Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 557. máls.

Þskj. 858  —  557. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2007, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2007 frá 27. apríl 2007, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/46/EB frá 14. júní 2006 um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, 83/349/EBE um samstæðureikninga, 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana og 91/674/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2007 frá 27. apríl 2007, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/46/EB frá 14. júní 2006 um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, 83/349/EBE um samstæðureikninga, 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana og 91/674/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar gerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/46/EB frá 14. júní 2006 um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, 83/349/EBE um samstæðureikninga, 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana og 91/674/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga.
    Í tilskipuninni eru gerðar breytingar á fjórðu og sjöundu félagatilskipun sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Tilskipunin miðar að því að auka trúverðugleika á fjárhagsupplýsingum fyrirtækja. Meðal helstu breytinga sem felast í tilskipuninni er að lagðar eru auknar skyldur og aukin ábyrgð á stjórnarmenn félaga vegna reikningsskila og upplýsinga í ársreikningum. Á það jafnt við um fjárhagslegar og ófjárhagslegar lykilupplýsingar sem varða viðkomandi félag.
    Helstu breytingar sem tilskipunin leggur til eru:
          að aðildarríki geti hækkað viðmiðunarmörk lítilla og meðalstórra fyrirtækja um 20% frá þeim mörkum sem um getur í fjórðu og sjöundu félagatilskipun,
          að aðildarríkin geti krafist eða heimilað notkun á gangvirði í reikningsskilum fyrirtækja í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS).
    Einnig eru gerðar kröfur um:
          viðbótarskýringar með ársreikningi varðandi upplýsingar sem ekki koma fram í efnahagsreikningi og færslur til tengdra aðila,
          að ársreikningur fyrirtækis sem skráð er á opinberum markaði innihaldi yfirlýsingu um góða stjórnunarhætti,
          að tryggð sé samábyrgð stjórnarmanna á ársreikningi og skýrslum fyrirtækisins.
    Samkvæmt tilskipuninni skal hún innleidd í regluverk aðildarríkjanna fyrir 5. september 2008. Stefnt er að því að innleiða tilskipunina hér á landi á haustþingi 2008 með breytingum á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.

3. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvorttveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 20/2007

frá 27. apríl 2007

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn

SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2006 frá 8. desember 2006 ( 1 ).

2)        XXII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 160/2006 frá 8. desember 2006 ( 2 ).

3)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/46/EB frá 14. júní 2006 um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, 83/349/EBE um samstæðureikninga, 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana og 91/674/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga ( 3 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi undirliður bætist við í lið 12b (tilskipun ráðsins 91/674/EBE) og 21. lið (tilskipun ráðsins 86/635/EBE) í IX. viðauka við samninginn:

„–          32006 L 0046: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/46/EB frá 14. júní 2006 (Stjtíð. ESB L 224, 16.8.2006, bls. 1).“

2. gr.


Eftirfarandi undirliður bætist við í 4. lið (fjórða tilskipun ráðsins 78/660/EBE) og 6. lið (sjöunda tilskipun ráðsins 83/349/EBE) í XXII. viðauka við samninginn:

„–          32006 L 0046: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/46/EB frá 14. júní 2006 (Stjtíð. ESB L 224, 16.8.2006, bls. 1).“

3. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2006/46/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

4. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 28. apríl 2007 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

5. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 27. apríl 2007.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    A. Seatter


