Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 523. máls.
Prentað upp.

Þskj. 824  —  523. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
     a.      Evrópugjaldskrá: Gjaldskrá sem er ekki hærri en samræmist hámarksgjaldi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins.
     b.      Reikisímtal í farsímaneti: Símtal úr farsíma sem reikiviðskiptavinur hringir frá farsímaneti rekstraraðila hér á landi og lýkur í farsímaneti rekstraraðila í öðru ríki eða er móttekið af reikiviðskiptavini með upphaf í almennu símaneti í öðru ríki og lýkur í farsímaneti rekstraraðila hér á landi.

2. gr.

    Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun í kjölfar markaðsgreiningar skv. 17. gr. að heildsölukvaðir eða ráðstafanir varðandi forval eða fast forval muni ekki skila tilætluðum árangri við að efla virka samkeppni og tryggja hagsmuni notenda fjarskiptaþjónustu er stofnuninni heimilt að leggja smásölukvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Slíkar kvaðir geta m.a. falist í að leggja skyldur á fyrirtæki um þak á smásöluverð, kostnaðartengda gjaldskrá og kostnaðarbókhald, að verð miðist við verð á sambærilegum mörkuðum, banni við mismunun milli notenda og banni við að binda mismunandi tegundir fjarskiptaþjónustu í einn heildarpakka skaði það samkeppni.

3. gr.

    35. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Hámarksverð í heild- og smásölu fyrir reikisímtöl í farsímanetum.


    Fjarskiptafyrirtæki, sem veita reikiþjónustu hér á landi, skulu sjá til þess að heild- og smásöluverð fyrir reikisímtal í farsímaneti, sem á sér upphaf eða lýkur innan Evrópska efnahagssvæðisins, sé ekki hærra en hámarksverð sem þar gildir.
    Samgönguráðherra setur reglugerð um reiki í almennum farsímanetum, þar sem m.a. er heimilt að kveða á um eftirfarandi:
     a.      Hámarksverð í heildsölu fyrir reikisímtöl í farsímanetum.
     b.      Hámarksverð í smásölu fyrir reikisímtöl í farsímanetum.
     c.      Hámarksverð fyrir SMS-, MMS-þjónustu og aðra gagnaflutningsþjónustu í farsímanetum.
     d.      Evrópugjaldskrá.
     e.      Gagnsæi smásölu- og Evrópugjaldskrár.
     f.      Viðmiðunargengi og uppgjörsaðferðir sem fjarskiptafyrirtækjum er skylt að nota við myntbreytingar vegna reikiþjónustu í farsímanetum.
     g.      Skyldur fjarskiptafyrirtækja til þess að verða við óskum reikiviðskiptavina um skipti milli reikigjaldskráa.
     h.      Upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja um viðeigandi reikigjöld.

4. gr.

    Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að upplýsa notendur sína um þann kostnað sem hlýst af því að hringja úr tal- og farsímaneti þeirra í net annarra fjarskiptafyrirtækja hér á landi. Slíkar upplýsingar skulu uppfærðar eins og þörf krefur.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „talsímaþjónustu“ í 1. mgr. kemur: tal- og farsímaþjónustu.
     b.      Í stað orðsins „talsímanetum“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur: tal- og farsímanetum.

6. gr.

     Í stað orðsins „talsímaþjónustu“ í 1. málsl. 39. gr. laganna kemur: tal- og farsímaþjónustu.

7. gr.

    Í stað orðsins „talsímaþjónustu“ í 1. málsl. 51. gr. laganna kemur: tal- og farsímaþjónustu.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „almenna talsímaþjónustu“ í 1. mgr. kemur: almenna tal- og farsímaþjónustu.
     b.      Í stað orðanna „almenna talsímanetið og almenna talsímaþjónustan“ í 1. mgr. kemur: almenna tal- og farsímanetið og almenna tal- og farsímaþjónustan.
     c.      Í stað orðsins „talsímanetinu“ í 2. mgr. kemur: tal- eða farsímanetum.

9. gr.

    Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Tal- og farsímaþjónusta.

10. gr.

    Við 1. mgr. 65. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Innflutningur einstaklinga eða lögaðila á notendabúnaði til eigin nota eða í öðrum tilgangi telst markaðssetning í þessu sambandi.

11. gr.

