Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 656. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1356  —  656. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um beinar aðgerðir til að jafna flutningskostnað.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvenær hyggst ríkisstjórnin uppfylla loforð um aðgerðir til að jafna flutningskostnað á landsbyggðinni sem koma áttu til framkvæmda nú í ár?
     2.      Hvernig hefur fé sem ætlað var af fjárlögum til þessara jöfnunaraðgerða verið ráðstafað?


    Fyrirspurnin varðar fjárveitingu, sem samþykkt var í fjárlögum fyrir árið 2008, um 150 millj. kr. til jöfnunar kostnaðar við vöruflutninga. Í frumvarpi til fjárlaganna var gert ráð fyrir jöfnun kostnaðar við vöruflutninga til Vestfjarða. Skyldi tímabundin fjárveiting renna til flutningsfyrirtækja en ekki beint til einstakra viðskiptavina og vera viðbótarafsláttur við þau kjör sem fyrirtækin kynnu að njóta þá þegar. Í meðförum þingsins tók frumvarpið breytingum þannig að fjárheimildinni var ætlað að nýtast til jöfnunar á flutningskostnaði á landinu öllu.
    Þessir fjármunir voru hugsaðir sem mótvægi við fyrirhugaða niðurlagningu flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara.
    Úthlutun fjárins hefur ekki farið fram. Tengist það því að á vegum stjórnvalda hefur farið fram heildstætt mat á flutningsjöfnun. Hinn 31. desember 2007 skipaði ráðherra starfshóp undir forustu Kristjáns Þórs Júlíussonar alþingismanns og með aðkomu nokkurra ráðuneyta til að meta þau áhrif sem yrðu þegar flutningsjöfnunarsjóður olíuvara yrði lagður af, eins og stjórnvöld höfðu ráðgert, og með hvaða hætti skyldi mæta þeim áhrifum og jafna flutningskostnað almennt.
    Meiri hluti starfshópsins taldi að með því að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara væri raunveruleg hætta á því að nokkur hluti íbúa landsbyggðarinnar mundi búa við hærra eldsneytisverð en áður. Sér í lagi ætti þetta við um staði þar sem samkeppni væri lítil eða engin. Lagði meiri hluti hópsins því til að flutningsjöfnunarsjóður olíuvara starfaði áfram en lögin um starfsemi sjóðsins yrðu endurskoðuð, m.a. með það í huga að afmarka á annan hátt þau landsvæði sem jöfnunin tekur til.
    Starfshópurinn taldi engum vafa undirorpið að hár flutningskostnaður væri samkeppnishamlandi fyrir framleiðslufyrirtæki víða á landsbyggðinni. Var m.a. álit meiri hluta hópsins að mögulegt væri að taka upp flutningsjöfnunarkerfi hér svipað því sem gildir í Noregi. Eftir var þó að skilgreina hvaða atvinnustarfsemi ætti að falla þar undir, svo og að skilgreina við hvaða fjarlægðir og fjárhæðir ætti að miða flutningsstyrki. Enn fremur var það sjónarmið eins fulltrúa í starfshópnum að leggja ætti flutningsjöfnunarsjóð olíuvara niður án þess að grípa til sérstakra aðgerða varðandi jöfnun á flutningi vara. Slíkt almennt styrkjakerfi yrði litið á sem ríkisstyrki er tilkynna þyrfti til Eftirlitsstofnunar EFTA og fá samþykki hennar fyrir nýju kerfi.
    Þá lagði starfshópurinn til að lagt yrði mat á sjóflutningaþörf um landið og áhrif á vegakerfið í heild og að endurskoðaðar yrðu reglur ÁTVR um að hafa eingöngu eina móttökustöð fyrir áfengi. Starfshópurinn taldi einnig að huga þyrfti að reglum um tollhafnir þar sem þær gætu mismunað fyrirtækjum á landsbyggðinni.
    Þar sem ekki er búið að vinna úr tillögum starfshópsins og tillögur um nýtt kerfi til flutningsjöfnunar liggja ekki fyrir hefur ráðherra ákveðið að leggja ekki til að flutningsjöfnunarsjóður olíuvara verði lagður niður. Þannig er nú gert ráð fyrir sjóðnum í drögum að frumvarpi til fjárlaga árið 2009 en ætla má að tekjur hans og útgjöld til jöfnunar verði um 450 millj. kr. Þess vegna hefur verið ákveðið að fella niður umræddar 150 millj. kr. til jöfnunar kostnaðar við vöruflutninga.