Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 74. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 119  —  74. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möller um tóbakssölu í fríhöfnum.

     1.      Hvað mikið magn tóbaks er flutt tollfrjálst inn í landið gegnum fríhafnarverslun og hvað er það stór hluti af heildarsölu tóbaks í landinu?
    Samkvæmt upplýsingum frá fríhafnarverslunum á Keflavíkurflugvelli, Reykjavíkurflugvelli og Akureyrarflugvelli voru seldir u.þ.b. 1.210.000 pakkar af vindlingum samtals í verslunum þeirra á árinu 2007. Samkvæmt upplýsingum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins var heildarsala vindlinga innan lands 13.433.698 pakkar árið 2007. Miðað við þessar upplýsingar nam heildarsala vindlinga hér á landi 14.644.698 pökkum á árinu 2007. Þar af er sala í fríhafnarverslunum um 8% af heildarsölu vindlinga innan lands. Ekki náðist að afla sambærilegra upplýsinga varðandi sölu á öðru tóbaki, en sala þess í fríhöfnum er hverfandi samanborið við vindlinga.

     2.      Hvert er verð á vindlingapakka í fríhöfn í samanburði við verð út úr búð og í hverju felst verðmunurinn?
    Algengt verð á vindlingapakka með 20 vindlingum er um 299 kr. í fríhafnarverslun. Algengt verð út úr búð er um 620 kr. Munurinn á búðarverði og fríhafnarverði er samkvæmt því 321 króna á hvern pakka. Sá munur skýrist að stærstum hluta af 228,46 kr. tóbaksgjaldi sem leggst á hvern vindlingapakka skv. 9. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, auk 24,5% virðisaukaskatts.

     3.      Hvert áætlað árlegt tekjutap ríkisins af verslun með tóbak í fríhöfnum landsins miðað við sölutölur?
    Sem fyrr segir voru seldir u.þ.b. 1.210 þús. pakkar af vindlingum í fríhafnarverslunum á síðasta ári. Af þeirri sölu er áætlaður tóbaksskattur 276 millj. kr. Ef miðað er við að öll sú tóbakssala sem fer fram í fríhöfnum landsins færi fram út úr búð og að pakkinn væri seldur á 620 kr. má áætla að samanlagðar tekjur ríkisins af tóbaksskatti og virðisaukaskatti vegna þessarar sölu væru um 490 millj. kr.

     4.      Hvaða rök eru fyrir því að selja tóbak í fríhafnarverslun hér á landi?
    Hér þarf að horfa til þess að tóbak er dæmigerð vara í fríhafnarverslunum um allan heim. Verði skattfrjálsri tóbakssölu hætt í fríhafnarverslunum á Íslandi má gera ráð fyrir því að meginhluti þeirrar tóbakssölu sem í dag fer fram hérlendis flytjist til erlendra fríhafna. Slík ráðstöfun mundi óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á tekjuöflunarmöguleika og umsvif innlendrar fríhafnarverslunar, jafnframt því að auka á útstreymi gjaldeyris. Öll rök standa því til þess að skattfrjálsri tóbakssölu verði viðhaldið í íslenskum fríhöfnum, ella væri verið að stuðla að flutningi verslunar úr landi.

     5.      Eru einhverjar hindranir fyrir því að hætta sölu tóbaks í fríhafnarverslun?
    Engar lagalegar hindranir standa í vegi fyrir því að afnema heimild fríhafna til sölu tóbaks.