    2. mgr. 68. gr. laganna orðast svo:
    Ekki er gerð krafa um sérstaka þjálfun þeirra sem starfrækja þráðlausan búnað nema í þeim tilfellum að búnaðurinn gegni öryggishlutverki eða þegar sendiafl er umfram 100 W. Heimilt er að gefa út skírteini talstöðvavarðar sem heimilar handhafa að starfrækja fjarskiptabúnað í skipum. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um útgáfu skírteinis talstöðvavarðar og hæfniskröfur í reglugerð.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.    Inngangur.
    Hjá samgönguráðuneytinu hefur, í samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun, verið unnið að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti.
    Megintilgangur frumvarps þessa er að innleiða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins og um breytingar á tilskipun 2002/21/EB. Þá er ætlunin að styrkja heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja smásölukvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar, fella niður ákvæði um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita innanlandsreiki í farsímanetum sem ekki tengist álagningu kvaða í kjölfar markaðsgreiningar, auk þess sem gert er ráð fyrir nokkrum breytingum á gildandi fjarskiptalögum til þess að efla neytendavernd.
    Helstu nýmæli og breytingar sem ráðgerðar eru með frumvarpinu:
          Innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins og um breytingar á tilskipun 2002/21/EB, þar sem m.a. er kveðið á um hámarksverð í heild- og smásölu fyrir símtöl í reiki í farsímanetum.
          Skylda fjarskiptafyrirtækja til að veita innanlandsreiki í almennum farsímanetum skv. 35. gr. laganna fellur brott en ákvæði 28. gr. er fjalla um aðgangskvaðir þykja fullnægjandi í því sambandi.
          Ákvæði sem heimilar Póst- og fjarskiptastofnun að leggja smásölukvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar ef stofnunin telur að heildsölukvaðir muni ekki skila tilætluðum árangri í að efla samkeppni.
          Gildissvið ákvæða laganna er fjalla um talsímaþjónustu eru víkkuð út, eftir þörfum, svo að þau nái jafnt yfir tal- og farsímaþjónustu í þeim tilgangi að notendur þeirrar þjónustu njóti, eins og kostur er, sömu réttinda og notendur talsímaþjónustu.

II.    Alþjóðlegt reiki.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur um árabil beitt sér fyrir lækkun gjalda fyrir reikiþjónustu með ákveðnum aðgerðum, svo sem tilkynningum til neytenda, með skoðanakönnunum og með tilvísunum í samkeppnislög.
    Sökum hins háa verðs sem notendur almennra farsímaneta hafa þurft að greiða fyrir farsímanotkun á ferðalögum erlendis og í ljósi þess að reikiþjónusta er í eðli sínu yfir landamæri þótti þörf á sameiginlegri nálgun til að rekstraraðilar farsímaneta innan aðildarríkja EES geti starfað innan eins samfellds lagaramma sem byggist á viðmiðunum sem sett eru með hlutlægum hætti í þeim tilgangi að lækka verðlagningu á reikiþjónustu innan EES.
    Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 717/2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins og um breytingar á tilskipun 2002/21/EB (hér eftir nefnt reikireglugerðin), hafa verið settar skýrar reglur á þessu sviði. Markmiðið með reikireglugerðinni er að sameiginlegri nálgun verði beitt innan EES til að tryggja að notendur almennra farsímaneta á jörðu niðri á ferðalagi borgi ekki óhóflegt verð fyrir reikiþjónustu innan EES- svæðisins þegar þeir hringja eða taka á móti símtölum í farsímaþjónustu. Þannig eigi að ná fram öflugri neytendavernd og um leið tryggja samkeppni milli rekstraraðila farsímaneta. Tryggja á að smásöluverð fyrir reiki innan bandalagsins endurspegli á sanngjarnari hátt undirliggjandi kostnað, sem felst í að veita þá þjónustu, en raunin hefur verið.
    Með reikireglugerðinni er innleidd sérstök Evrópugjaldskrá (e. Eurotariff) sem felur í sér tiltekin mörk á það gjald sem rekstraraðilum farsímaneta er heimilt að taka fyrir að veita alþjóðlega reikiþjónustu með upphaf og lúkningu símtala innan EES-svæðisins. Þessi hámarksgjaldskrá, sem öllum reikiviðskiptavinum stendur til boða innan EES, á að endurspegla eðlilega álagningu miðað við heildsölukostnaðinn við að veita reikiþjónustuna samfara því að veita rekstraraðilunum frelsi til samkeppni með því að greina á milli tilboða þeirra og aðlaga verðlagningu þeirra að markaðsaðstæðum og vali neytenda.
    Þar sem reikireglugerð Evrópusambandsins er hluti af EES-samningnum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka EES-samningsins nr. 143/2007 frá 26. október 2007, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af IX. viðauka, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, leiða skuldbindingar samkvæmt samningnum til þess að nauðsynlegt er að innleiða reglugerðina í íslensk lög.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að innleiða reglugerð þessa í heild sinni með reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli nýs ákvæðis 2. mgr. 35. gr.

