Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 340. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 576  —  340. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að ræður og ávörp ráðamanna liggi fyrir á íslensku.

Flm.: Mörður Árnason og Karl V. Matthíasson.



    Alþingi ályktar að beina því til forseta Íslands og ráðherra að ræður og ávörp sem þeir flytja á erlendri tungu liggi fyrir á íslensku samtímis eða svo skjótt sem auðið er.

Greinargerð.


    Á tímum ört vaxandi alþjóðasamskipta hefur mjög færst í vöxt að ræður og ávörp forystumanna á ýmsum sviðum séu samin og flutt á öðru máli en íslensku, oft ensku. Þessir textar eru sumir hverjir mikilvægir fyrir íslenskt samfélag, varða hagsmuni Íslendinga og eru hluti af stjórnmála- og samfélagsumræðu í landinu.
    Eðlilegt er að slíkar ræður og ávörp æðstu ráðamanna liggi fyrir á íslensku, helst við flutning eða birtingu en ella eins skjótt og auðið er. Með þeim hætti geta allir landsmenn kynnt sér hvað sagt er í þeirra nafni við erlenda menn, og með „opinberri“ þýðingu er ekki hætta á að orð ráðamanna á erlendri grund eða við alþjóðleg tækifæri sæti rangþýðingu eða mistúlkun vegna tungumálaörðugleika. Þá má ætla að íslenskur texti greiði fyrir við vinnslu og flutning frétta á Íslandi af slíkum ræðuhöldum.
    Skynsamlegt er að settar verði um þetta almennar reglur, til dæmis í forsætisráðuneytinu, og mætti fela hinni ágætu þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins þessi verkefni ef þau eru vandleyst á skrifstofum forseta, ráðherra og annarra ráðamanna. Við fjárlagasmíð þyrfti að gera ráð fyrir lítilsháttar útgjaldaauka vegna þessa íslenskunarstarfs.



Fylgiskjal.


Yfirlit um óþýddar ræður og ávörp á vefsetrum
forseta Íslands og forsætisráðherra árið 2007
og utanríkisráðherra júní–desember sama ár.


A. Óþýddar ræður og ávörp árið 2007 á vefsetri forseta Íslands.
    Í stuttri kynningu kemur ekki fram á hvaða máli textarnir eru nema þeir sem eru á dönsku eða norsku. Efnisinnihaldi er ekki lýst en getið rækilega um tilefni. Heiti og kynning eru tekin af vef forseta Íslands, www.forseti.is.
     *      22.1. 2007. Ræða forseta á ráðstefnunni Delhi Sustainable Development Summit í Nýju- Delí á Indlandi.
     *      30.1. 2007. Ræða forseta á ráðstefnunni „The Microsoft Government Leaders Forum“, The New Democracy: How Technology Empowers Citizens to be Active, Influential and Global.
     *      9.2. 2007. Ræða forseta á málþingi Dansk Industri og Dansk-íslenska verslunarráðsins. Hvorfor er islandske firmaer så innovative – giver det anledning til forundring? Ræðan er á dönsku.
     *      9.2. 2007. Ræða forseta flutt í menningarmiðstöðinni Norðurbryggju í Kaupmannahöfn: Gullfoss: Et skibs historie – nationers historie. Ræðan er á dönsku.
     *      9.2. 2007. Ræða forseta flutt í húsakynnum Kunstforeningen Gammel Strand í Kaupmannahöfn. København: Islands hovedstad i 500 år. Ræðan er á dönsku.
     *      19.2. 2007. Ræða forseta í kvöldverði á Bessastöðum til heiðurs forseta Djíbútís, Ismail Omar Guelleh.
     *      25.4. 2007. Ræða forseta hjá East West Institute: The 200th Anniversary of US-Russian Diplomatic Relations.
     *      27.4. 2007. Setningarræða forseta á ársþingi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi (Icelandic National League) í Winnipeg, Kanada.
     *      10.5. 2007. Ræða forseta á norrænni skólamálaráðstefnu: Þekking – kraftur – sköpun. Ræðan flutt á norsku: Kunnskap – kraft og kreativitet.
     *      31.5. 2007. Kveðja forseta í dagskrá ráðstefnunnar Nordic Conference on Research on Autism Spectrum Disorders.
     *      31.5. 2007. Forseti setur norræna ráðstefnu um einhverfu, Nordic Conference on Research on Autism Spectrum Disorders, en ráðstefnuna sækja vísindamenn og sérfræðingar víða að úr veröldinni.
     *      9.6. 2007. Ávarp forseta lesið í Pétursborg þegar Þorsteini Sigfússyni voru afhent verðlaun, Global Energy International Award, fyrir framlag hans á sviði orkumála.
     *      29.6. 2007. Ræða forseta á ráðstefnu OECD í Istanbul (OECD World Forum). Transformation of the Energy Systems Prevents Climate Change. If we can do it, so can others!
     *      3.8. 2007. Kveðja forseta til samkomu Vestur-Íslendinga í Norður-Dakota vegna afhjúpunar á minnismerki vegna Þingvallakirkju þeirra er brann fyrir nokkrum árum.
     *      4.9. 2007. Ræða á hátíðarfundi alþjóðlegrar ráðstefnu um landgræðslu og loftslagsbreytingar á Selfossi: Sharing Knowledge and Experience with Others. Centenary of the Conservation of Soil and Vegetation in Iceland.
     *      6.9. 2007. Efnisþættir fyrirlestrar sem fluttur var í boði Alþjóðlegu friðarakademíunnar (International Peace Academy) í New York.

