri skoðanir.
    Farin var skoðunarherferð á vegum hafnarríkiseftirlitsins þar sem áhersla var lögð á að kanna olíumengunarvarnir kaupskipa í samræmi við viðauka I við MARPOL 73/78 sáttmálann en hann tók gildi 2. október 1983.
    Tilkynnt var um 389 einstakar komur erlendra skipa til Íslands, sem er um 10% aukning frá árinu 2005 og 26% aukning frá árinu 2004. Af þessum skipum voru 102 skoðuð eða um 26%. Skipin 102 sem voru skoðuð voru frá 32 þjóðlöndum. Flest voru skipin frá Antígva eða 14 og næstflest frá Hollandi eða 9.
    Farbann var lagt á þrjú skip, 61 athugasemd var gerð og teknar út 186 athugasemdir sem gerðar voru af öðrum aðildarríkjum.

Áætlun um öryggi sjófarenda.
    Markmið áætlunar um öryggi sjófarenda er m.a. að treysta öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra sem og farþega á íslenskum skipum og skipum sem sigla í íslenskri efnahagslögsögu, fækka slysum á sjó og draga úr tjóni vegna þeirra. Helstu verkefni áætlunar um öryggi sjófarenda eru menntun og þjálfun sjómanna, fræðsluefni og miðlun upplýsinga, öryggisstjórnun um borð í skipum og rannsóknar- og þróunarverkefni.
    Siglingastofnun annast framkvæmd áætlunarinnar í samstarfi við verkefnisstjórn en í henni eiga sæti fulltrúar stéttarfélaga sjómanna, samtaka útgerða, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Landhelgisgæslu og samgönguráðuneytis.
    Hluti vinnunnar á árinu 2006 var úrvinnsla gagna um slys á sjómönnum og samanburður milli ára. Lagt var mat á mögulegan árangur áætlunarinnar og þá sérstaklega litið til dauðaslysa á sjómönnum, skipa sem hafa farist og tilkynninga um slys á sjómönnum til Tryggingastofnunar ríkisins. Í þessum samanburði má glögglega sjá að áætlunin hefur haft víðtæk áhrif til fækkunar slysa. Einnig var hafin viðhorfskönnun um öryggi sjómanna á norðurslóðum (Northern Periphery Programme) en það er alþjóðlegt verkefni. Viðhorfskönnunin inniheldur 83 spurningar en verkefnisstjórn ákvað að bæta við 17 séríslenskum spurningum þannig að alls voru spurningarnar 100 talsins. Viðhorfskönnunin var send um 2.400 starfandi sjómönnum á öllum stærðum skipa. Alls svöruðu 605 sjómenn og telst það allgóð svörun.
    Í samvinnu við verkefnisstjórn gaf Siglingastofnun út bókina Stjórn og sigling skipa – siglingareglur sem Guðjón Ármann Eyjólfsson, fyrrverandi skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík, ritaði. Um er að ræða þriðju útgáfu bókarinnar en hún hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið. Bókin er ekki einungis hugsuð sem kennslubók fyrir verðandi sjómenn heldur einnig sem nauðsynleg handbók fyrir skipstjórnarmenn um borð í skipum. Einnig var gengið frá útgáfu fræðslubæklings sem ber heitið Þjónustu-, þjálfunar- og vinnuöryggishandbækur í fiskiskipum. Fræðslupési þessi er fyrst og fremst hugsaður til að uppfræða sjómenn um hvernig nota skuli á réttan hátt þjónustu- og þjálfunarhandbækur sem Landssamband íslenskra útvegsmanna lét setja um borð í fiskiskip á sínum vegum. Í tengslum við sjómannadaginn í byrjun júní stóð verkefnisstjórnin fyrir fræðsluátaki um verkefni áætlunarinnar með því að auglýsa áætlunina í sjómannadagsblöðum á hinum ýmsu stöðum á landinu. Í lok september var á vegum verkefnisstjórnar haldin ráðstefna sem bar heitið Öryggisvika sjómanna. Ráðstefnan var haldin í hátíðarsal Fjöltækniskólans (áður Stýrimannaskólans í Reykjavík). Á ráðstefnunni voru haldin mörg erindi sem snúa að öryggi sjómanna en meginþema ráðstefnunnar var um tæknilega samvinnu útgerða, áhafna og aðila í landi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hafnir, líkantilraunir og grunnkort.
    Á vegum Siglingastofnunar var unnið að rannsóknum á sviði hafna, líkantilrauna og grunnkorta. Með rannsóknum er átt við gerð grunnkorta af höfnum, líkantilraunir og rannsóknir sem tengjast beint ákveðnum framkvæmdum í höfnum. Á árinu 2006 hófust líkantilraunir á ferjuhöfn við Bakkafjöru.

Rannsóknir og þróun.
    Heildarkostnaður rannsókna- og þróunarsviðs Siglingastofnunar Íslands var 59,2 millj. kr. árið 2006 og þar af um 15,5 millj. kr. í áætlun um öryggi sjófarenda. Með rannsóknum er átt við öflun ýmissa grunnupplýsinga, mælingar og rannsóknir sem stuðla að öryggi sjófarenda og réttum ákvörðunum við val á lausnum við mannvirkjagerð.
    Unnið var áfram að öldufarsrannsóknum við suðurströndina, einkum í tengslum við siglingaleiðina frá Vestmannaeyjum upp að Bakkafjöru. Einnig var unnið að öldufarsreikningum fyrir líkantilraunir af Rifshöfn og fyrir hugsanlega stóriðjuhöfn á Húsavík. Heildarkostnaður hafna- og strandrannsókna árið 2006 var 13,1 millj. kr.
    Haldið var áfram uppsetningu sjávarfallalíkans og þróað áfram reklíkan fyrir olíu og rekhluta. Hafin var vinna við að mæla sjávarföll á landgrunninu í samvinnu við Hafrannsóknastofnun, verkfræðistofuna VST og háskóla til að kvarða betur sjávarfallalíkan Siglingastofnunar. Í tengslum við auknar siglingar olíuskipa innan efnahagslögsögu Íslands var unnið að úrvinnslu á veður- og öldugögnum fyrir Norður-Atlantshaf á Drekasvæðinu vegna fyrirhugaðrar olíuleitar. Jafnframt var unnið að tilraunum með hreyfistöðugleika skipa og smíði og þróun andveltugeyma skipa. Heildarkostnaður umhverfisrannsókna árið 2006 var 14,6 millj. kr.
    Áhersla var lögð á lögbundna afgreiðslu tillagna rannsóknarnefndar sjóslysa í öryggisátt þar sem Siglingastofnun vinnur úr þeim tillögum. Lokið var við rannsóknir á vatnsþéttleika skipa sem tekur mið af hólfun þeirra og ástandsgreiningu nokkurra flokka valinna fiskiskipa. Niðurstöður voru gefnar út í ritinu Vatnsþéttleiki skipa. Haldið var áfram með rannsóknir á hávaða í skipum, loftgæðum um borð í skipum, ofhleðslu smábáta og loftflæði til aðalvéla. Heildarkostnaður skiparannsókna árið 2006 var 16,0 millj. kr.

Rannsóknir á Bakkafjöru.
    Áfangaskýrsla um ferjuhöfn við Bakkafjöru var gefin út í febrúar 2006 þar sem fram kom að ferjuhöfn við Bakkafjöru væri raunhæfur kostur í samgöngumálum Vestmannaeyinga. Í áfangaskýrslunni voru tillögur um áframhaldandi rannsóknir sem talið var nauðsynlegt að ljúka á árunum 2006 og 2007. Haldið var áfram dýptarmælingum undan Bakkafjöru í mars 2006. Mældar voru línur með 100 m bili í júlí og ágúst 2006 og í janúar 2007. Starfsmenn Vestmannaeyjahafnar hafa annast þessar dýptarmælingar. Einnig voru tekin botnsýni undan Bakkafjöru og í óseyrinni undan Markarfljóti og í fjörunni í maí 2006. Líkantilraunir af ferjuhöfninni stóðu yfir frá nóvember 2005 fram í mars 2006. Gerðar voru GPS-mælingar af Bakkafjöru til að geta fylgst með breytingum á landi sem sandfok veldur. Einnig var unnið að úrvinnslu öldugagna og öldufarsreikninga. Orkustofnun mat dagsmeðalrennsli Markarfljóts fyrir tímabilið 1961 til 2003. Upphaflega var gert ráð fyrir öldustefnumælingum við Bakkafjörudufl en þegar til kom reyndist ekki þörf á slíkum mælingum. Starfsmaður Siglingastofnunar starfaði á dönsku straumfræðistöðinni við að koma af stað og kvarða efnisburðarreikninga. Unnið var síðan samfellt að rannsóknum á efnisburði út árið 2006. Hafin var vinna við grjótrannsóknir til hafnargerðar í Bakkafjöru undir umsjón jarðfræðistofunnar Stapa. Hafin var vinna við áhættugreiningu á siglingu ferju til Bakkafjöru og gerður samanburður við siglingu Herjólfs til Þorlákshafnar sem Det Norske Veritas vann. Danska verkfræðistofan COWI hóf vinnu við mat á frumhönnun ferjuhafnar, rannsóknum og rannsóknarskýrslum sem gerðar hafa verið vegna undirbúnings hafnargerðar í Bakkafjöru. Ákveðið var að bíða með botnrannsókn á hafnarstæðinu þar til lokahönnun mannvirkja fer fram.


Kostnaður við rannsóknarverkefni 2006.

Millj. kr.
Almennar rannsóknir, óskipt     8,9
Stjórnvaldsverkefni 4,5
Strandrannsóknir, óskipt     1,2
Norðausturleið (PAME) 2,0
Rifshöfn – öldufarsrannsóknir 0,3
Húsavík – öldufarsrannsóknir 0,1
Rannsóknir á Hornafjarðarós 0,6
Rannsóknir á Breiðamerkurlóni 0,1
Rannsóknir á ferjulægi við Bakkafjöru 4,4
Umhverfisrannsóknir, óskipt     2,0
Veðurlíkan 1,5
Undirstöðurannsóknir á sjólagi 3,7
Siglingaleiðir 0,6
Upplýsingakerfi fyrir sjófarendur 0,8
Líkön fyrir sjávarflóð 1,5
Skiparannsóknir, óskipt     3,0
Northern Periphery Programme 2,2
Rannsóknir og skipatækni 2,4
Vatnsþéttleiki skipa – rannsóknarverkefni 1,6
Hávaði í skipum – rannsóknarverkefni 0,5
Loftgæði í skipum – rannsóknarverkefni 1,8
Samtals 43,7
Rannsókn sjóslysa.
    Samkvæmt lögum um rannsóknir sjóslysa, nr. 68/2000, er það m.a. hlutverk Siglingastofnunar að taka til formlegrar afgreiðslu tillögur rannsóknarnefndar sjóslysa til úrbóta í öryggismálum á sjó og gera henni grein fyrir þeim úrbótum sem gerðar hafa verið. Þá ber Siglingastofnun, samkvæmt reglugerð nr. 133/2002, að eiga frumkvæði að sérstökum aðgerðum séu þær taldar nauðsynlegar.
    Eftirfarandi eru formlegar afgreiðslur Siglingastofnunar til rannsóknarnefndar sjóslysa á árinu 2006:
    Nr. 043/04 (Baldvin Þorsteinsson EA-10 (sknr. 2212), fékk nótina í skrúfuna og strandaði).
    Nr. 012/05 (Grímsnes GK-555 (sknr. 1849), eldur varð laus í lúkar).
    Nr. 065/05 (Hrund BA-87 (sknr. 7403), eldur kom upp um borð og skipið sökk).
    Nr. 094/05 (Gugga SH-80. (sknr. 6412) , strandaði, stjórnandi sofnaði).
    Nr. 088/05 (Milla SH-234. (sknr. 2321), slæmt ástand á lögnum til sjókælingar).
    Nr. 011/65 (Hrönn ÍS-303. (sknr. 2049), vélarvana, dregin til hafnar).
    Allar afgreiðslur til rannsóknarnefndarinnar má finna á vefsíðu Siglingastofnunar, www. sigling.is.