III.    Aðrar breytingar.
Skylda til innanlandsreikis í almennum farsímanetum fellur brott.
    Ákvæði 35. gr. laganna um innanlandsreiki í almennum farsímanetum fellur brott í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), dags. 28. september 2006. Samkvæmt aðgangstilskipun ESB nr. 2002/19/EB er ekki unnt að leggja aðgangskvaðir á önnur fjarskiptafyrirtæki en þau sem tilnefnd hafa verið sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar. Ákvæði 28. gr. fjarskiptalaga fjallar um aðgangskvaðir sem unnt er að leggja á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og þykja þær fullnægjandi í þessu sambandi. Almennt ákvæði 24. gr. fjarskiptalaga um samtengingu neta, 25. gr. um samnýtingu aðstöðu o.fl. og ákvæði 26. gr. um meðferð trúnaðarupplýsinga gilda um öll fjarskiptafyrirtæki. Ákvæði 27.–34. gr. laganna gilda aðeins um fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Í samræmi við ofangreint er ljóst að ákvæði 35. gr. leggur skyldur á fjarskiptafyrirtæki á Íslandi sem ekki á sér samsvörun í núgildandi fjarskiptaregluverki ESB og er því lagt til að ákvæðið verði fellt brott.

Smásölukvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk.
    Lagt er til að bætt verði nýrri málsgrein við 27. gr. laganna, sem fjallar um kvaðir á fjarskiptafyrirtæki, þar sem kveðið verði á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja smásölukvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar ef stofnunin telur að heildsölukvaðir muni ekki skila tilætluðum árangri í að efla samkeppni og tryggja hagsmuni notenda fjarskiptaþjónustu. Með breytingu þessari er 17. gr. alþjónustutilskipunar ESB nr. 2002/22/EB innleidd með fullnægjandi hætti í íslensk fjarskiptalög.

Upplýsingaskylda til notenda vegna kostnaðar við að hringja milli kerfa fjarskiptafyrirtækja.
    Lagt er til að bætt verði við lögin ákvæði er kveður á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til þess að miðla upplýsingum til notenda sinna um þann verðmun sem er því fylgjandi að hringja annars vegar innan kerfis síns fjarskiptafyrirtækis og hins vegar yfir í kerfi annarra fjarskiptafyrirtækja.

Notendur farsímaþjónustu njóti, eins og unnt er, sömu neytendaverndar og notendur talsímaþjónustu.
    Í þeim tilgangi að ná fram öflugri neytendavernd og tryggja frekari samkeppni á fjarskiptamarkaði er lagt til að gildissvið helstu ákvæða laganna þar sem kveðið er á um talsímaþjónustu verði víkkað út svo að lögin nái jafnt yfir tal- og farsímaþjónustu.

Markaðssetning á fjarskiptabúnaði.
    Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 65. gr. laganna sem fjallar um markaðssetningu fjarskiptabúnaðar. Fram kemur í ákvæðinu að óheimilt sé að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir tilteknar grunnkröfur og ber CE-merkingu því til staðfestingar. Nokkuð hefur borið á því að einstaklingar telji að innflutningur á fjarskiptabúnaði til eigin nota sé undanþeginn skilyrðum þessum og að með markaðssetningu sé einungis átt við markaðssetningu fjarskiptabúnaðar í atvinnuskyni. Ekki hefur verið talið að unnt væri að leggja svo þröngan skilning í umrætt ákvæði. Ástæða þykir til að taka af öll tvímæli varðandi þetta atriði og mæla svo fyrir að innflutningur einstaklinga eða lögaðila á notendabúnaði til eigin nota eða í öðrum tilgangi teljist markaðssetning í þessu sambandi. Með því að taka af öll tvímæli um að innflutningur einstaklinga til eigin nota eða í öðrum tilgangi teljist markaðssetning er verið að tryggja neytendavernd og jafnræði milli neytenda auk þess sem minni hætta ætti að vera á fjarskiptatruflunum og röskun fjarskiptaöryggis.

