Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 583. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1027  —  583. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Guðnýjar Hrundar Karlsdóttur um opinber störf á landsbyggðinni.

     1.      Hversu mörg opinber störf hafa flust út á landsbyggðina á kjörtímabilinu?
     2.      Hversu mörg opinber störf hafa flust frá landsbyggðinni á sama tíma?

    Til að afla svara við 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins og Hagstofu Íslands. Í svörum beggja stofnana kom fram að þær búa ekki yfir upplýsingum um það hversu mörg opinber störf hafa flust út á landsbyggðina á kjörtímabilinu. Þá liggja ekki heldur fyrir opinberar upplýsingar hjá þessum stofnunum um það hversu mörg opinber störf hafa flust frá landsbyggðinni á kjörtímabilinu.
    Í ljósi þessa var Byggðastofnun falið að kanna hvort atvinnuþróunarfélögin gætu aðstoðað við að afla upplýsinga vegna 1. og 2. liðar fyrirspurnarinnar. Félögin brugðust vel við og öfluðu upplýsinga hvert á sínu svæði.
    Taka ber fram að atvinnuþróunarfélögin notuðu ekki að öllu leyti sambærilegar aðferðir við öflun upplýsinganna. Því verður að taka svörunum með nokkrum fyrirvara. Eigi að síður gefa svörin vísbendingu um hver þróunin er. Ástæða er einnig til að benda á að sá tími sem er til athugunar er aðeins 12 mánuðir en miðað er við tímabilið 1. maí 2007 til 1. maí 2008.

Svæði Fjölgun
opinberra starfa
Fækkun
opinberra starfa
Breyting
Reykjanes 7 0 7
Vesturland 11 6 5
Vestfirðir 30 0 30
Norðurland vestra 4 0 4
Eyjafjörður 20 0 20
Þingeyjarsýslur 3 8 –5
Austurland 15 2 13
Suðurland 11 0 11
Samtals 101 16 85

     3.      Hvað líður undirbúningi að því að koma á störfum án staðsetningar?
    Sérstakur starfshópur, skipaður tveimur fulltrúum iðnaðarráðherra og tveimur fulltrúum fjármálaráðherra, hefur undanfarnar vikur unnið að tillögum að útfærslu á verkefninu störf án staðsetningar. Ljóst er að mörg störf má vinna óháð staðsetningu svo framarlega sem góð fjarskipti séu fyrir hendi. Það er eindreginn vilji stjórnvalda að sem flest slík störf standi fólki til boða sem búsett er á landsbyggðinni.
    Það sem nú er til umræðu í nefndinni er meðal annars að:
     1.      Við allar ráðningar hjá ríkinu verði framvegis vegið og metið hvort vinna megi viðkomandi starf óháð staðsetningu í samræmi við yfirlýstan vilja ríkisstjórnarinnar. Stjórnendur þurfi á hverjum tíma að rökstyðja ef þeir telja að ekki sé hægt að skilgreina auglýst starf sem óháð staðsetningu.
     2.      Ráðist verði í þróunarverkefni þar sem þeir kostir og gallar sem fylgja fjarvinnu verði kortlagðir með það í huga að sníða vankantana af, nýta sem best kostina og auka tiltrú á fyrirkomulaginu. Að verkefninu komi iðnaðarráðuneyti, utanríkisráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og stofnanir á þeirra vegum.
     3.      Við ráðningu í störf óháð staðsetningu geti stjórnendur sett fyrirvara, t.d. um lengri reynslutíma eða um rétt til að endurskoða fyrirkomulagið reynist fjarvinnuformið ganga illa eða breytingar verða á eðli starfsins.
     4.      Störf óháð staðsetningu verði í fyrstu atrennu auglýst sem störf sem inna þurfi af hendi á starfssvæði Byggðastofnunar.
     5.      Þeim störfum/starfsmönnum sem eru hluti af reynsluverkefninu verði beint inn í þekkingarsetur eða sams konar aðstöðu á hverjum stað með það í huga að skapa þar „krítískan massa“ þekkingarstarfa. Þessi hluti verkefnisins verði unninn í nánu samráði við viðkomandi sveitarfélög.
    Starfshópurinn er nú að fara yfir ýmis álitamál sem upp kynnu að koma yrði framangreindri meginstefnu hrint í framkvæmd og meta lagalegar hliðar málsins. Starfshópurinn mun skila niðurstöðum sínum á næstu vikum.
    Óhjákvæmilegt verður að telja að lagt verði fram frumvarp til laga um störf óháð staðsetningu á 136. löggjafarþingi þannig að fram geti farið umræða á Alþingi um málefnið.