Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 603. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1250  —  603. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

     1.      Hvert var heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi 2006 og hve mikið hefur það aukist frá því árið 1990?
    Heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi árið 2006 var 4.234 þús. tonn í CO 2- ígildum. Þar af eru 535,5 þús. tonn sem falla undir 14/CP.7 (íslenska ákvæðið). Heildaraukning frá 1990 eru 24,2%. Ef horft er fram hjá útstreymi sem fellur undir 14/CP.7 er aukningin 8,5%.

     2.      Hvernig skiptist útstreymi gróðurhúsalofttegunda samkvæmt eftirfarandi sundurliðun: iðnaðarferlar, eldsneytisbrennsla í iðnaði, vegasamgöngur, fiskiskip, önnur eldsneytisbrennsla, landbúnaður og úrgangur, og hver hefur þróunin verið frá árinu 1990?
    Í töflu 1 eru birtar losunartölur fyrir öll ár frá 1990–2006 fyrir þá þætti sem spurt er um, auk undirflokka, svo sem PFC og eldsneytisbrennslu. Jafnframt vísast til meðfylgjandi grafa sem sýna losun gróðurhúsalofttegunda eftir greinum árin 1990–2006. Mynd 1 sýnir samanlagða heildarlosun eftir greinum. Á mynd 2 er losun einstakra greina aðgreind. Allar tölur eru í þús. tonna CO 2-ígildum. Jafnframt eru til glöggvunar sýnd skífurit sem sýna hlutfallslega losun einstakra greina fyrir árin 1990 (mynd 3) og 2006 (mynd 4).

     3.      Hvernig skiptist útstreymið á þær lofttegundir sem eru inni í loftslagsbókhaldinu? Í svarinu óskast sundurliðað hversu stór hluti PAH-losunar kemur frá stóriðju.
    Í töflu 2 er sýnd skipting útstreymis eftir þeim gróðurhúsalofttegundum sem eru gefnar upp í losunarbókhaldinu, annars vegar rauntölur og hins vegar sýnt sem prósentur af heildarlosun. Á mynd 5 er að lokum sýnd þróun í losun PFC-efna frá álverum en þau eru eina uppspretta þeirra efna hér á landi.

     4.      Hvernig skiptist losunin 2006 á þær heimildir sem Ísland hefur samkvæmt Kyoto-bókuninni, a) almennar heimildir, b) heimildir samkvæmt ákvæði 14/CP7?
    Kyoto-bókunin gildir einungis fyrir losun sem á sér stað á árunum 2008–2012 og losun ársins 2006 á hér ekki við. Ef árið 2006 hefði fallið hér undir mundi losun ársins skiptast samkvæmt eftirfarandi:
     a.      Almennar heimildir: 3698,8 þús. tonna CO 2-ígildi.
     b.      Heimildir samkvæmt 14/CP7: 535,5 þús. tonna CO 2-ígildi.

     5.      Hvenær má gera ráð fyrir að tölur fyrir árið 2007 liggi fyrir?
    Tölum er skilað inn til loftslagssamnings í apríl ár hvert og er þá skilað inn tölum tvö ár aftur í tímann. Endanlegar tölur fyrir 2007 munu liggja fyrir í apríl 2009.

     6.      Hverju spáir Umhverfisstofnun um útstreymi gróðurhúsalofttegunda á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar 2008–2012?
    Eldri spá um losun gróðurhúsalofttegunda var gerð árið 2006 og byggðist annars vegar á eldsneytisspá og hins vegar á mögulegum nýjum stóriðjuverkefnum á næstu árum. Spálíkan Umhverfisstofnunar frá þeim tíma gaf mismunandi niðurstöður eftir því hvaða forsendur voru settar inn varðandi stóriðju. Almennt gaf líkanið þó vísbendingar um að losun Íslands mundi vera innan marka Kyoto-bókunarinnar. Umhverfisráðherra hefur óskað eftir því við Umhverfisstofnun að stofnunin geri endurskoðaða spá um losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. í ljósi þess að losun frá samgöngum hefur væntanlega aukist meira en þáverandi eldsneytisspá gerði ráð fyrir. Einnig þarf að gera ráð fyrir þeim möguleikum á stóriðjuverkefnum sem liggja fyrir, m.a. byggt á umsóknum um losunarheimildir samkvæmt lögum um losun gróðurhúsalofttegunda. Niðurstöður þeirrar vinnu liggja ekki fyrir, en vonandi getur hún gefið skýrari mynd en spáin frá 2006 og svarað þeirri spurningu hvort auknar líkur séu á að Ísland fari yfir skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bókuninni en áður.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.