Skírteini sem heimila handhafa að starfrækja fjarskiptabúnað í flugvélum (flugmenn).
    Að lokum eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæði laganna er fjalla um útgáfu Póst- og fjarskiptastofnunar á skírteinum sem heimila einstaklingum að starfrækja ákveðnar tegundir þráðlauss búnaðar eins og talstöðva. Í ljósi markmiða um einfaldari stjórnsýslu er lagt til að fella niður skilyrðislausa kröfu um skírteini sem hætt er að þjóna tilgangi sínum hvað varðar flugmenn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Lagt er til að ný málsgrein bætist við 27. gr. fjarskiptalaga og verði 2. mgr. Í 27. gr. er kveðið á um kvaðir á fjarskiptafyrirtæki í kjölfar markaðsgreiningar. Hér er lögð til heimild Póst- og fjarskiptastofnun til handa til að leggja smásölukvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar ef stofnunin telur að heildsölukvaðir muni ekki skila tilætluðum árangri í að efla samkeppni og tryggja hagsmuni notenda fjarskiptaþjónustu. Með breytingu þessari er 17. gr. alþjónustutilskipunar ESB nr. 2002/22/EB innleidd með fullnægjandi hætti í íslensk fjarskiptalög.
    Samkvæmt b-lið 1. mgr. 17. gr. alþjónustutilskipunarinnar skal eftirlitsstjórnvald leggja kvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á smásölumarkaði ef það telur að heildsölukvaðir eða forval og fast forval muni ekki leiða til þess að markmið fjarskiptaregluverks ESB náist, sbr. 8. gr. rammatilskipunar 2002/21/EB. Kveðið er á um heildsölukvaðir í 28.–32. gr. fjarskiptalaga.
    Kvaðirnar, sem 17. gr. alþjónustutilskipunar heimilar í slíkum tilvikum, fela í sér kröfur um að tilgreind fyrirtæki setji ekki upp of hátt verð eða hamli ekki aðgangi að markaði eða takmarki ekki samkeppni með því að undirverðleggja, veita tilteknum endanlegum notendum ótilhlýðilegan forgang eða binda þjónustu í heildarpakka með óeðlilegum hætti. Innlendu stjórnvaldi er heimilt að beita gagnvart slíku fyrirtæki viðeigandi ráðstöfunum með því að leggja bann við mismunun milli notenda, leggja bann við því að fjarskiptafyrirtæki bindi mismunandi þjónustu í heildarpakka ef slíkt skaðar samkeppni, setja þak á smásöluverð, hafa eftirlit með einstökum gjaldskrám og laga gjaldskrá að kostnaði eða verði á sambærilegum mörkuðum í því skyni að vernda hagsmuni endanlegra notenda en um leið að stuðla að virkri samkeppni. Ef eftirlit er haft með gjaldskrá skal einnig færa kostnaðarbókhald.
    Í íslensku fjarskiptalögunum er ekki sérstakt ákvæði um kvaðir af þessu tagi. Þó er getið um það í 2. mgr. 20. gr. að setja megi hámarksverð á alþjónustu og að sama gjaldskrá skuli gilda fyrir alþjónustu alls staðar á landinu, en þær kvaðir eru bundnar við að fyrirtæki sé alþjónustuveitandi. Því verður að telja að alþjónustutilskipun ESB hafi ekki verið innleidd með fullnægjandi hætti í íslensk fjarskiptalög og er hér bætt úr því.

Um 3. gr.


