Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 379. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 689  —  379. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar um skipan héraðsdómara.

     1.      Hversu mörg embætti héraðsdómara hafa verið veitt frá gildistöku núgildandi dómstólalaga?
    Núgildandi lög um dómstóla, nr. 15/1998, tóku gildi 1. júlí 1998 og frá þeim tíma hafa 15 dómarar verið skipaðir.

     2.      Hve margir umsækjendur voru um hvert embætti fyrir sig?
     3.      Hvernig var umsækjendum raðað í hæfnisflokka af dómnefnd skv. 12. gr. dómstólalaga og reglum sem gilda um störf nefndarinnar?

    Hér á eftir verður 2. og 3. tölul. svarað saman og fjallað um hverja veitingu fyrir sig. Mjög mismunandi var hve margir umsækjendur voru um hvert embætti.
    Dómnefndin studdist fyrst um sinn eftir gildistöku laga um dómstóla, nr. 15/1998, við eldri reglur um mat á á hæfi umsækjenda. Í fyrstu þremur skipununum kom fram í umsögn dómnefndar að skv. 5. gr. reglna nr. 40/1992 skyldi þáverandi nefnd auk sérstakra umsagna, gefa rökstutt álit á því hvern eða hverja af umsækjendunum nefndin teldi hæfasta og gera eftir atvikum samanburð og röðun á þeim eftir hæfni. Þá kemur fram í umsögn nefndarinnar að þar sem nýjar reglur hafi ekki verið gefnar út með heimild í núgildandi lögum taldi nefndin sér skylt að hafa sama hátt á og láta uppi afstöðu sína.
    Hinn 29. október 1999 tóku gildi reglur nr. 693/1999 sem settar voru samkvæmt ákvæðum í 4. mgr. 12. gr. laga um dómstóla. Frá gildistöku þeirra hefur nefndin vitnað til b-liðar 1. mgr. 5. gr. reglnanna. Í umsögnum dómnefndar kemur fram að nefndin líti svo á að hún skuli láta í té rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin telur hæfasta og eftir atvikum samanburð og röðun á umsækjendum eftir hæfni. Þá segir í umsögnum að í samræmi við umsagnir fyrri nefndar, sem starfað hafi á grundvelli laga um dómstóla, hafi nefndin í umsögnum sínum um einstaka umsækjendur haft sem viðmiðun orðin ekki hæfur, hæfur, vel hæfur og mjög vel hæfur. Nefndin taldi að þessar lýsingar væru ekki að öllu leyti markvissar, og mundi hún leitast við að gera grein fyrir umsækjendum og síðan raða þeim frekar niður eftir því sem efni mundu standa til.
    Eftir að þáverandi dómsmálaráðherra samþykkti verklagsreglur nefndarinnar, hinn 23. mars 2001, á grundvelli 3. mgr. 4. gr. reglna nr. 693/1999 hefur nefndin einnig tekið fram í umsögnum sínum að hún hafi haft hliðsjón af þeim við matið.
    Við skipun héraðsdómara í fjórum tilvikum hefur ekki verið farið eftir tillögum nefndarinnar.
    Hér á eftir verða veitt embætti talin í tímaröð:

1. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Vestfjarða frá 1. október 1998.

    Ein umsókn barst og var umsækjandi metinn vel hæfur samkvæmt dómnefnd.

2. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 1. janúar 1999.
    Alls bárust 13 umsóknir um embættið. Í umsögn nefndarinnar kom fram að hún treysti sér ekki til að mæla með tveimur umsækjendum. Nefndin taldi að af hinum 11 væru allir umsækjendur vel hæfir og sjö af þeim væru mjög vel hæfir. Þá mælti nefndin sérstaklega með tveimur umsækjendum sem hún taldi mjög vel hæfa umfram hina og var annar þeirra skipaður héraðsdómari.

3. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Suðurlands frá 10. nóvember 1999.
    Alls bárust 13 umsóknir um embættið. Nefndin taldi að 12 umsækjendur hefðu hæfni til að gegna embætti héraðsdómara þótt hún teldi tvo þeirra ekki koma til greina í þetta sinn. Af hinum tíu væru níu vel hæfir til að gegna stöðu héraðsdómara og fjóra þeirra taldi nefndin mjög vel hæfa. Af þessum fjórum taldi nefndin að tveir umsækjendur væru næst því að hljóta stöðu héraðsdómara í þetta sinn. Sá sem skipaður var héraðsdómari var ekki annar af þessum tveimur, en var einn af þeim umsækjendum sem voru taldir mjög vel hæfir.

4.     Skipaður héraðsdómari við héraðsdóm Vesturlands frá 1. júlí 2001.
    Alls bárust sjö umsóknir um embættið. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að einn umsækjenda uppfyllti ekki skilyrði til þess að hljóta embættið. Fjórir umsækjendur voru metnir vel hæfir og tveir umsækjendur voru metnir mjög vel hæfir án þess að nefndin mælti sérstaklega með öðrum þeirra. Sá sem var skipaður í stöðuna var metin mjög vel hæfur.

5. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Austurlands frá 1. september 2002.
    Alls bárust fjórar umsóknir um embættið. Nefndin komst að þeirri niðurstöður að allir umsækjendurnir væru hæfir og einn þeirra væri vel hæfur. Var sá umsækjandi skipaður.

