Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 186. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 526  —  186. mál.
Leiðréttur texti.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um aðstoð við fyrrverandi vistmenn upptökuheimila.

     1.      Með hvaða hætti hefur sú aðstoð sem heitið var fyrrverandi vistmönnum, aðstandendum og starfsfólki Breiðavíkurheimilisins og annarra sambærilegra vistheimila verið veitt?

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í kjölfar mikillar og opinskárrar umfjöllunar í fjölmiðlum í byrjun febrúar sl. um meint líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi sem fyrrverandi vistmenn Breiðavíkurheimilisins kváðust hafa orðið fyrir var ákveðið á ríkisstjórnarfundi 13. febrúar sl. að skipa þverfaglegt teymi á geðsviði Landspítalans til að meta þörf þeirra fyrir aðstoð. Teymið er skipað þremur sérfræðingum, þ.e. geðlækni og tveimur sálfræðingum, þar af öðrum utan geðsviðs Landspítala. Í framhaldi var geðsviði Landspítala falið að sjá um móttöku þeirra fyrrverandi vistmanna er leituðu eftir aðstoð og hefur miðstöð þjónustunnar verið þar. Í fyrstu var aðstoðin einungis bundin við fyrrverandi vistmenn Breiðavíkurheimilisins og stóð það tilboð til 31. mars sl. en um miðjan mars var aðstoðin framlengd til 31. maí og þá jafnframt boðin þeim er dvalið höfðu á öðrum vistheimilum eða stofnunum, sem reknar hafa verið af framlögum ríkis eða sveitarfélaga, og sem telja sig hafa þurft að þola ofbeldi af hálfu starfsmanna eða annarra vistmanna. Í tilkynningu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins þann 16. mars sl. var tekið fram að úrræði þetta væri tímabundið. Af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis náði þetta úrræði hvorki til aðstandenda fyrrverandi vistmanna né starfsmanna.
    Teymið sem skipað var setti strax í upphafi fram verklagsreglur sem unnið hefur verið eftir. Ákveðið var að sjálf þjónustan færi fram utan spítalans hjá sálfræðingum er hefðu reynslu af meðferð sams konar mála. Reyndur starfsmaður á geðsviði var skipaður tengiliður milli þeirra sem leituðu aðstoðar og þeirra sem veittu hana og jafnframt til að hafa umsjón með þjónustunni. Þeim fyrrverandi vistmönnum sem virtust vera í þörf fyrir bráðaþjónustu var boðið að koma umsvifalaust á göngudeild geðsviðs, bráða- og ferlideild, við Hringbraut þar sem þeir fengu viðeigandi aðstoð.
    Öllum fyrrverandi vistmönnum sem komu á göngudeild geðsviðs eða báðu um aðstoð símleiðis var boðið að koma til viðtals við reyndan sálfræðing á deildinni sem kannaði m.a. hvernig þeim leið og hversu mikið lægi á að þeir fengju aðstoð. Gert var einfalt áhættumat, m.a. með tilliti til sjálfsvígshættu. Í framhaldi var viðkomandi síðan boðið upp á meðferð hjá sálfræðingi á einkastofu með útskýringum um að sú meðferð væri viðkomandi að kostnaðarlausu. Þeir sem af einhverjum ástæðum treystu sér ekki til að koma til viðtals á geðdeildina var boðið upp á aðstoð hjá sálfræðingi á einkastofu þegar í stað, milliliðalaust. Boðið hefur verið upp á sálfræðimeðferð í allt að tíu skipti í byrjun fyrir hvern einstakling og að þeim loknum lagt mat á þörf fyrir frekari aðstoð í samráði við teymið.

     2.      Hversu margir hafa þegið aðstoð og hvaða heimilum hafa viðkomandi tengst?
    Nú hafa 32 fyrrverandi vistmenn Breiðavíkurheimilisins fengið meðferð og hefur fjórðungur þeirra lokið meðferð eða telja sig ekki hafa þörf fyrir frekari meðferð. Auk þeirra hafa

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


12 fyrrverandi vistmenn annarra heimila fengið aðstoð og einn lokið meðferð. Þetta eru fyrrverandi vistmenn ýmissa vistheimila, svo sem upptökuheimilisins í Kópavogi (4) og Kumbaravogs (3), en rúmur helmingur (7) munu hafa verið vistaður á nokkrum heimilum en upplýsingar um hvort hinir fimm dvöldu á einu eða fleiri vistheimilum liggja ekki fyrir. Geðsvið Landspítala safnaði ekki upplýsingum sérstaklega um þetta efni enda hafði sviðinu ekki verið falið það verkefni heldur að tryggja viðkomandi viðeigandi meðferð. Því eru ekki tiltækar tæmandi upplýsingar um á hvaða vistheimilum þeir einstaklingar dvöldu sem leituðu eftir aðstoð á Landspítala. Mögulega hafa slíkar upplýsingar komið fram í meðferðarstarfi en þar er um trúnaðarupplýsingar að ræða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Öllum fyrrverandi vistmönnum stofnana eða vistheimila, sem rekin hafa verið af opinberu fé, sem leitað hafa til geðsviðs Landspítala frá því um miðjan febrúar hefur því staðið til boða sálfræðiaðstoð. Geðsvið Landspítala hefur skipulagt þessa þjónustu en sálfræðimeðferðin sem veitt hefur verið utan stofnunarinnar er einstaklingunum að kostnaðarlausu. Gera má ráð fyrir að einhverjir þessara skjólstæðinga þurfi á langtímameðferð að halda, þ.e. reglulegum viðtölum í meira en ár, en erfitt er án ítarlegrar greiningar að gera sér grein fyrir hversu margir það eru á þessari stundu.