Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 16. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 16  —  16. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipan lánamála og sambærileg lánakjör einstaklinga hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum.

Flm.: Jón Magnússon, Grétar Mar Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að leita leiða til að koma skipan húsnæðislána og lána til neytenda í svipað horf og annars staðar á Norðurlöndum þannig að verðtrygging verði afnumin og samkeppni á lánamarkaði fyrir neytendur tryggð. Gjaldtaka lánastofnana verði svipuð og annars staðar á Norðurlöndum. Þá láti ráðherra fara fram skoðun á orsökum þess að lánakjör neytenda eru önnur á Íslandi en um ræðir annars staðar í okkar heimshluta.

Greinargerð.


    Ítrekað hefur komið fram í samanburðarkönnunum milli Íslands og annarra Norðurlandaríkja á lánakostnaði einstaklinga og fjölskyldna að kostnaðurinn hérlendis er til muna hærri en gerist í okkar heimshluta. Þar munar mestu um að við höfum sérstaka verðtryggingu sem miðast við tilbúna reiknieiningu, vísitölu neysluverðs. Áfallinni vísitölu er bætt við höfuðstól lánanna samkvæmt ákveðnum reglum og vextir eru ekki línulegir heldur miðaðir við uppfærða vísitölu á gjalddaga sem allt veldur því að kostnaður lántakenda hér á landi við endurgreiðslu lána er til muna hærri en annars staðar á Norðurlöndunum.
    Ljóst er miðað við skuldastöðu heimilanna í dag að miklir erfiðleikar verða innan skamms tíma vegna ofurvaxta lánastofnana og verðtryggingar sem veldur því að lánakjör eru hér mjög óhagstæð. Raunar er svo komið að margar fjölskyldur eru að missa eignir sínar vegna þeirra óhagstæðu lánakjara sem almenningur í landinu býr við.
    Eina réttlæting þess að vísitölubinda lán er að gjaldmiðli þjóðarinnar er ekki treyst. Vegna þessa vantrausts hefur verið tekin upp sérstök hjálparmynt sem ber heitið vísitala neysluverðs. Útreikningur og hækkanir á viðmiðum vísitölunnar fara eftir sérstökum reikniaðferðum en geta aldrei tekið tillit til eðlilegra viðbragða neytenda við breytingum á vöruverði t.d. að breyta frá dýrari vöru í ódýrari við verðhækkun. Nauðsynlegt er að íslenska krónan eða sá gjaldmiðill sem notaður er og verður hér á landi geti verið lögeyrir í öllum viðskiptum, hvort heldur er í almennum vöruviðskiptum eða lánaviðskiptum til lengri eða skemmri tíma.
    Réttlæting lánastofnana á Íslandi fyrir háum vöxtum og nauðsyn verðtryggingar er sú að þar sé um að ræða aukakostnað sem neytendur þurfi að bera vegna íslensku krónunnar. Við skoðun á ástæðum þess af hverju lánakjör eru mun óhagstæðari hér á landi fyrir neytendur en annars staðar í okkar heimshluta hlýtur að koma til skoðunar hvort raunin sé að neytendur beri gríðarlegan aukakostnað af því að við skulum halda úti sjálfstæðri mynt, íslensku krónunni. Sé raunin sú að íslenskir neytendur, íslenskar fjölskyldur, beri ofurvexti og lánakjör vegna íslensku krónunnar, þá ber að skoða hvað sá kostnaður er mikill fyrir fólkið í landinu. Þá verður jafnframt að skoða hvort það sé eðlilegt eða réttlætanlegt að einstaklingarnir, fjölskyldurnar í landinu, hinn litli lántakandi, beri meginhluta kostnaðarins af því óhagræði sem kann að vera fólgið í því að við notum íslensku krónuna og högum gjaldeyrisskráningu með þeim hætti sem nú er.
    Á þeim tíma sem gengi íslensku krónunnar hefur haldist hátt hefur vísitala neysluverðs samt hækkað töluvert. Til þess liggja þær ástæður að vísitala neysluverðs tekur aldrei og getur ekki tekið mið af öllum aðstæðum markaðarins frekar en annar tilbúinn lögeyrir getur gert. Vísitölubundin lán hafa því hækkað umtalsvert undanfarin ár á sama tíma og lán sem stærstu lántakendunum hafa lengi staðið til boða hafa lækkað að raungildi í íslenskum krónum.
    Íslenskar fjármálastofnanir hafa í auknum mæli boðið neytendum að taka gengisbundin lán. Margir hafa nýtt sér þann valkost. Nauðsynlegt er að kanna hvort lánakjör þeirra eru með sama eða svipuðum hætti og annars staðar á Norðurlöndunum.
    Vegna gengisáhættu á sl. ári, þar sem margir töldu þá að íslenska krónan væri allt of hátt skráð, réðu margir, þar á meðal Neytendasamtökin, fólki frá því að taka gengisbundin lán að svo stöddu. Komið hefur í ljós að sú ráðlegging var rétt miðað við gengisþróun á síðustu mánuðum. Krónan hefur fallið gríðarlega mikið og það hefur valdið þeim miklum erfiðleikum sem tekið hafa gengisbundin lán. Reynslan er hins vegar að verðtryggingin leiðir síðar til hækkunar höfuðstóls verðtryggðu lánanna þannig að á endanum greiðir sá sem er með verðtryggðu lánin jafnan hærri fjárhæð í afborganir og vexti af verðtryggðu lánunum en þeim gengistryggðu þar sem reynslan hefur sýnt að enginn gjaldmiðill í veröldinni hefur staðist verðtryggingunni snúning þegar til lengri tíma er litið.
    Hér er um mikilvægasta hagsmunamál íslenskra lántakenda að ræða. Unga fólksins í landinu, fjölskyldna sem hafa skuldsett sig mikið til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Breytingar í efnahagslífinu munu hafa veruleg og afgerandi áhrif og gætu leitt til fjöldagjaldþrota. Nauðsynlegt er að Alþingi og ríkisstjórn bregðist við áður en þessi fyrirsjáanlegi vandi verður að veruleika.
    Nauðsynlegt er að hér geti verið eðlilegur lánamarkaður fyrir neytendur sem bjóði einstaklingunum og fjölskyldunum upp á lánakjör eins og þau gerast best í okkar heimshluta í stað þess að bjóða upp á lánakjör sem eru þau verstu í okkar heimshluta.
    Meðal annars af framangreindum ástæðum telja flutningsmenn nauðsynlegt að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu þessa til að tryggja hagsmuni fólksins í landinu sem best og koma í veg fyrir að neytendur þurfi að búa við vaxtaokur umfram það sem nokkurs staðar þekkist í okkar heimshluta. Þá er ljóst að neyðarástand getur skapast í landinu þar sem fjölmargir sjá fram á að gefast upp fyrir því óréttlæti sem verðtrygging lána veldur.
    Þingsályktunartillaga þessi er samhljóða þingsályktunartillögu sem sömu flutningsmenn fluttu á 135. löggjafarþingi en þá fékk tillagan ekki afgreiðslu og er hún nú endurflutt óbreytt.