Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 640. máls.

Þskj. 1111  —  640. mál.



Frumvarp til laga

um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að taka á árinu 2008 lán fyrir allt að 500 milljörðum króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána Seðlabanka Íslands þann hluta sem tekinn verður að láni í erlendri mynt.
    Erlendar fjárhæðir skulu miðast við kaupgengi íslensku krónunnar samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna.
    Lántökuheimild ríkissjóðs skv. 1. mgr. hefur ekki áhrif á lántökuheimildir ríkissjóðs skv. 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2008.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands hafa um nokkurt skeið undirbúið aðgerðir til að styrkja gjaldeyrisforðann og auka aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé. Sú stefna var mörkuð af hálfu stjórnvalda fyrri hluta árs 2006 að gjaldeyrisforðinn skyldi efldur. Veigamikið skref í þá átt var stigið í árslok 2006 með lántöku ríkissjóðs að fjárhæð einn milljarður evra sem endurlánað var Seðlabankanum. Vegna þeirrar erfiðu stöðu sem verið hefur á fjármálamörkuðum að undanförnu þykir rétt að haldið verði áfram á þessari braut. Nú nýlega gerði Seðlabankinn tvíhliða gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur sem hver um sig veitir Seðlabankanum aðgang að allt að 500 milljónum evra gegn íslenskum krónum og eykur þannig verulega aðgang Seðlabankans að erlendu lausafé. Erlend lántaka ríkissjóðs í því skyni að efla gjaldeyrisforðann enn frekar er til athugunar. Jafnframt þykir æskilegt að svigrúm ríkissjóðs verði aukið til útgáfu ríkisverðbréfa á innlendum markaði ef þess er talin þörf í því skyni að efla innlent fjármálakerfi og stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Mikil eftirspurn eftir skammtímabréfum að undanförnu hefur dregið nokkuð úr virkni peningastefnu Seðlabankans og haft óheppileg hliðaráhrif á skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði.
    Í 1. mgr. 1. gr. er lagt til að fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, verði heimilt að taka á þessu ári lán fyrir allt að 500 milljörðum króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Lántökuheimildin miðar að tvennu. Annars vegar er gert ráð fyrir að nýta megi heimildina til töku erlends láns sem endurlánað verði Seðlabanka Íslands í því skyni að efla gjaldeyrisforða bankans, sbr. erlenda lántöku ríkissjóðs og endurlán til Seðlabankans í árslok 2006. Hins vegar er gert ráð fyrir að nýta megi heimildina til aukinnar útgáfu ríkisverðbréfa á innlendum markaði, verði þess talin þörf í því skyni að styrkja innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað. Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvenær á árinu, að hvaða marki, í hvaða áföngum eða í hvaða hlutföllum erlendrar og innlendrar lántöku heimildin verður nýtt, enda mun það ráðast af aðstæðum. Rétt þykir hins vegar að fyrir liggi sérstök lántökuheimild sem geri kleift að ráðast á þessu ári með litlum fyrirvara í verulegar erlendar eða innlendar lántökur umfram þær lántökur sem fjárlög ársins 2008 gerðu ráð fyrir.
    Í 2. mgr. 1. gr. segir að erlendar fjárhæðir skuli miðast við kaupgengi íslensku krónunnar samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna. Hér er með hliðstæðum hætti og í fjárlögum mælt fyrir um aðferð til útreiknings á því hversu háar erlendar lántökur rúmist innan lántökuheimildarinnar, en hún er tilgreind í íslenskum krónum.
    Í 3. mgr. 1. gr. er lagt til að lántökuheimildin takmarki ekki þær lántökuheimildir ríkissjóðs sem kveðið er á um í fjárlögum fyrir árið 2008. Lántökuheimild sú sem kveðið er á um í þessu frumvarpi verður með öðrum orðum hrein viðbót við lántökuheimildir fjárlaga ársins. Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að í fjáraukalagafrumvarpi 2008 verði gerð nánari grein fyrir áætluðum áhrifum umræddrar lántöku á fjárreiður ríkissjóðs.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um heimild ríkissjóðs Íslands
til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

    Með frumvarpinu er lagt til að fjármálaráðherra verði heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán fyrir allt að 500 milljörðum króna eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt og endurlána Seðlabanka Íslands þann hluta lánsins sem tekinn verður að láni í erlendri mynt. Heimildin gildir út árið 2008.
    Vegna breytilegra aðstæðna á lánsfjármörkuðum ríkir nokkur óvissa um hvaða lánakjör verða í boði fyrir ríkissjóð þegar lántökuheimildin verður nýtt. Það fer m.a. eftir því hvernig staða á lánsfjármörkuðum þróast á næstu mánuðum og hvenær lán verða tekin. Áhrif lántöku á afkomu ríkissjóðs munu fyrst og fremst felast í mismun á vaxtagjöldum sem ríkissjóður greiðir af lántökunni og vaxtatekjum af endurláni til Seðlabankans eða af því fé sem aflað verður með útgáfu ríkisverðbréfa á innlendum markaði. Í ljósi markaðsaðstæðna má fastlega gera ráð fyrir því að vaxtagjöld af lántöku ríkissjóðs verði hærri en vaxtatekjur. Ef lántökuheimildin yrði nýtt að fullu mundi árleg afkoma ríkissjóðs versna um 500 m.kr. fyrir hvert 0,1% (10 punkta) í vaxtamun.