Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 411. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 760  —  411. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Hönnu Birnu Jóhannsdóttur um húsnæðismál einstæðra foreldra.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Er vitað hve margir einstæðir foreldrar á höfuðborgarsvæðinu búa í leiguhúsnæði annars vegar og eigin húsnæði hins vegar? Ef svo er, hve margir?

    Leitað var til ríkisskattstjóra varðandi upplýsingar um þá framteljendur sem voru einstæðir foreldrar álagningarárið 2007 og voru þeir greindir niður á þá sem áttu fasteign og þá sem ekki áttu fasteign. Í töflu 1 sést skiptingin eftir sveitarfélögum.

Tafla 1. Einstæðir foreldrar á höfuðborgarsvæðinu flokkaðir eftir sveitarfélagi,
kyni og því hvort þeir töldu fram fasteign álagningarárið 2007.

(Heimild: Ríkisskattstjóri.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af þeim 7.949 einstæðu foreldrum sem töldu fram til skatts á höfuðborgarsvæðinu álagningarárið 2007 áttu 4.583 eigin fasteign. Eins og sjá má í töflu 1 áttu 4.247 einstæðar mæður á höfuðborgarsvæðinu fasteign eða rúmlega 57%. Sambærilegt hlutfall einstæðra feðra er tæp 63%. Gera má ráð fyrir að viðkomandi einstaklingar og fjölskyldur þeirra búi í því húsnæði sem þeir eiga.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um húsnæðisaðstæður þeirra einstæðu foreldra á höfuðborgarsvæðinu sem ekki áttu fasteign samkvæmt skattframtali 2007. Leitað var til sveitarfélaga og sýnir tafla 2 fjölda einstæðra foreldra sem fengu húsaleigubætur í desember 2007. Athygli er vakin á því að viðmiðunarár fyrir greiðslur sveitarfélaga til húsaleigubóta er árið 2007 en upplýsingar frá ríkisskattstjóra miða við tekjuárið 2006.

Tafla 2. Fjöldi einstæðra foreldra á höfuðborgarsvæðinu
sem fengu húsaleigubætur í desember 2007.

(Heimild: Sveitarfélögin.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í töflu 2 fengu 1.595 einstæðir foreldrar greiddar húsaleigubætur í desember 2007 eða um 20% þeirra einstæðu foreldra sem töldu fram á höfuðborgarsvæðinu og um 50% þeirra sem ekki áttu eigin fasteign undangengið ár. Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um búsetuaðstæður annarra einstæðra foreldra og fjölskyldna þeirra, þ.e. þeirra tæplega 1.600 einstæðu foreldra sem hvorki áttu fasteign né fengu húsaleigubætur.