    Í ákvæði 35. gr. er kveðið á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til þess að semja sín á milli um skilmála aðgangs að almennum farsímanetum annarra fjarskiptafyrirtækja hér á landi, svokallaða samninga um innanlandsreiki. Lagt er til að ákvæðið falli brott í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), dags. 28. september 2006. ESA lýsti yfir miklum efasemdum um að ákvæði 35. gr. stæðist gagnvart EES-samningnum og afleiddum gerðum hans, sérstaklega 4. mgr. 8. gr. og 12. gr. aðgangstilskipunar ESB nr. 2002/19/EB. Samkvæmt aðgangstilskipuninni er ekki unnt að leggja aðgangskvaðir á önnur fjarskiptafyrirtæki en þau sem tilnefnd hafa verið sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar. Ákvæði 28. gr. fjarskiptalaga fjallar um aðgangskvaðir sem unnt er að leggja á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Samkvæmt fjarskiptatilskipunum ESB er því ekki heimilt að leggja aðgangskvaðir á fyrirtæki sem ekki hefur verið tilnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar. Almennt ákvæði 24. gr. fjarskiptalaga um samtengingu neta, 25. gr. um samnýtingu aðstöðu o.fl. og ákvæði 26. gr. um meðferð trúnaðarupplýsinga gilda um öll fjarskiptafyrirtæki. Ákvæði 27.–34. gr. laganna gilda aðeins um fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Í samræmi við ofangreint er ljóst að ákvæði 35. gr. leggur skyldur á fjarskiptafyrirtæki á Íslandi sem ekki á sér samsvörun í núgildandi fjarskiptaregluverki ESB og er því lagt til að ákvæðið verði fellt brott.
    Í núgildandi lögum er hins vegar ekki að finna ákvæði um erlent reiki og samninga þar um. Er því lagt til að 35. gr. fjalli um að fjarskiptafyrirtæki hér á landi verði að sjá til þess að heild- og smásöluverð fyrir reikisímtöl í farsímanetum innan EES-svæðisins verði ekki hærra en það hámarksverð sem er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu hverju sinni. Með ákvæði þessu er verið að sjá til þess að fjarskiptafyrirtæki, sem veita reikiþjónustu í farsímanetum hér á landi, uppfylli skilyrði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins og um breytingar á tilskipun 2002/21/EB. Þá er lagt til að í annarri málsgrein ákvæðisins verði samgönguráðherra veitt heimild til þess að setja reglugerð um reiki í almennum farsímanetum. Reglugerð þessi mun innleiða ákvæði framangreindrar reikireglugerðar Evrópubandalagsins.
    Í reglugerð þessari er hámarksmínútugjald, bæði í heild- og smásölu, fyrir reiki tilgreint sérstaklega í ákveðnum fjárhæðum í evrum. Hugsunin þar að baki er sú að rekstraraðilar farsímaneta, sem veita alþjóðlega reikiþjónustu, geti starfað við áreiðanlegar og fyrirsjáanlegar aðstæður. Það hámarksmeðalmínútugjald í heildsölu, sem reikireglugerðin tilgreinir, tekur tillit til mismunandi þátta sem felast í að hringja reikisímtal innan EES. Einkum varðar þetta kostnað vegna upphafs og lúkningar símtala í farsímanetum, þar með talinn ýmsan óbeinan kostnað og kostnað við merkjasendingar og umflutning símtala í farsímanetum. Samkvæmt reikireglugerðinni þykir hentugasta viðmiðunin fyrir verð fyrir upphaf og lúkningu símtala vera meðallúkningarverð rekstraraðila farsímaneta innan Evrópubandalagsins sem byggist á upplýsingum sem stjórnvöld aðildarríkjanna hafa veitt og framkvæmdastjórnin birt. Hámarksmeðalmínútugjald á heildsölustigi er því ákvarðað að teknu tilliti til meðalverðs fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og skal lækka árlega til að taka tillit til lækkana á lúkningarverði símtala í farsímanetum eins og eftirlitsstofnanir aðildarríkjanna kveða á um hverju sinni.
    Hámarksverð í smásölu skal tryggja að smásöluverð fyrir reiki innan EES endurspegli á sanngjarnari hátt undirliggjandi kostnað, sem felst í að veita þá þjónustu, en raunin hefur verið. Hugsunin er að hámarkssmásölugjaldskrá, sem reikiviðskiptavinum í Evrópu stendur til boða, skal endurspegla eðlilega álagningu miðað við heildsölukostnaðinn við að veita reikiþjónustu samfara því að veita rekstraraðilum frelsi til samkeppni með því að greina á milli tilboða þeirra og aðlaga verðlagningu þeirra að markaðsaðstæðum og vali neytenda. Þessi nálgun gildir þó ekki um yfirgjaldsþjónustu.
    Evrópugjaldskrá, sem gildir fyrir smásölu, skal veita viðskiptavinum reikiþjónustu tryggingu fyrir því að þeir þurfi ekki að borga óhóflegt verð þegar þeir hringja eða taka á móti reikisímtali, sem reikireglugerðin og frumvarp þetta gildir um, en á þó að gefa rekstraraðilum hér á landi nægilegt svigrúm til að greina milli varanna sem þeir bjóða viðskiptavinum sínum.
    Til þess að auka gagnsæi smásöluverðs fyrir að hringja og taka móti reikisímtölum innan EES og til að auðvelda reikiviðskiptavinum að taka ákvarðanir um notkun farsíma sinna þegar þeir eru í útlöndum er þeim sem veita farsímaþjónustu gert skylt að gera reikiviðskiptavinum sínum kleift að fá auðveldlega og sér að kostnaðarlausu upplýsingar um reikigjöld sem eiga við um þá þegar þeir hringja eða taka á móti símtali í aðildarríkinu sem heimsótt er. Enn fremur er þjónustuveitendum gert skylt að gefa viðskiptavinum sínum, óski þeir þess og að kostnaðarlausu, viðbótarupplýsingar um mínútugjöld eða gjöld fyrir hverja gagnaeiningu (þ.m.t. virðisaukaskattur) þegar þeir hringja eða taka á móti símtölum og einnig fyrir að senda og taka á móti SMS-skilaboðum, MMS-skilaboðum og vegna annarrar gagnafjarskiptaþjónustu í aðildarríkinu sem heimsótt er. Með gagnsæi er þess einnig krafist að fjarskiptafyrirtæki veiti upplýsingar um reikigjöld, einkum Evrópugjaldskrána og heildarfastagjaldið, ef þau bjóða slíkt, þegar skrifað er undir áskrift og í hvert sinn sem breyting verður á reikigjöldum. Fjarskiptafyrirtæki skulu veita upplýsingar um reikigjöld á viðeigandi hátt, svo sem með reikningum, á netinu, í sjónvarpsauglýsingum eða með markpósti. Fjarskiptafyrirtæki skulu tryggja að öllum reikiviðskiptavinum þeirra sé kunnugt um að þeim bjóðist gjaldskrár sem byggjast á reglum, og þeir skulu senda skýrar og óhlutdrægar tilkynningar til þessara viðskiptavina þar sem lýst er skilyrðum Evrópugjaldskrárinnar og réttinum til að skipta yfir í hana eða hætta að nota hana.
    Til þess að tryggja að allir notendur farsíma geti notið góðs af ákvæðum reikireglugerðarinnar og frumvarps þessa skulu kröfurnar um smásöluverðlagningu gilda hvort sem reikiviðskiptavinir eru með fyrirfram- eða eftirágreiðslusamning við þjónustuveitanda sinn og hvort sem þjónustuveitandinn er með eigið net, rekur sýndarnet eða hann er endurseljandi farsímaþjónustu.

