Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 103. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 110  —  103. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001.

Flm.: Jón Magnússon, Guðjón A. Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson.



1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo: Seðlabankastjóri setur starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins, að höfðu samráði við ríkisstjórn, sem bankaráð staðfestir, sbr. 28. gr.

2. gr.

    Í stað orðsins „bankastjórnar“ í 2. málsl. 22. gr. laganna kemur: seðlabankastjóra.

3. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Seðlabankastjóri ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin samkvæmt lögum þessum.
    Forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra til fimm ára í senn. Skylt er að auglýsa embættið laust til umsóknar. Aðeins er heimilt að skipa sama mann bankastjóra tvisvar sinnum. Um endurskipun gilda ekki ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Seðlabankastjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu á fjármálum og efnahagsmálum sem nýtist í starfinu.
    Seðlabankastjóra til aðstoðar eru æðstu stjórnendur bankans og skal aðalhagfræðingur Seðlabankans vera daglegur staðgengill seðlabankastjóra. Forfallist seðlabankastjóri getur forsætisráðherra sett bankastjóra tímabundið í stað hans.
    Undirskrift seðlabankastjóra og formanns bankaráðs Seðlabankans þarf til þess að skuldbinda bankann. Formanni bankaráðs er heimilt að veita tilteknum starfsmönnum bankans umboð til að skuldbinda bankann með undirskrift sinni í tilteknum málefnum samkvæmt reglum sem seðlabankastjóri setur og staðfestar skulu af bankaráði, sbr. 28. gr.

4. gr.

    24. gr. laganna orðast svo:
    Seðlabankastjóri er talsmaður bankans og kemur fram fyrir hönd bankans.
    Seðlabankastjóri ber ábyrgð á ákvörðunum um afgreiðslu mála.
    Seðlabankastjóri setur starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Opinberlega skal gerð grein fyrir ákvörðunum seðlabankastjóra í peningamálum og forsendum þeirra.
    

5. gr.

    Í stað orðanna „Bankastjórum Seðlabanka Íslands“, „bankastjórum“ og „bankastjórn“ í 25. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: seðlabankastjóri.

6. gr.

    2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo:
    Seðlabankastjóri situr fundi bankaráðs og tekur þátt í umræðum. Seðlabankastjóri skal víkja af fundi ef bankaráð ákveður.

7. gr.

    Í stað orðanna „bankastjórn“, „bankastjórnar“ og „bankastjóra“ í 28. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: seðlabankastjóri.

8. gr.

    Í stað orðsins „bankastjórn“ í 2. mgr. 33. gr. laganna kemur: seðlabankastjóra.

9. gr.

    Á eftir orðinu „bankastjórar“ í 1. mgr. 35. gr. laganna og orðinu „bankastjórum“ í 2. mgr. sömu greinar kemur, í viðeigandi beygingarfalli: seðlabankastjóri.

10. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 37. gr. laganna orðast svo: Bankaráð setur reglur um þessi viðurlög sem staðfestar skulu af ráðherra.

    11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en ákvæði til bráðabirgða koma til framkvæmda innan tveggja mánaða frá gildistöku laga þessara.

Ákvæði til bráðabirgða.


    I.

    Alþingi kýs sjö fulltrúa í bankaráð Seðlabanka Íslands og jafnmarga til vara. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráðinu.

     II.