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    K. Bryn     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2006/46/EB
frá 14. júní 2006
um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, 83/349/EBE um samstæðureikninga, 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra     fjármálastofnana og 91/674/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 44. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ), í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Hinn 21. maí 2003 samþykkti framkvæmdastjórnin aðgerðaáætlun þar sem tilkynnt var um ráðstafanir til að færa félagarétt til nútímahorfs og efla stjórnarhætti fyrirtækja í Bandalaginu. Forgangsmál Bandalagsins til skamms tíma litið var að staðfesta sameiginlega ábyrgð stjórnarmanna, auka gagnsæi að því er varðar viðskipti við tengda aðila og samkomulag utan efnahagsreiknings og bæta upplýsingagjöf um stjórnarhætti fyrirtækja sem er beitt innan félags.
2)          Samkvæmt þessari aðgerðaáætlun skal lágmarkskrafan vera sú að stjórnarmenn í stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn félags séu samábyrgir gagnvart félaginu með tilliti til samningar og birtingar ársreikninga og ársskýrslna. Hið sama skal einnig gilda um stjórnarmenn í stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn fyrirtækja sem semja samstæðureikninga. Þessir aðilar starfa innan þess valdsviðs sem þeim er falið samkvæmt landslögum. Þetta á ekki að koma í veg fyrir að aðildarríkin gangi lengra og kveði á um beina ábyrgð gagnvart hluthöfum og jafnvel öðrum hagsmunaaðilum. Aðildarríkin skulu á hinn bóginn láta vera að velja kerfi þar sem ábyrgðin takmarkast við einstaka stjórnarmenn. Þetta á þó ekki að koma í veg fyrir að dómstólar eða aðrir aðfararaðilar í aðildarríkjunum geti beitt einstaka stjórnarmenn viðurlögum.
3)          Ábyrgðin á því að semja og birta ársreikninga og samstæðureikninga, svo og ársskýrslur og samstæðuársskýrslur, er byggð á innlendum lögum. Viðeigandi reglur um ábyrgð skulu gilda um stjórnarmenn í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn, eins og mælt er fyrir um í hverju aðildarríki samkvæmt landslögum eða reglum. Aðildarríkjunum skal vera frjálst að ákvarða umfang ábyrgðarinnar.
4)          Í því skyni að stuðla að trúverðugu reikningsskilaferli innan Evrópusambandsins skal sú skylda hvíla á aðilum að þeirri stofnun félags sem ber ábyrgð á gerð fjárhagsskýrslna félagsins að þeir tryggi að fjárhagsupplýsingar, sem eru í ársreikningum og ársskýrslum félags, gefi glögga mynd.
5)          Hinn 27. september 2004 samþykkti framkvæmdastjórnin orðsendingu um að koma í veg fyrir og berjast gegn fjármálamisferli og vafasömum viðskiptaháttum þar sem m.a. kemur fram stefnumótandi frumkvæði framkvæmdastjórnarinnar að því er varðar innra eftirlit í félögum og ábyrgð stjórnarmanna.
6)          Að svo stöddu er aðeins í fjórðu tilskipun ráðsins 78/660/EBE ( 3 ) og sjöundu tilskipun ráðsins 83/349/EBE ( 4 ) kveðið á um upplýsingagjöf um viðskipti milli félags og eignatengdra fyrirtækja félagsins. Birting upplýsinga skal vera víðtækari og ná til annars konar tengdra aðila, s.s. lykilstjórnenda og maka stjórnarmanna, í því augnamiði að færa félög með verðbréf sem eru ekki skráð á skipulegum markaði nær félögum sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samstæðureikningsskil sín, en aðeins þegar slík viðskipti skipta máli og eru ekki milli ótengdra aðila. Birting upplýsinga um mikilvæg viðskipti við tengda aðila, sem eru ekki gerð við eðlilegar markaðsaðstæður, geta hjálpað notendum ársreikninga til að meta fjárhagsstöðu félagsins, svo og fjárhagsstöðu samstæðunnar í heild, ef félagið er hluti af samstæðu. Viðskipti tengdra aðila innan samstæðunnar skulu felld út við gerð samstæðureikningsskilanna.
7)          Skilgreiningar á tengdum aðila, sem koma fram í alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum, sem framkvæmdastjórnin samþykkti í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla ( 5 ), skulu gilda um tilskipanir 78/660/EBE og 83/349/EBE.
8)          Samkomulag utan efnahagsreiknings getur leitt til þess að félag verði óvarið fyrir áhættu og ávinningi sem skipta máli fyrir mat á fjárhagsstöðu félagsins og fjárhagsstöðu samstæðunnar í heild þegar félagið er hluti af samstæðu.