Um 4. gr.


    Með fjölgun fjarskiptafyrirtækja undanfarin ár hefur sýnt sig að notendur eru margir hverjir ekki upplýstir um það hvað kostar þá að hringja úr númeri hjá einu fjarskiptafyrirtæki yfir í númer hjá öðru fjarskiptafyrirtæki. Þar sem slík símtöl eru í flestum tilfellum dýrari fyrir notendur er lagt til að bætt verði við ákvæði um skyldu fjarskiptafyrirtækja til þess að sjá til þess að notendur séu upplýstir um hvað kostar þá að hringja á milli kerfa hverju sinni.

Um 5. gr.


    Í núgildandi lögum er almenn talsímaþjónusta skilgreind sem „þjónusta opin almenningi sem miðlar innlendum og alþjóðlegum símtölum um notendabúnað sem er tengdur föstum nettengipunkti“. Í ljósi þess að vísað er sérstaklega til fasts nettengipunktar útilokar þessi skilgreining það að farsímaþjónusta falli undir skilgreininguna almenn talsímaþjónusta þar sem slík þjónusta tengist ekki föstum nettengipunkti. Í 38. gr. núgildandi laga er m.a. kveðið á um rétt áskrifenda til að fá sundurliðaða reikninga. Í þeim tilgangi að styrkja neytendavernd notenda farsímaþjónustu er lagt til að gildissvið ákvæðis 38. gr. verði víkkað út svo að það nái jafnt yfir tal- og farsímaþjónustu. Réttur til þess að fá gjaldfrjálsa sundurliðun reikninga skal þó enn miðast við áskrifendur alþjónustu, þ.e. ekki farsímanotendur.
    Samkvæmt gildandi lögum nær heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að setja reglur um yfirgjaldsþjónustu aðeins til slíkrar þjónustu í talsíma en í ljósi þess að yfirgjaldsþjónusta er að mestu leyti veitt í farsímanúmerum í dag er þörf á að víkka út heimildina í lögunum svo að hún nái yfir yfirgjaldsþjónustu bæði í tal- og farsímanúmerum.

Um 6. gr.


    Lagt er til að í stað „talsímaþjónustu“ í ákvæði 39. gr. komi „tal- og farsímaþjónustu“ svo að notendur þessarar þjónustu njóti sama réttar þegar kemur að aðgerðum fjarskiptafyrirtækja vegna vanskila áskrifenda.


Um 7. gr.


    Í 51. gr. núgildandi laga er kveðið á um skyldu fjarskiptafyrirtækja sem reka almenna talsímaþjónustu til að bjóða notendum númerabirtingu í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd. Rétt þykir að notendur farsímaþjónustu njóti þessara réttinda jafnt á við notendur talsímaþjónustu. Er því lagt til að í stað „talsímaþjónustu“ í 51. gr. laganna komi „tal- og farsímaþjónustu“.

