Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 584  —  348. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Álfheiður Ingadóttir,


Árni Þór Sigurðsson,     Atli Gíslason.



1. gr.

    2. og 3. málsl. 4. mgr. 4. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að fella brott undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum. Eftir stendur algjört bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða að gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.
    Sérfræðingar um kynferðisofbeldi hafa bent á að í skjóli nektardansstaða þrífist í mörgum tilfellum eiturlyfjasala og vændi, auk þess sem erfitt sé að ganga úr skugga um hvort þær stúlkur sem starfi á slíkum stöðum séu neyddar til starfans eður ei. Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi hér á landi ritaði Margrét Steinarsdóttir, lögfræðingur Alþjóðahúss, grein í Morgunblaðið 3. desember 2007 undir yfirskriftinni „Um mansal á Íslandi“. Í greininni kemur fram að á fundi íslenskra samstarfsaðila í þriggja ára tilraunaverkefni gegn mansali hafi fulltrúar Alþjóðahúss, Kvennaathvarfs, Stígamóta, lögreglunnar og félagsþjónustunnar allir staðfest að þeir hefðu átt samskipti við fórnarlömb mansals hér á landi. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um það að sú alþjóðlega glæpastarfsemi sem gengur út á að hagnýta sér bága stöðu kvenna til að leiða þær út í vændi eða aðra kynlífsþjónustu teygi anga sína hingað til lands og hafi jafnvel fest hér rætur. Auk greinar Margrétar má í þessu sambandi nefna skýrslur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um vændi frá 2001 og 2002. Loks má um þessi sjónarmið vitna til þemaheftis NIKK (Nordisk institutt for kunnskap om kjønn), sem út kom 2002, en þar er fjallað um mansal og tengslin milli mansals og vændis.
    Í ljósi þess að líkur eru á að vændi og mansal þrífist í skjóli nektardansstaða er erfitt að finna rök fyrir því að lögin veiti heimild til undanþágu frá almennu reglunni um að nektarsýningar skuli óheimilar á veitingastöðum. Ástæðan fyrir banninu á sínum tíma var að nýta það í baráttunni gegn vændi og mansali en undanþáguákvæðið stríðir óneitanlega gegn því meginmarkmiði.
    Umræða undangenginna ára um kynlífsþrælkun kvenna um allan heim hefur kennt okkur til hvaða úrræða hægt er að grípa. Þau úrræði hafa verið kynnt til sögunnar hér á landi, meðal annars í frumvarpi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um fórnarlambavernd (síðast flutt á 133. þingi, þskj. 39) og í frumvarpi um að kaup á vændi verði gerð refsiverð (síðast flutt sem breytingartillaga við frumvarp til almennra hegningarlaga á 133. þingi, þskj. 1206). Einnig hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ítrekað hvatt til þess að Palermo-samningurinn og viðauki við hann, þar sem segir m.a. að stjórnvöld skuli tryggja fórnarlömbum mansals vernd, ráðgjöf og upplýsingar, verði fullgiltur hér á landi. Þá hefur verið auglýst eftir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali, án árangurs, þar til í lokin á 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi hér á landi 2007, að Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra tilkynnti að nú skyldi bætt úr því. Öll önnur Norðurlönd hafa unnið slíka áætlun og er sannarlega tímabært að Íslendingar reki af sér slyðruorðið og komi saman slíkri áætlun.
    Það er mat flutningsmanna þessa frumvarps að nauðsynlegt sé að komast að rótum vandans, en það verði ekki gert nema með því að reyna að hafa áhrif á eftirspurnina eftir líkama kvenna til kynlífsathafna. Það verður einungis gert með því að koma ábyrgðinni þangað sem hún á heima, þ.e. á kaupendur vændis. Sú tillaga nýtur nú stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Capacent en þrátt fyrir það hafa íslensk stjórnvöld ekki enn sýnt kjark til að fara þá leið.
    Það vekur óneitanlega athygli hversu erfitt virðist vera að fá íslensk stjórnvöld til að axla ábyrgð á þeim mannréttindabrotum sem vísbendingar eru um að framin séu hér á landi. Meira að segja þegar samþykktar eru úrbætur á lagaumhverfi þarf að veita afslátt af þeim í formi undanþáguákvæða. Frumvarp þetta er hluti af baráttunni gegn mansali, auk þess sem ætla má að það efli almenna siðgæðisvitund og meðvitund um siðræn gildi í samfélaginu. Með því er lagt til að undanþága til nektarsýninga á veitingastöðum verði felld brott úr íslenskum lögum.