9)          Slíkt samkomulag utan efnahagsreiknings getur verið hvers konar viðskipti eða samningar sem félög gera við einingar, jafnvel óskráðar einingar, sem eru ekki í efnahagsreikningnum. Þannig samkomulag utan efnahagsreiknings getur tengst stofnsetningu eða notkun einnar eða fleiri rekstrareininga um sérverkefni og starfsemi á hafi úti sem m.a. er ætlað að taka til efnahagslegra, lagalegra, skattalegra eða reikningsskilamarkmiða. Dæmi um slíkt samkomulag utan efnahagsreiknings er fyrirkomulag á skiptingu áhættu og ávinnings eða skuldbindingar, s.s. skuldakröfukaup, samtengdir sölu- og endurkaupasamningar, samkomulag um umsýslulager, algreiðslusamningar, verðbréfun sem sérstök félög og óskráðar einingar annast, veðsettar eignir, rekstrarleigusamningar, útvistun og því um líkt. Viðeigandi upplýsingar um umtalsverða áhættu og ávinning vegna slíks samkomulags, sem er utan efnahagsreiknings, skulu settar fram í skýringum við reikningsskilin eða samstæðureikningsskilin.
10)          Skylda ber fyrirtæki með verðbréf, sem eru skráð á skipulegum markaði og hafa skráða skrifstofu í Bandalaginu, til að birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í sérstökum og skýrt afmörkuðum kafla í ársskýrslunni. Sú yfirlýsing skal í það minnsta veita hluthöfum vel aðgengilegar lykilupplýsingar um þá stjórnarhætti sem fyrirtækið beitir í raun, þ.m.t. lýsing á helstu þáttum allra fyrirliggjandi áhættustýringarkerfa og innra eftirlits í tengslum við reikningsskilaferlið. Í yfirlýsingunni um stjórnarhætti fyrirtækisins skal koma skýrt fram hvort félagið beiti einhverjum öðrum ákvæðum um stjórnarhætti fyrirtækja en þeim sem kveðið er á um í landslögum, burtséð frá því hvort mælt er beint fyrir um þau ákvæði í reglum um stjórnarhætti fyrirtækja sem félaginu ber að fylgja eða í öðrum reglum um stjórnarhætti fyrirtækja sem félagið hefur ákveðið að beita. Að auki geta félög einnig, ef við á, sett fram greiningu á umhverfisþáttum og félagslegum þáttum sem nauðsynlegir eru til að skilja þróun, árangur og stöðu félagsins. Engin þörf er á að skylda fyrirtæki sem gera samstæðuársskýrslu til að birta sérstaka yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækja. Engu að síður skal leggja fram upplýsingar um áhættustýringarkerfi og innra eftirlitskerfi samstæðunnar.
11)          Mismunandi ráðstafanir, sem eru samþykktar samkvæmt þessari tilskipun, þurfa ekki endilega að gilda um sams konar félög eða fyrirtæki. Aðildarríkin skulu eiga þess kost að undanþiggja lítil félög, eins og lýst er í 11. gr. tilskipunar 78/660/EBE, frá kröfum sem varða tengda aðila og samkomulag utan efnahagsreiknings samkvæmt þessari tilskipun. Ekki skal skylda félög, sem nú þegar veita upplýsingar um viðskipti við tengda aðila í reikningsskilum sínum í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem hafa verið samþykktir í Evrópusambandinu, til að veita frekari upplýsingar samkvæmt þessari tilskipun þar sem beiting alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna gefur nú þegar glögga mynd af slíku félagi. Ákvæði þessarar tilskipunar að því er varðar yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækja skulu gilda um öll félög, þ.m.t. bankar, trygginga- og endurtryggingafélög og félög sem hafa gefið út verðbréf, önnur en hlutabréf, sem eru skráð á skipulegum markaði, að svo miklu leyti sem aðildarríkin hafa ekki veitt þeim undanþágu. Ákvæði þessarar tilskipunar, er varða skyldur og ábyrgð stjórnarmanna, svo og viðurlög, skulu gilda um öll félög sem tilskipanir ráðsins 78/660/EBE, 86/635/EBE ( 6 ) og 91/674/EBE ( 7 ) gilda um og um öll fyrirtæki sem gera samstæðureikningsskil í samræmi við tilskipun 83/349/EBE.
12)          Eins og sakir standa er í tilskipun 78/660/EBE kveðið á um að á fimm ára fresti skuli skoða m.a. efri viðmiðunarmörk fyrir efnahagsreikning og hreina veltu sem aðildarríkin geta beitt við ákvörðun um hvaða félögum megi veita undanþágu frá tilteknum kröfum um upplýsingagjöf. Auk þessara athugana á fimm ára fresti getur einnig verið rétt að hækka í eitt skipti viðmiðunarmörkin fyrir efnahagsreikning og hreina veltu. Aðildarríkjunum ber ekki skylda til að nota þessi hækkuðu viðmiðunarmörk.
13)          Þar eð aðildarríkin geta ekki, svo vel sé, náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að auðvelda fjárfestingar yfir landamæri og auka samanburðarhæfi og tiltrú almennings innan ESB á reikningsskilum og fjárhagsskýrslum með bættri og samræmdri sérstakri upplýsingagjöf, og auðveldara er að ná þeim á vettvangi Bandalagsins vegna umfangs og áhrifa þessarar tilskipunar, getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi þessum markmiðum.
14)          Í þessari tilskipun er tekið tillit til þeirra grundvallarréttinda og þeim meginreglum fylgt sem einkum eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
15)          Í samræmi við 34. gr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 8 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær.
16)          Því ber að breyta tilskipunum 78/660/EBE, 83/349/EBE, 86/635/EBE og 91/674/EBE til samræmis við það.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Breytingar á tilskipun 78/660/EBE