Minjavernd og saga.
    Unnið var að ritun sögu hafnargerðar á Íslandi á vegum Siglingastofnunar árið 2006. Verkið er viðamikið en er nokkuð á veg komið. Siglingastofnun hefur gert samkomulag við Víkina - Sjóminjasafn Reykjavíkur um varðveislu minja og muna frá stofnuninni.

Siglingavernd (skipa- og hafnavernd).
    Lög um siglingavernd, nr. 50/2004, tóku gildi þann 14. júní 2004 og komu til framkvæmda 1. júlí 2004. Markmið með siglingavernd er að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum.
    Árið 2006 voru 29 vottaðar hafnir með hafnaraðstöðu á 79 stöðum á Íslandi. Siglingastofnun framkvæmdi árlega úttekt á 10 höfnum og 32 hafnaraðstöðum og skyndiúttekt á þremur höfnum og sex hafnaraðstöðum. Siglingastofnun framkvæmdi þrjár skyndiúttektir á skipum þar sem eingöngu voru skoðuð atriði er varðar siglingavernd. Engin skip voru skráð á Íslandi árið 2006 sem þurfa að uppfylla kröfur um siglingavernd.
    Í samstarfi við aðrar stofnanir hélt Siglingastofnun fimm námskeið fyrir um 85 starfsmenn hafna og fyrirtækja. Eitt verndarfulltrúanámskeið fyrir nýja verndarfulltrúa og fjögur námskeið fyrir nýja hafnargæslumenn. Alls hafa um 90 manns hlotið tilnefningu sem verndarfulltrúar og hlotið þjálfun sem slíkir og um 600 hafa sótt hafnagæslunámskeið á vegum Siglingastofnunar Íslands. Jafnframt var Siglingastofnun með fræðslu/námskeið í samstarfi við viðeigandi stofnanir svo sem tollstjórann í Reykjavík, Landhelgisgæslu Íslands og Fjöltækniskólann.
    Siglingastofnun tók þátt í fundum og alþjóðlegu samstarfi vegna siglingaverndar, m.a. hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni, Evrópusambandinu og Norðurlandafundum þar sem haldnir eru reglulegir fundir um siglingavernd. Árið 2006 tók Siglingastofnun þátt í fjórum fundum hjá MARSEC, nefnd Evrópusambandsins, einum fundi vinnuhóps á vegum MARSEC og Transit í Englandi, auk Norðurlandafundar um siglingavernd er haldinn var í Danmörku. Siglingastofnun á jafnframt samskipti og samvinnu við ýmsar íslenskar og erlendar stofnanir varðandi málefni er tengjast siglingavernd.
    Siglingaverndaráætlun Íslands var gefin út samkvæmt kröfu Evrópusambandsins en í reglugerð Evrópusambandsins nr. 725/2004 á hvert land að gera siglingaverndaráætlun. Að gerð áætlunarinnar kom vinnuhópur sem skipaður var fulltrúum frá ríkislögreglustjóra, tollstjóranum í Reykjavík, Landhelgisgæslu Íslands, Hafnasambandi Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða og Siglingastofnun Íslands.
    Vinna hófst við þýðingu og innleiðingu tveggja nýrra reglugerða og einnar tilskipunar frá Evrópusambandinu er varða siglingavernd. Þessar reglugerðir og tilskipun hefur þau áhrif að uppfæra og breyta þarf lögum um siglingavernd, nr. 50/2004, og var sú vinna jafnframt hafin. Gefnar voru út nýjar leiðbeiningar til vottaðra hafna og má þar m.a. nefna almennar reglur um siglingavernd, uppfærðar leiðbeiningar varðandi áhættumat og verndaráætlun hafna og leiðbeiningar um móttöku tilkynninga frá skipum ásamt viðbrögðum.

Vaktstöð siglinga.
    Vaktstöð siglinga var sett á fót með lögum nr. 41/2003. Siglingastofnun hefur fjárhagslegt og faglegt eftirlit með rekstrinum og sinnir samskiptum við stjórnvöld vegna verkefna vaktstöðvarinnar og alþjóðlegu samstarfi, svo sem samstarfi við Alþjóðasiglingamálastofnunina og Siglingaöryggisstofnun Evrópu. Í sérstökum þjónustusamningi sem Siglingastofnun Íslands gerði við Landhelgisgæslu Íslands, Neyðarlínuna og Slysavarnafélagið Landsbjörg er þessum aðilum falið að annast daglegan rekstur vaktstöðvarinnar. Landhelgisgæslan fer með faglega forustu í vaktstöðinni.
    Hlutverk Vaktstöðvar siglinga er að fylgjast með allri umferð á sjó í lögsögu landsins og vera miðstöð upplýsinga fyrir skipaumferð í íslensku efnahagslögsögunni og halda utan um siglingar erlendra skipa sem koma til landsins sem og siglingar íslenskra skipa. Í samvinnu við Vaktstöð siglinga var unnið að innleiðingu rafræns tilkynningakerfis skipa, SafeSeaNet.

Stofnkostnaður.
    Árið 2006 var fjárfest í tækjum og búnaði fyrir samtals 20,2 millj. kr. Stór hluti stofnkostnaðar voru innkaup á búnaði í AIS-stöðvar en einnig öldudufl og annar búnaður.

Hafnir.
    Í þessari skýrslu er að finna stuttar lýsingar á ríkisstyrktum hafnarframkvæmdum árið 2006 á hverjum stað fyrir sig og tölur um fjárveitingar til hafnarframkvæmda og ráðstöfun þeirra í töflum I–VI. Einnig er fjallað um varnir gegn landbroti af ágangi sjávar og greint frá verkum sem unnin hafa verið í höfnum án ríkisstyrkja.
    Árið 2006 var eftirgreindum fjárhæðum varið til ríkisstyrktra framkvæmda við hafnir. Til samanburðar eru tölur fyrra árs.
2005 2006
millj. kr. millj. kr.
Ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 1.395,5 1.753,7
Ferjubryggjur 5,4 7,7
Lendingarbætur 7,1 6,6

Ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir.

