Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 280. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 646  —  280. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um fé til forvarna.

     1.      Hve miklu fé hefur verið varið til forvarna í menntamálaráðuneytinu árlega sl. 5 ár?
    Ef horft er til fjárveitinga sem merktar eru forvörnum eru framlög menntamálaráðuneytis til þessa málaflokks eftirfarandi:
     a.      Til forvarnastarfs í skólum um 5 millj. kr. árlega sl. fimm ár, en 5,5 millj. kr. árið 2007. Af þeim lið eru ýmis verkefni styrkt sem flokkast undir forvarnir gegn fíkniefnum og vímuefnaneyslu, einkum á framhaldsskólastigi.
     b.      Til Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum vegna skipulagningar og framkvæmdar forvarnastarfs í framhaldsskólum 2–3 millj. kr. árlega allt frá 2002.
     c.      Til Olweusarverkefnis gegn einelti í grunnskólum um 5 millj. kr. árlega.
     d.      Frá árinu 2004 hefur ráðuneytið styrkt samstarfsráð um forvarnir um 3 millj. kr. árlega, en þar er um að ræða samstarfsvettvang íslenskra bindindishreyfinga og heilbrigðis-, menntamála- og samgönguráðuneytis.
     e.      Ráðuneytið hefur styrkt nokkur forvarnaverkefni úr þróunarsjóðum leik-, grunn- og framhaldsskóla á undanförnum árum sem nemur um 2–3 millj. kr. árlega.
     f.      Á undanförnum árum hafa verið veittir smærri styrkir til ólíkra aðila vegna ýmiss konar forvarnaverkefna og er áætlað að þeir nemi 1–2 millj. kr. árlega.
     g.      Í framhaldsskólum hafa verið skilgreind stöðugildi forvarnafulltrúa sem eru að jafnaði 25% starf. Má ætla að kostnaður vegna þessara stöðugilda nemi alls um 50 millj. kr. á ári.
    Sé litið á forvarnir í víðum skilningi sem heilsueflingu þar sem stuðlað er að heilbrigðum lífsháttum og hreyfingu mætti telja til framlög vegna æskulýðs- og íþróttamála. Þau eru eftirfarandi:
02-988 Æskulýðsmál
Fjárlög 2003 113,7 millj. kr.
Fjárlög 2004 124,5 millj. kr.
Fjárlög 2005 129,5 millj. kr.
Fjárlög 2006 162,6 millj. kr.
Fjárlög 2007 197,9 millj. kr.
02-989 Ýmis íþróttamál
2003 212,6 millj. kr.
2004 226,4 millj. kr.
2005 194,8 millj. kr.
2006 254,4 millj. kr.
2007 296,9 millj. kr.

     2.      Hvaða þætti skilgreinir ráðuneytið sem forvarnir og hversu há upphæð fór árlega til hvers þeirra sl. 5 ár?
    Menntamálaráðuneytið hefur ekki skilgreint forvarnir sérstaklega en lítur svo á að margs konar starfsemi sem stuðlar að betra heilbrigði og hollum lífsháttum, velferð og bættri líðan nemenda geti fallið undir skilgreininguna. Þá getur hvers konar æskulýðsstarf, íþróttastarf, fíknivarnaverkefni og verkefni sem eiga að stuðla að bættri líðan nemenda og almennings fallið undir skilgreininguna á forvörnum. Einnig getur foreldrafræðsla fallið undir forvarnir og ýmiss konar samstarf opinberra aðila og félagasamtaka sem vinna að framangreindum verkefnum. Því væri hægt að skilgreina margháttað starf á vegum menntamálaráðuneytis sem forvarnastarf og ákaflega erfitt að tilgreina nákvæmar upphæðir í því sambandi.
    Í þátttöku í æskulýðs-, íþrótta-, félags- og tómstundastarfi felst alhliða forvörn. Þar er átt við forvörn gegn ávana- og fíkniefnum, gegn ofbeldi og gegn einsemd og félagslegri einangrun. Með þátttöku í hvers konar æskulýðs-, félags- og tómstundastarfi öðlast þátttakendur reynslu í félagsfærni. Rannsóknirnar Ungt fólk sem menntamálaráðuneytið hefur staðið að frá árinu 1992 og fleiri rannsóknir benda til þess að þátttaka í skipulögðu félagsstarfi skapi aukna festu í lífi ungmenna og umgjörð utan um jafningjasamskiptin og jafningjamenninguna. Ungt fólk sem tekur þátt í markmiðsbundnu félagsstarfi er líklegra til þess að líta á sjálft sig sem ábyrga þátttakendur í samfélaginu.
    Menntamálaráðuneytið hafði forgöngu um útgáfu bókarinnar Verndum þau sem fjallar um hvernig bregðast eigi við grun um vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum og unglingum. Alls hafa rúmlega ellefu hundruð manns sótt námskeið í efni bókarinnar sem menntamálaráðuneytið hefur stutt.
    Þá hefur Ungmennafélag Íslands undanfarin ár staðið fyrir Unglingalandsmótum UMFÍ víðsvegar um landið, sem er vímulaus hátíð um verslunarmannahelgina. Unglingalandsmótin hafa sýnt að hægt er að fá fjölskylduna saman, bæði unga og eldri, um þessa miklu skemmtanahelgi til að taka þátt í leik og starfi án þess að hafa vímuefni um hönd. Unglingalandsmót UMFÍ hefur fengið 10 millj. kr. árlega í fjárlögum sl. fimm ár.
    Í nóvember 2007 var gerður samstarfssamningur milli menntamálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, Lýðheilsustöðvar, Sambands íslenskra framhaldsskóla og Hagsmunaráðs framhaldsskóla um verkefnið Heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum. Markmið verkefnisins er að stuðla að bættri almennri líðan og heilsu framhaldsskólanemenda, að efla forvarnir gegn vímuefnum í framhaldsskólum, að bæta og efla ráðgjöf við nemendur á sem flestum sviðum sem snerta velferð þeirra og að hvetja nemendur til að taka ábyrgð á eigin heilsu og stuðla að heilbrigðum lífsháttum. Náms- og starfsráðgjafar og forvarnafulltrúar framhaldsskóla munu vinna að ýmsum verkefnum í tengslum við þennan samning og menntamálaráðuneyti mun leggja til starfsmann til að vinna að verkefninu til næstu þriggja ára.
    Hvað varðar frekari upplýsingar um fjárveitingar til þessara málaflokka er vísað til svars við 1. tölul.