Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 140. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 155  —  140. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um átak í viðhaldi á opinberu húsnæði.

Flm.: Þuríður Backman, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson,


Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta meta viðhaldsþörf á öllu opinberu húsnæði og gera átak í viðhaldi þess og aðlögun að aðgengi fyrir alla.

Greinargerð.


    Viðhaldi opinberra bygginga er víða ábótavant hér á landi og hafa margar þeirra fengið að grotna niður með þeim afleiðingum að viðhaldskostnaður hefur aukist stórlega þegar loks er ráðist í viðgerðir. Sem dæmi má nefna húsakynni Þjóðleikhússins og Þjóðminjasafnsins. Í þeim efnahagserfiðleikum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir núna hníga mörg rök að því að opinberir aðilar geri átak í viðhaldi opinbers húsnæðis og aðlögun þess að aðgengi fyrir alla. Slíkt átak væri atvinnuskapandi á erfiðum tímum og með því væri stuðlað að því að uppfylla skuldbindingar okkar samkvæmt sáttmála SÞ um réttindi fatlaðra.
    Aðkallandi er að leita leiða til að skapa atvinnu þar sem fjöldauppsagnir hafa átt sér stað hjá mörgum fyrirtækjum, t.d. í byggingariðnaði, auk þess sem talsmenn arkitekta, hönnuða og verkfræðinga hafa lýst yfir áhyggjum af yfirvofandi atvinnuleysi þessara stétta. Átak í viðhaldsverkefnum opinberra bygginga getur haft áhrif á og jafnvel komið í veg fyrir landflótta þessara mikilvægu stétta.
    Stjórnvöld þurfa að móta nýja atvinnustefnu til að efla byggð og tryggja að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Í því skyni er nauðsynlegt að standa vörð um fjölbreytni atvinnulífsins. Falla þarf frá núverandi stóriðjustefnu og orkufrekum iðnaði þar sem áherslan hefur verið á einhæfa atvinnuuppbyggingu. Áherslan þarf að vera á fjölbreytt verkefni vítt og breitt um landið án þess að stofnað sé til óheyrilegrar lántöku eða hvatt til þenslu. Lántaka til virkjunarframkvæmda er auk þess óraunhæfur kostur vegna kreppu á fjármálamörkuðum og útflutningsverðmæti í álframleiðslu hefur minnkað undanfarna mánuði. Einnig er nauðsynlegt að rannsaka heildaráhrif stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi áður en ráðist er í fleiri framkvæmdir af þeirri stærðargráðu. Það átak sem hér er lagt er til að ráðist verði í er bæði atvinnuskapandi fyrir þær stéttir sem hafa orðið hvað verst úti í fjöldauppsögnum auk þess að vera þjóðþrifaverk þar sem ferlimál fatlaðra hafa löngum setið á hakanum hér á landi.
    Ekki eru fyrir hendi nýlegar upplýsingar um viðhaldsþörf á opinberu húsnæði og því er nauðsynlegt að gert verði allsherjarmat á þessari þörf. Samkvæmt upplýsingum frá Fasteingum ríkisins (FR) er um að ræða tvenns konar viðhald, annars vegar hefðbundið viðhald sem uppfyllir skyldur leigusala á almennum markaði og hins vegar endurbætur og breytingar sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi, til að halda í við tíðarandann og breyttar þarfir notenda og að auka þannig notagildi viðkomandi fasteignar og hægja á afskriftum. Fasteignir ríkisins hafa umsjón með rúmlega 40% af fasteignum hins opinbera og er viðhaldskostnaður áætlaður um 2 milljarðar kr. á árinu 2009. Fjöldi bygginga í eigu hins opinbera falla undir tiltekin ráðuneyti, t.d. Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri. Auk þess eru fasteignir sem þurfa sérstakt framlag af fjárlögum, t.d. Þjóðleikhúsið. Það er því ljóst að mikilvægt er að gera heildstæða könnun á viðhaldsþörf á öllu opinberu húsnæði í eigu ríkisins.
    Rétt er að benda á að ekki er síður nauðsynlegt að gera sambærilega úttekt á húsnæði sveitarfélaga. Í rannsókn á aðgengi fatlaðra að þátttöku og pólitísku starfi í sveitarstjórnum á Íslandi, sem gerð var fyrir fáeinum árum á vegum norrænu samstarfsnefndarinnar um málefni fatlaðra, NHR (Nordiska handikappolitiska rådet), kom fram að sveitarfélögin hafa mörg hver ekki sinnt sem skyldi aðlögun húsnæðis fyrir aðgengi fyrir alla. Annars staðar á Norðurlöndum hefur þessari skyldu samkvæmt sáttmálum SÞ um réttindi fatlaðra verið sinnt í ríkara mæli en tíðkast hefur hér. Á vettvangi Norðurlandaráðs hefur aðgerðaráætluninni „Hönnun fyrir alla“, þar sem málefni fatlaðra eru í brennidepli, verið hrundið af stað. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum fylgist Skipulagsstofnun með og veitir upplýsingar um ferlimál fatlaðra hér á landi. Í skipulagsreglugerð og byggingarreglugerð er að finna lágmarksákvæði og kröfur varðandi hönnun mannvirkja og næsta umhverfis þannig að allir eigi sem greiðastan aðgang og möguleika á dvöl í mannvirkjunum.
    Verði átak um viðhald opinbers húsnæðis og aðlögun þess að aðgengi fyrir alla að veruleika opnast möguleikar til margvíslegra atvinnuskapandi aðgerða sem einnig mundu bæta til muna aðgengi fatlaðra að opinberu húsnæði á Íslandi. Slíkt er þjóðfélagslega hagkvæmt auk þess að tryggja bætt lífsskilyrði og aukin lífsgæði þeirra sem njóta munu góðs af.