B. Óþýddar ræður og ávörp árið 2007 á vefsetri forsætisráðherra.
    Yfirlit efnis fylgir tveimur textum. Einu sinni kemur fram í kynningu að textinn sé á erlendu máli. Heiti og kynning eru tekin af vef forsætisráðuneytisins, www.forsaetisraduneyti.is.
     *      Ræða forsætisráðherra Geirs H. Haarde um samskipti Íslands og Noregs, „Norsk- islandsk samarbeid i ny tid,“ í Norska verslunarháskólanum í Bergen þann 22. janúar 2007.
     *      Ávarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, í tilefni af heimsókn hermálanefndar NATO mánudaginn 2. apríl 2007 (ræðan er á ensku).
     *      Ávarp Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á Íslendingadegi í Mountain, Norður-Dakóta laugardaginn 4. ágúst 2007.
     *      Ávarp Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á Íslendingadegi í Gimli Park mánudaginn 6. ágúst 2007.
     *      Ávarp forsætisráðherra á fundi þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsins 9. október 2007.
             Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ávarpaði í dag fund þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsins og fjallaði um alþjóðleg öryggismál og hlutverk bandalagsins í því samhengi. Þá gerði hann grein fyrir breyttu öryggisumhverfi Íslands og nýlegum ráðstöfunum íslenskra stjórnvalda á sviði öryggis- og varnarmála.
     *      Ávarp forsætisráðherra á fundi hjá Ítalsk-íslenska viðskiptaráðinu í Róm 26.10. 2007.
             Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ávarpaði í dag hádegisverðarfund Ítalsk-íslenska viðskiptaráðsins í Róm og fjallaði um þróun efnahagsmála á Íslandi og viðskipti og fjárfestingar á milli Íslands og Ítalíu. Þar flutti einnig ávarp Emma Bonino, utanríkisviðskiptaráðherra Ítalíu. Þau greindu frá því að ákveðið hefði verið að stofna sérstakan samstarfshóp ríkjanna tveggja sem ætlað yrði að greina með hvaða hætti væri hægt að efla þessi samskipti enn frekar.

C. Óþýddar ræður og ávörp árið 2007 á vefsetri utanríkisráðherra.
    Í kynningu er getið tungumáls en ekki tiltekin efnisatriði textans umfram það sem kemur fram í heiti eða tilefni. Heiti og kynning eru tekin af vef utanríkisráðuneytisins, www.utanrikisraduneyti.is.
     *      13.6. 2007: Utanríkisráðherrafundur Eystrasaltsríkjanna. Ávarp utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, á utanríkisráðherrafundi Eystrasaltsríkjanna í Malmö (á ensku).
     *      15.6. 2007: Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins á Húsavík. Erindi utanríkisráðherra á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um „Vestnorden i en globaliseret verden“ (á dönsku).
     *      29.8. 2007: Nýtt tímaskeið í öryggis- og varnarmálum. Setningarávarp Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra á ráðstefnunni „Kapphlaupið til Norðurpólsins“ (á dönsku).
     *      24.9. 2007: Ávarp utanríkisráðherra um loftslagsmál. Ávarp Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra á þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (á ensku).
     *      28.9. 2007: Ræða utanríkisráðherra á 62. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra á 62. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (á ensku).
     *      6.10. 2007: Breytt bandalag – ný staða Íslands. Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, á þingi þingmannasamtaka NATO 6. október 2007 (á ensku).
     *      13.10. 2007: Íslensk fyrirtæki í útrás á Eystrasaltssvæðinu. Tímaritsgrein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, um útrás íslenskra fyrirtækja á Eystrasaltssvæðinu. Baltic Rim Economics Review (á ensku).