Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 577  —  341. mál.




Beiðni um skýrslu



frá utanríkisráðherra um skuldbindingar íslenskra sveitarfélaga í EES-samningnum.

Frá Árna Þór Sigurðssyni, Atla Gíslasyni, Álfheiði Ingadóttur, Dýrleifu Skjóldal,


Jóni Bjarnasyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Steinunni Þóru Árnadóttur,


Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að utanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu sveitarfélaganna gagnvart samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem og áhrif samningsins á rekstur og starfsemi sveitarfélaganna. Meðal annars er óskað eftir því að í skýrslunni verði gerð grein fyrir og fjallað um eftirfarandi þætti:
     1.      formlega stöðu sveitarfélaganna til að fylgjast með rekstri EES-samningsins og taka þátt í umræðu um framvindu hans;
     2.      tækifæri þeirra annars vegar til að taka þátt í umræðu um þau mál sem eru til umfjöllunar og undirbúnings hjá Evrópusambandinu og kunna að verða löggjöf sem tekin er upp í EES-samninginn og hins vegar til að fjalla um þá löggjöf (gerðir) sem enn er til umfjöllunar hjá EFTA-skrifstofunni í Brussel og íslenskum stjórnvöldum og varðar sveitarfélögin;
     3.      samráð milli ríkis og sveitarfélaga um rekstur EES-samningsins, svo sem hvað kostnaðarmat varðar og um afstöðu til mála sem eru til umfjöllunar og eru líkleg til að hafa áhrif á íslensk sveitarfélög;
     4.      þær gerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og varða verkefni og rekstur sveitarfélaganna, og sérstaklega þær gerðir sem mest áhrif hafa haft á sveitarfélögin frá gildistöku EES-samningsins og hvort og þá hvernig kostnaðarauka sveitarfélaganna hefur verið mætt;
     5.      stærstu mál sem eru á döfinni og kunna að varða sveitarfélögin. Má þar nefna að á vettvangi ESB var nýlega samþykkt svonefnd þjónustutilskipun auk þess sem kynntar hafa verið hugmyndir um mögulega lagasetningu um almannaþjónustu sem gæti haft mikil áhrif á sveitarfélögin og fyllsta ástæða er til að fylgjast grannt með. Einnig má nefna endurskoðun rammalöggjafar um úrgangsmál, stefnumótun í málefnum hafsins, löggjöf um verndun jarðvegs og margt fleira;
     6.      framgang tillagna starfshóps utanríkisráðuneytisins og sveitarfélaganna frá janúar 2004 um EES-samninginn og hagsmuni íslenskra sveitarfélaga.

Greinargerð.


    Markmið þessarar skýrslubeiðni er að fá greinargott yfirlit yfir stöðu sveitarfélaganna gagnvart EES-samningnum og kostnað þeirra við að standa undir skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist með aðildinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Almennt er talið að staðbundin stjórnvöld standi undir allt að 3/ 4hlutum vegna innleiðingar og framkvæmdar löggjafar og gerða á vegum Evrópusambandsins og má ætla að hluti sveitarfélaga í EES-ríkjum vegna EES-samningsins sé ekki fjarri því sem á við um löggjöf Evrópusambandsins. Hagsmunir sveitarstjórnarstigsins eru því ríkir þegar kemur að umfjöllun um EES-samninginn og þær skuldbindingar sem hann hefur í för með sér. Mikilvægt er að stjórnvöld hafi gott samstarf við sveitarfélögin um hvaðeina sem lýtur að aðild Íslands að samningnum og varðar sveitarfélögin sérstaklega. Því er óskað eftir því að skýrslan taki m.a. til þess hvernig samstarfi ríkis og sveitarfélaga er háttað á þessu sviði og hvernig stjórnvöld hafa fylgt eftir sameiginlegum tillögum nefndar utanríkisráðuneytisins og sveitarfélaganna frá því í janúar 2004.
    Tekjustofnar sveitarfélaga og umræður um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafa verið áberandi í umræðu að undanförnu, m.a. í tengslum við viðræður ríkis og sveitarfélaga um verkaskipti og í tengslum við fjármálaráðstefnur sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa lagt áherslu á að fjölmörg verkefni hafi verið flutt frá ríki til sveitarfélaga, í sumum tilvikum án þess að samið hafi verið um tekjustofna til að standa undir nýjum verkefnum. Þær umræður hafa þó einkum beinst að verkefnum sem ákveðin hafa verið af íslenskum stjórnvöldum, löggjafarvaldi eða framkvæmdarvaldi. Minna hefur verið fjallað um kostnaðaráhrif þeirra margháttuðu verkefna og skuldbindinga sem EES-samningurinn hefur haft í för með sér.
    Ljóst er að EES-samningurinn tekur til fjölmargra málaflokka sem varða sveitarfélögin miklu. Má þar nefna vinnumarkaðsmál, umhverfismál, félagsmál, reglur um opinber innkaup og útboð, hafnamál og margt fleira. Hvergi liggur fyrir, að því er best er vitað, heildstætt yfirlit yfir þessar skuldbindingar og enn síður hvað þær hafa kostað íslensk sveitarfélög. Því er brýnt að unnin verði skýrsla um þetta mikilvæga mál og hún lögð fyrir Alþingi.
    Loks er óskað eftir því að gerð verði grein fyrir stærstu málum sem eru á döfinni og kunna að varða sveitarfélögin og í því sambandi er sérstaklega vikið að þjónustutilskipuninni og hugsanlegri lagasetningu Evrópusambandsins á sviði almannaþjónustu sem mjög hefur verið í umræðu.
    Þau málefni sem þessi skýrslubeiðni tekur til heyra undir fjölmörg ráðuneyti. Utanríkisráðuneytið fer með EES-samninginn sem slíkan, samgönguráðuneytið með málefni sveitarfélaga, fjármálaráðuneytið fer með kostnaðarmat frumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla, auk þess sem einstök ráðuneyti hafa með höndum innleiðingu einstakra gerða, hvert á sínu málasviði. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er þó á forræði utanríkisráðuneytisins og er skýrslubeiðninni þar af leiðandi beint til utanríkisráðherra en sjálfsagt er að leita enn fremur fanga hjá einstökum ráðuneytum og stofnunum og hjá sveitarfélögum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga eftir því sem við á.