Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 481. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 947  —  481. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar um umferð á stofnbrautum.

     1.      Hve mikil umferð er nú á Reykjanesbraut við Fífuhvammsveg í Kópavogi annars vegar og við Kauptún í Garðabæ hins vegar (fjöldi bíla á sekúndu)?
    Samkvæmt umferðargreini á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi var ársdagsumferð árið 2007 45 þús. bílar á sólarhring. Hafði umferð aukist um 8,9% frá árinu 2006.
    Umferðargreinir á Reykjanesbraut í Molduhrauni var ekki virkur árið 2007 vegna framkvæmda, en með því að gera ráð fyrir að umferðaraukning þar hafi orðið sú sama og á Reykjanesbraut við Dalveg var ársdagsumferð á Reykjanesbraut í Molduhrauni 28 þús. bílar á sólarhring árið 2007.

     2.      Hve mikið mun umferð á Reykjanesbraut aukast:
                  a.      við uppbyggingu atvinnusvæðis á landi Gusts í Kópavogi,
                  b.      við uppbyggingu atvinnusvæðis í Kauptúni í Garðabæ,
                  c.      við væntanlega íbúðarbyggð í Urriðakotslandi,
                  d.      við uppbyggingu íþrótta- og atvinnusvæðis við Vetrarmýri í Garðabæ,
                  e.      við uppbyggingu íbúðar- og atvinnusvæðis á Völlum í Hafnarfirði á árunum 2005– 2010?
    Skipulagsáform á þeim svæðum sem hér er spurt um hafa verið að taka sífelldum breytingum og umferðarspár þar með. Verið er að kynna verulegar breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og þegar eitthvað liggur fyrir í því efni er gert ráð fyrir að endurmeta fyrri spár frá 2004 og 2006, sem nú þegar eru orðnar úreltar.

     3.      Hvaða ár er áætlað að nauðsynlegt verði að þrefalda Reykjanesbraut vegna aukinnar umferðar?

    Nauðsyn á breikkun Reykjanesbrautar milli Kópavogs og Hafnarfjarðar úr fjórum í sex akreinar er að sama skapi háð því hvenær hin ýmsu skipulagsáform ganga eftir.

     4.      Hvenær er áætlað að hefja framkvæmdir við svokallaðan Hlíðarfót í ljósi fyrirhugaðrar uppbyggingar í Vatnsmýri og hvar er áætluð tenging hans inn á stofnbrautakerfið í Kópavogi?

    Skipulag í Vatnsmýri er enn mjög óljóst og meðan svo er er erfitt að ákvarða hvernig Hlíðarfótur (Fossvogsbraut) muni best tengdur þeim megin.