Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 122. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 215  —  122. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um húsaleigusamninga ríkisins og ríkisstofnana.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hafa fyrir hönd ríkissjóðs verið gerðir húsaleigusamningar með þeim skilmálum að leigufjárhæð sé bundin erlendri mynt að hluta eða öllu leyti, og ef svo er:
     a.      hversu margir slíkir samningar eru í gildi nú, hver var samanlögð fjárhæð þeirra á mánuði 1. nóvember sl. og hversu stór hluti er háður gengi erlendra gjaldmiðla,
     b.      hversu margir slíkir samningar hafa verið gerðir frá 1. júlí 2007,
     c.      hver eru áhrif þessa á húsaleigukostnað ríkisins og ríkisstofnana frá 1. janúar sl.,
     d.      til hversu langs tíma eru samningar sem hér um ræðir og hvernig eru uppsagnarákvæði þeirra,
     e.      hefur ráðherra hug á að láta fara fram endurskoðun og/eða uppsögn þessara samninga?


    a. Húsaleigusamningar með þeim skilmálum að leigufjárhæð sé bundin erlendri mynt að hluta eða öllu leyti hafa nánast ekkert tíðkast hjá ríki og ríkisstofnunum að frátöldum samningum um húsaleigu erlendis. Könnun á tíðni slíkra samninga hér á landi leiddi í ljós að einn slíkur samningur virðist hafa verið gerður á undanförnum missirum. Um er að ræða samning um leigu á 3.500 fm. húsnæði fyrir ríkisstofnun. Í samningnum er gert ráð fyrir að helmingur leigufjárhæðar breytist í samræmi við gengi evru gagnvart íslenskri krónu. Leigufjárhæð fyrir fullbúið húsnæði án lauss búnaðar er 1.290 kr. á fm. án virðisaukaskatts miðað við grunnvísitölu ágústmánaðar 2007 og gengisvísitölu sama mánaðar.

    b. Samkvæmt athugun ráðuneytisins virðist einn slíkur samningur hafa verið gerður frá 1. júlí 2007.

    c. Þessi samningur hefur ekki haft nein áhrif á húsaleigukostnað ríkisins enda er framangreint húsnæði enn óbyggt og greiðsla húsaleigu þar af leiðandi ekki hafin.

    d. Umræddur samningur er gerður til 25 ára og er óuppsegjanlegur nema aðilar verði sammála um annað.

    e. Engin áform eru um uppsögn þessa samnings.