Tilskipun 78/660/EBE er breytt sem hér segir:
1.     Í 11. gr. breytist fyrsta mgr. sem hér segir:
a)    í fyrsta undirlið komi orðin „niðurstöðutala efnahagsreiknings: 4 400 000 evrur“ í stað orðanna „niðurstöðutala efnahagsreiknings: 3 650 000 evrur“,
b)    í öðrum undirlið komi orðin „hrein velta: 8 800 000 evrur“ í stað orðanna „hrein velta: 7 300 000 evrur“.
2.     Í þriðju mgr. 11. gr. komi orðin „allar tilskipanir um ákvörðun þessara fjárhæða“ í stað orðanna „tilskipunin um ákvörðun þessara fjárhæða í samræmi við endurskoðunina sem kveðið er á um í 2. mgr. 53. gr.“.
3.     Í 27. gr. breytist fyrsta mgr. sem hér segir:
a)    í fyrsta undirlið komi orðin „niðurstöðutala efnahagsreiknings: 17 500 000 evrur“ í stað orðanna „niðurstöðutala efnahagsreiknings: 14 600 000 evrur“,
b)    í öðrum undirlið komi orðin „hrein velta: 35 000 000 evrur“ í stað orðanna „hrein velta: 29 200 000 evrur“.
4.     Í þriðju mgr. 27. gr. komi orðin „allar tilskipanir um ákvörðun þessara fjárhæða“ í stað orðanna „tilskipunin um ákvörðun þessara fjárhæða í samræmi við endurskoðunina sem kveðið er á um í 2. mgr. 53. gr.“.
5.     Eftirfarandi málsgrein bætist við 42. gr. a:
    „5 a)     Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. mgr. geta aðildarríkin, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem voru samþykktir með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1725/2003 frá 29. september 2003 um innleiðingu tiltekinna, alþjóðlegra reikningsskilastaðla í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 (*), eins og henni var breytt til 5. september 2006, heimilað eða krafist mats á fjármálagerningum, svo og að farið verði að kröfum um upplýsingagjöf sem þeim tengjast og kveðið er á um í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem voru samþykktir í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (**).
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 261, 13.10.2003, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 108/2006 (Stjtíð. ESB L 24, 27.1.2006, bls. 1).
    (**)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.“
6.     Í 1. mgr. 43. gr. bætist eftirfarandi liðir við:
    „7a)    Eðli og viðskiptatilgangur samkomulags félagsins sem er ekki í efnahagsreikningnum og fjárhagsleg áhrif þess samkomulags á félagið, að því tilskildu að áhættan eða ávinningurinn af slíku samkomulagi skipti máli og að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er að birta upplýsingar um slíka áhættu eða ávinning til að meta fjárhagsstöðu félagsins.
            Aðildarríkin geta heimilað félögunum sem um getur í 27. gr. að takmarka þær upplýsingar, sem gerð er krafa um í þessum undirlið að verði veittar, við eðli og viðskiptatilgang slíks samkomulags.
    7b)        Viðskipti sem félagið hefur átt við tengda aðila, þ.m.t. fjárhæð slíkra viðskipta, eðli tengslanna milli tengdu aðilanna og aðrar upplýsingar um viðskiptin sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að skilja fjárhagsstöðu félagsins, ef slík viðskipti skipta máli og hafa ekki verið gerð við eðlilegar markaðsaðstæður. Upplýsingum um einstök viðskipti má safna saman eftir því hvers eðlis þær eru nema þar sem sérstakar upplýsingar eru nauðsynlegar til að unnt sé að skilja áhrif viðskipta tengdra aðila á fjárhagsstöðu félagsins.
