Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 582. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 991  —  582. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Guðnýjar Hrundar Karlsdóttur um útboð fjarskiptasjóðs um uppbyggingu háhraðanettenginga.

     1.      Hvernig var ákveðið hvaða staðir falla undir útboð fjarskiptasjóðs vegna háhraðanetþjónustu, þ.e. hvaða aðferð var notuð til að fá fullvissu um að staðir féllu ekki undir skilgreiningu útboðs?
    Ríkiskaup, fyrir hönd fjarskiptasjóðs, auglýstu opinberlega vorið 2007 eftir núverandi og fyrirhuguðum útbreiðslusvæðum fyrir sítengda og ótímamælda internetþjónustu á 512 Kbs gagnaflutningshraða og yfir. Aðilar voru beðnir um að upplýsa fjarskiptasjóð um hvar nákvæmlega á landinu þeir byðu slíka þjónustu eða áformuðu slíkt fyrir mitt ár 2008. Gögnin sem sjóðurinn fékk voru misvel gerð og var lögð mikil vinna í að betrumbæta upplýsingarnar með markaðsaðilum um útbreiðslusvæðin/markaðssvæðin sem lögð eru til grundvallar útboðinu.
    Staðir með heilsársbúsetu eða atvinnustarfsemi allt árið, utan framangreindra markaðssvæða, eiga samkvæmt skilgreiningu fjarskiptasjóðs rétt á háhraðatengingu með styrk frá fjarskiptasjóði. Farið var með sveitarstjórnarmönnum og Fasteignamati ríkisins a.m.k. í tvígang yfir öll útboðssvæðin og ná þau til allra sveitarfélaga landsins. Áður en útboðsgögn voru birt opinberlega var viðkomandi sveitarfélögum sendur útboðslistinn til umsagnar og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir.

     2.      Var gerð rannsókn á því hvort þjónusta/hraði á svæði væri í samræmi við skilgreiningu fjarskiptasjóðs um háhraðanet?
    Aðalútgangspunktur sjóðsins er sá að ekki sé verið að bjóða út háhraðanetþjónustu þar sem hún er fyrir eða er fyrirhuguð á næstunni á markaðslegum forsendum. Ríkisstyrkjareglur heimila ekki slíkt og auk þess samræmist það ekki lögum um sjóðinn. Sjóðurinn gerir ákveðnar lágmarkskröfur í útboði sínu, svo sem um gæði, þjónustu, samnýtingarhlutfall og uppitíma háhraðanetþjónustu. Auk þess hafa sjónarmið eins og gagnaflutningshraði umfram lágmark vægi í þessu sambandi. Sjóðurinn er þar með ekki að skilgreina hvaða þjónustustig eða gagnaflutningshraði uppfyllir einhverja almenna skilgreiningu háhraðanetþjónustu á markaðssvæðum, enda er það hvorki tilgangur né markmið sjóðsins.

     3.      Er einhver krafa gerð til núverandi þjónustuaðila á svæði sem ekki er farið inn á um viðhald búnaðar, uppitíma tengingar eða verð?
    Eingöngu er gerð krafa um að þjónustan standi íbúum svæðisins til boða.

     4.      Stendur til að bæta þeim einstaklingum sem sýndu frumkvæði og komu upp háhraðatengingum útlagðan kostnað?
    Það fjármagn sem sjóðurinn hefur til umráða er til uppbyggingar aðstöðu, stofnkerfa og þjónustu utan markaðssvæða. Úthlutun fjármuna er samkvæmt lögum sjóðsins aðeins í kjölfar útboðs og samnings við markaðsaðila.

     5.      Hversu margir staðir/býli eru í útboðinu?
    1.230 staðir eru á upprunalega útboðslistanum. Borist hafa athugasemdir við listann um staði sem er ofaukið eða vantar inn á hann.
    Listinn verður uppfærður um næstu mánaðamót í samræmi við þessar upplýsingar. Breyting á fjölda staða í útboði er óveruleg.

     6.      Hvers vegna er útboðsferillinn svo langur eða allt til 31. júlí nk.?
    Útboðsgögn voru gefin út í febrúarlok í ár. Eftir ráðfæringar við sérfræðinga á fjarskiptasviði var talið að lágmarkstilboðstími væri fimm mánuðir. Ef bjóðendur eiga að geta gert raunhæf tilboð þurfa þeir að hafa tíma til að skoða aðstæður á hverjum stað ásamt því að velja búnað sem hentar verkefninu, semja um verð á búnaði, semja við undirverktaka o.s.frv. Reynslan sýnir að of stuttur útboðstími getur fælt aðila frá verkefnum, skilað hærri tilboðsfjárhæðum og/eða óvandaðri tilboðum. Jafnframt var litið til þess að hluti útboðstímans er á almennum sumarleyfistíma og nýtist ekki sem skyldi.

     7.      Hvenær er gert ráð fyrir að verkefninu ljúki?
    Reiknað er með að skrifað verði undir samning í byrjun ágúst nk. Í útboðslýsingu er styttri framkvæmdatími sjónarmið sem litið er til og getur hann verið á bilinu 12–22 mánuðir. Uppbyggingu lýkur því í fyrsta lagi í ágúst 2009 og í síðasta lagi júní 2010. Uppbyggingu á Vestfjörðum og Norðausturlandi skal þó lokið á innan við 12 mánuðum frá undirskrift samnings.