Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 186. máls.

Þskj. 229  —  186. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um dýravernd, nr. 15/1994,
með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Hlutverk tilraunadýranefndar er að taka til afgreiðslu umsóknir um leyfi til dýratilrauna, leyfi til að halda og annast tilraunadýr og leyfi til að rækta tilraunadýr, svo og að sinna sértæku eftirliti með aðbúnaði og meðferð tilraunadýra. Heimilt er tilraunadýranefnd að binda leyfi þeim skilyrðum sem nauðsynleg má telja til að tryggja velferð tilraunadýra. Ef háttsemi leyfishafa brýtur gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim er tilraunadýranefnd heimilt að afturkalla leyfi. Tilraunadýranefnd er heimilt að innheimta gjald fyrir útgáfu leyfis svo og sérstakt eftirlit með aðbúnaði og meðferð tilraunadýra. Gjald þetta skal greiðast af hlutaðeigandi leyfishafa og/eða þeim sem eftirlitið beinist að og má ekki vera hærra en nemur eðlilegum kostnaði við eftirlit eða útgáfu leyfis.
     b.      Við 5. mgr., er verður 6. mgr., bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Kröfur um menntun og þjálfun þeirra sem nota dýr í tilraunaskyni skulu taka mið af menntun í vísindagrein sem tekur til þeirrar tilraunastarfsemi er um ræðir eða námskeiði tengdu dýratilraunum. Kröfur þessar skulu þó ekki ganga lengra en nauðsyn krefur til að tryggja velferð dýra sem notuð eru í vísinda- eða tilraunaskyni eða alin í þeim tilgangi.
     c.      6. mgr., er verður 7. mgr., orðast svo:
             Umhverfisráðherra setur í samráði við tilraunadýranefnd reglugerð þar sem meðal annars er kveðið nánar á um hlutverk og störf tilraunadýranefndar, menntun og þjálfun þeirra sem nota eða halda dýr í tilraunaskyni, meðferð tilraunadýra og eftirlit með dýratilraunum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á 16. gr. laga um dýravernd, nr. 15/ 1994, vegna tilraunadýranefndar. Ástæður þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru einkum þær að verkefni tilraunadýranefndar hafa breyst og vaxið talsvert á undanförnum árum, en lagaákvæði um starfsskilyrði nefndarinnar þykja hins vegar ekki lengur fullnægjandi og má meðal annars rekja það til þessarar þróunar. Meginforsendur þessa frumvarps eru því þær að skerpa á hlutverki tilraunadýranefndar jafnframt því að tryggja henni lagastoð til að standa undir kostnaði sem óhjákvæmilega hlýst af störfum hennar.
    Í a-lið 1. gr. er hlutverk tilraunadýranefndar gert skýrara, en mikilvægt þykir að sem minnstur vafi leiki þar á. Með sértæku eftirliti er til dæmis átt við þegar dýralæknir sem starfar á vegum nefndarinnar þarf að fara í eftirlitsferðir til að sannreyna að skilyrðum leyfis sé fullnægt. Áfram er gert ráð fyrir að almennt eftirlit, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 279/2002, um dýratilraunir, verði í höndum héraðsdýralækna, svo og að ákvæði þeirrar reglugerðar varðandi störf tilraunadýranefndar verði grein þessari til frekari fyllingar. Rétt þykir að kveða á um gjaldtökuheimild til að tilraunadýranefnd sé unnt að sinna hlutverki sínu á sem skilvirkastan hátt. Líkt og orðalagið ber með sér er eingöngu um þjónustugjaldsheimild að tefla.
    Í b-lið 1. gr. eru lögfest meginviðmið varðandi kröfur um menntun og þjálfun þeirra sem meðhöndla dýr í tilraunaskyni, vegna þeirra hagsmuna er varða tilraunadýrin sjálf en einnig vegna þeirra hagsmuna sem hlutaðeigandi leyfishafa tengjast í þessu sambandi. Þá er byggt á því að nánari ákvæði um þessi atriði komi fram í reglugerð, efni greinarinnar til fyllingar.
    Í c-lið 1. gr. er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um hlutverk og störf tilraunadýranefndar til frekari fyllingar ákvæðum greinarinnar, einnig menntun og þjálfun þeirra sem nota eða halda dýr í tilraunaskyni.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 15/1994,
um dýravernd, með síðari breytingum.

    Megintilgangur frumvarpsins er að skerpa á ákvæðum laganna er lúta að hlutverki og valdheimildum tilraunadýranefndar ásamt því að afla nefndinni skýrrar lagaheimildar til að innheimta nýtt gjald til að standa undir kostnaði við leyfisveitingar og eftirlit vegna dýratilrauna. Tilraunadýranefnd hefur starfsaðstöðu hjá Matvælastofnun og hefur stofnunin borið kostnað nefndarinnar að svo miklu leyti sem tekjur hafa ekki nægt fyrir gjöldum. Árið 2007 voru tekjurnar um 140 þús.kr.
    Leyfisveitingum til dýratilrauna hefur farið fjölgandi á síðustu árum og gera má ráð fyrir að að meðaltali séu veitt um 30 leyfi til dýratilrauna á ári. Miðað við að kostnaður við vinnslu hvers leyfis sé um 50 þús.kr og að eftirlit með leyfishöfum útheimti 40 klst. vinnu í hverjum mánuði má gera ráð fyrir að gjald fyrir veitingu leyfa og eftirlit gæti skilað um 5 m.kr. tekjum á ári. Tekjurnar munu falla í flokk annarra rekstrartekna samkvæmt skilgreiningu fjárreiðulaganna og færast á tekjuhlið ríkissjóðs.
    Fjármálaráðuneytið telur það ekki heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þessum hætti til reksturs ríkisaðila. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna að vera tekin í fjárlögum hverju sinni.
    Tilraunadýranefnd hefur nú þegar með höndum þau verkefni sem sótt er um heimild til gjaldtöku fyrir. Frumvarpið hefur þannig ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs en gæti aflað nefndinni 5 m.kr. tekna á ári miðað við áðurgreindar forsendur. Er því gert ráð fyrir að beint framlag ríkissjóðs til Matvælastofnunar lækki í sama mæli.