Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 20. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 20  —  20. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál.

Flm.: Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Magnús Stefánsson,


Birkir J. Jónsson, Höskuldur Þórhallsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að setja á stofn rannsóknarstofnun um utanríkis- og öryggismál.

Greinargerð.


    Á undanförnum tveimur áratugum hafa orðið miklar breytingar á alþjóðlegu umhverfi Íslands. Áhrif þeirra á Ísland eru óumdeilanleg, allt frá hruni Sovétríkjanna fram að brotthvarfi varnarliðsins. Fyrrverandi kommúnistaríki hafa mörg hver gerst aðilar að Evrópusambandinu og NATO. Þá hefur aðild Íslands að Schengen-svæðinu og sú staðreynd að Evrópa er að verulegu leyti án landamæra haft miklar breytingar í för með sér.
    Hröð bráðnun íss á heimsskautasvæðum sem kann að valda hækkun sjávarborðs og gjörbreyta siglingaleiðum á norðurslóðum mun hafa veruleg áhrif á Íslandi. Þessi þróun kann að valda nýrri spennu í alþjóðamálum og hafa þannig bein áhrif á íslensk öryggis- og varnarmál.
    Þróun mála í Asíu, einkum í Kína sem er á hraðri leið í átt að verða efnahagslegt stórveldi, auk vaxandi viðleitni Rússlands til að endurheimta fyrri áhrif í alþjóðamálum, mun hafa víðtæk áhrif á þróun heimsmála. Þá mun mótun utanríkis- og varnarmálastefnu Bandaríkjanna í kjölfar þess að nýr forseti tekur við völdum í janúar næstkomandi hafa veruleg áhrif á alþjóðlegt samstarf, m.a. innan Atlantshafsbandalagsins og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Vaxandi fólksflutningar milli landa, sérstaklega frá Norður-Afríku og Asíu til Evrópu og frá Austur-Evrópu til Vestur-Evrópu, eru mikil áskorun og hafa Norðurlöndin ekki farið varhluta af þeirri þróun. Neikvæðir fylgifiskar alþjóðavæðingarinnar, svo sem mansal og smygl á fólki eru vaxandi vandamál. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi er viðvarandi vandi sem ekki sér fyrir endann á. Hætta á útbreiðslu gereyðingavopna er einnig fyrir hendi og má í því sambandi minna á yfirstandandi deilu alþjóðasamfélagsins við Íran vegna áætlana Írans um auðgun úrans. Atlaga netþrjóta á tölvukerfi, í sumum tilfellum að áeggjan stjórnvalda ákveðinna ríkja, er ný ógn sem þjóðir heims standa frammi fyrir.
    Víða erlendis, þ.m.t. annars staðar á Norðurlöndunum, starfa rannsóknarstofnanir sem sérhæfa sig í alþjóðamálum og þróun þeirra. Við Háskóla Íslands starfar Alþjóðamálastofnun sem sett var á laggirnar árið 1990 og hefur hún unnið ágætt starf. Hún er hins vegar ekki rannsóknarstofnun eins og hér er gerð tillaga um. Vel má hugsa sér að sú stofnun sameinaðist rannsóknarstofnuninni sem hér um ræðir ef það þætti henta.
    Mikilvægt er að við uppbyggingu rannsóknarstofnunar um utanríkis- og öryggismál sé lögð áhersla á faglegt og stjórnunarlegt sjálfstæði. Þá er samstarf við alþjóðlegar stofnanir augljóslega mikilvægt.
    Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu á sviði utanríkis- og öryggismála. Þeirri þekkingu má koma á framfæri og nýta á skipulegan hátt með stofnun rannsóknarstofnunar um utanríkis- og öryggismál. Stofnunin gæti auk þess þjónað stuðningshlutverki við þann samstarfsvettvang stjórnmálaflokkanna sem boðaður var í yfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar í kjölfar samkomulags ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál frá 26. september 2006.