            Aðildarríkin geta heimilað félögum sem um getur í 27. gr. að sleppa að birta upplýsingarnar sem kveðið er á um í þessum lið nema þessi félög séu af þeirri gerð sem um getur í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 77/91/EBE en þá geta aðildarríkin takmarkað upplýsingagjöfina, að lágmarki, við bein eða óbein viðskipti milli:
            i)    félagsins og stærstu hluthafa þess,
                og
            ii)    félagsins og aðila í stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn.
            Aðildarríkin geta undanþegið viðskipti sem tveir eða fleiri aðilar samstæðu eiga sín í milli, að því tilskildu að dótturfyrirtæki, sem eru aðilar að viðskiptunum, séu að öllu leyti í eigu slíks aðila.
            „Tengdur aðili“ hefur sömu merkingu og í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem voru samþykktir í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1606/2002.“
7.     Eftirfarandi grein bætist við:
     „46. gr. a
    1.     Félag með verðbréf, sem eru skráð á skipulegum markaði í skilningi 14. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/ EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga [11], skal setja yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækja í ársskýrslu sína. Sú yfirlýsing skal vera sérstakur kafli í ársskýrslunni og í henni eiga að vera að lágmarki eftirfarandi upplýsingar:
    a)     tilvísun í
        i.    reglur um stjórnarhætti sem félaginu ber að fylgja og/eða
        ii.    reglur um stjórnarhætti sem félagið kann að hafa ákveðið af fúsum og frjálsum vilja að beita og/eða
        iii.    allar viðeigandi upplýsingar um stjórnarhætti fyrirtækja sem beitt er umfram það sem krafist er samkvæmt innlendum lögum.
        Þar sem i- og ii-liður eiga við skal félagið einnig greina frá því hvar viðeigandi textar eru aðgengilegir almenningi; þar sem iii. liður á við skal félagið gera stjórnarhætti sína aðgengilega almenningi,
    b)    skýring félagsins á því frá hvaða hlutum reglnanna um stjórnarhætti fyrirtækja það víkur og ástæðurnar fyrir því, að svo miklu leyti sem félag, í samræmi við innlend lög, víkur frá reglum um stjórnarhætti fyrirtækja sem um getur í i- eða ii-lið a-liðar. Ef félag hefur ákveðið að beita ekki neinum ákvæðum reglna um stjórnarhætti fyrirtækja, sem um getur í i- eða ii-lið a-liðar, skal það greina frá ástæðum þess,
    c)    lýsing á helstu þáttum innra eftirlitskerfis og áhættustýringarkerfi félagsins í tengslum við reikningsskilaferlið,
    d)    upplýsingarnar sem gerð er krafa um í c-, d-, f-, h- og i-lið 1. mgr. 10. gr., tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB frá 21. apríl 2004, um yfirtökutilboð (**), ef félagið heyrir undir ákvæði þeirrar tilskipunar,
    e)    lýsing á starfsemi hluthafafundarins og helsta valdi hans og lýsing á réttindum hluthafa og hvernig hægt er að beita þeim, nema allar þessar upplýsingar sé að finna í innlendum lögum eða reglugerðum,
    f)    lýsing á samsetningu og starfsemi stjórnar, framkvæmdastjórnar og eftirlitsstjórnar og nefnda þeirra.
