Breiðavíkurmálið

Fimmtudaginn 12. mars 2009, kl. 10:50:29 (5256)


136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

Breiðavíkurmálið.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að verða við þeirri ósk sem fram kemur hjá hv. þingmanni þótt fyrr hefði verið. Ég vil fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar biðja fyrrverandi vistmenn á Breiðavíkurheimilinu og fjölskyldur þeirra afsökunar á þeirri ómannúðlegu meðferð sem þeir voru látnir sæta. Ég vil sömuleiðis biðja alla þá afsökunar sem hafa sem börn verið vistaðir á stofnunum eða heimilum fyrir tilstuðlan opinberra aðila hér á landi og sætt þar illri meðferð eða ofbeldi.

Það er hins vegar ekki hægt að ætlast til að slík fyrirgefning sé veitt nema þessi kafli í sögu íslenskra barnaverndarmála sé gerður upp. Í tíð fyrrverandi forsætisráðherra var hafist handa um það verk en Alþingi samþykkti lög árið 2007 um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Mikilvægt er einnig að hafin er könnun á meðferð barna og unglinga á mörgum fleiri vistheimilum þar sem börn og unglingar voru vistuð fyrir tilstuðlan opinberra aðila og er skýrsla um það væntanleg núna í júní nk.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns hafa verið settar fram hugmyndir um bótagreiðslur sem er alveg ljóst að Breiðavíkursamtökin hafa haft miklar athugasemdir við. Fulltrúar í forsætisráðuneytinu hafa á síðustu dögum fundað með forsvarsmönnum Breiðavíkursamtakanna um hvernig hægt sé að ljúka þessu máli í bærilegri sátt. Við erum að vísu bundin af þeim fjárheimildum sem núna eru í lögum en engu að síður standa þessi samtöl nú yfir. Ég vona að við komumst þar að niðurstöðu sem fulltrúar Breiðavíkursamtakanna geta verið sáttir við. Við skuldum þessum aðilum það að sú niðurstaða sem verður á bótagreiðslum verði gerð í bærilegri sátt við þessi samtök.