Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 539. máls.

Þskj. 840  —  539. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Í stað orðanna „a–d-lið 1. mgr.“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: a–e-lið 1. mgr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. tölul. orðast svo:
              1.      Peningaþvætti: Þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings með broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Hér er einnig átt við það þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.
     b.      Í stað orðanna „laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða“ í 2. málsl. a-liðar 4. tölul. kemur: laga um kauphallir.
     c.      Við greinina bætast tveir nýir töluliðir, 7. og 8. tölul., svohljóðandi:
        7.      Gjaldeyrisskiptastöð: Starfsemi þar sem í atvinnuskyni fer fram kaup og sala innlends og erlends gjaldeyris.
              8.      Peninga- og verðmætasendingarþjónusta: Starfsemi þar sem í atvinnuskyni er á einum stað tekið við reiðufé, tékkum eða annars konar verðmætum sem eru ígildi peninga og andvirði þess er á öðrum stað greitt til viðtakanda í reiðufé eða ígildi peninga með aðstoð hvers kyns skilaboða, millifærslu eða í gegnum greiðslukerfi sem hlutaðeigandi peninga- og verðmætasendingarþjónusta á aðild að og sérstök lög gilda ekki um. Yfirfærsla sem framkvæmd er af peninga- og verðmætasendingarþjónustu getur farið um hendur eins eða fleiri milligönguaðila áður en lokagreiðsla á sér stað til móttakanda.

3. gr.

    Fyrirsögn 4. gr. laganna orðast svo: Tilvik er áreiðanleikakönnun skal fara fram.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Áður en samningssambandi er komið á eða áður en viðskipti eiga sér stað skal tilkynningarskyldur aðili gera kröfu um að nýr viðskiptamaður sanni á sér deili með eftirfarandi hætti:
                  a.      Einstaklingar: Með framvísun gildra persónuskilríkja sem gefin eru út af stjórnvöldum eða eru viðurkennd af stjórnvöldum.
                  b.      Lögaðilar: Með framlagningu vottorðs úr Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eða sambærilegri opinberri skrá með heiti, heimilisfangi og kennitölu eða sambærilegum upplýsingum. Prókúruhafar og aðrir þeir sem hafa sérstaka heimild til að koma fram fyrir hönd viðskiptavinar gagnvart fjármálafyrirtæki, þar með taldir framkvæmdastjórar og stjórnarmenn, skulu sanna á sér deili. Jafnframt skulu aðilar sýna fram á að þeir séu réttilega að prókúru eða sérstakri heimild komnir.
             Tilkynningarskyldir aðilar skulu afla upplýsinga um raunverulegan eiganda, sbr. 4. tölul. 3. gr. Í tilvikum þar sem ekki er ljóst af framlögðum gögnum hver endanlegur móttakandi fjár verður skal krefjast frekari upplýsinga um það atriði.
     b.      Á eftir 2. mgr., er verður 3. mgr., kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Tilkynningarskyldur aðili skal gera kröfu um að viðskiptamaður sem þegar er í viðskiptum sanni á sér deili skv. 1. mgr., hafi hann ekki þegar gert það.
     c.      Í stað orðanna „varðveita ljósrit“ í 4. mgr., er verður 5. mgr., kemur: varðveita afrit. Í sömu málsgrein og í stað orðanna „viðskiptum lýkur“ kemur: viðskiptasambandi lýkur eða einstök viðskipti hafa átt sér stað.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn.

5. gr.

    Fyrirsögn 8. gr. laganna orðast svo: Tímabundin frestun á að sannreyna áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn.

6. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Hafi þegar verið stofnað til viðskiptasambands skal þá þegar binda enda á það.

7. gr.

    Orðin „ef nauðsyn krefur“ í 1. mgr. 10. gr. laganna falla brott.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „viðkomandi og“ í a-lið kemur: staðreyna.
     b.      Á eftir orðunum „eftirlit gagnaðilans“ í b-lið kemur: og fullvissa sig.
     c.      Í stað orðanna „viti deili á viðskiptamanni“ í e-lið kemur: hafi fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 5. gr. um áreiðanleikakönnun.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Breytist staða viðskiptamanns eftir að hann hefur verið tekinn í viðskipti þannig að hann teljist einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna á 1. mgr. jafnframt við. Skal þá þegar afla samþykkis frá yfirstjórn, sbr. b-lið 1. mgr., áður en viðskiptasambandi er haldið áfram.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „þegar um er að ræða“ kemur: nýja tækni.
     b.      Orðin „ef þörf krefur“ falla brott.

11. gr.

    15. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Viðskiptamenn sem lúta einfaldaðri könnun á áreiðanleika.

         Þegar tilkynningarskyldur aðili hefur aflað fullnægjandi upplýsinga um að viðskiptamaður falli undir eftirfarandi er heimilt að beita einfaldaðri áreiðanleikakönnun:
     a.      Lögaðilar sem taldir eru upp í a- og b-lið 1. mgr. 2. gr. og samsvarandi lögaðilar sem hlotið hafa starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Sama gildir um eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem til eru gerðar kröfur sambærilegar við kröfur laga þessara.
     b.      Félög sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.
     c.      Íslensk stjórnvöld.
    Við einfaldaða áreiðanleikakönnun gilda ekki ákvæði 5. og 6. gr. Ávallt skal þó skrá nafn einstaklings eða lögaðila, kennitölu og heimilisfang.

12. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, svohljóðandi:

    Tilvik þar sem beita má einfaldaðri könnun á áreiðanleika viðskiptamanna.

    Í eftirfarandi tilvikum er heimilt að beita einfaldaðri könnun á áreiðanleika viðskiptamanna, sbr. 2. mgr. 15. gr:
     1.      Þegar staðfest er að greiðsla fyrir viðskipti verði færð til skuldar á viðskiptareikningi á nafni viðskiptamanns í starfandi fjármálafyrirtæki eða samsvarandi lögaðila sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu, nema grunur leiki á að viðskiptin tengist peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
     2.      Við gerð líftryggingarsamnings hjá fjármálastofnun, sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu, ef árlegt iðgjald viðskiptamanns frá Evrópska efnahagssvæðinu er lægra en 1.000 evrur, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, eða ef um er að ræða eingreiðslu iðgjalds sem er lægri en 2.500 evrur, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Ef árlegt iðgjald er hækkað, þannig að það verði hærra en 1.000 evrur, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, skal krefjast framvísunar skilríkja, sbr. 5. gr.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „Tilkynningarskyldur aðili þarf ekki“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: áður en viðskipti hefjast.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Áður en upplýsingar eru fengnar skal tilkynningarskyldur aðili leitast við að tryggja að þriðji aðili fullnægi kröfum sambærilegum við þær sem gerðar eru í lögum þessum og lúti eftirliti sambærilegu við eftirlit með íslenskum fjármálafyrirtækjum.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tilkynningarskyldur aðili skal tryggja að þriðji aðili uppfylli þessa skyldu sína og gera um það skriflegan samning þar sem kveðið er nánar á um framkvæmd upplýsingagjafarinnar.

14. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Einfölduð könnun á áreiðanleika viðskiptamanna.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og fyrirhuguð viðskipti.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kanna skal bakgrunn og tilgang slíkra viðskipta að því marki sem unnt er.
     c.      Á eftir orðinu „Samkvæmt“ í 2. mgr. kemur: skriflegri.
     d.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki er þörf á dómsúrskurði vegna upplýsingagjafar samkvæmt ákvæði þessu.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sjá til þess að mótaðar séu samræmdar starfsaðferðir er stuðli að framkvæmd laganna“ í 2. málsl. kemur: hefur skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum er skipt geta máli vegna tilkynningar.
     b.      Við greinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að mótaðar séu samræmdar starfsaðferðir er stuðli að góðri framkvæmd laganna.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      2. málsl 1. mgr. orðast svo: Þar skal m.a. fjallað um áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, tilkynningarskyldu, varðveislu gagna og viðskipti sem krefjast sérstakrar varúðar.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Tilkynningarskyldir aðilar skulu sjá til þess að starfsmenn hljóti sérstaka þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þjálfunin skal fara fram við upphaf starfs og reglulega á starfstímanum, til að tryggja að starfsmenn þekki skyldur tilkynningarskyldra aðila samkvæmt lögum þessum, áreiðanleikakönnun viðskiptamanna og tilkynningarskyldu ásamt því sem þeir fái upplýsingar um þróun innan málaflokksins og nýjustu aðferðir við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

18. gr.

    Við 2. mgr. 24. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Séu lög og reglur sem beinast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka strangari í hinu erlenda ríki, þar sem útibú eða dótturfélag er staðsett, skal þeim fylgt.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „a–d-lið 1. mgr. 2. gr.“ kemur: a–e-lið 1. mgr. 2. gr.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Neytendastofa hefur eftirlit með því að þeir sem falla undir j-lið 1. mgr. 2. gr. fari að ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og setur nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Fjármálaeftirlitið og Neytendastofa.

20. gr.

    Á eftir 25. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 25. gr. a og 25. gr. b, svohljóðandi:

    a. (25. gr. a.)

Skráning gjaldeyrisskiptastöðva og peninga- og verðmætasendingarþjónustu.


    Einstaklingar og lögaðilar sem starfrækja gjaldeyrisskiptastöð eða peninga- og verðmætasendingarþjónustu eru skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu.
    Undanþegin skráningarskyldu eru fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, sbr. a-lið 1. mgr. 2. gr.
    Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd og skilyrði skráningar og framkvæmd viðskipta.

    b. (25. gr. b.)
    Fjármálaeftirlitið skal neita um skráningu skv. 25. gr. a ef skráningarskyldir aðilar eða stjórnendur eða raunverulegir eigendur starfseminnar hafa á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum þessum, löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot, opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Fjármálaeftirlitið skal fella skráðan aðila af skrá skv. 25. gr. a ef um skráningarskylda aðila eða stjórnendur eða raunverulega eigendur starfseminnar háttar svo sem um getur í 1. mgr.

21. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Eftirlit, skráningarskylda o.fl.

22. gr.

    Á eftir 1. mgr. 27. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Vanræki aðili skráningarskyldu skv. 25. gr. a, haldi hann starfsemi sinni áfram þrátt fyrir að hafa verið felldur út af skrá Fjármálaeftirlitsins eða vanræki hann að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð svo sem kveðið er á um í lögum þessum skal hann sæta sektum.

23. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Hinn 21. mars 2005 skipaði viðskiptaráðherra ráðgjafarnefnd til að fjalla um málefni tengd peningaþvætti. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með framkvæmd aðgerða gegn peningaþvætti, samræma verklagsreglur og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni tengd peningaþvætti. Enn fremur miðar starf nefndarinnar að því að undirbúa úttektir alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF (e. Financial Action Task Force on Measures against Money Laundering) á stöðu aðgerða gegn peningaþvætti á Íslandi og vinna að endurskoðun laga og reglugerða á þessu sviði, í samræmi við tilmæli sem FATF hefur gefið út.
    Ráðgjafarnefndin hefur í daglegu tali gengið undir heitinu „peningaþvættisnefndin“ en í upphafi áttu sæti í henni fulltrúar viðskiptaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins, embættis ríkislögreglustjóra og Samtaka fjármálafyrirtækja. Með tilkomu laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, fjölgaði þeim aðilum sem tilkynningarskyldir eru á grundvelli laganna og leggja lögin nú ríkari skyldur á herðar tilkynningarskyldum aðilum en áður. Því eiga nú einnig sæti í nefndinni fulltrúar Félags fasteignasala, Félags löggiltra endurskoðenda, Lögmannafélags Íslands, utanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum er miða að því að koma til móts við þær athugasemdir sem gerðar voru við íslensk lög og reglur í úttektarskýrslu áðurnefnds framkvæmdahóps, FATF, haustið 2006. Nefndarstarf „peningaþvættisnefndar“ hefur á síðustu misserum einkum tekið mið af því að leita leiða til að koma til móts við þessar athugasemdir FATF, að því leyti sem talið hefur verið unnt. Byggist frumvarp þetta á tillögum ráðgjafarnefndarinnar og er það mikilvægur liður í að trúverðugleiki og traust íslensks viðskiptalífs haldist.

II. FATF.


Almennt um FATF.
    Skammstöfunin FATF stendur, sem fyrr segir, fyrir Financial Action Task Force on Money Laundering en um er að ræða alþjóðlegan framkvæmdahóp, sem settur var á stofn með ákvörðun er tekin var á fundi leiðtoga sjö helstu iðnríkja heims í París sumarið 1989. FATF vinnur að aðgerðum er miða að því að koma í veg fyrir að fjármálakerfi séu notuð til að þvætta fé og fjármagna hryðjuverk.
    FATF-samstarfið er fóstrað af OECD en Ísland er sem kunnugt er aðili að OECD. Ísland gekk til samstarfs við FATF haustið 1991 og er því skuldbundið til að samræma löggjöf sína og starfsreglur að tillögum FATF. Árið 1990 gaf FATF út 40 tilmæli er varða aðgerðir gegn peningaþvætti. Tilmælin hafa verið endurskoðuð í tvígang, 1996 og 2003, til að tryggja fylgni við þróun í þessum málaflokki. Þá hafa bæst við níu svokölluð „sérstök tilmæli“ (e. Special Recommendations (SR)) en þau miða að því að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka. Tilmæli FATF og starf hins alþjóðlega framkvæmdahóps hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um peningaþvætti verið í samræmi við tilmælin.

