Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 64. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 64  —  64. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Svavarsson, Höskuldur Þórhallsson,


Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Valdís Óskarsdóttir,     Helgi Hjörvar,


Ögmundur Jónasson, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir.



1. gr.

    1. málsl. 2. gr. laganna orðast svo: Alþingi kýs forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn og nefnist hann ríkisendurskoðandi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til að Alþingi kjósi ríkisendurskoðanda í stað þess að forsætisnefnd Alþingis ráði hann. Yrði þá ráðning ríkisendurskoðanda færð til sama horfs og gilt hefur frá upphafi varðandi umboðsmann Alþingis.
    Fyrstu lögin um umboðsmann Alþingis eru frá 1987 og var þá þegar lögfest að Alþingi kysi umboðsmann. Í greinargerð með frumvarpinu segir um þetta atriði að þetta sé sama fyrirkomulag og viðhaft sé í Danmörku og að ætla megi að það sé til þess fallið að auðvelda umboðsmanni störf sín ef hann sækir umboð sitt beint til meiri hluta þess þings sem situr hverju sinni. Flutningsmaður frumvarpsins var þáverandi forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, og vísaði sérstaklega hann til þessa rökstuðnings í framsöguræðu sinni fyrir frumvarpinu.
    Með lögum nr. 12/1986 var Ríkisendurskoðun flutt undir vald Alþingis. Rökstuðningurinn vísaði einkum til þess að stjórnarskráin færði Alþingi vald í hendur til þess að ákveða fjárveitingar. Því væri það rökrétt að á vegum löggjafans færi fram endurskoðun á því hvernig framkvæmdarvaldið, sem annast framkvæmd fjárlaga, hafi nýtt fjárlagaheimildir Alþingis og svo hvort farið hafi verið út fyrir þær. Var þá ákveðið að forsetar Alþingis réðu í sameiningu forstöðumann Ríkisendurskoðunar. Á þeim tíma voru forsetarnir þrír, einn fyrir neðri deild, annar fyrir efri deild og sá þriðji fyrir sameinað Alþingi.
    Lögunum var breytt 1997 til samræmis við breytingar sem urðu 1991 á skipulagi Alþingis, þegar deildaskiptingin var afnumin og ákveðið að Alþingi starfaði aðeins í einni málstofu. Í stað forseta Alþingis var ráðningarvaldið fært til forsætisnefndar Alþingis, sem samanstendur af forseta Alþingis og varaforsetum þess. Hafa ber í huga að skv. 10. gr. þingskapalaganna frá 1991 sker forseti úr ef ágreiningur verður í forsætisnefndinni. Þetta þýðir að í raun er það vilji forseta sem ávallt ræður, því að þótt allir varaforsetar séu á einu máli dugir það ekki til ef ágreiningur er við forseta Alþingis.
    Sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á því að ríkisendurskoðanda verður ekki vikið úr störfum nema með samþykki Alþingis rétt eins og gildir varðandi umboðsmann Alþingis. Verður að telja eðlilegt í ljósi þessa og í fullu samræmi við löggjöf um umboðsmann Alþingis að gera þá breytingu á lögunum um Ríkisendurskoðun að ríkisendurskoðandi verði kosinn af Alþingi.