Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 574. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 888  —  574. mál.




Beiðni um skýrslu



frá dómsmálaráðherra um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda 2005, 2006 og 2007.

Frá Kolbrúnu Halldórsdóttur, Álfheiði Ingadóttur, Árna Þór Sigurðssyni,


Ingibjörgu Ingu Guðmundsdóttur, Paul Nikolov, Steingrími J. Sigfússyni,
Þuríði Backman, Ögmundi Jónassyni og Ölmu Lísu Jóhannsdóttur.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu þar sem eftirfarandi komi fram um aðgerðir lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði:
     1.      Upplýsingar um aðgerðir lögreglu gagnvart mótmælendum sem dvöldu á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka og í námunda við það og álverslóðina í Reyðarfirði á tímabilinu júlí– ágúst 2005, júlí–ágúst 2006 og apríl–september 2007. Þá er einnig óskað upplýsinga um aðgerðir lögreglu gagnvart mótmælendum á Snorrabraut 14. júlí 2007 og við álver Alcan í Straumsvík 24. júlí 2007.
     2.      Getið verði um öll tilfelli þar sem lögregla hafði afskipti af mótmælendum, fjölda lögreglumanna í hverju tilviki, tilefni afskiptanna, framkvæmd og lyktir aðgerðanna. Handtökur verði tilgreindar og tímabundnar frelsissviptingar, vegabréfasviptingar, leit í húsum eða á öðrum dvalarstöðum mótmælenda og tilraunir til að koma í veg fyrir að mat væri komið í tjaldbúðir. Einnig verði tilgreindar upplýsingar um söfnun lögreglu á persónuupplýsingum, myndatökur og fleiri athafnir er varðað geta ferðafrelsi og friðhelgi einkalífs manna, t.d. spurningar um skoðanir viðkomandi.
     3.      Tilgreindar verði heimildir fyrir því inngripi sem lögregla þarf lögum samkvæmt heimildir dómstóla til að framkvæma, sbr. húsleitarheimildir og hleranir á símum og tölvupósti.
     4.      Upplýsingar um hvernig háttað var eftirliti lögreglu með mótmælendum sem dvöldu á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka og í námunda við það, utan beinna aðgerða. Einnig upplýsingar um eftirlit utan virkjunarsvæðis og álverslóðar. Greint verði frá því hversu víðtækt eftirlitið var í tíma og rúmi, jafnframt hvort símar mótmælenda voru hleraðir á einhverju tímabili og/eða tölvupóstur.
     5.      Þá verði tilgreindar upplýsingar um eftirlit og meðhöndlun ætlaðra mótmælenda frá útlöndum við komu til landsins sumarið 2006 og 2007.

Greinargerð.


    Með beiðni þessari er óskað tæmandi upplýsinga um allar aðgerðir lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar, álvers í Reyðarfirði og annarrar stóriðjuuppbyggingar á tímabilinu júlí–ágúst 2005, júlí–ágúst 2006 og apríl–september 2007. Markmiðið er að kanna hvort lögregluaðgerðir gegn mótmælendum hafi staðist ákvæði stjórnarskrár og laga um hugsana- og skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, persónufrelsi og friðhelgi einkalífs. Hafa ber í huga að fundafrelsi er meðal stjórnmálalegra réttinda sem viðurkennd eru og heimila mönnum að efna til funda, þ.m.t. mótmælafunda. Það er því mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi að borgararnir fái notið þeirra réttinda, með öðrum orðum að mannréttindi þeirra séu viðurkennd og vernduð.
    Í fjölmiðlum komu, á þeim tímabilum sem vísað er til í skýrslubeiðninni, ítrekað fram ásakanir á hendur lögreglu um harðræði, tilefnislausar árásir, eftirför og frelsissviptingu. Í málsvörn sinni hefur lögreglan m.a. vísað til 15. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, þar sem kveðið er á um heimild lögreglu til að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu, en í fjölmiðlum hafa komið fram áleitnar efasemdir um að mat lögreglu á aðstæðunum hafi í öllum tilfellum verið með þeim hætti að það kallaði á aðgerðir þær sem beitt var.
    Mikilvægt er við skoðun þessara mála að hafa vernd mannréttinda ofarlega í huga. Á það er minnt í nýlegri umsögn Íslandsdeildar Amnesty til Alþingis um frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum, en þar segir að mikilvægt sé að tryggja að fólk sé ekki sótt til saka fyrir lögmæta andstöðu við stjórnvöld. Einnig að mikilvægt sé að hugtakið „hryðjuverk“ fái ekki svo víða skilgreiningu í lögum að ekki sé greint með skýrum hætti á milli ólöglegra aðgerða og andstöðu við stjórnvöld sem er lögleg og varin af alþjóðlega viðurkenndum mannréttindareglum. Þá er á það minnt að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur lýst áhyggjum af skilgreiningu íslenskra hegningarlaga á hugtakinu „hryðjuverk“ og telur að í 100. gr. a laganna sé „að finna óljósa og víðtæka skilgreiningu á hryðjuverkum, sem gæti náð til lögmæts athæfis í lýðræðisþjóðfélagi og stefnt því í hættu, einkum þátttöku í opinberum mótmælum“.
    Minnt er á að í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir:
    „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
    Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
    Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“
    Loks er vísað til tillögu til þingsályktunar sem lögð var fram á 133. löggjafarþingi (þskj. 1108, 695. mál) um rannsókn á framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum við Kárahnjúka og greinargerðar með þeirri tillögu.