    Forsætisráðherra skipar nýjan seðlabankastjóra og skulu þá bankastjórar Seðlabanka Íslands hætta störfum.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til þær breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands að bankastjóri verði einn og að starfsheiti hans verði seðlabankastjóri. Þá er einnig lagt til að það verði gert að skilyrði að seðlabankastjóri hafi lokið námi á háskólastigi og búi yfir víðtækri þekkingu á fjármálum og efnahagsmálum sem nýtist í starfinu. Lagt er til að seðlabankastjóri komi í stað bankastjórnar samkvæmt gildandi lögum og að hlutverk bankaráðs og forsætisráðherra í ákveðnum tilvikum verði nokkru víðtækara en samkvæmt gildandi lögum nái lagafrumvarp þetta fram að ganga.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að það sé aðeins einn einstaklingur sem gegni starfi seðlabankastjóra sem hafi faglega þekkingu og reynslu af þeim viðfangsefnum sem Seðlabanka er ætlað að sinna. Flutningsmenn telja einnig mikilvægt að seðlabankastjóri beri ábyrgð á daglegri stjórn og ákvarðanatöku Seðlabankans. Með því ætti starfsemi Seðlabankans að verða skilvirkari. Þá hefur á það skort að mati flutningsmanna að bankastjórar Seðlabankans hafi búið yfir nægjanlega víðtækri þekkingu og reynslu af fjármálum og efnahagsmálum.
    Með frumvarpinu er lagt til að seðlabankastjóri verði skipaður til fimm ára í senn í stað sjö ára og að ekki megi skipa sama einstakling oftar en tvisvar sinnum. Hámarkstími sem sami einstaklingur gæti gegnt embætti samkvæmt þessu er þá tíu ár samtals í stað fjórtán samkvæmt gildandi lögum. Þá er lagt til að forsætisráðherra geti sett bankastjóra tímabundið í starf seðlabankastjóra komi til þess að hann forfallist í lengri tíma vegna veikinda eða annarra sambærilegra forfalla. Þá er lagt til að undirskrift seðlabankastjóra og formanns bankaráðs eða þess aðila sem hann setur fyrir sig skuldbindi bankann í stað bankastjórnar samkvæmt gildandi lögum en flutningsmenn telja eðlilegt að seðlabankastjóri einn geti ekki skuldbundið bankann.
    Með frumvarpinu er einnig lagt til að nýtt bankaráð Seðlabankans verði kjörið og nýr bankastjóri, seðlabankastjóri, verði skipaður í stað þeirra sem nú gegna starfinu.
    Enn fremur eru lagðar til breytingar sem fela í sér meiri aðkomu ríkisstjórnar að starfsreglum um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins en þær helgast af því að seðlabankastjóri er einn og því nauðsynlegt að kveða á um aðkomu ríkisstjórnar að starfsreglum um gjaldeyrisvarasjóðinn vegna ríkisfjármálanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.     


Um 1. gr.

    Í greininni er lögð til sú breyting á 20. gr. laganna að seðlabankastjóri í stað bankastjórnar setji starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins, að höfðu samráði við ríkisstjórn, sem bankaráð staðfestir, sbr. 28. gr. Hér er lögð til sú efnisbreyting að ríkisstjórn samþykki þær starfsreglur sem seðlabankastjóri leggur til og er því um virkari aðkomu ríkisstjórnarinnar að ræða nái frumvarpið fram að ganga. Þannig að valdið til setningar starfsreglna um gjaldeyrisvarasjóðinn verði ekki allt á einni hendi heldur heyri það undir forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar. Telja flutningsmenn það nauðsynlegt til þess að veita bankastjóranum aðhald auk þess sem reglurnar hafa svo mikil áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar.

Um 2. gr.

    Með greininni er lögð til breyting á 22. gr. laganna um að dagleg stjórn Seðlabanka Íslands verði í höndum seðlabankastjóra í stað bankastjórnar.

Um 3. gr.

