Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 98. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 105  —  98. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um innköllun íslenskra aflaheimilda.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson,     Jón Magnússon.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að innkalla allar aflaheimildir við Ísland samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum, og lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Stofnaður verði sérstakur auðlindasjóður sem hafi það hlutverk að leigja gegn eðlilegu afgjaldi allar aflaheimildir árlega. Leiga aflaheimilda til fiskveiða verði bundin við íslenska ríkisborgara, á jafnréttisgrundvelli, og miðað verði að því að eðlileg nýliðun í útgerð sé tryggð. Óheimilt verði að framleigja leigðar veiðiheimildir. Tekjur af leigu aflaheimilda renni í auðlindasjóðinn eftir nánari reglum sem Alþingi ákveður.

Greinargerð.


    Hamfarir á fjármálamörkuðum hafa leitt til þess að stærstu bankastofnanir þjóðarinnar hafa komist í þrot og verið ríkisvæddar. Skuldir sjávarútvegsins eru miklar. Torséð er að greinin ráði við að greiða þær niður. Þessar skuldir eru nú að mestu við fjármálastofnanir í ríkiseigu, banka og sjóði. Þingsályktunartillaga þessi felur ríkisstjórninni að innkalla allar aflaheimildir og að stofnaður verði sérstakur auðlindasjóður sem hafi það hlutverk að leysa til sín og leigja aflaheimildir. Miðað er við að innleysing aflaheimilda verði m.a. með þeim hætti að aflaheimildir verði innleystar á ákveðnu verði á móti skuldum sem ríkið og/eða auðlindasjóður yfirtekur. Á móti slíkri innleysingu yrðu sambærilegar skuldir vegna kvótakaupa fyrir hrun bankakerfisins afskrifaðar hjá bönkum og sjóðum. Tekjur komi á móti til ríkisins í formi leigutekna þegar þessar aflaheimildir verði boðnar út af þar til gerðum auðlindasjóði, á opnum markaði þar sem öllum sem hyggja á fiskveiðar er frjáls þátttaka eftir þar til gerðum reglum. Sett verði löggjöf um leigu á aflaheimildum. Leiga aflaheimilda fari aðeins í þann farveg sem markaður er um slík viðskipti. Útgerðum sem leigi aflaheimildir beri að nýta aflaheimildir til veiða. Leiga á aflaheimildum getur farið fram á fiskmörkuðum sem gert hafa samkomulag við auðlindasjóð. Leiga aflaheimildanna fer eftir nánari reglum auðlindasjóðs og fiskmarkaða. Við leigu á aflaheimild verði hún skilgreind sem afnotaréttur í takmarkaðan tíma gegn leigugjaldi. Tekjur af viðskiptum með aflaheimildir renna til ríkissjóðs þar til ríkissjóður hefur náð að jafna sinn kostnað vegna afskrifta skulda af kvótakaupum undanfarinna ára. Tilteknar þúsundir tonna af þorski verði ætlaðar til leigu, sérstaklega frá þeim svæðum þar sem verulegur samdráttur hefur orðið í aflaheimildum og hagvöxtur síðustu ára hefur verið hvað minnstur, jafnvel neikvæður. Þær heimildir verði leigðar með þeim skilyrðum að gert verði út frá viðkomandi landsvæði og aflinn seldur þar á markaði og unninn. Leigutekjum ríkisins af þessum sérúthlutuðu veiðiheimildum verði ráðstafað til atvinnuuppbyggingar á sömu landsvæðum. Engin sérlög eru til um leigu eða sölu aflaheimilda eða lög sem marka ríki og sveitarfélögum tekjur af þeim viðskiptum. Setja ber slík lög um ráðstöfun aflaheimilda og tekna af þeim með þeim hætti sem hér er lagt til.
    Ljóst er að núverandi tilhögun á úthlutun íslenskra aflaheimilda hefur gengið sér til húðar og í raun komist í þrot með hruni íslenska bankakerfisins. Innköllun aflaheimilda og endurleiga þeirra á opnum markaði á jafnréttisgrundvelli mun hleypa nýju blóði og krafti í íslenskan sjávarútveg. Núverandi þátttakendur í útgerð sem áður höfðu aflaheimildir, sem og þeir sem voru á leigumarkaði, munu þar geta haldið starfsemi sinni áfram um leið og nýjum aðilum gefast tækifæri til að spreyta sig. Á þessari ögurstundu í sögu íslensku þjóðarinnar er lífsnauðsynlegt, eftir því sem tök eru á, að hleypa nýju blóði í grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar svo sækja megi fram með aukinni dirfsku og verðmætasköpun þjóðinni til heilla. Nái þessi tillaga fram að ganga mun hún einnig leiða til þess að mikilvægar tekjur, sem sárlega vantar nú, skapast fyrir ríki og sveitarfélög.