Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 438. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 952  —  438. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Guðna Ágústssonar um áhrif niðurskurðar þorskkvóta og mótvægisaðgerðir.

     1.      Hver er áætlaður tekjusamdráttur fyrirtækja og sveitarfélaga vegna niðurskurðar þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum.
    Í júní 2007 áætlaði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að samdráttur í þorskafla, um 65 þús. tonn, mundi hafa þau áhrif að aflaverðmæti lækkaði frá árinu 2006 um 9,2 milljarða kr., útflutningsverðmæti um 16 milljarða kr. og landsframleiðsla mundi dragast saman um 0,8% að óbreyttu meðalverði þorskafurða.
    Áætlaður tekjusamdráttur fyrirtækja sundurliðað eftir sveitarfélögum liggur ekki fyrir en í eftirfarandi töflu er mat Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á líklegum áhrifum samdráttar í úthlutun aflamarks í þorski eftir landsvæðum. Til einföldunar er litið fram hjá sérstökum úthlutunum vegna línuívilnunar og byggðakvóta og gert ráð fyrir að þær heimildir dreifist eins og aflahlutdeildirnar.

Úthlutun aflamarks í þorski á grundvelli aflahlutdeilda fiskveiðiársins
2006/2007 og breytingar á aflamarki miðað við 130 þús. tonna
úthlutun þorsks fiskveiðiárið 2007/2008.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Við mat á áhrifum af niðurskurði aflaheimilda á tekjur fyrirtækjanna verður að líta til þess að verð á þorski hefur hækkað mjög mikið frá því að skýrsla Hagfræðistofnunar var unnin. Samkvæmt upplýsingum Verðlagsstofu skiptaverðs var meðalverð óslægðs þorsks sem seldur var á fiskmörkuðum á Íslandi 191,28 kr. á kg í júlí 2007 en 255,02 kr. í janúar 2008. Hækkunin nemur liðlega 33% og við sölu beint til fiskverkenda hafði verðið hækkað um 6,4% á sama tíma. Samkvæmt verðvísitölum sjávarafurða frá Hagstofu Íslands hefur vísitala landfrysts þorsks hækkað um 33,4% frá júlí til febrúar sl. og vísitala saltaðra þorskafurða hefur á sama tíma hækkað um 33,8%. Þetta eru síðustu gildi vísitalna fiskverðs sem liggja fyrir. Á sama tíma hækkaði vísitala meðalgengis miðað við vöruskiptavog um 15,8%. Frá febrúar til apríl hefur gengisvísitalan hækkað enn. Sé breyting gengisvísitölunnar tekin frá júlí 2007 til apríl 2008 er hún um 34,9%.
    Af þessu leiðir að tekjusamdráttur verður minni en gert var ráð fyrir þegar Hagfræðistofnun tók saman fyrrnefnda skýrslu fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Ekki er þó ljóst að fullu hverjar hinar endanlegu tekjur verða fyrr en við lok fiskveiðiársins, meðal annars með hliðsjón af óvissu um gengisþróun.
    Hagfræðistofnun Háskóla Íslands tók einnig saman skýrslu fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga um áætlaðan tekjusamdrátt sveitarfélaga vegna skerðinga á þorskaflaheimildum miðað við tekjur ársins 2006 og 13% útsvar. Niðurstaðan var sú að tekjur sveitarfélaga mundu dragast saman um 450 millj. kr. að öðru óbreyttu. (Sjá skýrslu www.samband. is/files/688094568aflasamdrattur_loka.pdf).
    Niðurstöður Hagfræðistofnunar eru byggðar á þeim forsendum sem fyrir lágu á þeim tíma. Gera má ráð fyrir að sá niðurskurður sem ákveðinn var hafi áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja, bæði í veiðum og vinnslu, og leiði til þess að flutningur verði á aflaheimildum milli sveitarfélaga. Slíkar breytingar hefðu því áhrif á þær spár sem settar voru fram í skýrslunni. Í skýrslunni segir m.a.: „Flest bendir til að niðurskurður á þorskkvóta hafi mest áhrif á efnahagsleg umsvif á Vestfjörðum og Vesturlandi. Samkvæmt útreikningum okkar má gera ráð fyrir að heildarframleiðsla atvinnulífs í þessum landshlutum dragist saman um 3–4% fyrsta árið eftir að tilkynnt var um niðurskurð þorskkvóta. Á Norðurlandi og á Suðurnesjum gætu heildarumsvif minnkað um 2–3% fyrsta árið en annars staðar á landinu má ætla að áfallið verði minna.“
    Í skýrslunni eru settar fram töflur um áætluð áhrif skerðingar þorskkvóta á einstök sveitarfélög, annars vegar á útsvarstekjur launatekna og hins vegar á hafnargjöld. Samkvæmt mati Hagfræðistofnunar má ætla að líklegur tekjumissir sveitarfélaga á fyrsta ári eftir niðurskurð þorskafla vegna lækkunar launatekna geti orðið eftirfarandi (í millj. kr.):

