Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 255. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 528  —  255. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar um störf hjá ráðuneytinu.

     1.      Hversu mikið hefur störfum hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess fjölgað eða fækkað það sem af er þessu ári á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og utan þess hins vegar?
    Fjöldi stöðugilda hjá stofnunum ráðuneytisins á höfuðborgarsvæðinu hefur nánast staðið í stað á árinu 2007. Þannig voru stöðugildi á stofnunum ráðuneytisins á höfuðborgarsvæðinu 4.973 í janúar en 4.971 í október.
    Á landsbyggðinni hefur stöðugildum fjölgað lítillega milli janúar og október eða um 2%. Þannig var fjöldi stöðugilda á landsbyggðinni 1.928 í janúar en 1.960 í október.

     2.      Hversu mikið er áætlað að störfum hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess fjölgi utan höfuðborgarsvæðisins á næsta ári?
    Ekki hafa verið teknar beinar ákvarðanir um fjölgun starfsmanna stofnana ráðuneytisins utan höfuðborgarsvæðisins á næsta ári en auknar fjárveitingar fela í mörgum tilfellum í sér fjölgun starfsmanna. Bæði á það við þegar rekstrargrunnur stofnana er styrktur eins og gert er hjá mörgum stofnunum ráðuneytisins og með fjárveitingum til ákveðinna viðfangsefna eins og hér fyrir neðan eru nefnd nokkur dæmi um:
    Framlög til Sjúkrahússins á Akureyri hækka alls um 82 millj. kr. Meðal annars um 10 millj. kr. til reksturs nýrrar líknardeildar, 22 millj. kr. til uppbyggingar blóðbankaþjónustu á landsvísu og 10 millj. kr. til að mæta kostnaði við meðferð psoriasis- og exemsjúklinga.
    Framlög eru aukin um 8 millj. kr. til að auka heima- og skólahjúkrun á starfssvæði Heilbrigðisstofnunarinnar Patreksfirði og um sömu fjárhæð til að auka heimahjúkrun hjá Heilbrigðisstofnuninni Ísafjarðarbæ.
    Veittar eru 4,5 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Austurlands og sömu fjárhæð til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að bæta þjónustu við ungmenni með hegðunar- og geðraskanir með aukinni samvinnu þeirra sem veita grunnþjónustu.
    Veittar eru 46 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að efla klíníska starfsemi þar.
    Þá hefur verið ákveðið að veita 300 millj. kr. til að efla heimahjúkrun, m.a. á landsbyggðinni sem mun hafa í för með sér talsverða fjölgun starfa þar.