Snæfellsbær.
     Rifshöfn: Viðhaldsdýpkanir í Rifi og Ólafsvík voru boðnar út í nóvember á síðasta ári og samið við lægstbjóðanda, Gáma- og tækjaleigu Austurlands ehf. Verktaki hóf dýpkun með dæluskipinu Skandia í Rifi 11. mars. Taka átti laust efni niður í 6,0 m dýpi í innsiglingu og 5,0 m innan hafnar. Verktaki lauk dýpkun í ágúst. Ekki náðist tilætlað dýpi á öllu svæðinu þar sem botnefni reyndust sums staðar of hörð fyrir Skandia. Samkvæmt útreikningum Siglingastofnunar voru í Rifi fjarlægðir 31.263 m³ úr höfn og innsiglingu en uppgjöri lauk ekki fyrir áramót.
    Í september var samið við Sæþór ehf. um stofndýpkun á svæði innst í höfninni við trébryggjuna. Verkið var unnið með grafskipinu Eiðsvík. Því lauk í nóvember og voru fjarlægðir um 4.600 m³. Þetta er byrjunin á stofndýpkun sem heimild var veitt fyrir í framhaldi af líkantilraunum sem nú standa yfir.
    Elinn ehf. lauk endurbyggingu trébryggju en það verk hófst um mitt ár 2005. Þetta er lokaáfangi í endurbyggingu bryggjunnar sem hófst árið 1997. Nú var fremsti hlutinn, um 29 m, byggður upp og sá hluti gömlu bryggjunnar sem eftir stóð fjarlægður. Nýja bryggjan er nú 60 m löng og 5,3 m breið.
    Gengið var frá lýsingu við tengibraut að hafnarvog, settir átta ljósastaurar, og gengið frá slitlagi á um 800 m² af tengibrautinni. Rarik sá um lýsinguna en Stafnafell annaðist klæðningu.
    Frestað var lagningu hluta slitlags við tengibraut og lýsingu við flotbryggju, en það verkefni átti að koma til framkvæmda á árinu samkvæmt hafnaáætlun.
    Ólafsvík: Gáma- og tækjaleiga Austurlands ehf. vann að viðhaldsdýpkun í innsiglingu, verk sem boðið var út á síðasta ári ásamt dýpkun í Rifi. Dýpka átti í 6,0 m en samkvæmt mælingu í verklok vantaði nokkuð á að það dýpi næðist á öllu svæðinu. Verkinu lauk í ágúst og höfðu þá verið fjarlægðir 21.110 m³. Endanlegu uppgjöri lauk ekki á árinu.
Þá var unnið áfram við endurbyggingu harðviðarbryggjunnar, en það verk hefur dregist á langinn þar sem í ljós kom að bryggjan var mun meira skemmd og fúin en gert hafði verið ráð fyrir. Verktaki er Elinn ehf. frá Sauðárkróki.
    Stafnafell ehf. annaðist frágang á gamalli grjótnámu í Ólafsvíkurenni. Með samþykki hafnaráðs í nóvember 2005 var veitt heimild til að ráðast í þetta verkefni og ráðstafa í það 1,7 millj. kr. af óskiptu fé til hafnargerða.
    Keypt var innsiglingarbauja og sett upp. Þetta verkefni var einnig samþykkt af hafnaráði í nóvember 2005 og heimilað að ráðstafa í það fjárupphæð af óskiptu fé.
    Frestað var breikkun þekju við Suðurþil úr 11 í 20 m, en það verkefni átti að koma til framkvæmda á árinu samkvæmt hafnaáætlun.
    Framkvæmdakostnaður: 87,9 millj. kr.
Grundarfjörður.
    Bygging nýrrar stálþilsbryggju sunnan Litlubryggju hófst á árinu. Efnisútboð fór fram á síðasta ári og var samið um kaup á 48 tonnum af festingaefni frá Anker-Schröder og 305 tonnum af stálþili frá Arcelor. Tilboð í römmun stálþilsins, fyllingu og kantsteypu voru opnuð 3. maí og í framhaldi samið við lægstbjóðanda, Berglín ehf., sem bauð 83,8 millj. kr. í verkið. Framkvæmdir hófust í byrjun júlí. Hagtak hf. var undirverktaki og vann stóran hluta verksins. Verkinu var ekki lokið fyrir áramót.
    Frestað var framkvæmdum sem áformaðar voru í hafnaáætlun við smábátaaðstöðu og dýpkun hafnarinnar. Lokið var mælingu og botnrannsóknum vegna dýpkunar en gert ráð fyrir að framkvæmdin verði árið 2007. Smábátaaðstöðu verður frestað til ársins 2008 samkvæmt drögum að samgönguáætlun 2007–2010.
    Framkvæmdakostnaður: 62,1 millj. kr.
Stykkishólmur.
    Viðlegukantur og stálþil í Súgandisey voru lengd um 30 m á árunum 2002–2003. Lok þess verks, þ.e. lögnum, lýsingu og þekju, hefur verið frestað nokkrum sinnum en því lauk árið 2006. Framkvæmd þessi fólst í að leggja vatnslagnir og ídráttarlagnir fyrir rafmagn að kantinum. Upphaflega var gert ráð fyrir að steypa þekjuna, en þeirri ákvörðun var breytt og hún malbikuð.
    Unnið var við lagfæringar á ferjubrúarbúnaði vegna nýrrar Breiðafjarðarferju og aðlaga aðstöðu að nýju skipi. Voru veittir í það verkefni fjármunir af óskiptu.
    Áformum um byggingu ljósamasturs- og vatnshúss í Skipavík var frestað til ársins 2010.
    Framkvæmdakostnaður: 3,6 millj. kr.
Dalabyggð.
    Gert hafði verið ráð fyrir því að lagfæra gömlu bryggjuna í Búðardal árið 2006 en verkinu frestað til 2007.
    Framkvæmdakostnaður: Enginn árið 2006.
Reykhólar.
    Dýpkunarframkvæmdum var enn frestað til ársins 2007 þar sem ekki fengust tilskilin leyfi frá UST.
    Framkvæmdakostnaður: Enginn árið 2006.
Vesturbyggð.
    Brjánslækur: Unnið var við lagfæringar á ferjubrúarbúnaði vegna nýrrar Breiðafjarðarferju. Endabitum ferjubrúar var breytt og fríholt löguð. Ríkishluti þessa verkefnis var greiddur af óskiptri fjárveitingu með heimild hafnaráðs.
     Patreksfjörður: Engar ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 2006.
     Bíldudalur: Þar vann fyrirtækið Lás ehf. á Bíldudal við frágang á þekju og lögnum á bryggju fyrir fyrirhugaða kalkþörungaverksmiðju. Steypt var 2.280 m² þekja og hafin bygging á ljósamasturs- og vatnshúsi. Samningsverð við Lás ehf. var 24 millj. kr.
    Framkvæmdakostnaður: 29,6 millj. kr.
Tálknafjörður.
    Endurnýjuð var innsiglingarbauja. Ríkishluti í þetta verkefni var greiddur af óskiptri fjárveitingu með heimild hafnaráðs.
    Framkvæmdakostnaður: 1,0 millj. kr.
Bolungarvík.
    Engar ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 2006.
Ísafjarðarbær.
    Þingeyri: Samkvæmt hafnaáætlun átti að rífa gömlu trébryggjuna árið 2005 en því var slegið á frest, svo var einnig í ár. Engar ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 2006.
     Suðureyri: Keyptar voru tvær nýjar innsiglingarbaujur frá Finnlandi og þeim komið fyrir. Eldri innsiglingarmerki voru fjarlægð. Hafnarstarfsmenn unnu verkið. Ríkishluti þessa verkefnis var greiddur af óskiptri fjárveitingu að fenginni heimild hafnaráðs.
     Flateyri: Engar ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 2006.
     Ísafjörður: Keypt var flotholt 15x3 m og því bætt við ferðamannabryggjuna í Sundahöfn. Hafnarstarfsmenn sáu um verkið. Þetta verkefni var ekki á hafnaáætlun en veitt var heimild hafnaráðs fyrir framkvæmdinni í júní 2005 gegn því að ríkishluti kæmi úr öðrum verkefnum sem hefur verið frestað hjá Ísafjarðarhöfn.
    Unnið var við II. áfanga í endurbyggingu Ásgeirsbakka. Verkið er framhald af þili sem rekið var niður veturinn 2003–2004. Efni var keypt árið 2005, 323 tonn af þili frá Arcelor og 69 tonn af stálþilsfestingaefni frá Anker-Schröder. Römmun þilsins var boðin út í maí og samið við lægstbjóðanda, Íslenska Gámafélagið ehf. Samningsupphæð var 55,83 millj. kr. Verkið hófst í ágúst og felst það í að brjóta kant og skera ofan af gamla þilinu, fjarlægja 2.700 m² þekju og allar lagnir. Síðan verða reknar niður 110 tvöfaldar plötur sem mynda 121 m langan kant og 19 m gafl, fyllt í þilið og steyptur kantbiti. Verkinu var ekki lokið fyrir áramót.
    Gert var við flotbryggjuna í Sundahöfn sem byggð var 1973 og er um 50 m á lengd. Flotholtin voru tekin á land og hreinsuð og gert við þau. Staurar voru lagfærðir og réttir af og festingar endurbyggðar. Samið var við Geirnaglann ehf. á Ísafirði um verkið, samningsupphæð 6,6 millj. kr.
    Ásel ehf. lauk verkefni við lagnir og lýsingu í Sundahöfn. Samið var um framkvæmdina á árinu 2005.
    Lokið var uppgjöri vegna hafnsögubáts sem afhentur var í október árið 2005.
Framkvæmdakostnaður: 56,4 millj. kr.
Súðavík.
    Engar ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 2006.
Norðurfjörður.
    