Akranes 16
Akureyri 34
Blönduós 1
Bolungarvík 13
Borgarfjarðarhreppur 1
Dalvík 21
Djúpavogshreppur 1
Fjallabyggð 18
Fjarðabyggð 25
Garður 13
Grindavík 52
Grímsey 6
Grundarfjörður 21
Grýtubakkahreppur 8
Hornafjörður 13
Ísafjarðarbær 34
Kaldrananeshreppur 1
Langanesbyggð 4
Norðurþing 8
Reykjanesbær 10
Sandgerði 5
Seyðisfjörður 3
Skagafjörður 5
Skagaströnd 13
Snæfellsbær 39
Strandabyggð 1
Stykkishólmur 9
Vestmannaeyjar 27
Vesturbyggð 9
Vogar 6
Vopnafjarðarhreppur 4
Ölfus 9

    Mat Hagfræðistofnunar á hugsanlegri skerðingu tekna nokkurra hafna á ári vegna minni þorskafla nemur samkvæmt skýrslunni um 130 millj. kr. og skiptist þannig á hafnir:

Bolungarvík 4
Djúpivogur 4
Faxaflóahafnir 11
Fjarðabyggð 12
Grindavík 11
Grímsey 1
Grundarfjörður 3
Hafnarfjörður 3
Hafnasamlag Eyjafjarðar 9
Hafnasamlag Norðurlands 9
Hornafjörður 3
Ísafjörður 9
Langanesbyggð 1
Norðurþing 4
Reykjanesbær 2
Sandgerði 6
Seyðisfjörður 1
Siglufjörður 2
Skagafjörður 6
Skagaströnd 3
Snæfellsbær 11
Stykkishólmur 1
Tálknafjörður 1
Vestmannaeyjar 7
Vesturbyggð 2
Vopnafjörður 1
Þorlákshöfn 3

    Ekki er til áætlun um áhrif niðurskurðar á fyrirtæki eða hvernig slíkur niðurskurður sundurliðast á fyrirtæki innan einstakra sveitarfélaga.

     2.      Hversu mörg störf má áætla að hafi tapast vegna niðurskurðar þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um bein eða óbein störf er að ræða og eftir sveitarfélögum.
    Þessari spurningu er vandsvarað nema með sérstakri rannsókn sem þarfnast verulegrar vinnu. Helstu hópuppsagnir sem vitað er til að hafi verið tilkynntar í fjölmiðlum og tengdar eru niðurskurði þorskafla eru eftirfarandi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vitað er að endurráðið verður í 20 af þessum störfum. Gera má ráð fyrir að einhverjar uppsagnir verði í sumar. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa oft verið með litla starfsemi yfir sumarið og samkvæmt þeim upplýsingum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur má áætla að sumarstopp verði lengri í ár en verið hefur undanfarin ár. Áhrifa af slíku mun gæta nú í sumar. Það er hins vegar ánægjulegt að nokkur sjávarútvegsfyrirtæki sem ætluðu að stöðva veiðar og vinnslu nú í vor hafa frestað þeirri ákvörðun.