Úttekt FATF haustið 2006 á stöðu Íslands.
    Úttekt FATF á stöðu Íslands gagnvart aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem gerð var árið 2006 og sett fram í skýrslu FATF þá um haustið, var liður í þeirri vinnu FATF að framkvæma reglulega úttektir á lögum, reglum og starfsaðferðum aðildarríkja FATF, er lúta að aðgerðum ríkjanna til að koma í veg fyrir að fjármálakerfi þeirra séu misnotuð í þeim tilgangi að þvætta fé og fjármagna hryðjuverk. Tilgangur úttektarinnar er að kanna hvort ríkin fari að tilmælunum og gefur matsnefndin ríkjunum einkunn. Einkunnagjöfin felst í því að gefnir eru eftirfarandi bókstafir: C (e. compliant) eða uppfyllt, LC (e. largely compliant) eða að mestu leyti uppfyllt, PC (e. partially compliant) eða að hluta til uppfyllt og NC (e. non-compliant) eða óuppfyllt. Loks er að finna einkunnina NA (e. non-applying), eigi tilmæli ekki við.
    Í úttekt FATF haustið 2006 var Ísland ýmist einungis talið hafa uppfyllt að hluta til (PC) eða alls ekki uppfyllt (NC) 26 af tilmælunum 40 og sérstöku tilmælunum 9. Ísland var hins vegar talið hafa uppfyllt (C) eða að mestu leyti hafa uppfyllt (LC) 22 tilmælanna en eitt þeirra átti ekki við (NA). Frekari útskýringar á einkunnagjöfinni er að finna á bls. 141 í áðurnefndri úttektarskýrslu FATF. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu FATF á slóðinni: www.fatf-gafi.org.

Eftirfylgnisúttekt 2008 vegna úttektar FATF á Íslandi 2006.
    Á úttektarfundi FATF, sem haldinn verður haustið 2008, munu fulltrúar ráðgjafarnefndarinnar, sem fulltrúar íslenskra stjórnvalda, koma fyrir matsnefnd FATF og gera grein fyrir þeim úrbótum sem átt hafa sér stað frá úttektinni 2006. Þær tillögur sem lagðar eru fram í lagafrumvarpi þessu um breytingu á lögum nr. 64/2006 taka mið af framangreindu marki og eru mikilvægur liður í að trúverðugleiki og traust íslensks viðskiptalífs haldist.

III. Helstu nýmæli.


A. Peninga- og verðmætasendingarþjónusta.
    Í úttektarskýrslu FATF eru m.a. gerðar athugasemdir við framkvæmd einna hinna sérstöku tilmæla, þ.e. við SRVI, sem lýtur að peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Markmið SRVI er að auka gagnsæi fjármagns- og verðmætaflutninga, ekki síst í óformlegum greiðslukerfum, sem falla utan hefðbundinna fjármálakerfa og þar sem ekki er litið til tilmæla FATF. Tilmælinu er ætlað að hindra notkun slíkra kerfa til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Í SRVI er lögð sú skylda á aðildarríki að færa peninga- og verðmætasendingarkerfi undir tiltekin lágmarkslagaskilyrði. Í úttektarskýrslu FATF á Íslandi frá 2006 er gagnrýnt að íslensk lög geri hvorki kröfu um skráningu né að aflað sé leyfis til að mega starfrækja peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Ekki sé gerð krafa um eftirlit með starfsemi af þessu tagi og þar af leiðandi séu viðurlagaákvæði ekki til staðar, líkt og SRVI gerir ráð fyrir. Til frekari glöggvunar á athugasemdum FATF vegna SRVI vísast til bls. 101–102 í úttektarskýrslu FATF á Íslandi frá 2006. Jafnframt skal bent á að í skýrslunni eru einnig gerðar athugasemdir við framkvæmd tilmæla FATF um baráttu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi sem varðað geta starfsemi gjaldeyrisskiptastöðva, sjá athugasemdir við SRVII á bls. 76 í skýrslunni.
    Til að bregðast við framangreindum athugasemdum FATF er í frumvarpi þessu lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslu peninga og annarra verðmæta, sbr. e-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/2006, fari að ákvæðum laganna, reglugerðum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim.
    Jafnframt er lögð til skráningarskylda hjá Fjármálaeftirlitinu til starfrækslu gjaldeyrisskiptastöðva og peninga- og verðmætasendingarþjónustu ásamt því sem skilgreint verði í lögunum hvaða starfsemi falli undir fyrrgreind hugtök. Samkvæmt gildandi löggjöf skal afla leyfis fyrir starfrækslu gjaldeyrisskiptastöðva hjá Seðlabanka Íslands. Eftir því sem næst verður komist þá er peninga- og verðmætasendingarþjónusta á hinn bóginn ekki starfrækt hér á landi í dag, utan starfsleyfisskyldra fjármálafyrirtækja, sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Heppilegt þykir að gera sömu kröfur til peninga- og verðmætasendingarþjónustu og gerðar eru til gjaldeyrisskiptastöðva að því er skráningarskyldu hjá opinberum eftirlitsaðila varðar, enda er um eðlislíka starfsemi að ræða. Skráningu og eftirliti með starfseminni þykir best fyrir komið hjá Fjármálaeftirlitinu en stofnunin hefur ekki sinnt þessu verkefni áður. Er Fjármálaeftirlitinu ætlað að móta ákveðið verklag í tengslum við hið nýja hlutverk.
    Með tillögum þessum er einkum komið til móts við athugasemdir FATF en við mótun þeirra var jafnframt höfð hliðsjón af dönskum rétti.