Um 8. gr.


    Í 54. gr. núgildandi laga er kveðið á um verndun talsímanetsins. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að fyrirtæki sem bjóða almenna talsímaþjónustu skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir sem miða að því að almenna talsímanetið og almenna talsímaþjónustan, þ.m.t. neyðarþjónusta, rofni ekki. Í 2. mgr. er kveðið á um að notendum sé óheimilt að valda truflunum eða ónæði í talsímanetinu. Rétt þykir að þau skilyrði og réttindi sem kveðið er á um í ákvæði þessu nái jafnt yfir tal- og farsímanetin og notendur beggja netanna. Er því lagt til að í stað „almenna talsímaþjónustu“ í 1. mgr. komi „almenna tal- og farsímaþjónustu“, í stað „almenna talsímanetið og almenna talsímaþjónustan“ í 1. mgr. komi „almenna tal- og farsímanetið og almenna tal- og farsímaþjónustan“ og í stað „talsímanetinu“ í 2. mgr. komi „tal- eða farsímanetum“.

Um 9. gr.


    Lagt er til að kaflaheiti X. kafla laganna verði breytt úr Talsímaþjónusta í Tal- og farsímaþjónusta í þeim tilgangi að notendur farsímaþjónustu njóti, eins og kostur er, sömu réttinda og notendur talsímaþjónustu.

Um 10. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 65. gr. laganna sem fjallar um markaðssetningu fjarskiptabúnaðar. Fram kemur í ákvæðinu að óheimilt sé að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir tilteknar grunnkröfur, annars vegar um verndun heilsu og öryggis notenda og annarra og hins vegar um að tæki í notkun hafi ekki truflandi áhrif á rafsegulumhverfið, og beri CE-merkingu því til staðfestingar. CE-merki er því til staðfestingar að vara fullnægi öllum skilgreindum grunnkröfum í ESB-gerðum og samhæfðum stöðlum á Evrópska efnahagssvæðinu. Umrætt ákvæði 1. mgr. 65. gr. og fleiri ákvæði XI. kafla fjarskiptalaga voru sett til að innleiða ákvæði tilskipunar ESB nr. 1999/5/EB (R&TTE tilskipun), um þráðlausan búnað og notendabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra. Með reglugerð nr. 90/2007, sem ber sama heiti og framangreind tilskipun, voru ákvæði tilskipunarinnar innleidd með fyllri hætti.
    Í l-lið 3. gr. reglugerðar nr. 90/2007 er hugtakið „markaðssetning“ skilgreint. Þar kemur fram að markaðssetning felist því í að flytja inn og/eða bjóða fram fjarskiptatæki, gegn greiðslu eða ókeypis, í því skyni að dreifa og/eða nota það á markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá kemur fram að innflutningur til eigin nota teljist markaðssetning um leið og fjarskiptatæki kemur inn á Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði 1. mgr. 65. gr. hefur verið skýrt þannig að það nái til innflutnings einstaklinga og lögaðila til eigin nota eða í öðrum tilgangi en til sölu í atvinnustarfsemi enda truflar ólögmætur fjarskiptabúnaður önnur fjarskipti alveg jafnmikið hvort sem búnaðurinn er keyptur í verslun hér á landi eða t.d. keyptur í gegnum erlendar vefsíður og póstsendur hingað til lands. Því er ekki eðlilegt að gera greinarmun að þessu leyti á því hver flytur fjarskiptabúnað inn eða í hvaða tilgangi. Nokkuð hefur borið á því að einstaklingar hafi haldið því fram að 1. mgr. 65. gr. taki ekki til innflutnings þeirra til eigin nota. Því þykir rétt að hnekkja á þessu til að gera ákvæðið skýrara og fyrirbyggja umræddan misskilning.

Um 11. gr.


