Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 178. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 220  —  178. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um breytta skipan gjaldmiðilsmála.

Flm.: Jón Magnússon, Guðjón A. Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna möguleika á því að tengja íslensku krónuna við aðra mynt, t.d. norsku krónuna í samráði og samstarfi við norsk stjórnvöld. Reynist þess ekki kostur verði kannaðir möguleikar á að taka upp evru sem gjaldmiðil, með eða án samráðs við Evrópusambandið.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hefur komið betur og betur í ljós að mikið óhagræði er fólgið í því að hafa sérstakan gjaldmiðil fyrir jafn fámenna þjóð og okkur Íslendinga. Tilraun sú sem gerð hefur verið með svonefnt fljótandi gengi hefur ekki gefið góða raun og er nú a.m.k. meðorsakavaldur í verstu fjárhagslegu hremmingum sem Ísland hefur lent í. Íslenska krónan hefur verið í frjálsu falli í tæpt ár. Íslenska krónan gengur ekki sem gjaldmiðill nema á Íslandi. Skráð markaðsgengi hennar þegar þessi greinargerð er samin er mun hærra en það verð sem fá má fyrir krónur á millibankamarkaði eða fyrir krónuna í takmörkuðum viðskiptum með hana erlendis.
    Hætt er við að erfitt verði fyrir Ísland án stuðnings annarra þjóða að ávinna sér traust eftir það efnahagshrun sem varð í byrjun október þegar þrír stærstu bankar landsins voru þjóðnýttir og gjaldmiðillinn fór í frjálst fall. Seðlabanki Íslands er trausti rúinn og hætt er við að hann muni verða það næstu árin. Margir hagfræðingar halda því fram að vandamálin á Íslandi séu tilkomin vegna tilrauna með fljótandi gengi.
    Ísland á nú þann vafasama kost að leggja enn af stað í vegferð með krónuna sem áhættugjaldmiðil og hafa hana fljótandi á markaði. Sú leið er óráðleg að mati flutningsmanna. Í fyrsta lagi liggur fyrir að hún kostar gríðarlega fjármuni þar sem Seðlabanki Íslands verður jafnan að liggja með mikinn gjaldeyrisvarasjóð. Í öðru lagi er hætt við að sveiflur á gengi krónunnar verði ekki minni á næstu árum en verið hafa undanfarin ár. Það leiðir til áframhaldandi óstöðugleika og öryggisleysis í efnahagslífinu. Í þriðja lagi er íslensku krónunni ekki treyst í langtímaviðskiptum og verður því að styðja sig við hækju verðtryggingar langtímalána. Í fjórða lagi nýtur íslenskt fjármálalíf og Seðlabankinn ekki lengur trausts annarra þjóða, svo sem nauðsynlegt er fyrir minnsta myntkerfi í heimi sem ætlar sér að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil á markaðsgengi. Slíkt traust tekur langan tíma að byggja upp eftir þau mistök sem hafa verið gerð við fjármálastjórn í landinu af hálfu ríkis, stofnana þess og ýmissa einkaaðila.
         Flutningsmenn hafa sett fram þá skoðun að æskilegt væri fyrir okkur að tengja íslensku myntina, með samþykki Norðmanna, við norsku krónuna eða þá tengja hana við fjölþjóðlega mynt, myntkörfu sem væri samsett úr gjaldmiðlum helstu viðskiptaþjóða Íslands. Þar yrði um fasta viðmiðun að ræða með ákveðnum vikmörkum.
    Einnig er mögulegt að taka upp evru einhliða en eins og Svartfjallaland hefur gert en það hefði þá ókosti að við mundum þurfa að sæta miklum athugasemdum Evrópusambandsins.
    Vandamálin sem við stöndum nú frammi fyrir eru að hluta til vegna tilrauna með fljótandi gengi og verðbólgumarkmið frá árinu 2001.
    Sú hugmynd að tengjast norsku krónunni byggist á því að Ísland og Noregur eru í Evrópska efnahagssvæðinu saman, eiga sameiginlegan menningararf og sameiginlega sögu að hluta til og slíkt mælir a.m.k. ekki á móti því að reynt sé að ná auknu samstarfi við Noreg. Næðust samningar væri hugsanlegt að þjóðirnar reyndu að koma upp sameiginlegri hagstjórn að hluta og seðlabankar landanna störfuðu saman eða að Seðlabanki Íslands yrði lagður niður.
    Til að leysa gengisflöktið, verðbólguna, verðtrygginguna og vaxtaokrið og koma á stöðugleika í efnahagsmálum á sem fljótvirkastan og skilvirkastan hátt er myntsamstarf við Noreg hentugast. Sé pólitískur vilji fyrir hendi hjá báðum þjóðum mætti koma þessu samstarfi á mjög fljótt. Vandamál og kostnaður vegna gjaldmiðilsins yrði þá hverfandi og ekki þyrfti að taka mikil og dýr erlend lán til að tryggja gjaldeyrisvarasjóð landsmanna.
    Flutningsmenn telja óvarlegt að gera nýja tilraun með að fleyta krónunni, svo sem ríkisstjórnin hefur kunngert. Ef til vill verður ekki hjá því komist einhverja hríð en þar verður þó að fara varlega og gæta þess að fjárstreymi úr landinu verði takmarkað svo sem kostur er meðan sú skipan helst. Ljóst er af fyrri reynslu að fleyting krónunnar er áhættusöm. Íslenskt atvinnulíf býr þá ekki við nauðsynlegan stöðugleika. Þá liggur líka fyrir að þessi leið er afar kostnaðarsöm fyrir þjóðina.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að íslenska þjóðin taki ekki versta kostinn, flotkrónu og áframhaldandi verðtryggingu, þegar völ er á öðrum mun betri.
    Flutningsmenn telja brýnt að Alþingi lýsi vilja sínum með samþykkt þingsályktunartillögu þessarar þannig að hægt verði að koma á annarri skipan gjaldmiðilsmála en verið hefur. Það er eitt brýnasta hagsmunamál fyrirtækjanna og fjölskyldanna í landinu.
    Lagt er til að í lok fyrstu umræðu verði málinu vísað til viðskiptanefndar.