B. Neytendastofa.
    Í frumvarpi þessu er sú tillaga gerð að Neytendastofu verði bætt inn í lögin, sem eftirlitsaðila þeirra er falla undir j-lið 1. mgr. 2. gr. laganna. Er með tillögunni litið til athugasemda í úttektarskýrslu FATF á Íslandi frá 2006 við tilmæli nr. 16 en í 478. tölul. skýrslunnar vekur FATF athygli á því að svo virðist sem þessir aðilar séu ekki nægilega upplýstir um skyldur sínar samkvæmt lögunum. Einkum er vísað til skyldunnar um að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka og tilkynna lögreglu um viðskipti þar sem slík tengsl eru talin vera fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.
    Tillaga um eftirlit Neytendastofu gerir ráð fyrir því að eftirlitshlutverk stofnunarinnar felist einkum í því að upplýsa þá sem undir þennan lið ákvæðisins falla með reglubundnum hætti um skyldur sínar samkvæmt lögunum, reglugerðum og öðrum reglum settum samkvæmt þeim en jafnframt er gert ráð fyrir að Neytendastofa setji nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins. Neytendastofu er falið verkefnið með heimild í 2. mgr. 2. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005.
    Nái frumvarpið fram að ganga skal eftirlitsskylda Neytendastofu, til viðbótar þeim sem taldir eru upp í athugasemdum við j-lið 1. mgr. 2. gr. í frumvarpi til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er varð að lögum nr. 64/2006, þ.e. söluaðilum dýrrar vöru, t.d. eðalsteina, málma eða listmuna, jafnframt ná til þeirra er selja skartgripi úr eðalmálmum og/eða eðalsteinum og þeirra er selja nýjar eða notaðar bifreiðar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með breytingunni er lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að þeir sem falla undir e-lið 1. mgr. 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, fari að ákvæðum laganna og reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim. Með einstaklingum eða lögaðilum sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslu peninga og annarra verðmæta er átt við gjaldeyrisskiptastöðvar, peninga- og verðmætasendingarþjónustu og starfsemi sem fellur undir lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Um ástæður breytinganna vísast til almennra athugasemda hér að framan, nánar tiltekið til III. kafla.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 3. gr. laganna, en þar er að finna skýringar á nokkrum grundvallarhugtökum laganna.
    Sú breyting sem gerð er á orðskýringunni í 1. tölul., þ.e. á hugtakinu „peningaþvætti“, er í samræmi við frumvarp dóms- og kirkjumálaráðherra um breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, sbr. 8. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til breyting á núgildandi 264. gr. laganna. Vísast því að verulegu leyti til þess er fram kemur í athugasemdum um 8. gr. frumvarpsins sem lagt var fram á þessu löggjafarþingi, sbr. þskj. 197, 184. mál. Þar kemur m.a. fram að við gerð tillagna að breytingum á 264. gr. almennra hegningarlaga hafi að meginstefnu verið horft til 6. gr. svokallaðs Palermó-samnings, en um er að ræða samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 15. nóvember 2000. Gekk samningurinn í gildi 29. september 2003 en var undirritaður af hálfu íslenska ríkisins 13. desember 2003. Jafnframt kemur fram að litið sé til athugasemda FATF, þ.e. til úttektarskýrslu FATF á Íslandi frá 2006 um málaflokkinn.
    Með því að fella brott í 1. málsl. orðskýringarinnar upptalningu á tilteknum lögum; „svo sem auðgunarbroti eða meiri háttar skatta- eða fíkniefnabroti, tollalögum, lögum um ávana- og fíkniefni, áfengislögum og lyfjalögum“ en setja þess í stað inn í orðskýringuna almenna orðalaginu „eða öðrum lögum“ er farin sú leið að rýmka gildissvið peningaþvættisbrots, þannig að það taki ekki einungis til frumbrota á almennum hegningarlögum og þeirra brota sem þar eru talin upp, jafnvel þótt sú upptalning sé ekki tæmandi, heldur einnig til refsiverðra frumbrota á öllum öðrum lögum, þ.e. hvaða lögum sem er.
    Breytingin sem lögð er til á 2. málsl. 1. tölul. 3. gr. er því til samræmis við áðurnefnda breytingu sem lögð hefur verið til á 264. gr. almennra hegningarlaga Rétt þykir að upptalningin sé samræmd auk þess sem ákvæðið svo breytt þykir falla betur að ákvæði 2. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB, frá 26. október 2005, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverkamanna, þ.e. vera skýrari en núgildandi orðskýring.
    Sú breyting sem lögð er til á orðalagi 2. málsl. a-liðar 4. tölul. 3. gr. er tilkomin vegna breytinga er gerðar hafa verið á lögum en ný lög um kauphallir, nr. 110/2007, tóku gildi 1. nóvember 2007.
    Lagt er til að tveimur nýjum orðskýringum verði bætt við 3. gr. laganna. Er þar annars vegar um að ræða skilgreiningu á hugtakinu gjaldeyrisskiptastöðvar og hins vegar á hugtakinu peninga- og verðmætasendingarþjónusta. Lagt er til að umræddar tegundir starfsemi verði skráningarskyldar hjá Fjármálaeftirlitinu. Með gjaldeyrisskiptastöð er átt við starfsemi þar sem í atvinnuskyni er keyptur og seldur innlendur og erlendur gjaldeyrir. Með peninga- og verðmætasendingarþjónustu er átt við starfsemi þar sem í atvinnuskyni er á einum stað tekið við reiðufé, tékkum eða annars konar verðmæti sem er ígildi peninga og á öðrum stað greidd samsvarandi fjárhæð í reiðufé, eða á öðru formi, til viðtakanda með aðstoð skilaboða eða millifærslu, eða í gegnum greiðslukerfi, sem hlutaðeigandi peninga- og verðmætasendingarþjónusta á aðild að. Skilgreining þessi byggist á skilgreiningu FATF á hugtakinu „money or value transfer services“. Með starfsemi þar sem í atvinnuskyni er framkvæmd slík yfirfærsla verðmæta er það gert að skilyrði að hún sé höfð að aðalstarfi. Hótel sem skipta gjaldeyri fyrir gesti sína og jafnvel verslanir, sem taka við greiðslu í einum gjaldeyri og borga út í öðrum, falla því að jafnaði ekki hér undir. Þá er það jafnframt gert að skilyrði að sérstök lög gildi ekki um starfsemina, svo sem lög um póst- og flutningsþjónustu. Flutningur á áþreifanlegum verðmætum fellur með öðrum orðum almennt ekki undir hugtakið; greiðsla á öðrum stað felur í sér greiðslu á andvirði yfirfærslunnar, þó svo að hún þurfi ekki endilega að vera í reiðufé. Nauðsynlegt þykir að skilgreina peninga- og verðmætasendingarþjónustu út frá eðli starfseminnar enda er það reynsla erlendra ríkja að birtingarmyndir og form slíkrar þjónustu séu margbreytileg. Við framkvæmd peninga- og verðmætasendingarþjónustu kunna milliliðir að vera fyrir hendi. Jafnframt kann sendandi yfirfærslu og viðtakandi hennar að vera einn og sami aðilinn.

Um 3. gr.


