Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 252. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 403  —  252. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar um störf hjá ráðuneytinu.

     1.      Hversu mikið hefur störfum hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess fjölgað eða fækkað það sem af er þessu ári á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og utan þess hins vegar?
    Það sem af er þessu ári hefur starfsfólki fjármálaráðuneytisins og undirstofnana þess á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 22. Munar þar mest um að 11 starfsmenn Lánasýslu ríkisins létu af störfum þegar stofnunin var lögð niður 1. október sl. Þar af fluttust 5 starfsmenn Lánasýslunnar til Seðlabanka Íslands sem yfirtók verkefni stofnunarinnar. Þá hefur fækkað um 7 starfsmenn hjá embætti ríkisskattstjóra það sem af er árinu og 4 hjá Fasteignamati ríkisins í Reykjavík.
    Örlítil fjölgun starfsfólks hefur átt sér stað á landsbyggðinni það sem af er þessu ári. Á starfsstöð Fasteignamats ríkisins á Akureyri hefur fjölgað um einn starfsmann og einnig hefur fjölgað um einn starfsmann á starfsstöð stofnunarinnar á Selfossi vegna aukins umfangs í umdæmum stofnunarinnar.

     2.      Hversu mikið er áætlað að störfum hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess fjölgi utan höfuðborgarsvæðisins á næsta ári?
    Ekki liggur fyrir áætlun um fjölgun starfa á landsbyggðinni á næsta ári. Eins og undanfarin ár mun fjármálaráðuneytið halda áfram að kanna með skipulögðum hætti kosti þess að koma á fót eða flytja verkefni á ábyrgðarsviði ráðuneytisins undir stofnanir þess á landsbyggðinni með það fyrir augum að efla starfsemi þar.