Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 346. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 582  —  346. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun lagaákvæða um sóknargjöld.

Flm.: Kristján Þór Júlíusson.



    Alþingi ályktar að fela kirkjumálaráðherra að endurskoða ákvæði laga nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., svo að einstaklingar utan trúfélaga hafi aukið val um það hvert sóknargjöld þeirra renna.

Greinargerð.


    Sóknargjöld eru fjárframlög sem íslenska ríkið útdeilir af innheimtum tekjuskatti til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs. Gjaldið er greitt fyrir hvern einstakling sem náð hefur 16 ára aldri 31. desember árið fyrir gjaldár og er ráðstafað í samræmi við skráningu í trúfélag 1. desember árið fyrir gjaldár.
    Fyrir þá sem eru skráðir í Þjóðkirkjuna rennur gjaldið til safnaðar viðkomandi miðað við lögheimili, til annarra trúfélaga fyrir meðlimi þeirra og í Háskólasjóð fyrir þá sem eru skráðir utan trúfélaga eða tilheyra óskráðum trúfélögum.
    Lög nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., eru grundvöllurinn undir útdeilingu sóknargjalda en þau eru nánari útlistun á fyrirmælum 64. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir meðal annars að einstaklingur utan trúfélaga greiði til Háskóla Íslands þau gjöld sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Þessu má breyta með lögum.
    Þegar lögin voru sett var Háskóli Íslands eini háskóli landsins en svo er ekki lengur. Er því lagt til að fyrirkomulag þetta verði endurskoðað með það í huga hvort þeim einstaklingum sem standa utan trúfélaga geti verið gefinn kostur á að velja annan háskóla en þann sem tilgreindur er í núgildandi lögum. Jafnframt er mælst til að kannað verði hvort einstaklingar utan trúfélaga geti óskað eftir því að gjöld þeirra renni til ákveðinna líknarfélaga.