Þar átti samkvæmt hafnaáætlun að byggja uppsátur smábáta en ákveðið var fresta framkvæmdinni til ársins 2007.
    Framkvæmdakostnaður: Enginn árið 2006.
Drangsnes.
    Lokið var uppgjöri vegna uppsáturs smábáta sem unnið var á árinu 2005.
    Innsiglingarbauja við Kokkálsvíkurhöfn sem slitnaði upp og týndist í haustveðrum var endurnýjuð. Heimilað var að veita styrk af óskiptri fjárveitingu til slysavarna í þetta verkefni.
    Framkvæmdakostnaður: 0,3 millj. kr.
Hólmavík.
    Þar átti samkvæmt áætlun að framkvæma endurbætur á smábátaaðstöðu. Undirbúningur og verkhönnun hófst undir lok ársins en framkvæmdinni að öðru leyti frestað til ársins 2007.
    Framkvæmdakostnaður: Enginn árið 2006.
Hvammstangi.
    Heimild fékkst til að flýta dýpkun smábátahafnarinnar sem fram átti að fara árið 2007 samkvæmt hafnaáætlun. Í júní var samið við Víðimelsbræður ehf. að vinna þetta verk með gröfu frá landi. Uppmoksturinn gekk þó erfiðlega þar sem efni í botni var mjög fínn sandur eða silt sem flaut út þegar hreyft var við því. Til að ljúka verkinu var í september fenginn bílkrani frá Heiðarfelli ehf. og grabbaði hann frá landi því sem ekki náðist upp með gröfunni. Samanlagt tókst að fjarlægja um 3.000 m³ úr höfninni. Er þar nú víðast um eða yfir 1,5 m dýpi. Efni úr dýpkun var allt tekið á land og jafnað út á fyllingarsvæði sunnan prjónastofu við Höfðabraut.
    Framkvæmdakostnaður: 6,4 millj. kr.
Blönduós.
    Engar ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 2006.
Skagaströnd.
    Lokið var dýptarmælingu á snúningssvæði vegna dýpkunar sem framkvæmd var árið 2005.
    Samkvæmt hafnaáætlun átti að ráðast í endurbyggingu á löndunarbryggju, sem nú hefur verið nefnd Ásgarður, en samkvæmt ákvörðun heimamanna var verkinu frestað fram á árið 2007.
    Framkvæmdakostnaður: 0,6 millj. kr.
Skagafjörður.
    Sauðárkrókur: Lokið var uppgjöri vegna lengingar gamla sandfangarans, en sú framkvæmd var unnin á árinu 2005.
    Upptökubraut fyrir smábáta sem steypt var árið 2005 var endurbætt. Fyllt var fyrir framan brautarendann með grófu kjarnagrjóti og steypt um tveggja metra viðbót við brautarendann. Víðimelsbræður ehf. og Ás ehf. unnu verkið.
    Í júní árið 2006 var boðin út bygging þvergarðs og ytri sandfangara. Verksamningur var gerður við lægstbjóðanda, Víðimelsbræður ehf. Samningsupphæð var 17,5 millj. kr. Byggður var 45 m langur þvergarður innan á Norðurgarðinn og gagnstætt honum um 50 m langur sandfangari til austurs. Byrjað var á verkinu undir lok ágúst og því lauk í október. Utan við útboðsverkið var uppsetning garðsendaljósa sem heimamenn önnuðust. Efnismagn í þvergarð varð 6.204 m³ af sprengdum kjarna og 755 m³ flokkað grjót. Magn í sandfangara var 2.900 m³ af sprengdum kjarna og 1.632 m³ af flokkuðu grjóti. Tilgangur með þvergarðinum var að draga úr ölduhreyfingu upp með Norðurgarðinum sem valdið hefur vandræðum á undanförnum árum. Ytri sandfangara er ætlað draga úr sandburði inn í höfnina og safna efninu upp utan við Norðurgarðinn og fá þar aukið landrými. Ljóst er orðið að þvergarðurinn skilar árangri þó ekki sé komin full reynsla á það enn. Stefnt er að því að prófa höfnina í líkani til að finna út hvað þarf að gera svo viðunandi kyrrð náist.
    Í mars 2006 var boðin út bygging trébryggju við vesturkant smábátahafnar og undirritaður verksamningur við lægstbjóðanda, Guðlaug Einarsson ehf. Byggð var 53 m löng timburbryggja við vesturkant smábátahafnarinnar. Suðurendi bryggju gengur upp í grjótfláa og er viðlegukantur með þriggja m dýpi rúmir 47 m. Bryggjan er léttbyggð göngubryggja, tvær stauraraðir og landgangar á þrem stöðum á vesturhlið. Staurar eru úr greenhart en burðarviðir og dekk gagnvarin fura. Efni var boðið út og timbur, 12,9 m³ af greenhart og 50,3 m³ af gagnvarinni furu, keypt af Superbygg ehf. Boltar frá Sandblástri og Málmhúðun. Verkið hófst 6. júlí og lokaúttekt fór fram 5. október. Utan við útboðsverkið var lýsing við bryggjuna sem Rarik setti upp.
    Dýpkað var í smábátahöfninni Sauðárkróki um 1.300 m² svæði framan við nýju trébryggjuna í 2,5-3 m dýpi. Verkið var ekki boðið út enda smátt í sniðum. Samið var um framkvæmdina við Víðimelsbræður ehf. á föstum einingaverðum. Verkið var unnið í maí og úttektarmæling gerð 2. júní. Magnið sem upp kom, 1.950 m³, var tekið á land og sett í fyllingu norðan við sandfangara.
    Hofsós: Flotbryggja var sett út við Árgarð. Í hafnaáætlun var gert ráð fyrir 12 m bryggju en heimamenn fóru fram á að bryggjan yrði höfð lengri. Samþykkt var að ríkið tæki þátt í kostnaði við 20 m bryggju. Í apríl var leitað eftir tilboðum hjá tveim aðilum í flotbryggju og í framhaldinu samið við Króla ehf. um að útvega og setja upp steypta flotbryggju 20x2,4 m frá Marina sf. Gerð var fylling út frá Árgarði og steyptur landstöpull framan í fyllingunni. Samið var við Víðmelsbræður ehf. um fyllinguna en Ás ehf. steypti landstöpulinn.
    Samkvæmt hafnaáætlun átti að endurbæta bryggjuvegg Norðurgarðsins en ákveðið var að bíða með þá framkvæmd.
    Haganesvík: Þar var unnið að árlegri viðhaldsdýpkun en á hverju vori þarf að grafa frá bryggjunni 300–400 m³ af sandi sem berst að henni. Efni sem upp kom var sett á land.
    Framkvæmdakostnaður: 47,5 millj. kr.
Siglufjörður.
    Engar ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 2006.
Hafnasamlag Eyjafjarðar.
     Ólafsfjörður: Áfram var unnið í lögnum og þekju við nýtt stálþil Togarabryggju. Verkið var boðið út og samið við lægstbjóðanda, Steypustöð Dalvíkur ehf. í ágúst 2005. Samningsverð var 14 millj. kr. Í janúar 2006 var lokið við steypu á 1.104 m 2 þekju og masturshús var steypt upp. Eftir er að innrétta masturshúsið, smíða rafmagnstöflu og kaupa mastur.
     Dalvík: Enn var frestað endurbyggingu timburbryggju við Suðurgarð, en verkið er á áætlun 2007.
    Framkvæmdakostnaður: 6,3 millj. kr.
Grímsey.
    Enn var frestað styrkingu á grjótvörn aðalhafnargarðs og er nú gert ráð fyrir því verkefni á áætlun 2007.
    Heimamenn leituð eftir að fá flýtt lengingu harðviðarbryggju um 20 m og dýpkun við hana sem samkvæmt hafnaáætlun átti að koma til framkvæmda árið 2007. Hugmyndin var að lengja harðviðarbryggju norðanmegin í dokkinni en að ósk heimamanna fór fram skoðun á því að lengja frekar bryggjuna að sunnanverðu. Þetta reyndist töluvert umfangsmeiri framkvæmd, kallar á færslu skjólgarðs og mun meiri dýpkun en gert var ráð fyrir. Unnið var að undirbúningi þessa verkefnis og stefnt á að það fari inn í nýja samgönguáætlun sem er í burðarliðnum.
    Framkvæmdakostnaður: 0,5 millj. kr.
Hafnasamlag Norðurlands.
     Akureyri: Lokið var við steypta upptökubraut í Sandgerðisbót en brautin er 5x18 m. Katla ehf. á Árskógssandi vann verkið samkvæmt verksamningi sem gerður var á árinu 2005, samningsverð 2,2 millj. kr.
    Gáma- og tækjaleiga Austurlands ehf. vann að lengingu Tangabryggju samkvæmt verksamningi sem gerður var árið 2005. Rekið var niður stálþil sem hannað er fyrir 11,0 m dýpi og bryggjan lengd um 100 m. Í vesturenda var rekið 22 m gaflþil. Fyllt var í þilið alls 13.200 m³. Eftir að fyllingu lauk kom í ljós að vesturendi þilsins seig töluvert. Var ákveðið að setja þar farg til að flýta fyrir sigi og bíða með kantsteypu þar til sigið hefur stöðvast. Steyptir voru 44 m af kantbitanum en verkinu síðan frestað til ársins 2007.
    Lokið var uppgjöri við Arnarfell ehf. vegna steypu á þekju og frágangi á lögnum í Krossanesi en verkið hófst árið 2005.
    Frestað var framkvæmdum við Ísbryggju ÚA að ósk heimamanna.
    Hafin var undirbúningur að lengingu Oddeyrarbryggju með 65 m stálþili, hönnunardýpi 10 m. Þetta verk var ekki inni á samþykktri hafnaáætlun en hafnaráð féllst á þá málaleitan heimamanna að efniskaup í lengingu Oddeyrarbryggju yrðu metin styrkhæf en á móti væri frestað Ísbryggju ÚA.
     Svalbarðseyri: Samkvæmt hafnaáætlun átti að rífa gamla trébryggju á Svalbarðseyri og lengja grjótgarð. Lítilsháttar var unnið við undirbúning en verkinu að öðru leyti frestað til ársins 2007.
     Grenivík: Unnið var að hönnun og undirbúningi uppsáturs fyrir smábáta en framkvæmdinni að öðru leyti frestað til ársins 2007.
    Framkvæmdakostnaður: 69,8 millj. kr.
Húsavík.
    Lokið var uppgjöri við Árna Helgason verktaka vegna stálþils við Bökugarð. Samkvæmt hafnaáætlun átti að ganga frá lögnum við þilið og steypa á það þekju á árinu 2006. Ákveðið var að fresta því verki um sinn meðan beðið er ákvarðana í stóriðjumálum.
    Keypt var 50 m löng og 3 m breið flotbryggja. Gerður var verksamningur við Króla ehf. 9. september 2006. Samningsverð var rúmar 18,95 millj. kr. sem var 109% af kostnaðaráætlun. Verkinu lauk að mestu 22. nóvember. Eftir er að setja upp rafmagn og gera við trébryggjuna sem flotbryggjan stendur við.
    Framkvæmdakostnaður: 24,9 millj. kr.
Kópasker.
    Engar ríkisstyrktar framkvæmdir fóru fram árið 2006.
Raufarhöfn.
    Samið var við SRS ehf. á Raufarhöfn um að setja upp stálbita á björgunarbátsbryggjuna og klæða dekkið og framhliðina með timbri auk þess að smíða á hana handrið. Efni, gagnvarin fura, var keypt af Superbygg. Þessum framkvæmdum lauk í ágúst 2006.
Frestað var frágangi eftir niðurrif á bryggjum sem felst í grjóthleðslu við hótel Norðurljós.
    Framkvæmdakostnaður: 3,3 millj. kr.
Þórshöfn.
    Guðlaugur Einarsson ehf. lauk í febrúar samningsverki sem byrjað var á í júní árið 2005. Fólst það í að ramma nýtt stálþil við löndunarbryggju, steypa á það kant og breikka harðviðarbryggju út í sömu línu og stálþilið.
    Í mars voru boðnar út lagnir og þekjusteypa við stálþilið. Vökvaþjónusta Kópaskers ehf. var eini aðilinn sem skilaði inn tilboði, tæpum 2% yfir kostnaðaráætlun Siglingastofnunar. Samningur var undirritaður í apríl og var þá byrjað á verkinu en gera þurfti hlé meðan menn á vegum Hraðfrystistöðvar Þórshafnar steyptu upp undirstöður fyrir löndunarbúnað við stálþilið. Vinna hófst ekki að fullu aftur fyrr en í ágúst. Var þá farið í að ganga frá lögnum og undirbúa þekjusteypu. Vökvaþjónusta Kópaskers ehf. lauk svo við að steypa þekjuna um mánaðamótin október/nóvember. Uppgjöri var þó ekki að fullu lokið fyrir áramót.
    Í október var leitað eftir tilboði hjá Raftó ehf. í töflusmíði og frágang raflagna við löndunarbryggjuna og í framhaldi af því samið við fyrirtækið um verkið. Því lauk ekki fyrir áramót.
    Lengingu Norðurgarðs var áfram frestað, en unnið er að því að finna hagkvæma lausn sem dugar til að ráða bót á ókyrrð í höfninni.
    Framkvæmdakostnaður: 39,2 millj. kr.
Bakkafjörður.
    Lokið var við framkvæmdir sem hófust árið 2005, en þá var hafist handa við að ganga frá grjótnámu ofan við höfnina, landrafmagni á flotbryggju og lýsingu við löndunarbryggju. Ljóst var að upphæð sem ætluð var til námufrágangsins myndi ekki duga til að ljúka við það verk, en unnið var að því eins og fjárveiting leyfði og því lokið rétt fyrir áramótin 2005/2006.
    Nýtt var fjárveiting til að setja upp raflögn og tenglastólpa á flotbryggju sem og að leggja raflögn að uppsátursvelli og setja upp tenglaskáp. Sömuleiðis var lýsing á löndunarbryggju bætt, tveir stálljósastaurar reistir sem lýsa upp bryggjuna í stað bráðabirgðasímastaura sem fyrir voru. Þessu var lokið á árinu 2006.
    Framkvæmdakostnaður: 0,6 millj. kr.
Vopnafjörður.
    Hagtak hf. vann áfram að samningsverki við stálþil Miðbryggju–Löndunarbryggju. Vinnu við þilrekstur (108 plötur) lauk um miðjan mars. Í framhaldi var fyllt innan við þil og kantur steyptur. Því var lokið í nóvember.
    Samið var við Hagtak hf. um áframhaldandi þilrekstur (47 plötur) og viðbótardýpkun framan við Miðbryggju auk rifum á hluta hennar og fyllingu á bak við. Stálþilsplötur af gerðinni AZ18 voru keyptar af Guðmundi Arasyni ásamt festingaefni í viðbótina. Verktaki hefur þegar rifið Miðbryggjuna og fyllt á bak við að hluta.
    Þessi viðbót við stálþilið var samþykkt styrkhæf og heimild veitt til að nýta í framkvæmdina fjárveitingu sem ætluð var í lagnir og þekju við fyrri áfanga þilsins.
    Dýpkun við fyrri áfanga þilsins lauk fyrir áramót 2005/2006 en viðbótardýpkun á 1.160 m² svæði (1.400 m³) framan við Miðbryggjuna lauk í apríl.
    Framkvæmdakostnaður: 78,7 millj. kr.
Borgafjörður eystri.
    Vinnu við lengingu á Nýjubryggju lauk á árinu 2006. Heimamenn sáum um að byggja bryggjuna.
    Framkvæmdakostnaður: 3,6 millj. kr.
Seyðisfjörður.
    Lokið var við lýsingu og raflögn við smábátahöfnina. Kristján Jónsson rafverktaki á Seyðisfirði sá um það verk samkvæmt verksamningi sem gerður var í október 2005.
    Vinnu við endurbyggingu Löndunarbryggju hjá Bræðslunni og Bæjarbryggju lauk um mitt árið 2006, en Guðlaugur Einarsson ehf. sá um verkið samkvæmt verksamningi sem gerður var árið 2005. Samið var við Raflagnir Austurlands á Stöðvarfirði um lýsingu og raflögn fyrir báðar bryggjurnar að undangengnu útboði. Tilboðsupphæð var 2,6 millj. kr., um 2% lægri en kostnaðaráætlun hönnuðar. Vinnu við raflögnina var ekki lokið um áramót. Heimamenn sáu um frágang vatnslagna fyrir báðar bryggjurnar og er þeirri vinnu lokið.
    Unnið var að ýmsum frágangi við ferjuhöfnina samkvæmt því sem ákveðið var af samstarfsnefnd um byggingu ferjulægis á síðasta ári. Nú er verkinu að fullu lokið og hefur heimamönnum verið gerð grein fyrir því. Enn hefur ekki tekist að lagfæra þakleka í þjónustuhúsi en hönnuður hússins er að leita leiða til úrbóta í samvinnu við verktaka og eftirlitsaðila.
    Lokið var við að fylla framan við stálþil Strandarbakka en í desember árið 2005 kom í ljós að grafið hafði frá þilinu. Gerð voru göt á steypuþekjuna þar sem fylling hafði sigið undan, lagfærð vatnslögn sem fór úr skorðum, fyllingu bætt í og steypu rennt undir þekju. Heimamenn sáu um framkvæmdina. Á fundi hafnaráðs í febrúar 2006 var samþykkt tillaga Siglingastofnunar um að ríkið tæki þátt í viðgerðinni, fjárveiting kom af óskiptum lið.
    Framkvæmdakostnaður: 56,5 millj. kr.
Fjarðabyggð.
     Mjóifjörður: Endurbyggingu og styrkingu trébryggju var enn frestað til ársins 2007.
     Neskaupstaður: Þar var unnið að þekjusteypu og raflögn við lengingu Togarabryggju. Verkið var boðið út í mars árið 2006. Lægstbjóðandi var Völvusteinn ehf., sem bauð 28,6 millj. kr. í heildarverkið, um 96% af kostnaðaráætlun. Samið var við Völvustein ehf. sem hóf framkvæmdir í júní og lauk þeim í desember. Steypt var 2.238 m² þekja, byggt rafbúnaðarhús, undirstaða fyrir ljósastaur og gengið frá raflögnum.
    Lokaáfangi byggingar skjólgarðs norðan hafnar og stytting á skjólgarði sunnan hafnar var boðinn út í júlí. Þrjú tilboð bárust og var KNH ehf. lægstbjóðandi, bauð 53,4 millj. kr. í heildarverkið eða 99% af kostnaðaráætlun. Undirstaða garðsins hefur verið byggð upp á undanförnum árum. Árið 2004 var dýpkað í höfninni og dýpkunarefnið losað undir garðinn. Árið 2005 var samið við Björgun ehf. um að dæla undir garðinn púða sem nær upp í fjöruborð. Púðinn var byggður upp í þrem áföngum, fyrstu tveir á árinu 2005 og þriðji áfangi sem unninn var árið 2006. Efni í púðann var fengið úr dýpkun hafnarinnar, 37.588 m³ og sjávarmöl úr Viðfirði 92.767 m³. Lokaáfangi nú felst í að byggja garðinn í fulla hæð ofan á púðann sem kominn er. Hluti af verkinu felst í að stytta skjólgarðinn sunnan hafnar og flytja efni sem þar fellur til í skjólgarðinn norðan hafnar. Stytting syðri skjólgarðsins var ekki á hafnaáætlun og greiddi hafnarsjóður Fjarðabyggðar þann verkhluta (16,4 millj. kr.) að fullu. KNH ehf. hóf í september að stytta skjólgarðinn sunnan hafnar og losa grjót í námu í Skuggahlíðarbjargi. Verktaki lauk við að leggja út grjót í skjólgarð norðan hafnar í desember, alls um 25.500 m³. Eftir er frágangsvinna í námu.
    Gerð var verðkönnun vegna dýpkunar á svæðinu undir styttingu syðri skjólgarðsins. Björgun ehf. bauð lægst, 5 millj. kr. Verkið var unnið í október. Magn efnis vegna dýpkunarinnar var um 7.000 m³. Þetta verkefni var ekki á hafnaáætlun eins og áður er getið og greiddi hafnarsjóður Fjarðabyggðar að fullu kostnað við dýpkunina.
     Eskifjörður: Lokið var uppgjöri vegna lagna og þekju við stálþil við bræðslu.
    Reyðarfjörður: Unnið var áfram við stóriðjuhöfnina á Mjóeyri. Í febrúar voru opnuð tilboð í lokaáfanga verksins sem fólst í að ganga frá frárennslislögnum, undirstöðum fyrir færiband, jarðvinnu og þekjusteypu. Lægstbjóðandi var Héraðsfjörður ehf. sem bauð 104,7 millj. kr., 75% af kostnaðaráætlun verkkaupa. Samningur við Héraðsfjörð var undirritaður 28. mars. Vinna hófst í lok mars og verkinu lauk í september. Styrkhæfur hluti verksins var jarðvinna undir þekju og þekjusteypa, 10.440 m², sem nam um 70% af heildarverkkostnaði. Aðrir verkþættir voru greiddir að fullu af Fjarðaáli/Alcoa og hafnarsjóði Fjarðabyggðar.
    Unnið var áfram að smíði hafnsögubáts fyrir stóriðjuhöfnina samkvæmt samningi sem gerður var í lok árs 2005 við Damen skipasmíðastöðina.
     Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður: Engar ríkisstyrktar framkvæmdir.
    Framkvæmdakostnaður: 219,4 millj. kr.
Breiðdalsvík.
    Unnið var að úrbótum í öryggismálum hafnarinnar og veittur styrkur til þeirra framkvæmda af óskiptu fé til slysavarna.
    Framkvæmdakostnaður: 0,9 millj. kr.
Djúpivogur.
    Efni í harðviðarbryggju var keypt árið 2006, en heimamenn ákváðu að fresta útboði á bryggjusmíðinni um sinn.
    Samið var við Hagtak hf. um dýpkun í Gleðivík.
    Framkvæmdakostnaður: 14,5 millj. kr.
Höfn í Hornafirði.
    Lokið var uppgjöri vegna lagna og þekju við Krosseyjarbakka sem unnið var að á síðasta ári.
    Gáma- og tækjaleiga Austurlands ehf. lauk við dýpkun í Grynnslum í nóvember 2005. Lokauppgjör verksins fór fram 2006. Árangur af dýpkun á Grynnslunum var takmarkaður, enda um tilraunaverkefni að ræða. Kom í ljós við mælingu sem gerð var í mars árið 2006 að mikið efni hafði á skömmum tíma borist aftur inn á svæðið sem dýpkað var. Niðurstaðan er því að horfið er frá þeim áformum um að viðhalda dýpi á Grynnslunum sem gert var ráð fyrir í hafnaáætlun.
    Sveinn Sighvatsson hóf í ársbyrjun smíði timburbryggju framan við netagerðina, Bátstangabryggju, samkvæmt verksamningi sem gerður var í lok árs 2005. Í desember 2006 var bryggjusmíðinni lokið en eftir er að koma fyrir lýsingu og tengja rafmagn á bryggjuna.
    Í mars var boðin út viðhalds- og stofndýpkun innan hafnar. Gáma- og tækjaleiga Austurlands bauð lægst, 320 kr/m³ sem var 81% af kostnaðaráætlun, og var gerður við þá verksamningur sem gildir til ársins 2008. Dýpkunarskipið Skandia hóf vinnu við stofn- og viðhaldsdýpkun í höfninni í ágúst og lauk dýpkunaráfanga ársins í desember. Samtals voru tekin 65.000 m 3 af leir og sandi úr höfninni í þessum áfanga. Næstu tvö árin mun Skandia sinna venjubundinni viðhaldsdýpkun á höfninni samkvæmt áætlun, um 25.000 m³ árlega.
    Framkvæmdakostnaður: 107,5 millj. kr.