    Lögð er til sú breyting á 23. gr. laganna að í stað bankastjórnar beri seðlabankastjóri ábyrgð á rekstri bankans og fari með ákvörðunarvald í öllum málefnum Seðlabankans sem ekki eru öðrum falin samkvæmt lögum. Þannig muni seðlabankastjóri gegna sama hlutverki og bankastjórn gerir núna nái frumvarpið fram að ganga. Seðlabankastjóri beri ábyrgð á rekstri bankans og fari með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru sérstaklega öðrum falin.
    Þá er lagt til að forsætisráðherra skipi seðlabankastjóra til fimm ára í senn í stað sjö ára og að skylt verði að auglýsa embættið laust til umsóknar en það er breyting frá gildandi lögum. Þá er lagt til að einungis verði heimilt að skipa sama einstakling bankastjóra tvisvar sinnum. Hámarkstími sem sami einstaklingur getur gegnt starfi seðlabankastjóra er því tíu ár. Flutningsmenn telja að sjö ára skipunartími samkvæmt gildandi lögum sé of langur og að áhrifaríkara sé að skipa bankastjórann til fimm ára í einu auk þess sem það veiti aukið aðhald að hafa skipunartímann ekki of langan. Þá má enn fremur nefna að algengasti skipunartími í opinber embætti er einmitt fimm ár og telja flutningsmenn eðlilegt að sama gildi um embætti seðlabankastjóra og önnur.
    Hér er einnig lagt til að seðlabankastjóri skuli hafa lokið námi á háskólastigi og búi yfir víðtækri þekkingu á fjármálum og efnahagsmálum sem nýtist í starfinu. Telja flutningsmenn það mjög nauðsynlegt og í raun grundvallarskilyrði að seðlabankastjóri hafi lokið námi á háskólastigi og hlotið víðtæka faglega þekkingu á þeim málum sem falla undir Seðlabankann þannig að hann verði sá efnahagssérfræðingur þjóðarinnar sem best er treyst til að fara með þau mikilvægu mál sem heyra undir Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum. Sambærilegar kröfur eru til dæmis gerðar til forstjóra Samkeppniseftirlitsins, sbr. ákvæði samkeppnislaga en þar segir að forstjóri skuli hafa menntun á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu og reynslu á sviði samkeppnismála.
    Þá er lagt til að seðlabankastjóra til aðstoðar skuli vera æðstu stjórnendur bankans og að aðalhagfræðingur Seðlabankans verði daglegur staðgengill seðlabankastjóra. Þá er enn fremur lagt til að forsætisráðherra geti skipað bankastjóra tímabundið forfallist seðlabankastjóri. Þá er miðað við að um lengri forföll sé að ræða vegna veikinda eða annarra sambærilegra atvika.
    Í gildandi lögum þarf undirskrift tveggja bankastjóra Seðlabankans til að skuldbinda bankann. Telja flutningsmenn það eðlilegt að undirskrift fleiri en eins einstaklings þurfi í slíkum tilvikum svo sem venja er með meiri háttar skuldbindingar ríkisstofnana og fyrirtækja. Leggja flutningsmenn frumvarpsins því til að formaður bankaráðs skrifi undir með seðlabankastjóra þegar um skuldbindandi gerninga er að ræða. Formanni bankaráðs verði þó heimilt að veita tilteknum starfsmönnum bankans umboð til að skuldbinda bankann með undirskrift sinni í tilteknum málefnum samkvæmt reglum sem seðlabankastjóri setur og staðfestar skulu af bankaráði, sbr. 28. gr. Í þeim tilvikum þegar formaður bankaráðs mundi fela öðrum umboð til að skrifa undir fyrir sína hönd gilda almennar reglur um veitingu umboða og afturköllun.

Um 4. gr.

    Lagðar eru til breytingar á greininni sem miða að því að fella brott ákvæði um bankastjórn og er lagt til að seðlabankastjóra verði falið hlutverk hennar, þ.e. hann verður talsmaður bankans og kemur fram fyrir hönd hans. Þá ber hann einnig ábyrgð á ákvörðunum um afgreiðslu mála sem æðsti yfirmaður.
    Þá er einnig lagt til að seðlabankastjóri setji starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Loks er lagt til að opinberlega skuli gerð grein fyrir ákvörðunum seðlabankastjóra í peningamálum og forsendum þeirra.
              

Um 5. gr.

    Seðlabankastjóri gegnir mjög mikilvægri og ábyrgðarmikilli stöðu. Eðli málsins samkvæmt býr seðlabankastjóri yfir mikilvægum upplýsingum sem skipta almennu máli í viðskiptalífi þjóðarinnar. Meðal annars vegna þess telja flutningsmenn eðlilegt að seðlabankastjóra verði óheimilt að sitja í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri nema slíkt sé boðið í lögum eða um sé að ræða fyrirtæki sem Seðlabankinn á aðild að. Það er lagt í vald forsætisráðherra að skera úr komi til ágreinings. Þá gilda óbreyttar reglur samkvæmt frumvarpinu um þátttöku annarra starfsmanna bankans í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans, sbr. 28. gr.

Um 6.–10. gr.

    Í greinunum eru lagðar til breytingar vegna þeirrar meginbreytingar sem frumvarpið felur í sér að fækka bankastjórum í einn og leggja þar með niður bankastjórnina. Í 9. gr. er lagt til að seðlabankastjóra verði bætt við þá sem taldir eru upp í greininni, m.a. bankastjóra, og bundnir eru þagnarskyldu þar sem ekki er ætlunin að fella niður þagnarskyldu þeirra, þ.e. hvorki núverandi bankastjóra né fyrrverandi bankastjóra Seðlabankans.

    Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að nauðsynlegt er að leggja til að ákvæði til bráðabirgða taki ekki gildi strax til þess að unnt sé að ljúka m.a. kjaramálum sitjandi bankastjóra og til að gefa Alþingi tíma til að skipa nýtt bankaráð og forsætisráðherra til að skipa seðlabankastjóra.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Hér er lagt til að nýtt bankaráð skuli kosið í stað sitjandi bankaráðs og að nýr seðlabankastjóri verði skipaður og að bankastjórar sem nú gegna embætti láti af störfum við þá skipan.