Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 460. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 730  —  460. mál.




Fyrirspurn



til samgönguráðherra um Breiðafjarðarferjuna Baldur.

Frá Kristni H. Gunnarssyni.



     1.      Hvaða ákvæði í samningi Vegagerðarinnar við Sæferðir ehf. frá 3. október 2005 gera ríkinu ókleift að selja Baldur á samningstímanum án samþykkis leigutaka, sbr. fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins, dags. 26. febrúar 2008?
     2.      Hvert var verðmat ráðuneytisins og Vegagerðarinnar á Baldri við sölu skipsins til Sæferða ehf. og hvert var verðmatið talið vera við lok leigutímans í árslok 2010? Hverjir voru ráðgjafar ofangreindra aðila og hvert var verðmat þeirra á skipinu bæði við sölu og við lok samningstímans og hvenær var það verðmat gert?
     3.      Hvers vegna tók Vegagerðin að sér innheimtu hagnaðar af sölu Baldurs úr landi fyrir fjármálaráðuneytið ? Hvaða fyrirmæli, leiðbeiningar eða umboð gaf fjármálaráðuneytið til Vegagerðarinnar eða samgönguráðuneytisins varðandi innheimtu kröfunnar og samninga um fjárhæð til greiðslu?
     4.      Hvers vegna var krafan lækkuð um 2 millj. kr. og hver voru rök Sæferða ehf. fyrir því að krefja Vegagerðina um greiðslu fyrir undirbúning Sæferða ehf. á siglingum til Vestmannaeyja og tengja þann kostnað við sölu á Baldri? Hvers vegna voru ekki greiddir vextir af skuld fyrirtækisins við ríkissjóð frá söludegi til uppgjörsdags, í um 15 mánuði?
     5.      Hvert var samráð fjármálaráðuneytisins við samgönguráðuneytið og Vegagerðina þegar það ákvað að ganga til samninga við Sæferðir ehf. um sölu ríkisins á Baldri, sbr. fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins, dags. 26. febrúar 2008?
     6.      Kom samgönguráðuneytið eða Vegagerðin að einhverju leyti að kaupum Sæferða ehf. á öðru skipi í stað Baldurs? Hvað var þessum aðilum kunnugt um varðandi fyrirhuguð kaup Sæferða ehf. þegar sala ferjunnar Baldurs var í undirbúningi?


Skriflegt svar óskast.