Vestmannaeyjar.
    Lokið var uppgjöri við Steina og Olla ehf. vegna lagna og þekju við vesturkant Friðarhafnar, en það verk var boðið út og unnið árið 2005.
    Unnið var við endurbyggingu 207 m stálþils við Básaskersbryggju. Keypt var stálþil, 377,5 tonn, frá Arcelor og festingaefni, 78,9 tonn, frá Anker-Schröeder. Í lok september voru tilboð opnuð í römmun þilsins, fyllingu og steyptan kant. Fjögur tilboð bárust og kom lægsta tilboðið frá Íslenska Gámafélaginu ehf. að upphæð 70,6 millj. kr. Var það 78% af kostnaðaráætlun. Gengið var til samninga við lægstbjóðanda og hófust framkvæmdir í nóvember.
    Í hafnaáætlun var gert ráð fyrir að ráðast í endurbyggingu Bæjarbryggju á árinu 2005. Því verkefni hefur verið slegið á frest og er í fyrirliggjandi drögum að samgönguáætlun 2007– 2010.
    Framkvæmdakostnaður: 64,7 millj. kr.
Þorlákshöfn.
    Gáma- og tækjaleiga Austurlands ehf. vann að byggingu stálþils norðan Svartaskersgarðs samkvæmt verksamningi sem gerður var um mitt ár 2005. Vinna við verkið hófst um miðjan október 2005. Felst það í að reka niður 250 m langt stálþil með hönnunardýpi 6-9 m, fylla að þilinu og steypa kantbita. Heimamenn tóku þá ákvörðun að bæta 35 m við þilið og verður sá hluti notaður í löndunarbryggju sem byggð verður sunnan skjólgarðs við smábátahöfnina og gerð fyrir 6 m dýpi. Sótt var um að þessi viðbót yrði metin styrkhæf. Var umsóknin tekin til umfjöllunar við gerð samgönguáætlunar 2007–2010. Verkið var langt komið um áramót.
    Á árinu 2003 hófst stækkun hafnarinnar samkvæmt niðurstöðum líkantilrauna. Byrjað var á byggingu Austurgarðs og síðan þvergarðs við enda Svartaskersgarðs sem er um 75 m langur, byggður til að draga úr hreyfingum skipa í innri hluta hafnarinnar. Loks var formuð smábátadokk innst í Austurhöfninni og grjótvarðir kantar meðfram henni. Verktaki við þessar skjólgarðaframkvæmdir allar er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. Var þeim að mestu lokið á árinu 2005 nema skjólgarði við smábátahöfnina sem unnið var að á árinu 2006 og er enn ekki að fullu lokið. Á árinu var einnig komið fyrir garðsendaljósum á þvergarðinn og unnin námufrágangur vegna Austurgarðs.
    Í lok febrúar var boðin út dýpkun í Austur- og Vesturhöfninni ásamt niðurrifi á fremsta hluta Norðurvararbryggju. Útboðið var tvískipt, annars vegar 195.000 m³ dæling á lausu efni og hins vegar 95.000 m³ gröftur á föstu efni ásamt því að fjarlægja 145 m af Norðurvararbryggju. Tilboð voru opnuð 22. mars. Björgun ehf. bauð lægst í dælingu úr Austurhöfninni 47,6 millj. kr., 60,2% af kostnaðaráætlun. Ístak hf. bauð lægst í dýpkun með greftri í Vestur- og Austurhöfninni og niðurrif Norðurvararbryggju, 97,9 millj. kr. sem var 68,7% af kostnaðaráætlun. Gengið var til samninga við lægstbjóðendur.
    Ístak hf. hóf framkvæmd við sinn þátt dýpkunar 9. maí með gröfuprammanum Gretti og efnisflutningaprammanum Mikael. Byrjað var að grafa í haftið milli Vestur- og Austurhafnar. Unnið var til 20. júní en þá var gert hlé á verki. Byrjað aftur um miðjan september og unnið samfellt úr því. Ístak á samkvæmt verksamningi að ljúka við verkið 1. ágúst 2007 en um áramót var lokið við að dýpka 82.573 m³. Um miðjan júní hóf Björgun ehf. dælingu í Austurhöfn með dæluprammanum Gleypi. Um miðjan ágúst kom dýpkunarskipið Perlan og hóf einnig dælingu. Um áramótin var dýpkun Björgunar að mestu lokið og var þá magnið sem Gleypir og Perlan höfðu dælt á land alls talið vera u.þ.b. 214.000 m³. Úttektarmæling hefur ekki verið gerð og endanlegt uppgjör liggur því ekki fyrir.
    Ístak hf. vann að niðurrifi Norðurvararbryggju samkvæmt verksamningi. Byrjað var á framkvæmdinni 11. september. Bryggjan var mölvuð með brotfleyg eins og hægt var ofansjávar og efninu ekið í vikið milli Norðurvararbryggju og Skarfaskers. Fékkst þar nokkur landfylling. Botn keranna var síðan sprengdur og fjarlægður með gröfuprammanum Gretti. Í byrjun desember höfðu verið fjarlægð 26 ker og þeim verkþætti þar með lokið.
    Unnið var að smábátaaðstöðu í Austurhöfn samkvæmt hafnaáætlun. Unnið var við að steypa tvo landstöpla, koma þeim fyrir og færa flotbryggjuna sem áður var staðsett sunnan Norðurvararbryggju. Samið var við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða og var verkinu ólokið um áramót.
    Framkvæmdakostnaður: 270,4 millj. kr.
Grindavík.
    Boðin var út í apríl steypt þekja og raflögn við Svíragarð. Lægstbjóðandi var Almenna byggingarfélagið ehf. sem bauð 47,3 millj. kr. í heildarverkið, 87,6% af kostnaðaráætlun. Verkið fólst í að grafa lagnaskurði, leggja vatns- og ídráttarör, steypa 4.340 m² þekju og ganga frá raflögn og lýsingu við bryggjuna. Gengið var til samninga við Almenna Byggingarfélagið sem hóf framkvæmdir í maí. Í október var verkinu lokið, en ekki var þó búið að ganga endanlega frá uppgjöri um áramót.
    Unnið var að stálþilsbryggju vestan Miðgarðs samkvæmt hafnaáætlun. Boðið var út efni og keypt 265,6 tonn af stálþili gerð AZ-25 frá Arcelor. Festingaefni, 52 tonn, var keypt frá Anker-Schröeder. Í desember var römmun þils, fylling og steypa á kantbita boðin út. Tilboð lágu ekki fyrir um áramót.
    Framkvæmdakostnaður: 93,0 millj. kr.
Sandgerði.
    Engar ríkisstyrktar hafnarframkvæmdir 2006.