    2.     Aðildarríkin geta heimilað að upplýsingarnar, sem gerð er krafa um í þessari grein, séu settar fram í sérstakri skýrslu sem er birt samhliða ársskýrslunni með þeim hætti sem sett er fram í 47. gr. eða með því að setja tilvísun í ársskýrsluna um hvar slíkt skjal er aðgengilegt almenningi á vefsetri félagsins. Þegar um er að ræða sérstaka skýrslu getur yfirlýsingin um stjórnarhætti fyrirtækja haft að geyma tilvísun í ársskýrsluna þar sem upplýsingarnar, sem gerð er krafa um í d-lið 1. mgr., eru gerðar aðgengilegar. Ákvæði annars undirliðar í 1. mgr. 51. gr., skulu gilda um ákvæðin í c- og d-lið 1. mgr. þessarar greinar. Að því er varðar aðrar upplýsingar skal löggilti endurskoðandinn kanna hvort yfirlýsingin um stjórnarhætti fyrirtækja hafi verið gerð.
    3.     Aðildarríkin geta undanþegið félög, sem hafa aðeins gefið út verðbréf, önnur en hlutabréf, sem eru skráð á skipulegum markaði, í skilningi 14. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB, frá beitingu ákvæðanna í a-, b-, e- og f-lið 1. mgr., nema þessi félög hafi gefið út hlutabréf sem verslað er með á markaðstorgi, í skilningi 15. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.
    (**)    Stjtíð. ESB L 142, 30.4.2004, bls. 12.“
8.     Eftirfarandi þáttur bætist við:
    „10. ÞÁTTUR A
     Skyldur og ábyrgð að því er varðar að semja og birta ársreikningana og ársskýrsluna
     50. gr. b
    Aðildarríkin skulu tryggja að á aðilum í stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn félagsins hvíli sú sameiginlega skylda að tryggja að ársreikningar, ársskýrsla og, þegar hún er lögð fram sérstaklega, yfirlýsing um stjórnarhætti fyrirtækja sem leggja á fram skv. 46. gr. a, séu samin og birt í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar og, ef við á, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem hafa verið samþykktir í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1606/2002. Slíkar stofnanir skulu starfa innan þess valdsviðs sem þeim er ætlað í landslögum.
    50. gr. c
    Aðildarríkin skulu tryggja að lög þeirra og stjórnsýslufyrirmæli um ábyrgð gildi um aðila í stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn sem um getur í 50. gr. b, a.m.k. gagnvart félaginu, ef þeir sinna ekki skyldunni sem um getur í 50. gr. b.“
9.     Í stað 53. gr. a komi eftirfarandi:
     „53. gr. a
    Aðildarríkin skulu ekki láta undanþágurnar, sem settar eru fram í 11. og 27. gr., 43. gr. (lið 7a og 7b í 1. mgr.) og 46., 47. og 51. gr., gilda um félög ef verðbréf þeirra eru skráð á skipulegum markaði í skilningi 14. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB.“
10.     Eftirfarandi grein bætist við:
     „60. gr. a
    Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn innlendum ákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þau komi til framkvæmda. Viðurlög, sem kveðið er á um, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.“
11.     Í stað 61. gr. a komi eftirfarandi:
     „61. gr. a
    Eigi síðar en 1. júlí 2007 skal framkvæmdastjórnin endurskoða ákvæði 42. gr. a – 42. gr. f, 1., 10. og 14. mgr. 43. gr., 1. mgr. 44. gr., f-liðar 2. mgr. 46. gr. og a- og b-liðar 2. mgr. 59. gr. í ljósi fenginnar reynslu af því að beita ákvæðum um gangverðsreikningsskil, einkum með tilliti til IAS-staðals 39 eins og hann var samþykktur í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1606/2002 og að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar á sviði reikningshalds og, ef við á, leggja tillögu fyrir Evrópuþingið og ráðið í því skyni að breyta framangreindum greinum.“

