Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 438. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 695  —  438. mál.




Fyrirspurn



til forsætisráðherra um áhrif niðurskurðar þorskkvóta og mótvægisaðgerðir.

Frá Guðna Ágústssyni.



     1.      Hver er áætlaður tekjusamdráttur fyrirtækja og sveitarfélaga vegna niðurskurðar þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum.
     2.      Hversu mörg störf má áætla að hafi tapast vegna niðurskurðar þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um bein eða óbein störf er að ræða og eftir sveitarfélögum.
     3.      Hversu háar fjárhæðir renna í formi mótvægisaðgerða úr ríkissjóði vegna niðurskurðar þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum ásamt yfirliti yfir hvaða framkvæmdir er um að ræða á bak við greiðslurnar, hvaða fjárhæðir er þegar búið að greiða og hvaða fjárhæðir á eftir að greiða, ásamt áætlun yfir hvenær þær greiðslur munu eiga sér stað, einnig er óskað eftir sundurliðun á því hvaða framkvæmdir sem falla undir mótvægisaðgerðir eru nýjar aðgerðir, ákveðnar eftir að ákvörðun um niðurskurð þorskkvótans var tekin, og hverjar eru flýting á framkvæmdum sem þegar hafði verið ákveðið að ráðast í fyrir þann tíma.
     4.      Hversu mikill hluti boðaðra mótvægisaðgerða verða útboðsskyldar framkvæmdir og hvernig hyggjast stjórnvöld tryggja að tekjur, beinar og óbeinar, af þeim framkvæmdum verði eftir í byggðarlögunum?
     5.      Til hvaða mótvægisaðgerða hyggjast stjórnvöld grípa ef fram fer sem horfir og frekari loðnuveiðar verða ekki heimilaðar að nýju?


Skriflegt svar óskast.