    Hér er lögð til breyting á fyrirsögn 4. gr. laganna. Með tillögu um breytta fyrirsögn þykir efnisinnihaldi greinarinnar betur lýst, en þar eru talin upp þau tilvik er tilkynningarskyldir aðilar skulu kanna áreiðanleika viðskiptamanna sinna. Samhliða er lögð til breyting á fyrirsögn 5. gr., sbr. 4. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna en breytingin gerir ráð fyrir því að stjórnvöld geti viðurkennt skilríki sem gefin eru út af öðrum en þeim og að notkun slíkra skilríkja sé þá heimil til að sanna á sér deili.
    Með tillögu um breyttan b-lið 1. mgr., sem á við lögaðila, er gerð sú krafa að prókúruhafi sanni ekki einungis á sér deili með þeim hætti er greinir í a-lið greinarinnar, heldur skal sá hinn sami jafnframt sanna að hann hafi til þess heimildir, þ.e. réttilega tilkomna prókúru eða aðra sérstaka heimild. Framangreint á jafnframt við um framkvæmdastjóra, stjórnarmenn og aðra sem skuldbundið geta lögaðila.
    Með tillögu um nýja 2. mgr. er tekið tillit til athugasemda er Ísland fékk í úttektarskýrslu FATF haustið 2006 um að ekki væri í íslenskri löggjöf að finna fullnægjandi skyldu tilkynningarskyldra aðila til þess að afla ávallt upplýsinga um raunverulegan eiganda og stjórn lögaðila. Í skýrslu FATF er við öflun upplýsinga notað enska orðalagið „reasonable measures“, þ.e. að tilkynningarskyldir aðilar skuli grípa til „sanngjarnra ráðstafana“ til að verða sér úti um upplýsingar um raunverulegan eiganda og stjórn lögaðila.
    Með tillögu um nýja 4. mgr. er miðað að því að lögfest verði krafa um að þeir viðskiptamenn sem þegar eru í viðskiptum við tilkynningarskyldan aðila sanni á sér deili skv. 1. mgr., hafi þeir ekki þegar gert það, en með því er komið til móts við athugasemdir FATF um þetta efni. Í þessu sambandi vísast til 6. gr. núgildandi laga en samkvæmt ákvæðinu skal tilkynningarskyldur aðili hafa reglubundið eftirlit með samningssambandi við viðskiptamenn sína og uppfæra upplýsingar um þá.
    Með breyttu orðalagi 4. mgr. 5. gr., nái frumvarpið fram að ganga, er gert ráð fyrir því að tilkynningarskyldir aðilar skuli ekki einungis hafa þann möguleika að varðveita ljósrit af persónuskilríkjum og öðrum gögnum sem krafist er, eða fullnægjandi upplýsinga úr þeim, heldur geti þeir geymt afrit af persónuskilríkjum og slíkum gögnum. Breytingin þykir eðlileg og eykur möguleika tilkynningarskyldra aðila til að nýta sér geymslu gagna og upplýsinga á rafrænu formi. Með því að bæta orðunum „eða einstök viðskipti hafa átt sér stað“ við málsgreinina er fyrst og fremst verið að hnykkja á aðgreiningunni sem felst í því að fyrir hendi getur verið viðskiptasamband annars vegar eða um einstök viðskipti að ræða hins vegar.
    Loks er lögð til breyting á fyrirsögn greinarinnar. Fyrirsögnin er nú: „Upplýsingaöflun tilkynningarskyldra aðila“, en lagt er til að hún verði: „Könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn“. Þykir breytingin betur til þess fallin að skýra tilgang greinarinnar, þ.e. hvernig könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn er fullnægt, ásamt því að falla betur að orðalagi FATF (e. customer due diligence).
    Breytingartillögur við 5. gr. taka einkum mið af athugasemdum þeim er Ísland fékk í úttektarskýrslu FATF haustið 2006 vegna tilmæla FATF nr. 5 (e. Customer Due Diligence and Record-Keeping) en nánar vísast í þessu sambandi til bls. 60–68 og bls. 71–72 í skýrslunni.

Um 5. gr.


    Lögð er til breyting á fyrirsögn 8. gr. laganna þar sem núverandi fyrirsögn þykir misvísandi, þ.e. ekki er um að ræða heimild til frestunar á því að aflað sé upplýsinga enda kemur fram í lokamálslið 1. mgr. 8. gr. að viðskiptamaður skuli sanna á sér deili eins fljótt og því verður við komið. Tilkynningarskyldur aðili skal ávallt afla grundvallarupplýsinga um viðskiptamann, áður en til viðskiptasambands er stofnað. Breytingin samræmist framkvæmd FATF á tilmælum nr. 8. Áréttað skal að um er að ræða undanþáguheimild, sem túlka skal þröngt.

Um 6. gr.


    Hafi ekki reynst mögulegt að fullnægja skilyrðum áreiðanleika könnunar viðskiptamanns, sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 5. gr. laganna, er lagt til að við 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. verði bætt því skilyrði að binda skuli enda á viðskiptasamband sem þegar hefur verið stofnað til. Í úttektarskýrslu FATF á Íslandi 2006 gerir FATF sérstaka athugasemd við að hvorki hafi í eldri lögum um peningaþvætti frá 1999 verið kveðið á um framangreint né heldur geri núgildandi lög nr. 64/2006 um þetta áskilnað, sjá nánar í 296. tölul. skýrslunnar. Breytingunni er ætlað að bæta úr þessum annmarka.
    Í þessu sambandi skal bent á tengsl við nýja 4. mgr. 4. gr. og athugasemdir við hana hér að framan. Ákvæðið mælir fyrir um að tilkynningarskyldur aðili krefji að viðskiptamaður sem er í viðskiptum sanni á sér deili hafi hann ekki þegar gert það.

Um 7. gr.


    Með tillögu um að fella út orðalagið „ef nauðsyn krefur“ er komið til móts við þær athugasemdir sem settar eru fram í 306.–308. tölul. úttektarskýrslunnar. FATF þótti ákvæðið of opið, þ.e. ekki lægi fyrir hvenær „nauðsyn krefði“ að aflað skyldi viðbótargagna um viðskiptamenn. Með því að fella orðalagið „ef nauðsyn krefur“ brott er í öllum tilvikum þegar um fjarsölu ræðir gerð krafa um að aflað sé viðbótargagna um viðskiptamenn.

Um 8. gr.


    FATF gerir í skýrslu sinni athugasemdir við a- og b-lið 11. gr. laganna og vísar í því sambandi til þess er kemur fram í greinargerð með ákvæðinu. Þar kemur fram að við framkvæmd matsins skv. a-lið skuli farið eftir opinberum gögnum og skipti þar m.a. máli hvort heimaríki viðkomandi aðila fylgi alþjóðlegum viðmiðum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. FATF þykir þetta of almennt. Með tillögu um breyttan a-lið er gerð krafa um að fjármálafyrirtæki er lögin gilda um fullvissi sig, í mati sínu, um gæði eftirlits gagnaðila, þ.e. að eftirlitið sé bæði fullnægjandi og skilvirkt, sbr. orðalag FATF (e. adequate and effective). Með tillögum til breytinga á b-lið er skerpt á áherslu matsins, þ.e. fjármálafyrirtækin skulu, með mati sínu á eftirliti gagnaðila, fullvissa sig um að ekki fari þar fram peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    FATF gagnrýnir í úttektarskýrslu sinni að í e-lið 11. gr. núgildandi laga sé einungis gerð krafa um að gagnaðili viti deili á viðskiptamanni (e. identify). Ekki sé gerð krafa um könnun áreiðanleika viðskiptamanns. Tillaga um breyttan e-lið tekur mið af framangreindri gagnrýni.
    Nánar um tilkomu breytingartillögu greinarinnar vísast til 303. og 304. tölul. umræddrar skýrslu FATF.

Um 9. gr.


    Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 12. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við greinina. Í málsgreininni er kveðið á um það hvernig fara skuli með þau tilvik þegar staða viðskiptamanns breytist, þ.e. þegar viðskiptamaður sem þegar hefur verið tekinn í viðskipti verður síðar einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna. Vísað er til þess að komi sú staða upp eigi 1. mgr. greinarinnar við, þ.m.t. að þá þegar skuli aflað samþykkis frá yfirstjórn, sbr. b-lið 1. mgr., áður en viðskiptasambandi er fram haldið. Það skilyrði er nægilega uppfyllt með því að samþykkis sé aflað frá næsta stjórnunarstigi fyrir ofan viðkomandi starfsmann, þ.e. ekki er þörf á að afla samþykkis stjórnar. Með tillögu um breytingu þessa er komið til móts við athugasemdir FATF í umræddri skýrslu vegna tilmæla FATF nr. 6, sjá nánar 299. og 300. tölul. skýrslunnar.
    Í örðu lagi er lagt til að fyrirsögn ákvæðisins verði breytt þannig að skýrar sé tekið fram að um sé að ræða einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna en ekki almennt um einstaklinga sem gætu verið í áhættuhópi. Samræmist breytingin betur orðalagi sem FATF og EB nota (e. politically exposed persons).

Um 10. gr.


    Gerð er tillaga um að bætt verði inn í 14. gr. laganna áskilnaði um að tilkynningarskyldir aðilar skuli, þegar um er að ræða vöru eða viðskipti þar sem hvatt er til nafnleyndar, jafnframt sýna sérstaka varúð þegar um er að ræða nýja tækni og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slík tækni sé notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Með breytingartillögunni er komið til móts við athugasemd FATF þessa efnis og varðar tilmæli nr. 8, sjá nánar 305. tölul. í skýrslu FATF. Gerð er tillaga um að orðalagið „ef þörf krefur“ verði tekið út en með því er komið til móts við athugasemd FATF um að slíkt orðalag sé of opið. Breytingin leiðir til þess að tilkynningarskyldir aðilar skulu sýna sérstaka varúð þegar um er að ræða vöru, viðskipti eða nýja tækni þar sem hvatt er til nafnleyndar og ávallt, en ekki einungis ef þörf krefur, gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slík viðskipti séu notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.

Um 11. gr.


    Með tillögu um breytingu á 15. gr. er lagt til að um tiltekna viðskiptamenn verði heimilað að beita einfaldaðri könnun á áreiðanleika. Breytingin felur í sér að fallið er frá því að þeir aðilar sem taldir eru upp í núgildandi ákvæði séu undanþegnir könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn. Þess í stað er tekin upp einfölduð áreiðanleikakönnun, sem er til samræmis við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB, frá 26. október 2005, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverkamanna. Jafnframt samræmist breytingin norrænni löggjöf um þetta efni.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til setningar reglugerðar um frekari útfærslu á efni ákvæðisins.

Um 12. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt verði við lögin nýrri grein, 15. gr. a. Með greininni eru talin upp þau tilvik þar sem heimilt er að beita einfaldaðri áreiðanleikakönnun.
    Ákvæðið er keimlíkt ákvæði því sem nú að finna í 2. gr. reglugerðar um tilkynningarskyldu og könnun á áreiðanleika viðskiptamanns í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 550/2006. Greinin, eins og hún er sett fram í frumvarpi þessu, er þó ekki að öllu leyti samhljóða áðurnefndu reglugerðarákvæði heldur hefur henni verið breytt og hefur þá einkum verið litið til athugasemda í úttektarskýrslu FATF á Íslandi frá 2006, nánar tiltekið til 284.–287. tölul. Helsta breytingin felst í því að með nýrri 15. gr. a er gerð tillaga um að í stað undanþágu frá áreiðanleikakönnun skuli framkvæmd einfölduð áreiðanleikakönnun, sbr. 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að tilkynningarskyldur aðili skuli ávallt kanna áreiðanleika viðskiptamanna sinna þegar grunur er um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, sbr. d-lið 4. gr. laganna.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er gerð tillaga um að fjallað verið um gerð líftryggingarsamnings hjá fjármálastofnun „sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu“ auk þess sem talað er um árlegt iðgjald „viðskiptamanns frá Evrópska efnahagssvæðinu“. Breytingartillagan er til samræmis við athugasemdir í 285. tölul. i.f. í skýrslu FATF.

Um 13. gr.


    Breytingin sem lögð er til á 16. gr. tengist tilmælum FATF nr. 9 og þeim athugasemdum sem FATF gerir við greinina. Með því að bætt er inn í 1. málsl. 1. mgr. orðunum „áður en viðskipti hefjast“ er komið til móts við athugasemd FATF í 313. tölul., þ.e. að um er að ræða það, að þótt ekki sé gerð krafa um að tilkynningarskyldur aðili kanni sjálfur áreiðanleika viðskiptamanns skv. 1.–3. mgr. 5. gr. laganna þá skal hann engu að síður tryggja, áður en viðskipti hefjast en ekki síðar, að samsvarandi upplýsingar um áreiðanleika viðskiptamanns liggi fyrir. Upplýsingarnar um áreiðanleika viðskiptamanns skulu fram komnar fyrir tilstilli fjármálafyrirtækis sem hlotið hefur starfsleyfi á Íslandi eða samsvarandi lögaðila sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Sama gildir um upplýsingar sem koma fram fyrir tilstilli eftirlitsskyldrar lána- eða fjármálastofnunar frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem gerðar eru sambærilegar kröfur til og í lögunum. Endanleg ábyrgð á könnun á áreiðanleika viðskiptamanns skv. 1.–3. mgr. 5. gr. hvílir ávallt á viðtakanda upplýsinganna.
    Með tilkomu nýs 3. málsl. í 1. mgr. 16. gr. er komið til móts við þær athugasemdir FATF sem gerðar eru í 315. tölul. skýrslunnar. Tilkynningarskyldir aðilar skulu ávallt leitast við að tryggja (e. to satisfy themselves) að þriðji aðili fullnægi kröfum sambærilegum við þær sem gerðar eru í lögunum og að hann lúti eftirliti sambærilegu við eftirlit með íslenskum fjármálafyrirtækjum ásamt því að viðkomandi ríki fylgi tilmælum FATF.
    Þá er í ákvæðinu lagt til að nýr málsliður bætist við 2. mgr. 16. gr. en með breytingunni er komið til móts við athugasemdir FATF sem finna má í 314. og 315. tölul. skýrslunnar, þ.e. að tilkynningarskyldir aðilar tryggi að þriðji aðili uppfylli skylduna sem tiltekin er í 1. mgr. ákvæðisins. Einkum þyrfti að tiltaka í samningi þeim sem vísað er til tímamark (e. without delay), enda tiltekur FATF sérstaklega að ekki megi hljótast tafir á framlagningu upplýsinganna.
    Nánar vísast til athugasemda FATF á bls. 73 í umræddri skýrslu.