2. gr.
Breytingar á tilskipun 83/349/EBE

Tilskipun 83/349/EBE er breytt sem hér segir:
1.     Eftirfarandi liðir bætist við í 34. gr.:
    „7a)    Eðli og viðskiptatilgangur samkomulags sem er ekki talið með í efnahagsreikningi samstæðunnar og fjárhagsleg áhrif þessa samkomulags, að því tilskildu að áhættan og ávinningurinn af slíku samkomulagi skipti máli og að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er að veita upplýsingar um slíka áhættu og ávinning til að unnt sé að leggja mat á fjárhagsstöðu félaganna í samstæðunni sem heild.
    7b)         Viðskipti, að undanskildum viðskiptum innan samstæðunnar, sem móðurfélagið eða önnur fyrirtæki innan samstæðunnar eiga við tengda aðila, þ.m.t. fjárhæðir slíkra viðskipta, eðli tengslanna milli tengdu aðilanna svo og aðrar upplýsingar um viðskiptin sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að skilja fjárhagsstöðu fyrirtækjanna í samstæðunni sem heild, ef slík viðskipti skipta máli og hafa ekki verið gerð við eðlilegar markaðsaðstæður. Upplýsingum um einstök viðskipti má safna saman eftir því hvers eðlis þær eru nema þar sem aðgreindar upplýsingar eru nauðsynlegar til að unnt sé að skilja áhrifin af viðskiptum tengdra aðila á fjárhagsstöðu fyrirtækjanna í samstæðunni sem heild.“
2.     Í 2. mgr. 36. gr. bætist eftirfarandi liður við:
    „f)    lýsing á helstu þáttum innra eftirlitskerfis og áhættustýringarkerfis samstæðunnar í tengslum við gerð samstæðureikningsskilanna þar sem fyrirtæki er með verðbréf sín skráð á skipulögðum markaði í skilningi 14. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga [13]. Ef samstæðureikningsskilin og ársreikningurinn eru lögð fram sem ein skýrsla verða þessar upplýsingar að fylgja með í þeim kafla skýrslunnar þar sem yfirlýsinguna um stjórnarhætti fyrirtækja, sem kveðið er á um í 46. gr. a tilskipunar 78/660/EBE, er að finna.
        Ef aðildarríki heimilar að upplýsingarnar, sem gerð er krafa um í 1. mgr. 46. gr. a tilskipunar 78/660/EBE, séu settar fram í sérstakri skýrslu sem er birt samhliða ársskýrslunni, á þann hátt sem mælt er fyrir um í 47. gr. þeirrar tilskipunar, skulu upplýsingarnar, sem eru lagðar fram samkvæmt fyrsta undirlið, einnig vera hluti þeirrar sérstöku skýrslu. Önnur undirgrein 1. mgr. 37. gr. þessarar tilskipunar gildir.
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.“
3.     Eftirfarandi þáttur bætist við:
    „3. ÞÁTTUR A
     Skyldur og ábyrgð að því er varðar að samningu og birtingu samstæðureikningsskilanna og samstæðuársskýrslunnar
     36. gr. a
    Aðildarríkin skulu tryggja að á stjórnarmönnum í stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn fyrirtækja, sem semja samstæðureikningsskilin og ársskýrslu samstæðunnar, hvíli sú sameiginlega skylda að tryggja að samstæðureikningsskilin, samstæðuársskýrslan og, þegar hún er lögð fram sérstaklega, yfirlýsing um stjórnarhætti fyrirtækja, sem leggja ber fram samkvæmt 46. gr. a í tilskipun 78/660/EBE, séu samin og birt í samræmi við kröfur þessarar tilskipunar og, ef við á, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem voru innleiddir í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (*). Slíkir aðilar skulu starfa innan þess valdsviðs sem þeim er ætlað í landslögum.
     36. gr. b
    Aðildarríkin skulu tryggja að lög þeirra og stjórnsýslufyrirmæli um ábyrgð gildi um alla stjórnarmenn í stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn sem um getur í 36. gr. a, a.m.k. gagnvart fyrirtækinu sem semur samstæðureikningsskil, ef þeir sinna ekki skyldunni sem um getur í 36. gr. a.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.“
4.     Eftirfarandi málsgrein bætist við í 41. gr.:
    „1a. „Tengdur aðili“ hefur sömu merkingu og í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem voru innleiddir í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1606/2002.“
5.     Eftirfarandi grein bætist við:
     „48. gr.
    Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn innlendum ákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlög sem kveðið er á um skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.“

