Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 528. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1109  —  528. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Lilju Sturludóttur frá fjármálaráðuneyti, Þórarin G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands, Árna Huldar Sveinbjörnsson og Halldóru Elínu Ólafsdóttir frá Fjármálaeftirlitinu, Hrafn Magnússon og Tómas Möller frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Þórð Friðjónsson, Pál Harðarson og Árnínu Steinunni Kristjánsdóttur frá Kauphöll Íslands, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Samtökum fjárfesta, Alþýðusambandi Íslands, Alþjóðahúsi, Landssamtökum lífeyrissjóða, Tryggingastofnun ríkisins, Samtökum atvinnulífsins, Kauphöll Íslands, Jafnréttisstofu, Viðskiptaráði Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Ríkisendurskoðun, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Félagi eldri borgara og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Meginþáttur frumvarpsins felst í því að lífeyrissjóðunum verði veitt heimild til að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf en einnig eru þar lagðar til breytingar sem ætlað er að auka sveigjanleika við ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris. Þar af má nefna ákvæði sem varða styttingu á uppsagnarfresti vegna samnings um viðbótartryggingarvernd eða séreignarsparnað, rétt erlendra ríkisborgara til endurgreiðslu iðgjalda vegna öflunar lífeyrisréttinda í séreign, heimild lífeyrissjóða til að auka svigrúm sjóðfélaga til að flýta eða fresta töku lífeyris, aukið svigrúm sjóðfélaga til ráðstöfunar áunninna ellilífeyrisréttinda til maka eða fyrrverandi maka og brottfall á heimild samtaka lífeyrissjóða til að tilkynna breytingar á samþykktum aðildarsjóða sinna til fjármálaráðherra. Loks er í frumvarpinu ákvæði sem tryggir lífeyrissjóðum heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru eða eftir atvikum gefin út af aðilum í EES-ríkjum sem ekki eru aðilar að OECD.
    Við meðferð málsins kom fram að þær tillögur frumvarpsins sem varða sveigjanleika við ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris og lagðar eru til í 1.–5. gr. eru í samræmi við tillögur Landssamtaka lífeyrissjóða sem kynntar voru fjármálaráðuneytinu síðasta haust. Kom fram að um þær ríkir almenn samstaða. Þó var lýst yfir áhyggjum vegna þess hve umrædd heimild sjóðfélaga á skiptingu lífeyrisréttinda væri lítið notuð og er hugsanlegt að það megi rekja til of lítillar kynningar. Enn fremur komu fram efasemdir um þá tilhögun að binda heimild til að fresta töku lífeyris við tiltekið aldursmark og rætt hvort ekki væri réttara að leyfa sjóðfélögum að vinna eins lengi og þeir hafa þrek til með tilheyrandi ávinnslu réttinda. Gerir nefndin tillögu um að efra markið, 75 ár, verði tekið burt með hliðsjón af sífellt hækkandi meðalaldri, bættri heilsu fólks og vilja til að hafa hlutverk.
    Þau ákvæði frumvarpsins sem varða heimildir lífeyrissjóða til að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf hlutu mestu umræðu í nefndinni, enda eru skiptar skoðanir um kosti þeirra og galla. Fram kom að tillöguna megi öðrum þræði rekja til óska Kauphallar Íslands og að hún sé jafnframt í anda skýrslu nefndar forsætisráðherra um alþjóðlegt fjármálaumhverfi á Íslandi. Kauphöllin bendir á að lífeyrissjóðirnir muni gegna lykilhlutverki á skipulegum lánamarkaði með verðbréf hér á landi þar sem þeir hafi yfir að ráða miklu af hlutabréfum og skuldabréfum sem eftirsótt eru til lántöku. Litið væri á þróun slíks markaðar sem mikilvægt skref í að samræma stefnu innan fyrirtækisins sem nú væri orðið hluti NasdaqOmX -kauphallarinnar. Virkur lánamarkaður stuðli að þátttöku erlendra aðila á íslenskum fjármálamarkaði og greiði fyrir öryggi í viðskiptum og eðlilegri verðmyndun.
    Fram kom að heimild lífeyrissjóða til að lána verðbréf gæti auðveldað þeim að verða sér úti um auknar tekjur með ásættanlegri áhættu og margir lögðu áherslu á að sjóðunum yrði ekki skylt að lána heldur heimilt innan marka laga sem um þá gilda. Treysta yrði stjórnum lífeyrissjóða til að standa vörð um öryggi eigna sjóðfélaga og enn fremur að þeim bæri að gæta þess að verðmæti sem sett yrðu til tryggingar láni á verðbréfum féllu að lögum um fjárfestingar sjóðanna. Seðlabanki Íslands færði þau rök fyrir samþykkt frumvarpsins að það mundi hafa þýðingu fyrir framkvæmd peningamálastefnunnar og liðka fyrir aðgangi að lausafé og aðrir bentu á að frumvarpið félli vel að kröfum lífeyrissjóða um rýmkaðar fjárfestingarheimildir. Einnig kom fram að heimild lífeyrissjóða til að lána verðbréf sín kynni að stuðla að því að skortsala verði gagnsærri og áhrifin fyrirsjáanlegri.
    Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram sú gagnrýni að leita hefði átt víðtækari samstöðu meðal aðila vinnumarkaðarins um þennan þátt frumvarpsins áður en það var borið undir þingið. Leggja Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands áherslu á að málinu verði frestað fram á haust og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja styður ekki afgreiðslu þess. Fjármálaeftirlitið telur, með hliðsjón af varúðarsjónarmiðum, að heimild til að lána allt að 25% af hreinni eign sé of há og að undirbúa hefði mátt reglur fjármálamarkaðarins betur undir breytinguna. Samtök fjármálafyrirtækja leggja til að heimild lífeyrissjóða til að lána verðbréf verði frestað að því er varðar innlend hlutabréf þar til settar hafa verið sérstakar reglur um skortsölu og með þeim fyrirvara eru samtökin hlynnt afgreiðslu málsins.
    Fyrsti minni hluti fellst á varúðarsjónarmið Fjármálaeftirlitsins og sjónarmið Samtaka fjármálafyrirtækja og leggur til að heimildin verði takmörkuð við 12,5% af hreinni eign. Heimildin taki þegar gildi vegna verðbréfa annarra en hlutabréfa en að hlutabréf falli undir heimildina um næstu áramót.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

    
     1.      Við 3. gr. Orðin „en þó ekki lengur en til 75 ára aldurs“ í a-lið falli brott.
     2.      Við 6. gr. Í stað hlutfallstölunnar „25%“ í 1. efnismgr. c-liðar komi: 12,5%.
     3.      Við bætist ný grein er verði 7. gr., svohljóðandi:
              Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði 10. mgr. 36. gr. um verðbréfalán er lífeyrissjóðum ekki heimilt að lána hlutabréf fram til 1. janúar 2009.

    Bjarni Benediktsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Alþingi, 26. maí 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Lúðvík Bergvinsson.



Herdís Þórðardóttir.