    Í núgildandi lögum er kveðið á um það í 2. mgr. 68. gr. að Póst- og fjarskiptastofnun gefi út skírteini talstöðvavarða sem heimilar handhafa að starfrækja fjarskiptabúnað í skipum og flugvélum. Skírteinin þessi veita alþjóðleg réttindi og skulu vera í samræmi við alþjóðasamþykktir. Þá kemur fram í ákvæðinu að í skírteininu, sem skal vera tímabundið, skal kveða á um hvaða búnað handhafa er heimilt að starfrækja. Umsækjandi skírteinis skal leggja fram gögn sem sýna fram á að hann hafi fengið þjálfun í notkun þráðlauss búnaðar í viðurkenndum skóla. Í framkvæmd hafa allir umsækjendur flugskírteina þurft að leita til Póst- og fjarskiptastofnunar um útgáfu talstöðvavarðarskírteinis. Hafa umsækjendur þar framvísað gögnum um nám sitt og á grundvelli þess fengið útgefið talstöðvavarðarskírteini. Ekki hefur tíðkast að prófa eða athuga færni og hæfni umsækjenda hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Þá skýtur það skökku við að skírteiniskrafan í ákvæðinu tekur eingöngu til flugvéla og ekki annarra loftfara, svo sem þyrlna o. fl.
    Ljóst er að í framkvæmd hefur Póst- og fjarskiptastofnun gefi skírteinið út ótímabundið, sem er ekki í samræmi við ákvæði laganna. Ástæður þessa er að stofnunin hefur litið svo á að radíóskírteini það sem stofnunin gefur út fyrir flugmenn hafi sjálfkrafa ekkert gildi ef almenn flugréttindi þeirra falla niður. Hér má nefna að meðal þeirra skilyrða sem uppfylla verður við framlengingu flugréttinda er færni í að starfrækja fjarskiptabúnað. Þar sem þau skírteini sem gefin eru út af Flugmálastjórn Íslands, sem heyrir undir samgönguráðuneytið líkt og Póst- og fjarskiptastofnun, eiga að taka á færni og hæfni flugmanna til þess að starfrækja fjarskiptabúnað í loftförum verður að telja að ekki sé nauðsynlegt að setja sem skilyrði að flugmenn skulu jafnframt hafa skírteini gefin út af Póst- og fjarskiptastofnun þar sem vottað er um það sama. Þá mun reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands, sem nú er í endurskoðun, taka til þessarar færni og hæfni (eins og verið hefur) og mögulegt er að bæta við sérstökum athugasemdum í útgáfu allra skírteina frá stofnuninni sem tæki til heimildar til starfrækslu fjarskiptabúnaðar um borð í loftförum. Í ljósi markmiða um einfaldari stjórnsýslu verður því að telja rétt að fella þessa kröfu niður þar sem um er að ræða kröfu um skírteini sem hætt er að þjóna tilgangi sínum hvað varðar flugvélar og skip. Rétt er þó hins vegar að vekja athygli á að í 37. gr. alþjóðaradíóreglugerðar ITU er þess krafist að þeir sem noti alþjóðlegar flugtíðnir séu handhafar „Radiotelephone Operators Certificate“. Á undanförnum árum hefur komið fram í samtölum starfsmanna Póst- og fjarskiptastofnunar við flugstjóra, sem fljúga á fjarlægum slóðum eins og t.d. í Afríku, að þeir hafa talið nauðsynlegt að hafa undir höndum slíkt „radíóskírteini“, þar sem sumar þjóðir taka umræddan texta í fyrrnefndri 37. gr. mjög bókstaflega. Verður því að telja rétt að Póst- og fjarskiptastofnun haldi áfram að gefa þetta skírteini út fyrir þá flugmenn sem óska eftir því sérstaklega.
    Hvað varðar skírteini vegna fjarskiptabúnaðar í skipum verður að nefna að Póst- og fjarskiptastofnun hefur á undanförnum árum eingöngu gefið út skírteini fyrir skipstjórnarmenn á skipum með GMDSS-búnaði. Alþjóðlegar reglur IMO gera afdráttarlausar kröfur um að þeir sem starfrækja slíkan fjarskiptabúnað sýni fram á réttindi sín með þar til gerðum skírteinum, sem eru tímabundin í 5 ár. Ekki verður séð að unnt sé að fella niður útgáfu þessara skírteina eða gera það valkvætt á einhvern hátt.
    Ekki er krafist radíóskírteinis af skipstjórnarmönnum á smábátum, þar sem eingöngu eru VHF-talstöðvar.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003,
um fjarskipti, með síðari breytingum.

    Megintilgangur frumvarpsins er að innleiða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 717/2007, um reiki á almennum farsímanetum innan Bandalagsins, og um breytingar á tilskipun 2002/21/EB þar sem m.a. er kveðið á um hámarksverð í heild- og smásölu fyrir símtöl í reiki í farsímanetum. Enn fremur eru styrktar heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja smásölukvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk, felld eru niður ákvæði um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita innanlandsreiki í farsímanetum, auk nokkurra breytinga til þess að efla neytendavernd.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.