Óstyrkhæfar hafnarframkvæmdir.

Kópavogur.
    Engar hafnarframkvæmdir voru við Kópavogshöfn. Unnið var að skipulagi.
Faxaflóahafnir.
    Unnið var að endurnýjun viðlegukanta í Vesturhöfn gömlu hafnarinnar í Reykjavík. Hér er um stórt hafnargerðarverk að ræða sem alls tekur til endurnýjunar á um 700 m af hafnarbökkum. Vegna áforma um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss og hótels í Austurhöfn þurfti sjávarútvegur að víkja úr Austurhöfn yfir í Vesturhöfnina. Miðað var við að færslu sjávarútvegs úr Austurhöfn yrði lokið 1. september 2006 og stóðst sú tímasetning. Framkvæmdir við þetta verk hófust í lok árs 2005 en áður hafði stálþil og stagefni verið keypt og það afhent við upphaf framkvæmda. Verkið skiptist í fjóra verkáfanga og verklok síðasta áfanga áætluð haustið 2007. Á árinu 2006 var tveimur fyrri verkáföngum lokið, endurbyggingu Grandabakka og Bótarbryggju og þeir bakkar teknir í notkun.
    Unnið var að dýpkun í Vesturhöfn og hreinsun á menguðum jarðvegi framan slippasvæðanna við Mýrargötu. Þetta verk er síðasti verkáfangi í dýpkun gömlu hafnarinnar, sem staðið hefur undanfarin ár. Verki lauk um áramót.
    Nýr 470 m viðlegukantur og um 100.000 m 2 svæði var tekið í notkun á Skarfabakka við Sundahöfn í Reykjavík. Viðlegukanturinn er ætlaður fyrir skemmtiferðaskip auk annarra almennra nota, en þremur lóðum á svæðinu hefur verið úthlutað Eimskipafélagi Íslands ehf., BYKO hf. og Hampiðjunni hf.
    Unnið var að dýpkun innsiglingar í Sundahöfn, en það verk var boðið út á árinu 2005. Þetta er áfangaskipt verk og tekur til dýpkunar á innsiglingu að hafnaraðstöðu á Klettasvæði, í Vatnagörðum og í Kleppsvík.
    Hafinn var undirbúningur að lengingu Vogabakka í Kleppsvík, skipt var um jarðveg í bakkastæði og hafnar fyllingar á baksvæði bakkans. Til þess verks var meðal annars nýtt allt dýpkunarefni úr dýpkun Vesturhafnar.
    Lokið var við nýjan 250 m viðlegukant á Grundartanga ásamt 80 m djúpu baklandi við bakkann. Haustið 2006 voru síðan boðin út verk við uppbyggingu og frágang yfirborðs þessa nýja svæðis og endurnýjun á götum að höfninni.
    Keyptar voru nýjar flotbryggur á Akranesi til að bæta aðstöðu fyrir útgerð smærri báta.
    Aðstaða til löndunar á afla við aðalhafnargarðinn á Akranesi var bætt með stækkun lands við framenda garðs.
    Haustið 2006 voru boðin út verk við frágang yfirborðs að og á hafnarsvæðinu í Borgarnesi.
    Áfram var unnið að landgerð í Vesturhöfn utan Fiskislóðar í Reykjavík. Verkið er alls um 10 ha landgerðaráfangi, sem hafinn var í byrjun árs 2005. Nær öllum lóðum á þessa nýja landi hefur nú verið úthlutað og uppbygging á lóðum að hefjast samhliða því að landgerð og frágangi svæðis lýkur á árinu.
    Lokið var ýmsum frágangi gatna í Vesturhöfn, en endurbætur hafa staðið yfir undafarin tvö ár samhliða því að byggð hefur verið ný dælustöð fyrir fráveitu og dæling skólps frá Vesturhöfn hafin.
    Unnið var að gatnagerð við Klettagarða og Sæbraut í samvinnu við Reykjavíkurborg og Vegagerðina. Verkhluti hafnar var tenging Klettagarða að Sæbraut og opnun á nýrri meginvegtengingu Klettasvæðis að stofnbrautinni.
    Nýr dráttarbátur með 40 tonna togkraft var keyptur til hafnarinnar á árinu 2006 og kom hann til landsins í júnímánuði.
    Á sviði skipulagsmála var unnið að deiliskipulagi við Mýrargötu, deiliskipulagi landfyllingar utan Fiskislóðar í Örfirisey og deilskipulagi við Klettagarða og Skarfabakka í Sundahöfn.

Framkvæmdakostnaður Faxaflóahafna sf. árið 2006 (í millj. kr.).

Hafnarmannvirki: 616,0
Hafnaverndarbúnaður: 14,5
Landgerð og lóðir: 251,5
Gatnagerð: 144,5
Húseignir: 8,5
Tæki og búnaður: 225,0
Kostnaður ársins 2006 alls 1.260,0
Hafnarfjarðarhöfn.
    Á árinu var hafist handa við lengingu Hvaleyrarbakka um 200 m og með 10 m djúpristu, þannig að í heild verður bakkinn 400 m langur með 8 og 10 m djúpristu. Heildarverð hafnarbakkans verður um 370 millj. kr., en 2006 var fjárfest fyrir 258 millj. kr.
    Undirbúningur fyrir aðstöðu hafnarbáta hófst á árinu og var fjárfest fyrir 10 millj. kr. af um 25 millj. kr. heildarfjárfestingu.
    Varnir Hvaleyrar hófust á árinu og var kostnaður ársins um 4 millj. kr. af um 45 millj. kr. heildarfjárfestingu.
    Auk ofangreinds nam fjárfesting í gatnagerð og landgerð á Hvaleyrarhafnarsvæðinu 67 millj. kr.

Ferjubryggjur.
     Bakkafjöruhöfn: Unnið var að rannsóknum vegna ferjuhafnar á Bakkafjöru. Gefin var út skýrsla á vegum Siglingastofnunar um Bakkafjöru. Unnið var áfram að líkantilraunum frá 2005. Samið var við DHI, dönsku straumfræðistofnunina, um að gera rannsóknir á sandburði á Bakkafjöru. Dýptarmælingar fóru fram og tekin botnsýni úr sandbotninum. Sett var af stað vinna við að meta ferjuna og siglingaleið hennar. Einnig var gerð skýrsla um samfélagsleg áhrif með tilkomu ferju milli Bakka og Eyja. Vestmannaeyjanefnd sem vann að samanburði á hagkvæmustu samgöngukostum skilaði af sér á vormánuðum og lagði til að Bakkafjöruhöfn yrði skoðuð frekar. Í framhaldi af því var stofnaður stýrihópur sem í eru fulltrúar samgönguráðuneytisins, Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar.
    Framkvæmdakostnaður: 34,7 millj. kr.
    Unnið var að viðhaldi á eftirtöldum ferjubryggjum:
    Í Skáleyjum voru sett upp ný fríholt. Steypt var upptökubraut fyrir smábáta og unnið við fríholt og stiga á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Einnig var unnið við fríholt og stiga á Bæjum á Snæfjallaströnd og í Æðey. Á Stað í Reykhólasveit var landgangur frágenginn.

