Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 303. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 375  —  303. mál.
Fyrirsögn.




Tillaga til þingsályktunar



um aukið öryggi við framkvæmdir hins opinbera.

Flm.: Ármann Kr. Ólafsson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að endurskoða innkaupastefnu ríkisins með það að markmiði að:
     a.      tryggja sem best öryggi, heilsu og aðbúnað starfsfólks bjóðenda svo að tíðni slysa og atvinnutengdra kvilla verði lægst á Íslandi meðal OECD-landa,
     b.      koma í veg fyrir óhöpp eða slys við framkvæmdir á vegum hins opinbera.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt í ljósi þess að fjöldamörg slys á vinnustöðum og í tengslum við framkvæmdir má rekja til þess að ekki er nægilega vel hugað að öryggismálum. Sem stærsti kaupandinn á vörum og þjónustu hérlendis getur hið opinbera haft mikið að segja í þessum efnum með því að sýna gott fordæmi og setja reglur um val á verktökum og birgjum með tilliti til frammistöðu þeirra í öryggismálum og heilsuvernd. Íslenskt atvinnulíf og samfélag hefur alla burði til þess að verða fyrsta samfélag heims til þess að setja sér núllslysastefnu.
    Það sem er sameiginlegt með þeim sem skara fram úr á alþjóðlegum vettvangi varðandi lága slysatíðni og atvinnutengda kvilla er afdráttarlaus stefna um að engin slys eða óhöpp séu réttlætanleg á vinnustað. Slík stefna byggist á þeirri hugmyndafræði að það sé grundvallarréttur einstaklinga að snúa ávallt heilir heim og stefnan snýr bæði að starfsfólki og öðrum á vinnustaðnum. Þá snýr markmiðið líka að almenningi sem oft verður að treysta á að framkvæmdaaðilar fylgi öryggi í hvívetna, t.d. við bygginga- og vegaframkvæmdir.
    Með skipulögðu vinnuverndarstarfi þar sem áhættuþættir starfa eru greindir og mikil áhersla er lögð á að fyrirbyggja hættu næst verulegur árangur. Sem dæmi um það má nefna frábæran árangur sem Bechtel og Alcoa hafa náð á starfssvæði Fjarðaáls á Reyðarfirði þar sem fjarveruslysatíðnin er einungis 0,09 fjarveruslys á hverjar 200.000 vinnustundir (1 af hverjum 1.100 vinnandi einstaklingum). Hér er um að ræða 10 sinnum betri árangur en almennt gerist hérlendis ef tekið er mið af meðaltali allra vinnandi stétta á Íslandi. Miðað við vinnutíma Íslendinga og fjölda vinnuslysa sem leiða til fjarveru frá vinnu er meðalfjarveruslysatíðni allra stétta um 0,91 fjarveruslys á hverjar 200.000 vinnustundir (1 af hverjum 110 vinnandi einstaklingum). Ef tekið er mið af vinnuslysatíðni við mannvirkjagerð á Íslandi er um 1,47 fjarveruslys á hverjar 200.000 vinnustundir (1 af hverjum 68 vinnandi einstaklingum), sbr. eftirfarandi mynd.

Samanburður á fjarveruslysatíðni.
(Heimild: Svava Jónsdóttir: Áhættumat – Öryggismenning.
Björgun 2. tbl. 6. árg. 2006.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Framangreindur samanburður er áhugaverður í því ljósi að kostnaður verkkaupa Fjarðaálsverkefnisins er ekki meiri en ella þrátt fyrir þennan markverða árangur. Lykillinn að árangrinum liggur fyrst og fremst í hugmyndafræði og aðferðafræði við nálgun sérhvers verkefnis. Eitt af því sem Ríkiskaup gætu tekið sér til fyrirmyndar væri að byggja val sitt á verktökum/birgjum m.a. á árangri viðkomandi aðila í öryggis- og heilsuverndarmálum, þ.e. að bjóðendur þyrftu að leggja fram slysa- og atvinnusjúkdómatölfræði og slíkt hefði 25–50% vægi við sérhverja ákvörðun.
    Vakin skal sérstök athygli á því að hið opinbera er einn stærsti kaupandi þjónustu í mannvirkjagerð á Íslandi og því mjög fordæmisgefandi hvað varðar þær kröfur sem eru gerðar til þjónustuaðila og/eða birgja.