     3.      Hversu háar fjárhæðir renna í formi mótvægisaðgerða úr ríkissjóði vegna niðurskurðar þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum ásamt yfirliti yfir hvaða framkvæmdir er um að ræða á bak við greiðslurnar, hvaða fjárhæðir er þegar búið að greiða og hvaða fjárhæðir á eftir að greiða, ásamt áætlun yfir hvenær þær greiðslur munu eiga sér stað, einnig er óskað eftir sundurliðun á því hvaða framkvæmdir sem falla undir mótvægisaðgerðir eru nýjar aðgerðir, ákveðnar eftir að ákvörðun um niðurskurð þorskkvótans var tekin, og hverjar eru flýting á framkvæmdum sem þegar hafði verið ákveðið að ráðast í fyrir þann tíma.
    Fjárhæðir úr ríkissjóði vegna mótvægisaðgerða eru sundurliðaðar á fjárlagaár en ekki fiskveiðiár. Framlög til skilgreindra verkefna vegna mótvægisaðgerða voru um 2.400 millj. kr. á fjáraukalögum 2007 og um 2.000 millj. kr. á fjárlögum 2008. Gert er ráð fyrir að rúmlega 1.400 millj. kr. verði varið til verkefna vegna mótvægisaðgerða í fjárlögum 2009. Þá er til viðbótar gert ráð fyrir flýtingu framkvæmda í samgöngumálum upp á rúmlega 4.000 millj. kr. á árunum 2008–2009. Framlag ríkisins til annarra verkefna sem tengjast Hafrannsóknastofnuninni, vísindum og tækni, framkvæmdum við raforkukerfið auk tekjulækkunar ríkissjóðs vegna niðurfellingar/lækkunar veiðileyfagjalds nema samtals um 2.600 millj. kr. á árunum 2008 og 2009. Aðeins hluti mótvægisaðgerðanna er sundurliðaður niður á einstök sveitarfélög.
    Samtals verður 1.000 millj. kr. varið úr ríkissjóði til endurbóta og viðhalds fasteigna ríkisins á árunum 2008–2009, þar af er gert ráð fyrir 666 millj. kr. á árinu 2008 og 334 millj. kr. á árinu 2009. Sundurliðun er eftirfarandi:

Skipting framlags til mótvægisaðgerða (í millj. kr.).

Áætluð ráðstöfun 2008 Áætluð ráðstöfun 2009
Vesturland
Heilbrigðisstofnun Akranesi 15
Heilsugæslustöð Borgarnesi 40 12
Heilsugæslustöðin Ólafsvík 13
Heilsugæslustöðin Grundarfirði 2
St Franciskusspítali 35
Heilsugæslustöðin Búðardal 5
Hvanneyri 45
Vesturland samtals 110 57
Vestfirðir
Heilbrigðisstofnun Patreksfirði 40
Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæ 110
Heilbrigðisstofnun Bolungarvík 2
Menntaskólinn á Ísafirði 23
Lögreglan á Patreksfirði 5
Sýslumaðurinn á Ísafirði 15
Vestfirðir samtals 195 0
Norðurland
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 33
Heilsugæslan á Akureyri 40
Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri 40
Fjölbrautaskóli NV – Sauðárkróki 10
Verkmenntaskólinn á Akureyri 20
Sýslumaður á Blönduósi 20
Norðurland samtals 103 60
Austurland
Heilbrigðisstofnun Austurlands 40 5
Austurland samtals 40 5
Suðausturland
Heilbrigðisstofnun Suðausturlands 30 35
Lögreglustöð á Hornafirði 67
Suðausturland samtals 30 102
Vestmannaeyjar
Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 139
Vestmannaeyjar samtals 139 0
Suðurnes
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 49 110
Suðurnes samtals 49 110
Heildarupphæð samtals 666 334

Skipting eftir landsvæðum
Vesturland 167
Vestfirðir 195
Norðurland 163
Austur- og Suðausturland 177
Vestmannaeyjar 139
Suðurnes 159
1.000
    Fyrsta þriðjungi fjármuna sem renna munu beint til sveitarfélaga vegna lækkunar tekna í tengslum við minnkun þorskkvóta var úthlutað til sveitarfélaga í lok desember 2007. Sundurliðun á sveitarfélög var eftirfarandi (millj. kr.):