6.–7. Skipaðir tveir héraðsdómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 1. september 2004.
    Alls bárust sjö umsóknir um embættin. Meginniðurstaða dómnefndarinnar var að allir umsækjendurnir væru hæfir, en nefndin áleit fjóra þeirra mjög vel hæfa, tvo vel hæfa og einn hæfan. Af þeim fjórum sem nefndin áleit mjög vel hæfa mælti hún með þremur sem stæðu næst því að öðlast skipun í embætti héraðsdómara. Þeir umsækjendur sem hlutu skipun voru tveir af þessum þremur.

8. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 1. september 2004.
    Alls bárust fjórar umsóknir um embættið. Meginniðurstaða dómnefndarinnar var sú að allir fjórir umsækjendurnir væru hæfir til dómarastarfa í héraði en nefndin áleit þrjá þeirra mjög vel hæfa og einn hæfan. Í hópi þeirra umsækjenda sem voru metnir mjög vel hæfir áleit dómnefndinn að einn þeirra hefði nokkurt forskot og var það niðurstaða þeirra að sá umsækjandi stæði næst því að öðlast skipun í embættið og var hann sá sem hlaut embættið.

9. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 1. september 2004.
    Alls bárust fimm umsóknir um embættið. Meginniðurstaða dómnefndarinnar var sú að allir fimm umsækjendurnir væru hæfir til dómarastarfa í héraði, en nefndin áleit þrjá þeirra mjög vel hæfa, einn vel hæfan og einn hæfan. Dómnefndin leit svo á að einn þeirra umsækjanda sem hún áleit mjög vel hæfa hefði forskot á hina. Sá sem var skipaður var metinn mjög vel hæfur en ekki sá sem nefndin mælti sérstaklega með.

10. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Austurlands frá 15. september 2005.
    Alls bárust fjórar umsóknir um embættið. Meginniðurstaða dómnefndarinnar var sú að allir umsækjendur væru hæfir til dómarastarfa í héraði, en einn var metinn mjög vel hæfur og þrír vel hæfir. Sá umsækjandi sem var metinn mjög vel hæfur var skipaður.

11. Skipaður í héraðsdómari við héraðsdóm Reykjaness frá 1. febrúar 2006.
    Alls bárust fimm umsóknir um embættið. Meginniðurstaða dómnefndarinnar var sú að allir umsækjendur væru hæfir, einn var metinn mjög vel hæfur, þrír vel hæfir og einn hæfur. Sá umsækjandi sem var skipaður var metinn mjög vel hæfur.

12. Skipaður í héraðsdómari við Héraðsdóm Suðurlands frá 1. júlí 2006.
    Alls bárust sex umsóknir um embættið. Meginniðurstaða dómnefndarinnar var sú að allir umsækjendur væru vel hæfir til dómarastarfa í héraði. Í umsögn nefndarinnar segir að þegar litið sé til allra atriða sé það mat nefndarinnar að tveir af umsækjendunum standi nokkuð jafnfætis og nær því en hin fjögur að hljóta dómaraembætti. Nefndin treysti sér ekki að gera upp á milli þessara tveggja og taldi ekki ástæðu til þess að raða umsækjendum að öðru leyti. Sá umsækjandi sem var skipaður var ekki annar þeirra tveggja umsækjenda sem nefndin mælti sérstaklega með.

13. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur 1. janúar 2007.
    Alls bárust sjö umsóknir um embættið. Meginniðurstaða dómnefndarinnar var sú að allir umsækjendur væru hæfir. Nefndin taldi tvo umsækjendur skera sig úr að því er varðaði starfsaldur og reynslu af störfum og mat þá mjög vel hæfa og gerði nefndin ekki upp á milli þeirra. Þrjá umsækjendur mat nefndin vel hæfa og tvo hæfa. Sá sem var skipaður var annar þeirra tveggja umsækjenda sem voru metnir mjög vel hæfir.

14. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Vestfjarða frá 1. júlí 2007.
    Alls bárust sjö umsóknir um embættið. Meginniðurstaða dómnefndarinnar var sú að allir umsækjendur væru hæfir. Nefndin taldi þrjá vera mjög vel hæfa, einn vel hæfan og þrjá hæfa. Af þeim umsækjendum sem nefndin mat mjög vel hæfa taldi nefndin að einn þeirra væru hæfastur en sá hins vegar ekki ástæðu að gera upp á milli hinna tveggja. Sá umsækjandi sem var skipaður var sá sem nefndin mælti sérstaklega með.

15. Skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands frá 1. janúar 2008.
    Alls bárust fimm umsóknir um embættið. Meginniðurstaða dómnefndarinnar var sú að allir umsækjendur væru hæfir. Dómnefndin áleit þrjá þeirra standa fremsta og vera mjög vel hæfa til að gegna embætti héraðsdómar en sá ekki ástæðu til að gera upp á milli þeirra. Hina tvo umsækjendurna taldi dómnefndin hæfa. Sá sem var skipaður var ekki einn af þeim sem nefndin mat vera mjög vel hæfa.

     4.      Úr hvaða hæfnisflokki var sá sem hlaut embættið hverju sinni?
    Af þessum fimmtán skipunum í embætti héraðsdómara voru umsækjendur sem embættin hlutu í ellefu tilvikum metnir mjög vel hæfir, í þremur tilvikum vel hæfir og einu tilviki hæfur.