Sjóvarnargarðar.
     Akranes: Boðin voru út þrjú verk á Akranesi ásamt tveimur verkum í Hvalfjarðarsveit. Samið var við lægstbjóðanda, Vélaleigu Halldórs Sigurðssonar á Akranesi. Verkinu er ekki lokið.
    Framkvæmdakostnaður alls 1,1 millj. kr.
    Snæfellsbær, Ólafsvík: Á árinu var lokið við sjóvarnir við gömlu verbúðirnar.
    Framkvæmdakostnaður: 1,5 millj. kr.
     Vesturbyggð: Frestað var framkvæmdum við sjóvörn við Brunna.
     Ísafjarðarbær: Undirbúningsvinna vegna mælinga fyrir sjóvörn.
    Framkvæmdakostnaður: 0,6 millj. kr.
     Blönduós: Í október 2005 var gerður samningur við Víðimelsbræður ehf. um að lengja sjóvörn norðan Blöndu í báða enda, alls um 258 m. Verktakinn byrjaði á sjóvörnum í Skagafirði sem boðnar voru út með sjóvörninni á Blönduósi og lauk þeim verkefnum ekki fyrr en í byrjun sumars 2006. Þegar átti að hefja framkvæmdir á Blönduósi óskuðu aðilar í ferðaþjónustu eftir að þær yrðu látnar bíða fram yfir ferðamannatímann. Var orðið við því og gert samkomulag við verktakann um frestun fram á næsta ár.
     Skagafjörður: Víðimelsbræður ehf. héldu áfram gerð sjóvarna sem samið var um í október 2005. Gerð 274 m langs sjóvarnargarðs í Haganesvík lauk í byrjun mars. Í garðinn fóru 1.840 m³ af grjóti auk efnis sem fyrir var í fjörunni. Grjótið var tekið úr skriðu við Siglufjarðarveg í grennd við Kóngsnef þar sem áður hafði verið tekið grjót í vörn við Stakkgarðshólma. Mun vera lítið af grjóti þar eftir sem hægt er að nýta. Heimild fékkst til að flýta sjóvörn framan við bæjarhúsin á Hrauni á Skaga og í mars var samið við Víðimelsbræður ehf. um það sem aukaverk á grundvelli einingarverðs tilboðsins. Þann 10. maí var lokið við 200 m langan sjóvarnargarð sem í fóru 2.315 m³ af grjóti. Grjótið var tekið úr urð skammt vestan við fjárhúsin á staðnum.
     Siglufjörður: Gerð var mæling á Siglunesinu til að meta landbrotshraða undanfarinna ára. Verkfræðistofan Stoð ehf. á Sauðárkróki sá um framkvæmd.
     Mýrdalshreppur: Unnið var að undirbúningsrannsóknum fyrir grjótnám. Jarðfræðistofan Stapi var fengin í það verkefni.
    Mælingar voru gerðar sem sýna að enn gengur á fjöruna við Vík í Mýrdal.
     Svalbarðastrandarhreppur: Unnið var við styrkingu fjörukambs við tjörnina. Verkinu lauk í janúar 2007.
Sveitarfélagið Árborg, Stokkseyri: Vinnu lauk fyrri part árs 2006 við sjóvarnargarð austan við Stokkseyri. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sá um verkið en þeir buðu 29,6 millj. kr. sem var um 75% af kostnaðaráætlun.
    Sveitafélög á Suðurnesjum: Boðnar voru út saman sjóvarnir fyrir Sandgerði, Gerðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp í einu útboði. Tvö tilboð bárust. Lægstbjóðandi var Íslenskir aðalverktakar en þeir buðu 39,9 millj. kr. sem var 111% af kostnaðaráætlun.
    Í Sandgerði voru sjóvarnir við Stafnes–Bala, Fuglavík–Norðurkot, Flankastaði og Garðskaga–Lambarif lagðar. Vinnu lauk um áramótin á þessum stöðum.
    Í Garði var garður lagður við Byggðasafn–Von og væntanlega lýkur þeirri vinnu í febrúar.
    Vinna mun hefjast við sjóvarnargarða í Vatnsleysustrandarhreppi í byrjun mars en þar verða lagðir garðar við Brunnastaði, Knarrarnes og Skjaldarkot. Verklok eru áætluð um mánaðamótin apríl/maí.
     Álftanes: Boðnar voru út á árinu 2005 sjóvarnir á Álftanesi, alls um 620 m. Þrjú tilboð bárust og samið var við lægstbjóðanda, Jarðvélar ehf., sem bauð 9,5 millj. kr. er nam 56% af kostnaðaráætlun hönnuða. Vinna við verkið hófst um áramótin 2005/2006 og lauk henni í maí.
     Hafnarfjörður: Boðnar voru út sjóvarnir við Hvaleyrarhöfða á árinu, sjóvarnargarðurinn er 920 m langur og í hann fer alls um 34.400 m³ af efni. Fjögur tilboð bárust. Samið var við lægstbjóðanda, Suðurverk ehf., sem bauð 42,7 millj. kr. sem er um 56% af kostnaðaráætlun.

Tafla I. Kostnaður við hafnarframkvæmdir 2006 (fjárhæðir í millj. kr.).

I. Innan grunnnets Styrk. Heild. Styrk. Ríkis.
Af óskiptu fé til slysavarna Raufarhöfn, björgunarbúnaður 60     % 0,9 0,7 0,4
Vestmannaeyjar, innsiglingaljós 60     % 1,2 1,0 0,6
Snæfellsbær Norðurþil, staurakista rifin, stálþilsbr. við aðalhafnargarð 60     % 0,0 0,0 0,0
Ólafsvík, endurbygging trébryggju 60     % 13,8 11,1 6,7
Ólafsvík, viðhaldsdýpkun í innsiglingu og höfn 75     % 9,7 7,8 5,9
Rif, lokið endurbyggingu trébryggju 60     % 28,3 22,7 13,6
Rif, viðhaldsdýpkun í innsiglingu og höfn 75     % 16,2 13,1 9,8
Rif, tengibraut frá Staurakistu að hafnarvog 60     % 1,3 1,0 0,6
Rif, stofndýpkun í innsiglingu og höfn 75     % 14,3 11,5 8,6
Rif, aðstaða fyrir björgunarbát 60     % 0,0 0,0 0,0
Námufrágangur í Ólafsvíkurenni 75     % 2,1 1,7 1,3
Ólafsvík, kaup og uppsetning innsiglingarbauju 75     % 2,0 1,6 1,2
Grundarfjörður Dýpkun hafnar 75     % 0,9 0,7 0,5
Ný bryggja sunnan Litlubryggju 60     % 61,2 49,2 29,5
Stykkishólmur Stálþ. næst brúarbás í Súgandisey, lagnir, lýs. og þekja 60     % 2,2 1,7 1,0
Breyting á ferjuaðstöðu 60     % 1,5 1,2 0,7
Ísafjörður Ísafjörður, endurbyggja flotbryggju í Sundahöfn 60     % 6,6 5,3 3,2
Ísafjörður, endurbygging Ásgeirsbakka 60     % 39,7 31,9 19,2
Ísafjörður, hafnsögubátur. 75     % 3,6 2,9 2,2
Ísafjörður, ný flotbryggja í Sundahöfn 60     % 0,1 0,0 0,0
Ísafjörður, Sundahöfn, lagnir og lýsing 60     % 1,1 0,9 0,5
Ísafjörður, ferðamannabr., 1 flotholt og lenging 15 m 60     % 2,4 1,9 1,1
Skagaströnd Dýpka snúningssvæði 75     % 0,5 0,4 0,3
Endurbygging á plani og löndunarbryggju 60     % 0,1 0,1 0,0
Skagafjörður Sauðárkrókur, grjótgarður innan Norðurgarðs, þvergarður 75     % 18,3 14,7 11,0
Sauðárkrókur, sandfangari, lenging um 30 m 75     % 0,2 0,2 0,1
Sauðárkrókur, uppsátur fyrir smábáta 60     % 0,5 0,4 0,2
Sauðárkrókur, smábátahöfn trébryggja 60     % 19,6 15,7 9,4
Sauðárkrókur, smábátahöfn endurbætt dýpkun 60     % 2,4 2,0 1,2
Hafnasamlag Eyjafjarðar Ólafsfjörður, togarabryggja, 40 m stálþil 60     % 6,3 5,0 3,0
Dalvík, timburbryggja Suðurgarði, endurbygging (65 m) 60     % 0,0 0,0 0,0
Hafnasamlag Norðurlands Akureyri, stálþil við Krossanes 2. áfangi 60     % 3,7 3,0 1,8
Akureyri, upptökubraut 60     % 1,5 1,2 0,7
Akureyri, Tangabryggja 60     % 62,7 50,4 30,2
Svalbarðseyri, rífa trébryggju og lengja grjótgarð 60     % 0,1 0,1 0,1
Akureyri, Oddeyrarbryggja 60     % 1,3 1,0 0,6
Húsavík Brimvarnargarður við Böku 75     % 0,0 0,0 0,0
Bökugarður stálþil 60     % 2,2 1,8 1,1
Smábátahöfn flotbryggja og endurbygging 60     % 22,6 18,2 10,9
Raufarhöfn Viðlega fyrir björgunarskip, bryggja     60% 3,3 2,7 1,6
Þórshöfn Endurbygging löndunarbryggju 60     % 39,2 31,5 18,9
Lenging Norðurgarðs 75     % 0,0 0,0 0,0
Vopnafjarðarhöfn Miðbryggja – löndunarbryggja og stálþil 60     % 33,4 26,8 16,1
Dýpkað í 9 m við Miðbryggju 75     % 6,7 5,4 4,0
Lenging þils við Miðbryggju um 45 m 60     % 28,7 23,0 13,8
Dýpkað vegna lengingu þils við Miðbryggju 75     % 10,0 8,0 6,0
Seyðisfjarðarhöfn Sérbún. við ferjulægi, þjónustuhús, landgang og bílabrú 75     % 1,6 1,3 0,9
Bæjarbryggja endurbygging 60     % 32,2 25,9 15,5
Löndunarbryggja við SR-mjöl endurbyggð 60     % 16,7 13,4 8,0
Smábátahöfn, lagnir og lýsing 60     % 3,1 2,5 1,5
Viðgerð á Strandarbakka     60% 3,0 2,4 1,4
Fjarðabyggð Reyðarfjörður, stálþilsbakki við Hraun 60     % 94,4 75,8 45,5
Eskifjörður, stálþil við bræðslu 80 m 60     % 1,4 1,2 0,7
Neskaupstaður, skjólgarður norðan hafnar, 157.000 m3 75     % 52,7 42,3 31,7
Reyðarfjörður, stóriðja, dýpkun 75     % 0,1 0,1 0,0
Neskaupstaður, dýpkun og stálþil togarabryggju 75     % 1,2 0,9 0,7
Neskaupstaður, stálþil við togarabryggju 60     % 40,5 32,6 19,5
Reyðarfjörður, hafnsögubátur fyrir stóriðjuhöfn 75     % 29,1 23,4 17,5
Djúpivogur Smábátaaðstaða, trébryggja endurbyggð og lengd 60     % 14,4 11,5 6,9
Dýpkað við þil í Gleðivík í 7 m 75     % 0,1 0,1 0,1
Hornafjörður Viðhaldsdýpkun 75     % 12,2 9,8 7,3
Grynnslin, stofndýpkun/viðhaldsdýpkun 75     % 15,3 12,3 9,2
Endurbygging Krosseyjarbakka 60     % 0,9 0,7 0,4
Bátstangabryggja, staurabryggja 60     % 49,8 40,0 24,0
Stofndýpkun innan hafnar 75     % 29,3 23,5 17,7
Vestmannaeyjar Friðarhöfn, norður- og austurkantur, endurbyggt stálþil 60     % 0,1 0,1 0,0
Friðarhöfn, stálþil vesturkantur 60     % 9,7 7,8 4,7
Básaskersbryggja endurbyggð 60     % 54,9 44,1 26,5
Bæjarbryggja endurbygging 60     % 0,0 0,0 0,0
Sveitarfélagið Ölfus (Þorlákshöfn) Austurgarður 75     % 0,7 0,5 0,4
Dýpkun, dæling (dýpkun í Austur- og Vesturhöfn) 75     % 100,3 80,6 60,4
Skjólgarður f/smábáta í Austurhöfn 75     % 2,4 1,9 1,4
Svartaskersgarður 75     % 3,9 3,1 2,4
Þil norðan Svartaskers 60     % 94,5 75,9 45,5
Dýpkun, dæling, bryggjurif (rífa fremsta hluta) 60     % 44,5 35,7 21,4
Aðstaða fyrir smábáta í austurhöfn, færa flotbryggju ofl. 60     % 1,9 1,5 0,9
Löndunarbryggja smábáta 60% 22,3 17,9 10,7
Grindavík Svíragarður, endurbygging 60     % 54,7 44,0 26,4
Dýpkun vestan Miðgarðs 75     % 0,1 0,0 0,0
Stálþilsbryggja vestan Miðgarðs 60     % 38,2 30,7 18,4
Breikkun innri rennu 75     % 0,0 0,0 0,0
Sandgerði Stálþil Norðurgarði, lagnir, þekja 60     % 0,4 0,3 0,2
Reykjanesbær Festipollar við vestur og austurenda Helguvíkur 60     % 0,0 0,0 0,0
Innan grunnnets alls      1.298,9 1.043,3 666,1
II. Utan grunnnets
Af óskiptu fé til Breiðdalsvík, endurbætur á stigum 60     % 0,5 0,4 0,2
slysavarna Grímsey, þybba (verk frá 2005) 60     % 1,2 1,0 0,6
Snæfellsbær Arnarstapi, ljósamastur og vatnshús 60     % 0,0 0,0 0,0
Búðardalur Gamla br. í Búðardal, endurb. kanttré, þybbur og stigar 60     % 0,0 0,0 0,0
Reykhólar Dýpkun innsiglingar. 75     % 0,0 0,0 0,0
Vesturbyggð Bíldudalur, kalkþörungahöfn 60     % 27,9 22,4 13,4
Bíldudalur, dýpkun við þil 75     % 0,0 0,0 0,0
Brjánslækur, ferjuaðstaða 60     % 1,7 1,4 0,8
Tálknafjarðarhöfn Endurnýjun innsiglingarbauju 60     % 1,0 0,8 0,5
Ísafjarðarhöfn Þingeyri, rífa gömlu trébryggjuna við ytri hafnargerð ofl. 60     % 0,1 0,0 0,0
Suðureyri, stækkun smábátahafnar og dýpkun 75     % 0,0 0,0 0,0
Suðureyri, innsiglingarbaujur 75     % 2,8 2,3 1,7
Norðurfjörður Dýpka í tvo metra í smábátahöfn 75     % 0,1 0,0 0,0
Drangsnes Uppsátur 60     % 0,1 0,1 0,1
Innsiglingarbaujur 75     % 0,1 0,1 0,1
Húnaþing vestra Endurbygging Suðurbryggju á Hvammstanga 60     % 0,0 0,0 0,0
Dýpkun smábátahafnar Hvammstanga 75     % 6,4 5,1 3,8
Skagafjörður Hofsós, flotbryggja út frá Árgarði 60     % 6,2 5,0 3,0
Hofsós, Norðurgarður, bryggjuveggur 60     % 0,0 0,0 0,0
Viðhaldsdýpkun í Haganesvík 75     % 0,2 0,2 0,1
Grímsey Styrking grjótvarnar á hafnargarði, grjót úr landi 75     % 0,2 0,2 0,1
Lenging harðviðarbryggju í tvo m 60     % 0,7 0,6 0,3
Hafnasamlag Norðurlands Grenivík, uppsátur fyrir smábáta 60     % 0,5 0,4 0,2
Kópasker Viðlegubryggja fyrir smábáta 60     % 0,0 0,0 0,0
Bakkafjörður Landrafmagn á flotbryggju og uppsátur 60     % 0,6 0,5 0,3
Löndunarbryggja frágangur og uppgjör 60     % 0,0 0,0 0,0
Borgarfjörður eystri Lenging Nýjubryggju 60     % 3,6 2,9 1,7
Bakkafjara Ferjulægi 100     % 43,2 34,7 34,7
Alls utan grunnnets      97,3 78,1 62,0
III. Ferjubryggjur
Ferjubryggjur óskipt 100     % 0,5 0,4 0,4
Skáleyjar, ferjubryggja 100     % 0,5 0,4 0,4
Staður, ferjubryggja 100     % 0,7 0,6 0,6
Vigur, ferjubryggja 100     % 0,1 0,1 0,1
Ögur, ferjubryggja 100     % 0,0 0,0 0,0
Flatey, ferjubryggja 100     % 0,4 0,3 0,3
Reykjanes, ferjubryggja 100     % 2,5 2,0 2,0
Arngerðareyri, ferjubryggja 100     % 0,1 0,1 0,1
Æðey, ferjubryggja 100     % 0,0 0,0 0,0
Bæir, ferjubryggja 100     % 1,6 1,3 1,3
Holt, Önundarfirði, ferjubryggja 100     % 0,1 0,1 0,1
Ferjubryggjur alls      6,6 5,3 5,3
IV. Lendingarbætur
Lendingarbætur óskipt 100     % 0,6 0,5 0,5
Englendingavík, Borgarnesi 100     % 1,0 0,8 0,8
Legufæri við Galtarvita 100     % 0,4 0,3 0,3
Ingólfsfjörður við Ós 100     % 1,1 0,9 0,9
Reykjafjörður, Hornströndum 100     % 1,2 1,0 1,0
Selvík á Skaga 100     % 0,6 0,5 0,5
Reykir 100     % 1,5 1,2 1,2
Flatey á Skjálfanda 100     % 0,6 0,5 0,5
Rifsós lendingarbætur við eldisstöð 100     % 1,7 1,4 1,4
Lendingarbætur alls      8,8 7,1 7,1


