Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 631. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1242  —  631. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Valgerðar Sverrisdóttur um starfsemi kvennadeildar Landspítala.

     1.      Hversu mörg atvik hafa verið skráð á kvennadeild Landspítala á síðustu þremur árum (meðganga, fæðingar)?
    Skráð atvik á kvennasviði síðastliðin þrjú ár eru:

              árið 2005     55 atvik á öllu sviðinu
              árið 2006     64 atvik
              árið 2007     79 atvik

    Aukin vitund um mikilvægi skráningar óvæntra atvika hefur leitt til bættrar skráningar. Gæðastjóri sviðsins hefur umsjón með framkvæmd skráninga og úrvinnslu þeirra. Í kjölfar margra slíkra atvika hafa verið gerðir verkferlar sem eiga að hindra að atvik eigi sér stað á sviðinu og tryggja að rétt verði brugðist við ef atvik á sér stað.
    Algengustu atvik á fæðingarvæng sviðsins eru blæðing eftir fæðingu (yfir 1000 ml). Það hefur leitt til þess að gerður hefur verið verkferill sem er ætlað að hindra að slík blæðing eigi sér stað.
    Yfirlit um fjölda og eðli atvika sem hafa átt sé stað í hverjum mánuði á Landspítalanum hafa undanfarin ár verið send landlækni.

     2.      Hversu margar hafa heimsóknir á deildina verið á sama tíma?
     Göngudeildarkomur sem fela í sér móttöku kvenna, komur á fósturgreiningadeild, í mæðravernd, til brjóstaráðgjafar og önnur göngudeildarþjónusta voru:

              árið 2005     15.278
              árið 2006     20.956
              árið 2007     24.896

     Dagdeildarkomur sem eru komur kvenna í stuttar aðgerðir á kvenlækingadeild og komur á dagönn meðgöngudeildar voru:

              árið 2005      7.187
              árið 2006      7.176
              árið 2007      6.769

     Lega eftir sérgreinum. Dregið hefur úr legufjölda á kvenlækingavængnum en umsvif aukist á fæðingarvæng. Tölurnar eru settar saman hér:

              árið 2005     6.633
              árið 2006     5.199
              árið 2007     5.070
     3.      Hefur fjöldi starfsmanna verið í samræmi við fjölda heimsókna?
    Mönnun á deildum sviðsins hefur verið ágæt þessi ár en veikindi hafa haft áhrif á fæðingargangi. Teknar voru sérstaklega saman fjarvistir vegna veikinda fyrstu þrjá mánuði ársins þessi þrjú ár þar sem árið 2007 þótti skera sig úr í veikindaforföllum. Árið 2005 voru fjarvistardagar fyrstu þrjá mánuði ársins 3.979, árið 2006 voru þeir 4.595 en árið 2007 voru þeir komnir í 7.374.

     4.      Hver sinnir eftirlitshlutverki á deildinni?
    Deildarstjórar og yfirlæknar á hverri deild fyrir sig bera ábyrgð á að atvik séu skráð og unnið úr skráningum. Gæðastjóri sviðsins er þeim til aðstoðar við tæknileg atriði atvikaskráningakerfisins svo sem flokkun á þeim eftir alvarleika. Landlæknisembættið ber svo ábyrgð á eftirliti með heilbrigðisþjónustunni. Embættið hefur óskað eftir að fá upplýsingar um atvikaskráningu tvisvar sinnum á ári.