Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 599. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1241  —  599. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um útboðsheimild fyrir hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er ástæða þess að ekki var send beiðni til fjármálaráðherra um útboðsheimild fyrir hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut fyrr en í lok desember sl. enda þótt öll gögn málsins hafi verið tilbúin hálfu ári fyrr?

    Útboðsgögn vegna þessa verks voru tilbúin og yfirfarin af Framkvæmdasýslu ríkisins í byrjun júní sl. Á þeim tíma, og mánuðina á undan, var mikil þensla á útboðsmarkaði og tilboð yfir kostnaðaráætlunum í flestum tilvikum og stundum langt yfir þeim eins og fram kemur af eftirfarandi töflu:
Verkefni Opnun Fjöldi
tilboða
Þar af
undir áætlun
Lægsta boð, millj. kr. Hlutfall af áætlun
Heilsugæslustöð Raufarhöfn 17.4.2007 2 0 52,5 126%
Íþróttahús H.Í., utanhússframkvæmdir 22.5.2007 2 0 63,2 134%
Þjóðleikhúsið, utanhússframkvæmdir 23.5.2007 3 0 70,0 142%
Snjóflóðavarnir Ólafsvík, jarðvinna 11.7.2007 5 0 47,2 122%
Háskólinn Akureyri, kennslu- og fyrirlestrarými 25.9.2007 2 0 620,7 112%
Eirberg, utanhússframkvæmd, endurútboð 29.1.2008 4 0 42,0 112%
Sambýlishús Blesugróf 4 11.3.2008 11 0 138,1 110%
Þjóðmenningarhús 15.4.2008 3 2 8,2 59%
Sjávarútvegshús, endurbætur á 5. og 6. hæð 29.4.2008 10 6 90,8 84%

    Í þeim verkum sem tilgreind eru í töflunni var gengið til samninga við verktaka, oft með breytingum á upphaflegum útboðsgögnum. Auk þess var öllum tilboðum hafnað í fjórum öðrum útboðum vegna þess að þau voru langt yfir kostnaðaráætlun.
    Hjúkrunarheimilið er stór bygging, gólfflötur þess 7.687 fermetrar og rúmmál tæpir 29 þús. rúmmetrar. Talið var fullvíst að útboð þessa verks á sl. sumri hefði leitt til um 200 millj. kr. hærra tilboðs en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Til samanburðar má geta þess að fyrir þessa fjárhæð má fá um tíu rými í nýju fullbúnu hjúkrunarheimili. Í öðru lagi má geta þess að spár bentu til þess að þenslan á þessum markaði hjaðnaði þegar liði á árið. Auk þess er hagstæðasti tími til útboða á verkum af þessu tagi um eða upp úr áramótum, þá eru oft margir verktakar að afla sér verkefna fyrir komandi missiri og fyrsti hluti framkvæmda sem þessarar er steypuvinna og önnur útivinna sem best og ódýrast er að vinna að sumarlagi eftir því sem unnt er. Því var ákveðið að bíða með útboð hjúkrunarheimilisins við Suðurlandsbraut fram undir áramót.
    Á síðari hluta síðasta árs var verið að kanna nýjar hugmyndir um öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili, og þá fyrst og fremst kosti og galla þess að taka slíkt húsnæði á leigu af sveitarfélögum, fasteignarekendum eða öðrum aðilum í stað þess að ríki og sveitarfélög byggðu eða keyptu húsnæðið fyrir stofnanirnar og ættu það að fullu. Þessar athuganir beindust framan af hausti einnig að hjúkrunarheimilinu við Suðurlandsbraut.
    Að öllu þessu virtu þótti rétt og skynsamlegt að bjóða út í byrjun árs og er það mat ráðherra að það hafi verið skynsamleg ákvörðun, enda varð það raunin. Tilboð í þetta stóra verk voru opnuð hjá Framkvæmdasýslu ríkisins 29. apríl. Þar kom í ljós að átta tilboð af 14 voru undir kostnaðaráætlun og lægsta tilboðið var 91,4 af hundraði undir kostnaðaráætlun sem var upp á 1.710 millj. kr. Án þess að geta fullyrt hvaða tilboði verður tekið, því að þau á auðvitað eftir að skoða gaumgæfilega, þá sýnist ráðherra að um umtalsverðan sparnað gæti verið að ræða í þessu sambandi.