Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 381. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 720  —  381. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar um skipan héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands.

     1.      Hvenær var ráðherra settur til að gegna embætti dómsmálaráðherra við skipan héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands?
    Á ríkisstjórnarfundi þann 18. desember 2007 lagði forsætisráðherra fram og kynnti tillögu til forseta Íslands, dagsetta sama dag, um sætisvikningu dóms- og kirkjumálaráðherra vegna skipunar héraðsdómara. Gerði hann tillögu um að fjármálaráðherra yrði falið að fara með málið og taka ákvörðun í því.

     2.      Hvenær fékk settur dómsmálaráðherra málið til meðferðar?
    Um hádegi þann 18. desember 2007 eftir ríkisstjórnarfundinn fór fjármálaráðherra í dóms- og kirkjumálaráðuneytið og fékk öll gögn er vörðuðu málið afhent.

     3.      Hvaða gögn fékk settur dómsmálaráðherra afhent til að byggja ákvörðun sína á?
    Öll gögn sem á málið voru skráð, þ.e. umsóknir ásamt fylgigögnum, álit dómnefndar og önnur bréf tengd málinu og auk þess eldri umsóknir umsækjenda og fylgigögn, sem fyrir lágu í ráðuneytinu.

     4.      Aflaði settur dómsmálaráðherra sér nýrra gagna í málinu og ef svo er, hverra?

    Settur dómsmálaráðherra aflaði sér ekki nýrra gagna.

     5.      Hversu langan tíma var málið til meðferðar hjá settum dómsmálaráðherra og hvaða gögn eru því til staðfestingar?

    Málið var til meðferðar hjá settum dómsmálaráðherra frá hádegi þann 18. desember 2007 til dagsloka þann 20. desember 2007.

     6.      Hversu lengi var málið til meðferðar hjá dómnefnd skv. 12. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla?
    Þann 7. nóvember 2007 voru dómnefnd sendar til umsagnar umsóknir og önnur gögn umsækjenda með vísun til 4. mgr. 12. gr. laga um dómstóla. Þann 29. nóvember 2007 barst ráðuneytinu svar dómnefndar ásamt umsögn um umsækjendur.

     7.      Hvenær var umsækjendum sent rökstutt álit dómnefndar um hæfni þeirra og hversu langan tíma fengu þeir til að bregðast við því með athugasemdum?
    Umsækjendum var sent álit dómnefndar þann 11. desember 2007 og fengu þeir frest til 17. desember 2007 til að bregðast við þeim með athugasemdum.

     8.      Leitaði settur dómsmálaráðherra til meðmælenda einstakra umsækjenda og ef svo er, hvenær var það gert? Hvaða áhrif er talið að meðmæli hafi haft á ákvörðun ráðherrans?
    Settur dómsmálaráðherra leitaði ekki til meðmælenda en skrifleg meðmæli sem fyrir lágu í málinu höfðu áhrif á ákvörðun ráðherrans.