Reykjanesbær 0,9
Grindavíkurbær 35,1
Sandgerðisbær 1,0
Sveitarfélagið Garður 6,5
Sveitarfélagið Vogar 1,1
Akraneskaupstaður 2,9
Grundarfjarðarbær 12,9
Stykkishólmsbær 5,1
Snæfellsbær 35,1
Bolungarvíkurkaupstaður 8,0
Ísafjarðarbær 15,4
Tálknafjarðarhreppur 3,8
Vesturbyggð 6,1
Súðavíkurhreppur 1,3
Árneshreppur 0,5
Kaldrananeshreppur 1,4
Strandabyggð 0,6
Sveitarfélagið Skagafjörður 1,6
Húnaþing vestra 0,5
Sveitarfélagið Skagaströnd 7,6
Akureyrarkaupstaður 5,8
Norðurþing 2,9
Fjallabyggð 11,3
Dalvíkurbyggð 13,1
Grímseyjarhreppur 10,1
Arnarneshreppur 0,5
Grýtubakkahreppur 4,3
Langanesbyggð 5,3
Seyðisfjarðarkaupstaður 2,6
Fjarðabyggð 8,3
Vopnafjarðarhreppur 1,8
Borgarfjarðarhreppur 1,4
Breiðdalshreppur 0,5
Djúpavogshreppur 1,3
Sveitarfélagið Hornafjörður 8,9
Vestmannaeyjabær 17,9
Sveitarfélagið Ölfus 6,5
Samtals 250,0

     4.      Hversu mikill hluti boðaðra mótvægisaðgerða verða útboðsskyldar framkvæmdir og hvernig hyggjast stjórnvöld tryggja að tekjur, beinar og óbeinar, af þeim framkvæmdum verði eftir í byggðarlögunum?
    Framkvæmdir í vegagerð og við Akureyrarflugvöll svo og verkefni vegna viðhalds fasteigna ríkisins eru flest eða öll útboðsskyld. Stuðningur við flug til Vestmannaeyja vegna ferðaþjónustu er til verkefnis sem boðið var út og þá má gera ráð fyrir að framkvæmdir vegna styrkingar raforkukerfis á Norðurlandi og á Vestfjörðum verði boðnar út. Samtals er um að ræða verkefni upp á um 5.300 millj. kr. Í verklegum framkvæmdum nýtist langstærstur hluti þeirra fjármuna sem settir eru til verkefnisins á því svæði sem framkvæmdin á sér stað. Ríkisstjórnin getur hins vegar ekki stýrt verkum til fyrirtækja innan ákveðinna svæða þegar útboð á sér stað.

     5.      Til hvaða mótvægisaðgerða hyggjast stjórnvöld grípa ef fram fer sem horfir og frekari loðnuveiðar verða ekki heimilaðar að nýju?
    Engar ákvarðanir hafa verið teknar um frekari mótvægisaðgerðir. Hins vegar er fylgst vel með þróun mála og hvaða áhrif niðurskurður þorskafla á einstök svæði og sveitarfélög hefur í þeim tilgangi að unnt sé að bregðast frekar við ef á þarf að halda.
    Vegna þess hve erfiðlega gekk að mæla loðnustofninn voru loðnuveiðar stöðvaðar í sex daga á síðustu vertíð. Þetta var gert að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar en á grundvelli mælinga var stærð veiðistofns loðnu metin á bilinu 200–270 þús. tonn. Stærð stofnsins virtist því vera langt undir þeim 400 þús. tonnum sem gildandi aflaregla gerir ráð fyrir að skilið sé eftir til hrygningar. Loðnuveiðar voru síðan leyfðar að nýju í lok febrúar að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar þar að lútandi.
    Landaður loðnuafli íslenskra skipa nam tæplega 150 þús. tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári. Þrátt fyrir að mjög litlar aflaheimildir hafi verið út gefnar tókst útgerðum að nýta þær til verðmætrar vinnslu. Þó að nákvæmar upplýsingar um skiptingu loðnuaflans eftir verkun liggi ekki fyrir er vitað að í ár var óvenju stórum hluta aflans ráðstafað í verðmæta frystingu. Er þetta sama þróun og undanfarin ár. Fjárfesting undanfarinna ára í nýjum tækjum og búnaði hefur meðal annars gert þetta mögulegt. Hlutfallslegur tekjusamdráttur vegna minni aflaheimilda í loðnu hefur því ekki orðið jafn mikill og ella hefði orðið.
    Í ljósi þeirrar þróunar sem varð í loðnuveiðum eftir að þær voru heimilaðar að nýju var ekki tekin ákvörðun um sérstakar mótvægisaðgerðir vegna þeirra.