Tafla II. Kostnaður við sjóvarnir 2006 (fjárhæðir í millj. kr.).

Heildar- kostnaður Ríkis- hluti
Innri-Akraneshreppur 0,9 0,8
Akranes 1,2 1,0
Snæfellsbær 4,3 3,8
Ísafjarðarbær 0,5 0,4
Súðavík 0,0 0,0
Blönduós 1,6 1,4
Húnaþing vestra 0,1 0,1
Skagafjörður 16,7 14,6
Siglufjörður 0,1 0,1
Ólafsfjörður 0,0 0,0
Svalbarðsstrandarhreppur 0,2 0,2
Borgarfjörður eystri 0,0 0,0
Mýrdalur 0,4 0,3
Ölfus 0,0 0,0
Árborg 16,8 14,7
Sandgerði 20,9 18,3
Gerðahreppur 3,6 3,2
Vatnsleysustrandarhreppur 0,6 0,5
Álftanes 11,8 10,3
Óskipt 0,1 0,1
Samtals: 79,8 69,9


Tafla III. Staða ríkissjóðs vegna hafnargerða 2006 (fjárhæðir í millj.kr.).

Staða ríkissjóðs
í árslok
Ríkishluti
framkvæmda
Fjárveiting Flutt til
Höfn: 2005 2006 2006 2007
Snæfellsbær 3,2 29,6 55,5 29,2
Grundarfjörður 27,1 30,0 37,2 34,3
Stykkishólmur 11,5 1,0 0,0 10,5
Búðardalur 1,7 0,0 0,0 1,7
Reykhólahöfn 6,8 0,0 0,0 6,7
Vesturbyggð 31,7 13,4 0,0 18,3
Tálknafjörður 1,0 0,0 0,0 1,0
Bolungarvík 25,5 0,0 0,0 25,5
Ísafjarðarbær 34,0 26,3 14,6 22,4
Norðurfjörður 0,6 0,0 1,4 2,0
Drangsnes 0,5 0,1 0,0 0,4
Hólmavík 3,4 0,0 0,0 3,4
Húnaþing vestra 0,0 0,0 0,0 0,0
Blönduós 0,8 0,0 0,0 0,8
Skagaströnd 44,3 0,3 7,9 51,9
Skagafjörður 9,7 25,0 16,8 1,5
Siglufjörður 29,3 0,0 0,0 29,3
Hafnasamlag Eyjafjarðar 37,1 3,0 0,0 34,0
Grímsey 8,7 0,5 0,0 8,2
Hafnasamlag Norðurlands 58,8 33,6 32,6 57,7
Húsavík 26,4 12,0 44,2 58,6
Kópasker 0,6 0,0 0,0 0,6
Raufarhöfn 10,0 1,6 0,0 8,4
Þórshöfn 27,5 18,9 24,7 33,3
Bakkafjörður 1,9 0,3 0,0 1,6
Vopnafjörður 12,9 39,9 40,6 13,6
Borgarfjörður eystri 3,2 1,7 0,0 1,4
Seyðisfjörður 34,1 26,0 26,5 34,7
Fjarðabyggð 24,0 115,7 173,5 81,8
Austurbyggð 2,4 0,0 0,0 2,4
Breiðdalsvík 0,8 0,0 0,0 0,8
Djúpivogur 20,0 7,0 0,0 13,0
Hornafjarðarbær 61,1 51,3 41,4 51,2
Vestmannaeyjar 81,1 31,2 40,0 89,9
Bakkafjara – ferjulægi 5,6 34,7 10,0 -19,1
Þorlákshöfn 101,4 143,2 139,8 97,9
Grindavík 101,1 44,8 44,8 101,1
Sandgerði 13,9 0,2 0,0 13,7
Reykjaneshöfn 1,9 0,0 0,0 1,9
Óskipt til viðhaldsdýpkana/ skjólgarða 35,9 29,7 50,3 56,5
Óskipt til slysavarna 20,2 6,8 15,0 28,4
Lendingarbætur 5,0 7,1 7,0 4,9
Ferjubryggjur 13,7 5,4 8,8 17,1
Samtals: 940,4 740,5 832,6 1032,5


Tafla IV. Fjárveitingar til hafnarframkvæmda 2006 (millj. kr.).

Hafnir í grunnneti samgangna 791,5
Hafnir utan grunnnets samgangna 25,3
Lendingarbætur 7,0
Ferjubryggjur 8,8
Samtals 832,6


Tafla V. Fjárveitingar til sjóvarna 2006 (fjárlagaliður 10-335).

Akranes 10.310.000
Innri-Akraneshreppur 4.536.000
Snæfellsbær 13.403.000
Ísafjarðarbær 15.465.000
Súðavíkurhreppur 7.629.000
Bæjarhreppur 6.908.000
Húnaþing vestra 7.320.000
Borgarfjarðahreppur 4.537.000
Mýrdalshreppur 4.227.000
Sandgerði 18.456.000
Gerðahreppur 8.352.000
Vatnsleysustrandarhreppur 12.888.000
Óskipt 5.569.000
Samtals 119.600.000


Tafla VI. Úthlutanir Hafnabótasjóðs 2006.

Styrkir til nýframkvæmda
Grundarfjörður 8.400.000
Norðurfjörður 300.000
Hólmavík 100.000
Grímsey 500.000
Þórshöfn 2.500.000
Vopnafjörður 11.600.000
Styrkir alls: 23.400.000


Lán.
Engin lán veitt á árinu.