Um 14. gr.


    Með tilkomu ákvæða er heimila einfaldaða könnun á áreiðanleika viðskiptamanna er gerð tillaga um breytt heiti IV. kafla. Nánar vísast til þess er fram kemur í athugasemdum um 11. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.


    Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði inn í 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna orðunum „og fyrirhuguð viðskipti“ og er með því komið til móts við athugasemd í skýrslu FATF, sbr. 346. tölul., þar sem fram kemur að sú skylda tilkynningarskyldra aðila að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti (e. any transaction) skuli jafnframt ná til fyrirhugaðra viðskipta (e. attempted transactions).
    Þá er í greininni lagt til að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. 17. gr., þar sem gerð er krafa um að tilkynningarskyldur aðili kanni bakgrunn og tilgang viðskipta, sem málsgreinin kveður á um, að því marki sem unnt er (e. to the extent possible). Þannig er komið til móts við athugasemdir FATF í 331. og 334. tölul. umræddrar skýrslu. Jafnframt vísast hér til ummæla FATF við tilmæli 21 (neðst á bls. 78 í skýrslu) en þar kemur fram að FATF telur framangreint vanta með beinum hætti inn í greinina.
    Með tillögu til breytinga á 2. mgr. 17. gr. er hnykkt á því skilyrði að beiðnir lögreglu, sem rannsakar peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, um upplýsingar frá tilkynningarskyldum aðila, sem nauðsynlegar eru taldar vegna tilkynningarinnar, skuli vera skriflegar. Ekki er um efnisbreytingu að ræða en skilyrði þetta er að finna í 4. gr. reglugerðar nr. 550/ 2006, sem felld verður úr gildi verði frumvarp þetta að lögum. Jafnframt þykir rétt að bæta við 2. mgr. 17. gr. laganna nýjum málslið en hann er sömuleiðis að finna í áðurnefndri 4. gr. umræddrar reglugerðar, þ.e. þess efnis að ekki sé þörf á dómsúrskurði vegna upplýsingagjafar samkvæmt ákvæðinu.

Um 16. gr.


    Hér er gerð tillaga um breytingu á 2. málsl. 22. gr. laganna. Varðar breytingartillagan 15. tilmæli FATF en með henni er komið til móts við þá athugasemd í skýrslu FATF að ábyrgðarmaður skuli hafa skilyrðislausan aðgang (e. timely access) að áreiðanleikakönnunum viðskiptamanna, viðskiptum og öðrum upplýsingum er máli skipta vegna tilkynningar, sbr. 370. og 382. tölul. í skýrslu FATF. Í 370. tölul. skýrslu FATF kemur fram að Fjármálaeftirlitið telur að ábyrgðarmaður hafi, eins og lögin eru nú, fullan aðgang að þeim gögnum er hann þarf að hafa til að geta sinnt starfi sínu. Sú breyting að ábyrgðarmaður skuli hafa skilyrðislausan aðgang (e. timely access) að áreiðanleikakönnunum viðskiptamanna, viðskiptum og öðrum upplýsingum er máli skipta vegna tilkynningar ætti ekki að hafa neinar breytingar á framkvæmdinni í för með sér. Orðunum er fyrst og fremst bætt inn í ákvæðið til að koma til móts við athugasemd FATF um þetta efni en FATF vill með athugasemd sinni fyrirbyggja það að bið sé á því að ábyrgðarmaður hafi aðgang að áðurnefndum gögnum en slíkt mundi vera hindrun í störfum ábyrgðarmanns og draga úr skilvirkni.

Um 17. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 23. gr. laganna.
    Í fyrsta lagi er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. 23. gr. laganna, en með því er komið til móts við athugasemd er fram kemur í 367. tölul. í skýrslu FATF og varðar eftirlit og skriflegar innri reglur, þ.e. að í þeim skuli m.a. fjallað um áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, tilkynningarskyldu, varðveislu gagna og viðskipti sem krefjast sérstakrar varúðar.
    Samhliða tillögu um nýja málsgrein sem bætist við greinina er lögð fram tillaga um að felldur verði niður lokamálsliður 1. mgr. 23. gr. er kveður á um skyldu tilkynningarskyldra aðila til að sjá til þess að starfsmenn hljóti sérstaka þjálfun í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra væri notuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Tillaga um nýja málsgrein kveður á um slíka þjálfun og því er ekki um efnisbreytingu að ræða. Hins vegar er í tillögunni skerpt á því hvað skuli felast í þjálfuninni, hvenær hún eigi að fara fram, þ.e. bæði við upphaf starfs og jafnframt reglulega á starfstíma viðkomandi. Með breytingartillögunni er komið til móts við athugasemdir FATF í 372. tölul. skýrslunnar.

Um 18. gr.


    Með tillögu um nýjan málslið í 2. mgr. 24. gr. er komið til móts við athugasemd FATF er fram kemur í 379. tölul. skýrslunnar og þarfnast breytingartillagan ekki frekari skýringa.

Um 19. gr.


    Í 19. gr. frumvarpsins er lagt til að gerðar verði breytingar á 25. gr. laganna. Lagt er til að bætt verði við greinina nýrri málsgrein, en sú breytingartillaga tekur mið af athugasemdum í úttektarskýrslu FATF á Íslandi frá 2006 við tilmæli nr. 16. Í 478. tölul. skýrslunnar vekur FATF á því athygli að svo virðist sem m.a. þeir sem heyra undir j-lið 1. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni selja hluti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri, sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, séu ekki nægilega vel upplýstir um skyldur sínar samkvæmt lögunum. Í þessu sambandi vísast sérstaklega til þeirrar skyldu að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka og tilkynna lögreglu um viðskipti þar sem slík tengsl eru talin vera fyrir hendi, sbr. 1. málsl. 1 mgr. 17. gr. laganna. Gildir þetta einkum um viðskipti sem eru óvenjuleg, mikil eða flókin, með hliðsjón af venjubundinni starfsemi viðskiptamannsins eða virðast ekki hafa fjárhagslegan eða lögmætan tilgang, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna.
    Til að koma til móts við framangreint er lagt til að Neytendastofa gegni hlutverki eftirlitsaðila en eftirlitshlutverk stofnunarinnar mundi einkum felast í því að upplýsa framangreinda aðila, með reglubundnum hætti, um skyldur sínar samkvæmt lögunum, reglugerðum og öðrum reglum settum samkvæmt þeim. Neytendastofa setur nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins. Neytendastofu er falið verkefnið með heimild í 2. mgr. 2. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005.
    Í 492. tölul. skýrslunnar tiltekur FATF sérstaklega að auk skyldunnar skv. 1. mgr. 17. gr., sem nefnd hefur verið, skuli athygli aðila jafnframt vakin á aðgæslu gagnvart erlendum viðskiptasamböndum og færslum, hvort heldur sem er við einstaklinga eða lögaðila sem ekki uppfylla nægilega tilmæli FATF, sbr. tilmæli nr. 21. Þá skulu aðilar upplýstir um að í mörgum ríkjum sé að finna veikleika með tilliti til varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þessu til viðbótar skal aðilum sérstaklega bent á skyldu sína til reglubundinnar þjálfunar starfsmanna er taki mið af þróun í málaflokknum.
    Til viðbótar þeim sem taldir eru upp í athugasemdum við j-lið 1. mgr. 2. gr. í frumvarpi til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er varð að lögum nr. 64/2006 skal eftirlitsskylda Neytendastofu jafnframt ná til þeirra er selja skartgripi úr eðalmálmum og/eða eðalsteinum og þeirra er selja nýjar eða notaðar bifreiðar.

