Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 478. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 765  —  478. mál.




Frumvarp til laga



um skipun rannsóknarnefndar til að gera úttekt á misferli tengdu fiskveiðiheimildum innan íslensks sjávarútvegs.

Flm.: Grétar Mar Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.

    Alþingi skal kjósa sjö manna rannsóknarnefnd til að gera úttekt á misferli tengdu fiskveiðiheimildum innan íslensks sjávarútvegs. Nefndin skal í störfum sínum kanna umfang brota á lögum og reglum sem varða fiskveiðiheimildir og greina hvaða aðferðum hefur verið beitt við framkvæmd þeirra. Jafnan skal nefndin leggja mat sitt á ástæður brotanna og hverjar afleiðingar þau geta eða hafa haft fyrir þjóðarbúið í heild, sem og nytjastofna sjávar. Rannsókn nefndarinnar skal ná aftur til ársins 1991.
    Nefndinni er ekki ætlað að fjalla um sekt eða sakleysi þeirra sem á fund hennar koma eða koma á framfæri við ákæruvaldið grunsemdum um refsivert athæfi.

2. gr.

    Nefndin skal skipuð fulltrúum allra flokka á Alþingi. Nefndin kýs formann úr hópi nefndarmanna og ræður afl atkvæða.

3. gr.

    Skrifstofa Alþingis skal sjá nefndinni fyrir fundaraðstöðu og einum starfsmanni. Nefndinni skal heimilt að kalla eftir aðstoð óháðra sérfræðinga til að láta skoða einstök atriði sem að gagni koma í störfum hennar.

4. gr.

    Nefndinni er heimilt að kalla á sinn fund hvern þann sem starfar eða starfað hefur við sjávarútveg, þ.m.t. sjómenn, skipstjórnarmenn, útgerðarmenn, fiskverkendur og flutningsaðila. Starfsmönnum hins opinbera er skylt að svara spurningum nefndarinnar varðandi atriði sem eru á málefnasviði hennar óháð þagnarskyldu. Hið sama gildir um fyrrverandi opinbera starfsmenn.
    Upplýsingar sem þeir sem koma fyrir nefndina veita má ekki nota til sakfellingar í opinberu máli.

5. gr.

    Nefndin skal hafa óheftan aðgang að öllum gögnum í vörslu stjórnvalda sem snerta starfssvið hennar og án tillits til upplýsingalaga, nr. 50/1996. Þá getur nefndin krafið einstök fyrirtæki sem starfa við sjávarútveg eða samtök þeirra um upplýsingar sem nefndin telur að nýtast muni í starfi hennar.

6. gr.

    Nefndarmenn og aðrir sem inna af hendi störf í þágu nefndarinnar eru bundnir þagnarskyldu um viðkvæm einkamálefni, þ.m.t. upplýsingar sem varða einstaka refsiverða verknaði. Þagnarskylda helst eftir að störfum lýkur.
    Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda ekki um störf nefndarinnar. Nöfn þeirra sem koma fyrir nefndina skulu ekki birt.

7. gr.

    Nefndin skal gera Alþingi grein fyrir rannsókn sinni og niðurstöðu í sérstakri skýrslu eigi síðar en 1. mars 2009. Skulu þar gerðar tillögur um úrbætur eða aðrar lyktir eftir því sem tilefni þykir til.

8. gr.

    Nefndin skal setja sér verklagsreglur.
    Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

9. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Allt frá því að svokallað kvótakerfi var tekið upp í íslenskum sjávarútvegi hefur verið rætt um misferli í kerfinu. Í frumvarpinu er því lagt til að komið verði á fót sérstakri rannsóknarnefnd til að fjalla um umfang brota á lagaákvæðum sem varða fiskveiðiheimildir hvar sem þau er að finna í fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Mætti í því sambandi helst nefna lög um fiskveiðistjórn, nr. 116/2006, lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, lög um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, og lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, og reglur settar á grundvelli þeirra.
    Vegna þeirra takmarka sem kerfið setur útgerðarmönnum og sjómönnum hefur verið reynt að komast framhjá kerfinu eða undan ákveðnum þáttum þess, til að auka möguleika til tekjuöflunar og betri afkomu. Um fátt hefur verið deilt meira í þjóðfélaginu en íslenska kvótakerfið og hafa margir haldið því fram að um stórfellt misferli hafi verið að ræða, í fjölmörgum tilfellum, við framkvæmd þess. Má t.d. nefna staðhæfingar um brottkast á fiski, löndun framhjá vigt, rangar nýtingarprufur, rangar upplýsingar um tegundir, misnotkun á leyfi til heimavigtunar og ranga úrtaksvigtun. Margt fleira mætti tína til úr umræðunni um misferli í kerfinu.
    Á umliðnum árum hefur frekar lítið verið gert úr umfangi þessa misferlis og t.d. hefur Hafrannsóknastofnunin gert mjög lítið úr brottkasti á fiski, telur það reyndar svo lítið að undrun sætir hjá sjómönnum, sem hafa tjáð sig um málið. Forsendur Hafrannsóknastofnunarinnar um ástand fiskstofna hafa m.a. tekið mið af áliti stofnunarinnar á brottkastinu og gefa þannig kolranga mynd, að því er margir fiskimenn telja.
    Flutningsmenn þessa frumvarps telja að rétt sé og nauðsynlegt að reyna að komast sem næst sannleikanum í þessu máli og vilja að Alþingi kjósi sjö manna nefnd sem í sé hið minnsta einn fulltrúi frá hverjum þingflokkanna, og freisti nefndin þess að leiða sannleikann í ljós og hreinsa andrúmsloftið. Nefndin skal hafa ótakmarkaðan aðgang að gögnum í vörslu stjórnvalda sem snerta verkefnið, án tillits til upplýsingalaga, nr. 50/1996. Þá getur nefndin krafið einstök fyrirtæki sem starfa við sjávarútveg eða samtök þeirra um upplýsingar sem nefndin telur að nýtast muni í starfi hennar.
    Gert er ráð fyrir að einstaklingar, t.d. sjómenn, útgerðarmenn, skipstjórnarmenn, fiskverkendur og flutningsaðilar, komi á fund nefndarinnar og láti henni í té vitneskju sína um málið. Nefndinni er þó alls ekki ætlað að skera úr um sekt eða sakleysi þeirra sem veita upplýsingar eða koma á framfæri grunsemdum við ákæruvaldið um refsivert athæfi.
    Vilji flutningsmanna er reyndar sá að litið verði á nefnd þessa sem eins konar sannleiksnefnd vegna þess rangláta kerfis sem leitt hefur til meira óréttlætis og deilna í þjóðfélaginu, í nær aldarfjórðung, en dæmi eru um í Íslandssögunni. Til þess að árangur náist í starfi nefndarinnar þarf að afla vitneskju hjá mörgum sem vita um eða jafnvel hafa tekið þátt í misferli af því tagi sem frumvarpið tekur til. Er þess vegna lagt til í frumvarpinu að upplýsingarnar sem nefndin fær megi ekki nota til sakfellingar í opinberu máli.