Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 702  —  403. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bernódusson, skrifstofustjóra Alþingis.
    Samhliða setningu laga nr. 161/2007, um breytingu á þingskapalögum, sem voru samþykkt í desember sl. var gert samkomulag milli þingflokka um aðgerðir til að bæta starfsaðstöðu þingmanna, einkum þingmanna í stjórnarandstöðu. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað en breytingarnar taka til hluta fyrrgreinds samkomulags.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að alþingismanni verði heimilt að ráða sér aðstoðarmann eftir nánari reglum sem forsætisnefnd Alþingis setur og samkvæmt því sem veitt er fé til á fjárlögum hvers árs. Í upphafi er gert ráð fyrir að formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu eigi rétt á að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf, en þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma eigi rétt á að hafa aðstoðarmann í hlutastarfi. Í öðru lagi er lagt til að forsætisnefnd Alþingis setji reglur um starfskjör og starfsaðstöðu aðstoðarmanna. Aðstoðarmenn þeirra alþingismanna sem gegna embætti formanns stjórnmálaflokks munu hafa skrifstofu í húsakynnum Alþingis og fá alla almenna skrifstofuþjónustu eins og starfsmenn þingsins. Aðrir aðstoðarmenn alþingismanna munu hafa aðstöðu í kjördæmunum. Mun forsætisnefnd Alþingis setja nánari reglur um greiðslur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Í þriðja lagi er lagt til að annars vegar lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur settar samkvæmt þeim og hins vegar 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, gildi ekki um aðstoðarmenn alþingismanna.
    Allsherjarnefnd ræddi talsvert fyrirkomulag varðandi ráðningu aðstoðarmanna þingmanna. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að boðað hefur verið að hér sé verið að stíga fyrstu skrefin í þá átt að auka aðstoð við þingmenn almennt. Meiri hlutinn telur að sterk rök hnígi í þá átt að útvíkka þetta fyrirkomulag frekar, m.a. þannig að aukin aðstoð nái til allra þingmanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að forsætisnefnd hugi þegar að breytingum í þá veru svo sem með tilliti til fjárlagavinnu fyrir næsta ár.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu: Er lagt til að tilvísun í lögunum verði leiðrétt en með frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist ný grein og breytist röð annarra greina samkvæmt því. Þá er lagt til að orðalag 1. mgr. efnisgreinar frumvarpsins verði gert skýrara. Nú liggur fyrir samkomulag um að aðstoðarmenn alþingismanna verði, a.m.k. fyrst um sinn, aðeins fyrir þingmenn úr Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum og að formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu fái aðstoðarmenn. Þykir því skýrara að kveðið sé á um það í sjálfri frumvarpsgreininni að forsætisnefnd sé heimilt að binda heimild til ráðningar aðstoðarmanns með þessum hætti. Meiri hlutinn leggur einnig til breytingu í þá veru að tekið verði fram í frumvarpstextanum að höfð skuli hliðsjón af 6. gr. laga nr. 70/ 1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar er fjallað um almenn hæfisskilyrði opinberra starfsmanna. Jafnframt er lagt til að við frumvarpið bætist ný grein í þá veru að taka aftur upp í lögin ákvæði þess efnis að forsætisnefnd ákveði aðrar greiðslur samkvæmt lögunum og setji um þær nánari reglur. Í 13. gr. laga um kjararáð, nr. 47/2006, sem samþykkt voru á Alþingi 3. júní 2006, voru gerðar formbreytingar á nokkrum lögum til samræmis við ákvæði nýrra laga um kjararáð. Í 10. tölul. greinarinnar er kveðið á um að 14. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, orðist svo: „Kjararáð ákveður þingfararkaup skv. 1. gr., sbr. lög um kjararáð.“ Við þessa breytingu, sem skilgreina má sem afleiðingarbreytingu, þ.e. breytingu á öðrum lögum sem afleiðingu af gildistöku nýrra laga, gerðist það að gildandi ákvæði 2. mgr. 14. gr. þingfararkaupslaganna féll brott. Ljóst er að slíkt getur ekki hafa verið ætlunin. Ákvæði 2. mgr. 14. gr. kvað á um að forsætisnefnd Alþingis ákvæði aðrar greiðslur samkvæmt lögunum, þ.e. aðrar greiðslur en þingfararkaupið, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Ef ætlunin hefði verið að breyta því eða að annar aðili ætti að taka við því hlutverki forsætisnefndar hefði verið um efnisbreytingu að ræða. Meiri hlutinn leggur því til að málsgreininni sem féll brott við breytinguna samkvæmt lögum nr. 47/2006 verði skeytt aftur á sinn stað.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Karl V. Matthíasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. febr. 2008.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Sigurður Kári Kristjánsson,


með fyrirvara.



Ellert B. Schram.


Siv Friðleifsdóttir.


Ólöf Nordal.