Um 20. gr.


    Hér er lagt til að tveimur nýjum greinum verði bætt við lögin, 25. gr. a og 25. gr. b. Miðar tillagan að því að koma til móts við sérstök tilmæli FATF nr. VI (SRVI) en samkvæmt tilmælunum hvílir á íslenska ríkinu þjóðréttarleg skylda til að uppfylla eftirtalin skilyrði, að því er peninga- og verðmætasendingarþjónustu varðar: a) Starfsemin skal háð opinberri leyfisveitingu eða skráningu. b) Starfsemin skal undirorpin gildissviði hinna 40 tilmæla FATF og hinna 8 sérstöku tilmæla. c) Það skal varða viðurlögum að starfrækja peninga- og verðmætasendingarþjónustu án leyfis eða skráningar. Jafnframt skulu liggja við því viðurlög, sé ekki farið að viðeigandi tilmælum FATF.
    Með tilkomu 25. gr. a er lagt til að starfsemi gjaldeyrisskiptastöðva og peninga- og verðmætasendingarþjónustu verði skráningarskyld hjá Fjármálaeftirlitinu. Skv. 8. gr. laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, er öðrum aðilum en Seðlabanka Íslands óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi, nema að hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða að fengið hafi verið til þess leyfi frá Seðlabankanum. Starfræksla gjaldeyrisskiptastöðva er því samkvæmt núgildandi lögum háð leyfi Seðlabanka. Slík leyfisveiting þykir hins vegar vart samræmast lengur því hlutverki og markmiðum sem lýst er í lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, og heyra betur undir verksvið Fjármálaeftirlitsins. Verði frumvarp þetta að lögum verður skráning hjá Fjármálaeftirlitinu framvegis skilyrði fyrir starfrækslu gjaldeyrisskiptastöðva í stað öflunar leyfis frá Seðlabankanum.
    Ekki liggur fyrir vitneskja um að peninga- eða verðmætasendingarþjónusta sé starfrækt hér á landi utan fjármálafyrirtækja. Undanfarin ár hafa fjármálafyrirtæki boðið þjónustu af þessu tagi, m.a. í gegnum alþjóðlegu peningasendingarfyrirtækin Western Union og Moneygram. Ekki hafa, til þessa, verið sett sérstök lagaákvæði um peninga- og verðmætasendingarþjónustu hér á landi. Verði ákvæðið að lögum er því um nýmæli að ræða í íslenskum rétti. Heppilegt þykir að gera sömu kröfur um skráningarskyldu, bæði gjaldeyrisskiptastöðva og peninga- og verðmætasendingarþjónustu, hjá opinberum eftirlitsaðila enda um eðlislíka starfsemi að ræða.
    Í 25. gr. b er lagt til að lögfest verði að Fjármálaeftirlitið skuli neita gjaldeyrisskiptastöð eða peninga- og verðmætasendingarþjónustu um skráningu samkvæmt lögunum ef skráningarskyldir aðilar eða stjórnendur eða raunverulegir eigendur starfseminnar hafa á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum þessum, löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot, opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Í leiðbeiningum FATF er besta framkvæmd (e. best practice) sérstaks tilmælis nr. VI (SRVI) sögð vera sú að gerðar séu lágmarkskröfur um hæfi rekstraraðila, eigenda, forstjóra og hluthafa fjármálastofnana. Hafa verður í huga að skilgreining FATF á hugtakinu fjármálastofnun er mun víðtækari en skilgreining hugtaksins fjármálafyrirtæki í íslenskum lögum. FATF telur peninga- og verðmætasendingarþjónustur og gjaldeyrisskiptastöðvar til fjármálastofnana og samkvæmt tilmælum FATF nr. 23 skulu ríki sjá til þess að glæpamenn og vitorðsmenn þeirra nái ekki yfirráðum eða eignist mikinn eða ráðandi hlut í fjármálastofnun eða gegni stjórnunarstöðu í slíkri stofnun.

Um 21. gr.


    Lagt er til að fyrirsögn VI. kafla laganna verði breytt til samræmis við þær breytingar sem gerðar eru með tilkomu nýrra ákvæða kaflans, einkum 25. gr. a, þar sem lagt er til að starfræksla gjaldeyrisskiptastöðva og peninga- og verðmætasendingarþjónustu verði skráningarskyld hjá Fjármálaeftirlitinu.

Um 22. gr.


    Í skýrslu FATF um aðgerðir íslenska ríkisins gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka frá árinu 2006 voru m.a. gerðar athugasemdir við framkvæmd hinna sérstöku tilmæla FATF nr. VI. Með frumvarpi þessu er lagt til að í lögum verði mælt fyrir um skyldu til skráningar starfsemi gjaldeyrisskiptastöðva og peninga- og verðmætasendingarþjónustu hjá Fjármálaeftirlitinu auk þess sem Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með því að aðilar þessir fari að lögum nr. 64/2006 og reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra. Því er í 22. gr. frumvarpsins lagt til að vanræksla á skráningarskyldu skv. 25. gr. a varði sektum. Það sama á við ef aðili heldur starfsemi sinni áfram þrátt fyrir að hafa verið felldur út af skrá Fjármálaeftirlitsins eða vanrækir að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð svo sem kveðið er á um í lögunum.

Um 23. gr.


    Í 23. gr. frumvarpsins er að finna gildistökuákvæði, en lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006.

    Markmiðið með frumvarpinu er að leggja fram breytingar á lögunum til að koma til móts við þær athugasemdir sem gerðar voru við íslensk lög og reglur af alþjóðlega framkvæmdahópnum, Financial Action Task Force on Measures against Money Laundering, sem fóstraður er af OECD. Í frumvarpinu er lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslur peninga og annarra verðmæta fari að ákvæðum laganna, reglugerðum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim. Jafnframt er lögð til skráningarskylda hjá Fjármálaeftirlitinu til starfrækslu gjaldeyrisskiptastöðva og peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Þá er lagt til að Neytendastofu verði bætt inn í lögin sem eftirlitsaðila.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það hafa í för með sér óverulega aukningu útgjalda sem rúmast innan ramma fjárheimilda viðskiptaráðuneytisins.