3. gr.
Breyting á tilskipun 86/635/EBE

Í stað fyrsta málsliðar í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 86/635/EBE komi eftirfarandi:
„Beita skal 2. gr., 3. gr., 4. gr. (1. og 3.–6. mgr.), 6. gr., 7. gr., 13. gr., 14. gr., 15. gr. (3. og 4. mgr.), 16.–21. gr., 29.–35. gr., 37.–41. gr., 42. gr. (fyrsta málslið), 42. gr. a–42. gr. f, 45. gr. (1. mgr.), 46. gr. (1. og 2. mgr.), 46. gr. a, 48.–50. gr., 50. gr. a, 50. gr. b, 50. gr. c, 51. gr. (1. mgr.), 51. gr. a, 56.–59. gr., 60. gr. a, 61. gr. og 61. gr. a í tilskipun 78/660/EBE að því er varðar stofnanir sem getið er um í 2. gr. þessarar tilskipunar nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.“

4. gr.
Breyting á tilskipun 91/674/EBE

Í stað fyrstu setningarinnar í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 91/674/EBE komi eftirfarandi:
„Beita skal 2. gr., 3. gr., 4. gr. (1. og 3.–6. mgr.), 6. gr., 7. gr., 13. gr., 14. gr., 15. gr. (3. og 4. mgr.) 16.–21. gr., 29.–35. gr., 37.–41. gr., 42. gr., 42. gr. a–42. gr. f, 43. gr. (1.–7. liður b og 9.–14 liður í 1. mgr.), 45. gr. (1. mgr.), 46. gr. (1. og 2. mgr.), 46. gr. a, 48.–50. gr., 50. gr. a, 50. gr. b, 50. gr. c, 51. gr. (1. mgr. ), 51. gr. a, 56.–59. gr., 60. gr. a, 61. gr. og 61. gr. a í tilskipun 78/660/EBE að því er varðar fyrirtæki sem getið er um í 2. gr. þessarar tilskipunar nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.“

5. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli eigi síðar en 5. september 2008 til að fara að tilskipun þessari.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

6. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

7. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 14. júní 2006.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. Borrell Fontelles H. Winkler
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 89, 29.3.2007, bls. 24, og EES-viðbætir nr. 15, 29.3.2007, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 89, 29.3.2007, bls. 38, og EES-viðbætir nr. 15, 29.3.2007, bls. 30.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 224, 16.8.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB C 294, 25.11.2005, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 15. desember 2005 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 22. maí 2006.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB (Stjtíð. ESB L 157, 9.6.2006, bls. 87).
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2006/43/EB.
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(6)    Stjtíð. EB L 372, 31.12.1986, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).
Neðanmálsgrein: 11
(7)    Stjtíð. EB L 374, 31.12.1991, bls. 7. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2003/51/EB.
Neðanmálsgrein: 12
(8)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.